Hvenær eru frístundaheimilin opin?

Frístundaheimilin eru opin eftir að skóladegi lýkur til kl. 17:00 alla daga. Á foreldradögum, starfsdögum og í jóla- og páskafríum skólanna eru frístundaheimilin opin frá kl. 8:00 nema annað sé tekið fram. Óskað er sérstaklega eftir skráningu fyrir þá daga á hverjum stað fyrir sig. Frístundaheimilin eru lokuð í vetrarfríum grunnskólanna.

Á sumrin eru frístundaheimilin opin allan daginn, sjá nánar um sumarstarfið á www.fristund.is

Hverjir eiga rétt á þjónustunni?

Þjónustan er fyrir 6 - 9 ára börn sem eru skráð í grunnskóla Reykjavíkurborgar og börn í 1. - 10. bekk í Klettaskóla.

Börn sem eru að hefja skólagöngu hafa forgang um dvöl á frístundaheimilum. Enn fremur njóta börn sem búa við sérstakar aðstæður forgangs, samkvæmt starfsreglum SFS um forgang á frístundaheimili. Sérstakar aðstæður eru metnar komi tilvísun frá þjónustumiðstöð, sérkennara eða námsráðgjafa.

Hvað kostar að hafa barn á frístundaheimili?

Gjaldskrá fyrir frístundaheimili, mánaðarverð og verð á síðdegishressingu.

Systkinaafsláttur

Veittur er afsláttur vegna systkina af dvalargjaldi í vetrarstarfi Skilyrði fyrir veitingu afsláttar er að systkinin hafi sama lögheimili og fjölskyldunúmer hjá þjóðskrá. Ekki er veittur afsláttur af fæðisgjaldi eða löngum dögum, sjá nánar í gr. 6.b í reglum um starfsemi frístundaheimila og reglum um þjónustu félagsmiðstöðva.

Lengd viðvera

Ef þjónusta er nýtt kl. 8:00 - 13:30 á foreldradögum og starfsdögum skóla eða í jóla- og páskafríum þarf að greiða fyrir það 2.125 kr. á dag. Þá daga geta börnin engu að síður dvalið á frístundaheimilunum frá kl. 13:30 - 17:00 án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Óskað er eftir skráningu á þessa daga á hverjum stað fyrir sig. Ekki er veittur systkinaafsláttur af viðbótarvistun á þessum dögum. 
Sótt er um lengda viðveru á umsóknarvefnum Vala frístund

Hvernig er sótt um þjónustuna?

Skráning fyrir komandi skólaár hefst í febrúar/mars. Sótt er um á umsóknarvefnum Vala frístund.  Staðfesting á innritun berst til foreldra í ágúst. Allar breytingar á skráningum skal tilkynna til forstöðumanns frístundaheimilisins.

Ef foreldrar geta ekki nýtt sér rafræna innritun geta þeir farið á frístundamiðstöðvar þjónustumiðstöðva hverfanna og fengið aðstoð við skráningu. Ekki er hægt að skrá börn á frístundaheimili símleiðis. 

Umsókn gildir eitt skólaár í senn (ágúst-júní). Ef þjónustu er sagt upp, eða óskað er eftir breytingum, skal það gert fyrir 15. hvers mánaðar og tekur uppsögnin gildi um næstu mánaðarmót. Hægt er að segja upp þjónustunni á Rafrænni Reykjavík og með skriflegri tilkynningu til forstöðumanns frístundaheimilisins.

Hvað er gert á frístundaheimilum?

Frístundaheimilin hafa fjölbreytta dagskrá sem einkennist jafnt af skipulögðum sem og frjálsum leik. Leitast er við að bjóða upp á skemmtileg viðfangsefni sem veita börnunum útrás fyrir leik- og sköpunarþörf þeirra. Innra starf frístundaheimilanna, svo sem dagskrá, viðfangsefni og samstarf við utanaðkomandi aðila fer eftir aðstæðum á hverjum starfsstað. Frístundaheimilin taka víða þátt í hverfasamstarfi, svo sem við íþróttafélög, til að auka á fjölbreytni í starfseminni.

Gott að hafa í huga!

Umsókn gildir eitt skólaár í senn (ágúst - júní). Ef þjónustu er sagt upp, eða ef óskað er eftir breytingum, skal það gert fyrir 15. hvers mánaðar og tekur uppsögnin gildi um næstu mánaðarmót. Hægt er að segja upp þjónustunni á Völu frístund eða með skriflegri tilkynningu til forstöðumanns frístundaheimilisins.

Öryggi á frístundaheimilum

Starfsmenn frístundaheimilanna fá reglulega fræðslu um öryggismál, slys og forvarnir. Frístundaheimilin vinna eftir öryggisverkferlum sem gilda ætíð þegar börnin eru í þeirra umsjá og sem dæmi má nefna eru eingöngu 13 - 16 börn skráð á hvern starfsmann.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Allar nánari upplýsingar eru veittar í viðkomandi frístundamiðstöð eða hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar í síma 4 11 11 11. Starfsfólk frístundamiðstöðva leitast við að sinna hlutverki sínu af kostgæfni en ef þú hefur fyrirspurnir eða ábendingar um eitthvað sem betur má fara er hægt að senda tölvupóst á netfangið sfs@reykjavik.is.