B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2022, þriðjudaginn 15. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Pawel Bartoszek, Skúli Helgason og Valgerður Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um samræmingu sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu. MSS22020166

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Með samræmingu sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu er stigið risastórt skref í umhverfismálum og í umhverfisvitund fólks enda er innleiðing hringrásarhagkerfisins og að ná betri tökum á úrgangsstjórnun liður í því að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum. Nýja kerfið er í samræmi við lagabreytingar um söfnun á úrgangi við heimili sem taka gildi um áramótin. Eftir innleiðingu þess verður fjórum úrgangsflokkum safnað við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu; lífrænum eldhúsúrgangi, blönduðu heimilissorpi, pappír og pappa og plastumbúðum. Leitast verður við að gera íbúum auðvelt að flokka við heimili sín eða í nágrenni þeirra og að upplýsingar og fræðsla verði aðgengileg og auðskilin. Til viðbótar við fjögurra flokka kerfi við heimili er lagt til að grenndarstöðvanetið verði þétt og að gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verði safnað á grenndarstöðvum sem verða í um það bil 500 metra fjarlægð frá hverju heimili. Stærri grenndarstöðvar verða í um það bil 1.000 metra fjarlægð frá hverju heimili og þar bætast við gámar fyrir pappír og pappa, og plast. Mikil og fagleg vinna hefur átt sér stað við vinnslu tillagnanna og hefur samtakamáttur sveitarfélaganna og skýr markmið fært okkur nær hringrásarhagkerfinu. Er öllum sem komu að þessari vinnu færðar miklar og góðar þakkir.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg er með dýrari sorphirðu en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en ætti að vera með ódýrari vegna stærðarhagkvæmni. Borgin er ekki með neinar lífrænar tunnur en fór samt af stað með lífræna moltugerð og byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJU, en komið hefur í ljós að moltan sem unnin er þar er ónothæf vegna plastmengunar. Þá vantar flokkunartunnur víða í borginni, en víða er aðeins um „urðunartunnur“ að ræða. Mikilvægt er að hafa plast og lífrænan úrgang til viðbótar við pappír og almennt sorp, en jafnframt þarf að vera gott aðgengi til að safna gleri, málmum og spilliefnum.   

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt og jákvætt að tryggja að íbúar geti flokkuð lífrænan úrgang og annað frá íbúðarhúsnæði sínu. Lögum samkvæmt ber sveitarfélögum að innheimta gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs í samræmi við kostnað. Fulltrúi Sósíalista ítrekar þá skoðun að gjald vegna sorphirðu eigi að vera innan útsvars sem íbúar greiði og að þar sé mikilvægt að leggja útsvar á fjármagnstekjur til að tryggja að borgarsjóður geti staðið undir útgjaldaliðum í stað þess að gjald sé tekið af íbúum vegna sorphirðu. Fulltrúi Sósíalista ítrekar mikilvægi þess að samræming á úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu leiði ekki til þess að verkefnið verði boðið út í Reykjavík. Slíkt hefur neikvæð áhrif m.a. á kjör starfsfólks, slíkt má sjá hjá byggðasamlaginu Strætó bs. þar sem þeir sem eru ekki fastráðnir hjá fyrirtækinu eru á lægri grunnlaunum.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ungmennaráð Kjalarness lagði fram tillögu í borgarstjórn um söfnun lífræns sorps á sameiginlegum fundi ráðsins og borgarstjórnar. Tillagan var samþykkt í umhverfisráði og var farið af stað með tilraunaverkefni á Kjalarnesi. Nú nokkrum árum seinna er verið að innleiða samræmdar reglur í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Loksins, velkomin í nútíðina Reykvíkingar það er komið árið 2022. Þeim sem stjórna SORPU bs. er á engan hátt treystandi fyrir sorpmálum höfuðborgarinnar. GAJA átti að kosta tvo milljarða og stendur nú í sex milljörðum. Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir. Þá er gefið í, þessir sömu „snillingar“ hafa nú á prjónunum að reisa hátæknibrennslu upp á 20-35 milljarða. Jú, jú það nefnilega gekk svo vel hjá þeim að reisa GAJA verksmiðjuna. Það er verið að taka SORPU-leiðina á málið, að hafa hana sér íslenska í stað þess að sækja þekkingu erlendis þar sem hátæknibrennslustöðvar hafa þegar verið reistar. Það er ekki annað hægt en að fá hroll við tilhugsunina. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Loks á að hefja metnaðarfulla flokkun á söfnunarstað og þá er engu til sparað. Árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins til í borgarráði að Reykjavíkurborg setti á laggirnar þriggja tunnu flokkunarkerfi og þetta ár voru einnig lagðar fram fyrirspurnir, bókanir og tillögur um að sveitarfélög stæðu saman að sorphirðu. Algert skilningsleysi var í borgarráði og borgarstjórn á þessu máli þá. Búið er að fara afspyrnu illa með fjármagn eigenda þessa bs. fyrirtækis sem er að stærsta hluta í eigu Reykvíkinga. Nú hækka gjöldin svo um munar sem kemur verst niður á þeim efnaminnstu. Árið 2019 var plan SORPU að flokkun færi fram í SORPU. Í GAJU átti að flokka á endastöð frekar en við upphafsstöð, svo sem með vindvélum, seglum o. fl. sem gekk ekki eftir eins og ætlað var. Tapast hefur mikill tími og fé sóað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögu um að þeir sem sitji í stjórn SORPU hafi til þess sérþekkingu til að varna frekari mistökum. Ef hlustað hefði verið á varnaðarorð fjölmargra þá væri SORPA fyrir löngu komin með almennilegt flokkunarkerfi fyrir heimilin og aðra sem þurfa að henda úrgangi og GAJA gæti búið til söluhæfa moltu og safnað metani. Skuldastaða SORPU væri betri.

