Fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna funduðu með borgarstjórn í dag og báru upp átta tillögur sem snúa að menntun, samgöngum, vinnumöguleikum og öðrum hagsmunum barna og ungmenna. Þrjár þeirra voru samþykktar einróma og öðrum vísað til nánari úrvinnslu.
Meðal þess sem fulltrúar Reykjavíkurráðsins lögðu til var að innleiða skuli jafnréttis-, kynja og fordómafræðslu á miðstigi, s.s. í lífsleiknitímum. Einnig að bæta kynfræðslu og útfæra kennslu í fjármálalæsi og réttindum á vinnumarkaði í grunnskólunum. Þá kom fram tillaga frá fulltrúa ungmennaráðs Breiðholts um að fjölgað verði strætóferðum frá Kjalarnesi til að auðvelda nemendum íþróttaiðkun og fulltrúi ungmennaráðs Grafarvogs lagði til að strætóferðum í því hverfi yrði breytt þannig að leið 31 gengi fram hjá Kelduskóla oftar og lengur.
Fulltrúi ungmennaráðs Árbæjar og Grafarholts óskaði í sinni tillögu eftir því að athugað yrði hvort Reykjavíkurborg gæti á ný boðið nemendum í 8. bekk upp á sumarvinnu og önnur tillaga fól í sér að boðið yrði upp á fjölbreyttari sumarstörf fyrir unglinga á aldrinum 13-18 ára. Sara Þöll frá ungmennaráði Breiðholts lagði að síðustu til að frístundamiðstöðvar réðu til starfa ungliða á aldrinum 16-20 ára.
Fjörlegar umræður spunnust meðal ungmenna og borgarfulltrúa eftir flutning tillagna. Þrjár þeirra voru samþykktar einríoma en öðrum vísað tilnánari vinnslu.