B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2022, þriðjudaginn 1. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Pawel Bartoszek, Ragna Sigurðardóttir, Rannveig Ernudóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Alexandra Briem, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um málefni Úkraínu. MSS22030017

-    Kl. 14:09 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 
-    Kl. 14:55 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 
-    Kl. 15:15 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi ályktunartillögu: 

Borgarstjórn Reykjavíkur fordæmir harðlega innrás Sambandslýðveldisins Rússlands í Úkraínu og lýsir samstöðu og stuðningi við fólkið í Úkraínu. Borgarstjórn skorar á ríkisstjórn Rússlands að draga hersveitir sínar til baka, lýsa yfir vopnahléi og koma á friði þegar í stað. Innrásin í Úkraínu er ólögleg og ómannúðleg – og með henni er friður í Evrópu rofinn. Borgarstjórn lýsir samstöðu með Kyiv, Kharkiv, Kherson og öðrum úkraínskum borgum og landsvæðum sem nú sæta árásum. Jafnframt lýsir borgarstjórn samstöðu með íbúum sem neyðast til að flýja heimili sín eða berjast varnarbaráttu við ofurefli. Innrás sem þessi gengur gegn öllum gildum Borgarstjórnar Reykjavíkur og hvetjum við því ríkisstjórn Íslands og stjórnir vinaríkja til að taka á móti flóttafólki og veita allan þann stuðning sem þarf til að hjálpa úkraínsku þjóðinni að komast í gegnum þessar hörmungar. Reykjavíkurborg mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum og lýsir sig tilbúna til að taka á móti fólki á flótta.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fordæma innrás Rússlands í Úkraínu – enda er hún á engan hátt réttlætanleg. Sjálfstæðisflokkurinn telur að Reykjavíkurborg þurfi að gera sitt til að taka vel á móti fólki á flótta frá Úkraínu, en Sameinuðu þjóðirnar telja að nú sé yfir hálf milljón Úkraínumanna á flótta undan stríðsátökum í landinu. Þá munu fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggja til á næsta fundi hennar að kannaðir verði til hlítar þeir möguleikar að nýta gufuafl til frekari raforkuframleiðslu, enda er öllum ljóst, eftir atburði síðustu daga, að nauðsynlegt er að tryggja orkuöryggi Íslands. Innflutningur á eldsneyti, í formi olíu og bensíns, er feikilega mikill og ljóst að nú er enn brýnna en áður að flýta orkuskiptum á Íslandi eins og kostur er. Það er skoðun Sjálfstæðisflokksins í Borgarstjórn Reykjavíkur að borginni beri að bregðast við og flýta orkuskiptum eins og unnt er.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista fordæmir harðlega árás Rússlandsstjórnar inn í Úkraínu. Friður verður að komast á. Saman verður alþjóðasamfélagið að vinna að því að tryggja frið og vinna gegn hervæðingu og stríði. Borgir og þjóðir verða að standa með almenningi í Úkraínu og sýna þeim samstöðu t.a.m. með því að taka á móti fólki sem flýr hörmulegar aðstæður. Við þurfum að vera vakandi gagnvart því að neikvæð, fordómafull orðræða fái ekki að þrífast í garð almennings sem hér á í hlut sem er með rússneskan og úkraínskan uppruna. Fordómar og útlendingaandúð mega ekki fá að grassera og við þurfum að vera tilbúin að mæta því ef slíkt kemur upp á, t.d. í skólasamfélaginu hér.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Engum hefði órað fyrir því að stríð myndi brjótast út í vestrænum heimi árið 2022. Lýst er yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Úkraínu. Skorað er á ríkisstjórn Íslands að koma því áleiðis við alþjóðasamfélagið að leiða fram vopnahlé þegar í stað og semja í framhaldinu um frið á átakasvæðinu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ömurlegt til þess að hugsa að það skuli vera hafið stríð í Evrópu. Innrás Rússa í Úkraínu er brot á alþjóðalögum. Vesturlönd eru sem betur fer að beita refsiaðgerðum og sýna Úkraínu stuðning. Þar hefur Ísland ekki verið eftirbátur annarra. Öryggi fólks verður að tryggja eins og nokkur kostur er. Þeir sem líða og fara verst út úr þessu er fólkið – eldra fólk, minnihlutahópar og börnin sem mörg hver bíða þess aldrei bætur að hafa upplifað reynslu af þessu tagi og öll munu þau ekki lifa þetta af. Samúð mín og samkennd er hjá almenningi sem átti sér einskis ills von. Stjórnvöld á Íslandi ætla að standa sína plikt og taka á mót fólki frá Úkraínu. Við verðum að senda skýr skilaboð til Rússlands. Við fordæmum þessa innrás með afdráttarlausum hætti og vonum að refsiaðgerðir bíti. Við eigum að taka þátt í aðgerðum með Evrópusambandinu, með vestrænum lýðræðisríkjum af fullum þunga. Það verður að vera hægt að leysa þetta mál með öðrum hætti en stríðsrekstri, annað er óhugsandi.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela skóla- og frístundasviði að skoða útfærslur tilraunaverkefnis til tveggja ára sem stuðlar að auknum sveigjanleika milli skólastiga við upphaf og lok grunnskólans. Þannig yrði nemendum gefinn kostur á því vali að hefja grunnskólanám fyrr og ljúka því fyrr. Nemendum stæði til boða val um að hefja grunnskólanám í grunnskólum borgarinnar við fimm ára aldur og/eða að ljúka grunnskólanámi ári fyrr. Slíkt fyrirkomulag myndi auka tengsl milli skólastiga, samfellu í námi og styðja betur við einstaklingsmiðað nám. Skóla- og frístundasviði verði falið að móta slíkar tillögur að sveigjanlegum skólaskilum, en þær miði fyrst og fremst að því að auka valfrelsi nemenda og forráðamanna og samfellu milli skólastiga. Sviðið leiti sér ráðgjafar eftir því sem þurfa þykir við gerð tillagnanna. Stefnt verði að því að útfæra tillögurnar á næsta skólaári og því mikilvægt að undirbúningur hefjist sem fyrst. Gert verði ráð fyrir að tilraunaverkefnið verði til tveggja ára, þar sem einn skóli í hverjum borgarhluta byði upp á þetta val. Verkefnið yrði síðan metið að þeim tíma liðnum, af kennslufræðingum og skólasamfélaginu. MSS22030018