2.    Fram fer umræða um húsnæðismál í Reykjavík MSS22020167

-    Kl. 16.00 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. 
-    Kl. 17.25 víkja Eyþór Laxdal Arnalds og Katrín Atladóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti á fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur sæti með rafrænum hætti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í Reykjavík og eru flestir aðilar sammála um að skortur á hagstæðu byggingarlandi sé orsök vandans. Borgin hefur vanmetið mannfjölgun í landinu og er uppsafnaður skortur á húsnæði mikill. Við það bætist fyrirsjáanleg fækkun íbúða á markaði sem munu fara í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Þá er talið að um 12.000 manns muni flytja til landsins næstu fjögur ár beinlínis til að manna þau 15.000 störf sem talið er að bætist við fram til ársins 2025. Eru þá ótaldir þeir sem hingað koma og eru ekki starfandi, svo sem börn. Það er misskilningur að telja að innflytjendur flytji tímabundið til Íslands. Sífellt fleiri flytja búsetu sína varanlega til Íslands. Margt bendir til þess að mannfjöldaspár borgarinnar og forsendur aðalskipulags vanmeti það aðdráttarafl sem Íslands hefur. Rétt er að rifja upp að 90% leigjenda vilja eignast eigið húsnæði. Sá draumur hefur þó dofnað þar sem margir hafa neyðst til þess að fara inn á leigumarkað en samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er hlutfall þeirra sem leigja af nauðsyn hærra en það hefur nokkurn tíma verið, en 2/3 leigjenda neyðast til að leigja sem er miklu hærra hlutfall en var fyrir 20 árum. Hér þarf því stefnubreytingu í borginni á næsta kjörtímabili. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Um þriðjungur íbúða á landinu rís nú í Reykjavík. Reykvíkingum hefur fjölgað um 12.000 á síðustu fimm árum sem er fordæmalaus fjölgun, en í sögu Reykjavíkur hafa hafa aldrei verið reistar eins margar íbúðir og nú. Enn þarf að fjölga íbúðum og stefnt er að því eins og kemur fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

552 eru á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði hjá borginni, þar af 125 barnafjölskyldur. 233 bíða þar eftir milliflutningi í húsnæði sem hentar betur þörfum einstaklingsins eða fjölskyldunnar. 136 bíða eftir húsnæði sem hentar þörfum fólks með fötlun. Nýjustu tölur sýna að 72 bíða eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 148 bíða eftir þjónustuíbúð aldraðra. Hér er um að ræða 908 einstaklinga sem standa á bak við umsóknirnar. Hér eru ótaldir þeir sem uppfylla ekki skilyrði fyrir umsókn um félagslegt leiguhúsnæði en greiða samt sem áður háan húsnæðiskostnað og búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Víða eru hópar í samfélaginu sem búa við ótryggar húsnæðisaðstæður líkt og í atvinnuhúsnæði sem er ekki hannað sem heimili, inni á öðrum og eru á milli heimila. Margt fólk er að slíta sig út til að ná að hafa þak yfir höfuðið. Ekki er nóg að byggja margar íbúðir, það þarf að byggja íbúðir sem henta þörfum fólks. Byggja þarf út frá hagsmunum fólks en ekki fjármagni og fólk á ekki að vera skilið eftir til lengdar eftir húsnæði sem hentar þeirra þörfum. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðismálin eru að verða stærsta málið í borginni að því leyti að áþreifanlegur og sársaukafullur skortur er á húsnæði af öllu tagi í borginni. Það vantar almennt meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi. Sjálfsagt er að þétta og stendur Flokkur fólksins að baki þéttingarstefnu upp að skynsamlegu marki. En eins og framkvæmdin hefur verið á þéttingarstefnunni er ljóst að hún hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði, mikið til vegna þess að ekki hefur verið ljáð nægilega máls á að gera annað og meira en að þétta. Hátt verð  þýðir að framboð er ekki nægjanlegt. Auka þarf lóðaframboð. Núna hefði t.d. verið unnt að skipuleggja svæði utan við borgina, og utan þéttingarsvæða. Litlar íbúðir á þéttingarsvæðum eru dýrar. Á þeim hafa hvorki námsmenn, fyrstu kaupendur né þeir sem minna hafa milli handanna efni á. Meirihlutinn í borginni hefur brugðist við þessari staðreynd með varnarræðum. Reynt hefur verið að kenna bönkunum og  verktökum um. Leiga hækkar í takt við fasteignaverð. Borgarmeirihlutinn hefur ekkert beitt sér fyrir að setja þak á leiguverð. 

