Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar Leikfélags Reykjavíkur undirrituðu í morgun viðauka við gildandi samning Reykjavíkurborgar um rekstur Borgarleikhússins. Viðaukinn gildir frá janúar 2022 til 31. desember 2024 og mun taka breytingum í skrefum til næstu þriggja ára.
Markmið gildandi rekstrarsamnings er að í Reykjavík sé rekið metnaðarfullt leikhús sem höfðar til borgarbúa og geri þeim kleift að njóta fjölbreyttra sviðslista.
Í ljósi efnahagslegrar stöðu og afleiðinga í kjölfar kórónuveirufaraldursins, innanlands og á heimsvísu, hefur Reykjavíkurborg gert kröfu um hagræðingu hjá stofnunum borgarinnar á meðan komist verður í gegnum þær fjárhagslegu þrengingar sem hafa reynst þungar fyrir rekstur borgarinnar.
Í forsendum fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2022 er gerð er krafa um allt að 1% hagræðingu launakostnaðar eftir að tekið hefur verið tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana og engar verðbætur eru á annan rekstrarkostnað utan samningsbundinna skuldbindinga. Breytingar í viðauka þessum tekur mið af því að styrktarsamningar við þriðja aðila taki sambærilegri hagræðingu og gerð er til stofnana borgarinnar.
Samkvæmt viðaukanum verða engar breytingar gerðar á árinu 2022 frá núgildandi samningi. Að þeim tíma liðnum, eða frá janúar 2023 verður 50% af rekstrarframlaginu áfram bundið við launavísitölu en engar verðbætur munu reiknast á það sem eftir stendur af rekstrarframlaginu, eða 50%.