þriðjudagur, 24. apríl 2012

Ódýrari getnaðarvarnir, skyndihjálparkennsla í grunnskólum, átak í lífsleiknikennslu og herferð gegn veggjakroti var meðal þess sem Reykjavíkurráð ungmenna lagði til á fundi með borgarstjórn í Ráðhúsi Reykjavíkur 24. apríl. Þá var óskað eftir bættum samgöngum í Grafarvogi, endurbótum á Hlemmi og ungmennaráð ungra innflytjenda óskaði eftir aðgerðum til að auðvelda  unglingum af erlendum uppruna að fá vinnu. Fulltrúar Reykjavíkurráðs, sem jafnframt sitja í átta ungmennaráðum borgarinnar, mæltu fyrir níu tillögum og sköpuðust líflegar umræður milli þeirra og borgarfulltrúa á fundinum. 

 • Í tillögu frá Ungmennaráði Kringluhverfis var farið fram á endurbætur á Hlemmi sem m.a. gæti veitt ungu fólki atvinnu. „Það þarf að gera eitthvað til að lífga upp á Hlemm og gera hann að sambærilegu kennileiti í borginni og Perluna, s.s. með því að gefa veggjalistafólki borgarinnar lausan tauminn þar. Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamálaráðs og Jón Gnarr borgarstjóri fögnuðu þessari tillögu og sögðu hana falla vel að hugmyndum um líflegan og aðlaðandi stað í borginni. Tillögunni var vísað til skipulagsráðs.
   
 • Hannah Bryndís Proppé Bailey frá Ungmennaráði Miðborgar og Hlíða lagði til að gert yrði átak í lífsleikninámi og það bæði lengt og hugsað upp á nýtt. Innleiddar yrðu ungmennakennslustundir þar sem unglingar fengju að tjá sig um mikilvæg samfélagsmálefni eins og einelti, kynjamisrétti, fordóma, umhverfisvernd og fleira. Tillögunni var vísað til skóla- og frístundaráðs. 
   
 • Emilía Madelene Heenen í Ungmennaráði Vesturbæjar mælti fyrir tillögu um að skyndihjálp yrði kennd í öllum skólum borgarinnar að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári frá 5. bekk. „Það er borgaraleg skylda hvers og eins að reyna að bjarga mannslífi“, segir í tillögunni, „en það vantar kennslu í skyndihjálp og hún þarf að byrja strax í 5. bekk“. Tillögunni var vísað til skóla- og frístundaráðs.
   
 • Sigurður Einar Jónsson í Ungmennaráði Breiðholts mælti fyrir tillögu um að borgarstjórn legði til fjármagn svo upplýsa mætti Breiðholtsbúa um muninn á veggjalist og svokölluðu „taggi“. Taggið væri hreinn og klár sóðaskapur sem þyrfti að gera átak í að uppræta, en jafnframt mætti setja upp aðstöðu fyrir unga veggjalistamenn og virkja þá til að lífga upp á borgina. Tillögunni var vísað til menningar- og ferðamálaráðs 
   
 • Við viljum lægra verð á getnaðarvörnum,  þær eru allt of dýrar og á ekki að flokka sem lúxusvöru, sagði Marín Eydal Sigurðardóttir frá Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis þegar hún mælti fyrir tillögu um ódýrari getnaðarvarnir fyrir ungt fólk. „Eins og staðan er nú taka ungmenni frekar áhættu á að fá kynsjúkdóm en að borga fyrir vöruna,“ sagði frummælandi. Í framhaldinu samþykkti borgarstjórn bókun þar sem skorað er á stjórnvöld að fella niður virðisaukaskatt af smokkum. 

Fundir borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna hafa verið haldnir árlega í rúman áratug. Markmiðið er að gera fólki undir 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við borgaryfirvöld og veita þeim þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Jón Gnarr borgarstjóri sagði á fundinum að hagsmunir ungs fólks og borgaryfirvalda færu saman. „Því fleiri sem koma saman til að leysa vandamál, því betra. Við viljum gera Reykjavík að betri borg og ykkar góðu hugmyndir hjálpa okkur við að ná því markmiði.“

Útvarpað var beint frá fundinum.