fimmtudagur, 20. janúar 2022

Borgarráð samþykkti í dag að fjármála- og áhættustýringarsviði yrði falið að meta kosti þess og galla að selja Malbikunarstöðina Höfða hf. og að leitað yrði til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins. Þá var staðfest samkomulag Reykjavíkurborgar við malbikunarstöðina um brottflutning hennar frá Sævarhöfða 6-10 í Reykjavík.

  • Samið hefur verið um brottflutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. frá Sævarhöfða.

Malbikunarstöðin Höfði hf. hefur haft afnot af lóðinni við Sævarhöfða 6-10 á grundvelli óskráðs ótímabundins afnotasamnings við Reykjavíkurborg. Borgin og malbikunarstöðin hafa nú gert með sér samkomulag um brottflutning malbikunarstöðvarinnar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýju 20 þúsund manna hverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog, þar sem gert er ráð fyrir blandaðri byggð með íbúðum og léttri þjónustustarfsemi.

Hefur Malbikunarstöðin Höfði hf. keypt lóð á iðnaðarsvæði við Álfhellu í Hafnarfirði fyrir starfsemi sína og er flutningur þegar hafinn. Samkvæmt meirihlutasáttmála núverandi borgarstjórnarmeirihluta var lögð áhersla á að leggja Malbikunarstöðinni Höfða fyrst til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið.