B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 11. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Sigríður Arndís Jóhannesdóttir og Þorkell Heiðarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:


1.    Lagður fram til síðari umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 (A- og B-hluti), ódags., ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. apríl 2021, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 15. apríl 2021, greinargerð B-hluta fyrirtækja 29. apríl 2021, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar, ódags., minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna álits reikningsskila- og upplýsinganefndar nr. 1/2020, dags. 13. apríl 2021, yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2021, ábyrgða- og skuldbindingayfirlit Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2021, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2020, dags. 29. apríl 2021, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2020, dags. 27. apríl 2021, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 2. maí 2021. R20110101

-    Kl. 14.30 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Þorkell Heiðarsson víkur af fundi. 
-    Kl. 15.00 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og tekur sæti með fjarfundarbúnaði. 
-    Kl. 15.14 víkur Skúli Helgason af fundinum og Aron Leví Beck tekur þar sæti. 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 er samþykktur. 
Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Frá upphafi kórónuveirufaraldursins var ljóst að Reykjavíkurborg ætlaði ekki að sitja hjá og láta efnahagslegar byrðar faraldursins lenda á íbúum og fyrirtækjum. Þess í stað var ákveðið að fylgja leiðsögn helstu hagfræðinga og erlendra stofnana og fara ekki í mikinn niðurskurð og uppsagnir starfsmanna heldur sækja fram og vaxa út úr vandanum. Fyrir ári síðan stóðu sjálfstæðismenn með meirihlutanum í borgarráði þar sem 13 aðgerðir voru kynntar til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum COVID. Alls voru samþykktar aðgerðir í borgarráði á árinu 2020 fyrir 2,3 milljarða sem sérstaklega voru eyrnamerktar viðbrögðum við COVID. Faraldurinn leiddi af sér hraða kólnun í hagkerfinu á fyrri hluta ársins. Því skiluðu áætlaðar tekjur sér ekki, hvort sem litið er til útsvarstekna eða annarra tekna. COVID hafði einnig veruleg áhrif á fyrirtæki Reykjavíkurborgar. Veiking krónunnar hafði umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var mikill tekjusamdráttur hjá Faxaflóahöfnum, Strætó og SORPU bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Græna planið er viðspyrnuáætlun Reykjavíkur og gerir ráð fyrir umfangsmiklum grænum fjárfestingum og stafrænni umbreytingu sem hluta af leið borgarinnar út úr efnahagskreppunni. Áætlanir um bólusetningar gefa tilefni til bjartsýni um að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins á þessu ári.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjóri heldur því fram að hröð kólnun í hagkerfinu á fyrri hluta ársins hafi leitt til tekjufalls, bæði í skatttekjum og öðrum tekjum. Vakin er athygli á því að Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda, enda hafa allir helstu tekjuliðir hennar hækkað um því sem nemur heilum 6 milljörðum á síðasta ári þrátt fyrir dýpstu kreppu lýðveldissögunnar. Vandi borgarinnar er því fyrst og fremst útgjaldavandi en því miður sér ekki fyrir endann á honum í áætlunum borgarstjóra. Enn fremur er vakin athygli á þeirri staðreynda að af fjórum stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er aðeins eitt þeirra rekið með tapi, Reykjavík. Heildarskuldir Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið hærri en nú eru þær komnar í 386 milljarða króna en voru á síðasta rekstrarári 345 milljarðar. Skuldir samstæðu borgarinnar jukust þannig um 41 milljarð króna á síðasta ári, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum einasta mánuði. Þetta samsvarar 112 milljónum á degi hverjum. Alla daga ársins. Í upphafi kjörtímabilsins var uppgreiðslutími skulda 6 ár og hefur hann nú nær tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir stórauknar tekjur. Þetta er bara eitt dæmi um það hversu slæm og alvarleg staðan er hjá Reykjavíkurborg en ársreikningurinn sýnir glöggt að núverandi meirihlutasamstarf fjögurra flokka kostar sitt. Enn er bætt í skuldsetninguna og engin tilraun gerð til að ná jafnvægi í rekstri.