sunnudagur, 2. janúar 2022

Svifryk fór ekki yfir sólarhringsheilsuverndarmörk á nýársdag 2022 en fyrsti dagur ársins hefur oft  farið er yfir mörkin vegna flugeldanotkunar. Svifryk fór 10 daga yfir heilsuverndarmörk á árinu 2021. Mikilvægt er að skila flugeldaleifum á endurvinnslustöðvar Sorpu sem opna kl. 12. í dag. 

  • Áramót 21-22
  • Áramót 21-22
  • Áramót 21-22

Fyrstu klukkustundir nýársdags gjarnan af svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu. Veður hefur mikil áhrif á hve hár styrkurinn verður en nokkur vindur var á höfuðborgarsvæðinu á nýársnótt og því féll styrkur svifryks hratt. Í ár var hæsti svifrykstoppurinn klukkan eitt við Vesturbæjarlaug, 118,5 míkrógrömm á rúmmetra. Við Bústaðarveg var síðasta klukkustund ársins 2021 með hæstu svifryksgildin, 116,4 míkrógrömm á rúmmetra. 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu biðlaði til fólks að draga úr flugeldanotkun vegna sinuelda og kynni það að hafa dregið úr því magni sem skotið var upp. Svifryk fór ekki yfir sólarhringsheilsuverndarmörk á nýársdag eins og svo oft áður vegna flugeldanotkunar.  Svifryk fór 10 daga yfir heilsuverndarmörk á árinu 2021, skv. óyfirförnum gögnum.

Flugeldaryk er hættulegt heilsunni

Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin en heilsuverndarmörk á sólarhring miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra. Í reglugerð eru aðeins gefin upp sólarhringsgildi fyrir PM10 en sumar stöðvar mæla einnig fínna svifryk, PM2,5 og PM1. Flugeldaryk einkennist af háu hlutfalli fínna svifryks en það er sérlega hættulegt heilsu manna þar sem það kemst dýpra niður í lungun og inn í blóðrásina.

Niðurstöður úr mælingum

Hér að neðan eru tekin saman gögn um sólarhringsmeðaltal svifryks, styrk svifryks fyrstu klukkustunda ársins í öllum mælistöðvum og styrk svifryks fyrstu klukkustund ársins frá 2010 í mælistöðinni við Grensásveg.

Tafla 1 sýnir sólarhringsmeðaltal svifryks PM10 1. janúar 2022 miðað við tölur á loftgæði.is. Einnig er gefið upp sólarhringsmeðaltal PM2,5 fyrir þær stöðvar sem það mæla.

Mælistöð. Sólarhringur

PM 10 míkrógr. á rúmmetra. PM2,5 míkrógr á rúmmetra

Grensás

12,4

-

Vesturbæjarlaug

23,7

9,4

Bústaðarvegur/Háaleitisbraut

22

5,4

 

Tafla 2 – 4. sýna svifryks fyrstu þrjár klukkustundir ársins fyrir PM10, PM 2,5 og PM 1. 
Tafla 2. PM10, míkrógrömm á rúmmetra

Mælistöð Kl. 00-1 Kl. 1-2 Kl. 2-3
Grensás 49 19 12
Vesturbæjarlaug 118,5 16,4 8,4
Bústaðarvegur/Háaleitisbraut 32,4 14,4 9,4

Tafla 3. PM 2,5, míkrógrömm á rúmmetra:

Mælistöð kl. 00-1 kl. 1-2 kl. 2-4
Vesturbæjarlaug 100,4 10,8 4,0
Bústaðavegur7Háaleitisbraut 23,8 5,4 3,0

Tafla 4. PM1, míkrógrömm á rúmmetra

Mælistöð kl. 00-1 kl. 1-2 kl. 2-3
Vesturbæjarlaug 97,1 9,2 2,4
Bústaðavegeur/Háaleitisbraut 22,0 3,2 1,4

Í töflu 5 hér að neðan má sjá styrk svifryks við Grensás fyrstu klst. ársins frá árinu 2010

Tafla 5: Styrkur svifryks fyrstu klst. ársins við Grensás

Ár 2022 2021 2020 2019 2018 2017 2016 2015 2014 2013 2012 2011 2010
Styrkur

49

653

317

985

1.457

1.451

363

215

245

475

1.014

284

1.575

Gleðilegt nýtt hreint ár

Eftir áramótin má oft finna flugeldarusl víða um borg. Mikilvægt er að koma þessu rusli á sinn stað áður en það brotnar niður og verður að drullu. Þó svo að flugeldar séu úr pappa, þá er notaðu leir í botninn sem gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu. Flugeldarusl fer í almennt sorp, nema ósprungnir flugeldar sem fara í spilliefnagáminn á endurvinnslustöðvum SORPU.

Hreinsun borgarlandsins er kostnaðarsöm og eru borgarbúar því eindregið hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja og safna saman því mikla magni af flugeldaleifum sem fellur til eftir sprengingar áramótanna. Reykjavíkurborg vill minna borgarbúa og gesti á að taka flugeldaleifarnar með sér, ganga frá þeim daginn eftir og fara með til förgunar 2. janúar þegar endurvinnslustöðvar  SORPU opna.

Mælst er til þess að fólk skili því sem safnast á endurvinnslustöðvar SORPU bs. en setji ekki í tunnur við heimili. Ónotuðum skoteldum ber jafnframt að skila sem spilliefni á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Meginatriði varðandi meðferð flugelda er að fara gætilega, passa börnin, nota hanska og hlífðargleraugu og njóta stundarinnar á öruggan hátt.

Tenglar

Endurvinnslustöðvar Sorpu
Flugeldaleifar

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á loftgæði.is 

Tengill www.loftgaedi.is