Greinargerð fylgir tillögunni. 
Frestað.

3.    Umræðu um endurskoðun þjónustustefnu Reykjavíkurborgar og drög að aðgerðaáætlun er frestað. MSS22030020

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að á grunni samgöngusáttmálans fari öll ljósastýringarmál á höfuðborgarsvæðinu til Vegagerðarinnar og/eða Betri samgangna ohf., ásamt innkaupum á búnaði, viðhaldi og öðru sem undir ljósastýringar falla. MSS22030021

Greinargerð fylgir tillögunni. 
Frestað. 

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Reykjavíkurborg samþykkir að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að engir spilakassar verði reknir í borgarlandinu vegna skaðseminnar sem hlýst af þeim. Fólk sem glímir við spilafíkn og aðstandendur þeirra hafa greint frá félagslegri, fjárhagslegri og andlegri skaðsemi spilafíknar. Því er lagt til að borgin geri allt sem hún getur til að banna spilakassa. Starfsemi spilakassa er heimiluð með lögum en í aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er að finna sérstök ákvæði um staðsetningu spilasala. Lagt er til að Reykjavíkurborg nýti allar þær aðferðir sem hægt er að nýta með það að markmiði að koma spilakössum úr borgarrýminu. Reykjavíkurborg þrýsti á ríkið til að koma nauðsynlegum breytingum á, geri sjálf þær breytingar sem hægt er til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa og hvetji þannig önnur sveitarfélög og opinbera aðila til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa. Öllum sviðum og ráðum borgarinnar verði falið að vinna saman að þessu markmiði þangað til lausn finnst. Velferðarsviði verði falið að leiða vinnuna. MSS22030022

Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. 