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Á krepputímum er mikilvægt að standa vörð um grunnþjónustuna og tryggja að fjármunum sé varið í að þjóna hagsmunum samfélagsins og þeirra sem standa höllum fæti. Sífellt þarf að greina rekstur sveitarfélagsins út frá stéttavinkli og öðrum félagslegum þáttum og tryggja að enginn verði skilinn eftir. Reiptog á milli ríkis og sveitarfélaga má ekki leiða til þess að réttindi einstaklinga séu ekki uppfyllt. Það er nauðsynlegt að réttindum borgarbúa sé mætt, sé t.a.m. litið til NPA þjónustu, húsnæðis og framfærsluöryggis. Þar þarf að skoða hvaða aðgerðir í stefnumótun borgarinnar eru mögulega að ýta undir álag, langtímaveikindi og óöryggi. Mikilvægt er að tryggja að borgin sé svo sannarlega fyrir okkur öll. Þar þarf að skoða stéttaskiptingu, forgangsröðun og tekjuöflun. Fulltrúi sósíalista telur það forgangsatriði að fjármagnseigendur verði ekki undanskildir greiðslu útsvars til sveitarfélagsins. Nauðsynlegt er að hækka tekjur þeirra sem hafa lægstu tekjurnar, má þar nefna fjárhagsaðstoð og tryggja að ekki verði rukkað fyrir þá þjónustu sem börn njóta hjá borginni. Þar má nefna mikilvægi þess að grunnskólar séu gjaldfrjálsir þar sem öll börn séu við sama borð. Tekjuöflun á að koma frá þeim sem eru aflögufærir en ekki að byggja á gjaldtöku á máltíðum til barna svo dæmi sé nefnt. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er rangt sem borgarstjóri heldur fram að tekjufall hafi orðið á árinu 2020. Ársreikningar eru byggðir á rauntölum en ekki áætlunum eða skýjaborgum. Útsvar hækkaði um 3% á milli ára, fasteignaskattar hækkuðu um 4%, sértekjur sviða hækkuðu um 1% og framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga hækkuðu um 7% á milli ára. Vandi Reykjavíkur er skulda- og eyðsluvandi en ekki tekjuvandi. Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar jukust um 41 milljarð milli áranna 2019 og 2020 eða úr 345 milljörðum í 386 milljarða. Lántökudrifinn hallarekstur borgarinnar er staðreynd en lítið bólar á fjárfestingum. Samkvæmt lántökuáætlun fyrir árið 2021 er áætlað að samstæðan auki skuldir sínar um 52 milljarða og á borgarsjóður 34 milljarða af þeirri lántökuupphæð. Lánakjörum borgarinnar hrakar. Snemma árs 2020 fór borgarstjóri með betlistaf til ríkisins og ætlaðist til að ríkið kæmi með myndarlegar fjárhæðir inn í rekstur borgarinnar. Sú ferð bar ekki árangur. Þá greip borgarstjóri til þess ráðs að hefja fjárhagslegar deilur við jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sú ferð bar ekki árangur. Þá var farið í nýjar lántökur. Borgarfulltrúi Miðflokksins skrifar undir ársreikninginn með fyrirvara og situr hjá við afgreiðslu hans vegna skoðanaágreinings um uppgjörsaðferðir samstæðureiknings Reykjavíkurborgar vegna Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðslu ársreiknings Reykjavíkurborgar 2020. Forgangsröðun borgarinnar við útdeilingu fjármagns er kolröng. Fólkið sjálft, grunn- og önnur þjónusta er vanrækt eins og sjá má í biðlistatölum og fjölgun tilvísun til skólaþjónustu og barnaverndar á meðan farið er offari í eyðslu fjár í stafræna umbreytingu langt umfram það sem þyrfti til að fá fullnægjandi snjalllausnir í borginni. Milljónir eru settar í tilraunastarfsemi á meðan biðlistar eftir sálfræðiþjónustu barna er í sögulegu hámarki. Mörg dæmi er um bruðl og sóun og að ekki sé verið að fara vel með fjármagn borgarbúa. Nægt hefði að setja helmingi minna fjármagn, eða 5 milljarða í stað 10 í stafræna umbreyting og og hinn helminginn hefði mátt nota til að mæta þörfum barna, öryrkja og eldri borgara sem og hjálpa þeim sem glíma við fátækt sem hefur farið vaxandi í COVID. Ekki er séð að þessi meirihluti hafi undirtökin í rekstri borgarinnar og fyrirtækjum hennar. Ef hallarekstri er mætt með lántökum jafnframt því sem á að taka lán til að ráðast í framkvæmdir þá er ekki von á góðu. 

Fundi slitið kl. 18:21

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Pawel Bartoszek

Hjálmar Sveinsson    Örn Þórðarson