þriðjudagur, 18. janúar 2022

Fimmtungur grunnskólanema og þriðjungur leikskólabarna ekki í skóla og meira en 12% starfsfólks í skóla- og frístundastarfinu fjarverandi. 

  • Nemendur í Austurbæjarskóla með grímur síðasta vetur

717 starfsmenn í leikskólum borgarinnar, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og skólahljómsveitum voru frá vinnu mánudaginn 17. janúar vegna einangrunar eða sóttkvíar af völdum Covid-19. Þetta jafngildir 12,2% starfsmanna og er hlutfallið tveimur prósentustigum hærra en það var mánudaginn 10. janúar þegar það var 10,2% og 5% prósentustigum hærra en 3. janúar en þá var hlutfallið 7,3%.

 Leikskóli

  • Í leikskólum voru 406 starfsmenn í einangrun eða sóttkví sem jafngildir 17,1% af starfsmanna. Það er hækkun úr 14,3% sem var hlutfallið fyrir viku.
  • Þá voru í gær tæplega 2.000 börn skráð fjarverandi ýmist vegna veikinda, sóttkvíar eða annarra forfalla í leikskólum borgarinnar sem er 31% leikskólabarna.
  • Í um 31% allra leikskóla í borginni var a.m.k. einni deild lokað. Tveir leikskólar voru alveg lokaðir þennan dag.

Grunnskóli

  • Í grunnskólum voru 252 starfsmenn fjarverandi í beinum tengslum við Covid-19. Það gerir 8,6% starfsmanna og er hækkun úr 7,4% fyrir viku.
  • Rúmlega 3.300 börn voru fjarverandi í grunnskólum borgarinnar ýmist vegna veikinda, sóttkvíar eða annarra forfalla eða 21% nemenda.
  • Einn skóli var alveg lokaður vegna einangrunar og sóttkvía starfsfólks.

 Frístundastarf

  • Í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum voru 30 starfsmenn í einangrun eða sóttkví eða 8,8% starfsmanna og er það aukning úr 7,5% fyrir viku.
  • Rúmlega 450 börn voru fjarverandi ýmist vegna veikinda, sóttkvíar eða annarra forfalla í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum sem gerir 27% barna.
  • Í félagsmiðstöðvum voru 27 starfsmenn í einangrun eða sóttkví sem jafngildir 16,1% starfsmanna og er það fækkun úr 9,5% fyrir viku.