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn. Vísbendingar eru um að hópur þeirra nemenda sem glíma við þennan vanda fari stækkandi. Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Í kjölfarið var teymi um skólaforðun sett á laggirnar sem lagði m.a. til að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tímabært sé að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur/viðmiðunarkerfið um skólasókn hafi nýst til að fylgjast með fjölda mála er lúta að skólaforðun og til að bæta skólasókn. MSS22030023

Greinargerð fylgir tillögunni. 
Frestað.

7.    Tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um umræðu um húsnæðismarkaðinn við SSH er frestað. MSS22030024

8.    Lagt er til að Anna Maria Wojtynska taki sæti sem varamaður Sönnu Magdalenu Mörtudóttur í velferðarráði. MSS22030019
    Samþykkt. 

9.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 25. febrúar.  MSS22010003
Atkvæðagreiðsla um 8. lið fundargerðarinnar; afgreiðslu á viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022, fer fram í tvennu lagi. FAS22010035
3. liður viðaukans; hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 
Viðaukinn er að öðru leyti samþykktur. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar:

Meirihlutinn samþykkir hér hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Aðalfundur SSH var haldinn 12. nóvember 2021. Þar var samþykkt að árgjaldið yrði hækkað í 139 kr. á hvern íbúa úr 116 kr. Þetta er nærri 20% hækkun, langt umfram verðbólgu. Hvaða hag hafa borgarbúar af þessu? spyr fulltrúi Flokks fólksins. Hún er einn aðili af sex en borgar langmest. Kemur ekki til greina að taka tillit til stærðarhagkvæmni eins og er gert þegar framlög til borgarinnar eru ákvörðuð? Vegna stærðarhagkvæmni myndi þá hver borgarbúi greiða minna en aðrir. Eiga hin sveitarfélögin að ákveða að borgarbúar greiði háar fjárhæðir í enn ein ólýðræðisleg samtök, að þessu sinni SSH? Þetta er að vísu ekki formlegt byggðasamlag en hefur einkenni þess. Nágrannasveitarfélögin geta tekið ákvörðun eins og þeim sýnist um að borgarbúar borgi brúsann. En að sama skapi hefur Reykjavík hlutfallslega lítið vægi þegar stórar ákvarðanir eru teknar og minnihlutafulltrúar sveitarfélaganna hafa ekkert vægi í þessum samtökum. Þeim er aldrei boðið að borðinu þar sem gerðir eru samningar og teknar ákvarðanir sem snerta borgarbúa.

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 25. febrúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 23. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 22. febrúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 16. febrúar og velferðarráðs frá 16. febrúar. MSS22010217

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Öryrkjabandalag Íslands og lögmaður fjögurra fatlaðra barna stigu fram 2021 með þá kröfu að einstaklingsmiða þurfi þjónustuna að börnunum. Fyrirspurn Flokks fólksins var um hvernig skóla- og frístundasvið hygðist bregðast við ásökunum sem fram voru bornar um að börnin fái ekki þörfum sínum mætt í skólanum. Í svari segir að fyrirspurninni sé ekki svarað þar sem erindið sem vitnað er í liggi ekki fyrir. Svarið er að öðru leyti vísanir í ákvæði grunnskólalaga, s.s. „að allir nemendur grunnskóla eigi rétt á kennslu við hæfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan“. En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Það fá nefnilega ekki allir nemendur í grunnskólum borgarinnar kennslu við hæfi eins og þau eiga rétt á samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. „Skóli án aðgreiningar“ er ekki skóli án aðgreiningar nema að nafni til því talsvert þarf upp á til að hann sé í stakk búinn að mæta þörfum allra barna. Í grunnskólum borgarinnar er börnum mismunað m.a. vegna fötlunar sinnar. Nú bíða 1804 börn eftir þjónustu skólaþjónustu grunnskólanna og má ætla að í þeim hópi séu fjölmörg börn með sérþarfir. Rúmlega 1000 börn bíða eftir sálfræðiþjónustu.

Fundi slitið kl. 16:25

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon     Kolbrún Baldursdóttir