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að neyðarskýli borgarinnar verði opin allan sólarhringinn í stað núverandi fyrirkomulags frá 17:00 til 10:00. Í Reykjavík eru þrjú neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. Einstaklingum sem glíma við heilsufarsvanda stendur til boða að fá skjól lengur og gistiskýlin eru opin lengur þegar óveðri eða kuldakasti er spáð. Mikilvægt er að fólk hafi þak yfir höfuðið alla daga ársins, á öllum tímum. Það minnsta sem hægt er að gera er að tryggja að neyðarskýli séu opin allan sólarhringinn. Tryggt verði að ávallt sé starfsfólk sem geti mætt ólíkum þörfum þeirra sem dvelja í neyðarskýlunum. Velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar. MSS22020168

Greinargerð fylgir tillögunni. 
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um endurskoðun á aðgerðum með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Neyðarskýlum er ætlað að mæta þeirri neyð þegar einhver kemur inn af götunni. Neyðin hefst ekki klukkan 17:00 á daginn og lýkur ekki klukkan 10:00 á morgnanna í takt við opnunartíma neyðarskýlanna. Á meðan neyðarskýli eru í borginni er mikilvægt að þau séu ávallt opin óháð tíma sólarhringsins. Samhliða því þarf að tryggja að nægilegt húsnæði sé alltaf til staðar sem hentar fjölbreyttum þörfum borgarbúa. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Starfandi er stýrihópur um endurskoðun á aðgerðum með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem gildir til 2025. Eðlilegt er að vísa þessari tillögu í þann stýrihóp. Borgarstjórn hefur lagt mikla áherslu á málefni heimilislausra á kjörtímabilinu eins og sjá má á því að fækkað hefur um 14% í hópi heimilislausra frá 2017. Fjárframlög hafa tvöfaldast á kjörtímabilinu, frá 732 m.kr. 2019 í 1,4 ma.kr. á síðastliðnu ári.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að neyðarskýli borgarinnar verði opin allan sólarhringinn í stað núverandi fyrirkomulags frá 17:00 til 10:00. Sumir sem leita í skýlin hafa engan samastað að degi til annan en götuna. Meirihlutinn  leggur til að vísa tillögunni í stýrihóp. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki lofa góðu um framvindu málsins ef horft er til reynslunnar með málsmeðferðartillögur meirihlutans af þessu tagi.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hefja skógrækt til kolefnisjöfnunar allt frá græna treflinum við Rauðavatn (skógræktaráætlun höfuðborgarsvæðisins) að Hengli. Hér á landi eru þegar til trjátegundir sem myndu þrífast vel þarna. Svæðið er í lögsögu nokkurra sveitarfélaga. Lagt er til að meirihlutinn nýti sér aðgang sem hann hefur að nágrannasveitarfélögunum til að koma málinu áfram. Hér yrði um ódýra stórframkvæmd að ræða en ávinningur mikill. Nýta mætti óseljanlega moltu sem verður til í SORPU sem áburð við útplöntun. Með þessu verkefni yrðu nokkrar flugur slegnar í einu höggi. Mikið kolefni yrði bundið og SORPA losnar við óseljanlega moltu. Reykjavík myndi jafna kolefnisútblástur sinn og dregið yrði úr þeirri svifryksmengun í Reykjavík sem á uppruna sinn á Suðurlandi. Stórskógur yrði til sem gefur möguleika á nýtingu í atvinnuskyni í framtíðinni. MSS22020169

Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessi tillaga, um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli er felld af meirihlutanum. Tillagan fellur engu að síður afar vel að loftlagsstefnu Reykjavíkurborgar. Aðferðin, þ.e. að rækta skóg er viðurkennd aðferð/aðgerð til kolefnisjöfnunar. Meirihlutinn fellir hana engu að síður. Tillögunni um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli er fundið flest til foráttu. Ekki er minnst á ávinninginn í málflutningi meirihlutafulltrúans sem segir að tillagan feli í sér að ætla að ráðskast með önnur sveitarfélög en Reykjavík geti ekki sagt öðrum sveitarfélögum fyrir verkum. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á að Reykjavík er aðili að Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Halda mætti að sá vettvangur ætti að geta nýst til að kynna þessa tillögu og heyra hljóðið í nágrannasveitarfélögunum? Varla þarf að óttast heldur að ræða við Ölfus.  Ef svona mikil hræðsla er við samtal við nágrannasveitarfélögin, hvað þá Ölfus þá getur Reykjavíkurborg allavega plantað í það land sem er í lögsögu hennar, skyldi maður halda.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan gengur út á að hefja skógrækt í Svínahrauni sem er einstakt og fallegt mosavaxið hraun. Landið er ekki innan Reykjavíkur heldur á svæði Ölfus - og að hluta til í Kópavogi. Það er mikilvægt að vera með skýra sýn á skógrækt til framtíðar, þess vegna var gerð sérstök skógræktaráætlun. Reykjavíkurborg og Skógræktarfélag Reykjavíkur eru því sammála um að skógræktaráætlun borgarinnar forgangsraði svæðum til skógræktar til norðurs, í allt annars konar landslagi sem einnig muni draga úr vindi og vindstrengjum: Geldinganes, Álfsnes, Kjalarnes og Esjuhlíðar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn samþykkti tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fara í markvissa skógrækt til að bæta veðurfar í borginni. Sú vinna hefur ekki farið af stað þrátt fyrir samhljóða samþykkt borgarstjórnar. Það þarf að gæta hófs þegar kemur að því að grípa inn í hefðbundna náttúru og lífríki og leggja áherslu á skógrækt þar sem að vindálag minnkar þannig að hægt sé að bæta veðurfar í borginni. Hægt er að nýta kolefnisjöfnunarsjóði til að fjármagna slíka skógrækt. 

5.    Fram fer umræða um  fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. MSS22020170

-    Kl. 18.55 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Diljá Mist Einarsdóttir tekur sæti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í árslok 2026 eru áætlaðar skuldir borgarsjóðs 240 milljarðar, 240 þúsund milljónir eða 240.000.000.000 kr. Á árinu 2013 hóf ríkissjóður að greiða niður skuldir í stórum stíl en á sama tíma hóf borgarsjóður að safna stórfelldum skuldum. Á þeim tíma mynduðu Samfylkingin, Besti flokkurinn og Vinstri grænir meirihluta. Borgarstjóri hefur verið stjórnandi borgarinnar allt þetta tímabil og verið borgarstjóri sl. tæpu 8 ár. Skuldir borgarsjóðs árið 2013 voru 62,2 milljarðar og voru rúmar 500.000 kr. á hvern íbúa. Nú 8 árum seinna eru skuldir borgarsjóðs 155,8 milljarðar eða tæplega 1,3 milljónir kr. á hvern íbúa. Staðan er grafalvarleg. Lántökuáætlun á komandi kjörtímabili eru 83 milljarðar og 9 milljarðar á þar næsta kjörtímabili. Boðuð lántaka er því 92 milljarðar næstu 5 ár að árinu 2022 meðtöldu. Skuldir borgarsjóðs verða því 240 milljarðar í árslok 2026. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekkert hefur breyst frá því að borgarstjórn samþykkti fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar um miðjan desember. Fjárhagsáætlunin er sóknaráætlun sem lýsir áframhaldandi metnaði fyrir mikilvægum verkefnum, svo sem grænum skrefum í þágu loftslagsins og framtíðarkynslóða, góðri þjónustu, einfaldara lífi borgarbúa með stórum stafrænum skrefum og háu fjárfestingarstigi. Skuldahlutfall borgarsjóðs er það lægsta meðal bæjarsjóða á höfuðborgarsvæðinu og hefur borgarsjóður mikið rými til að fara í skynsamar fjárfestingar í þágu borgarbúa. Það er bjart fram undan í Reykjavík, á miklu uppbyggingarskeiði, þar sem verður áfram gott að búa, starfa og heimsækja.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í upphafi kjörtímabils voru heildarskuldir borgarinnar 299 milljarðar króna sem greiða átti niður samkvæmt sáttmála meirihlutans. Í dag eru skuldir borgarinnar komnar yfir 400 milljarða og fara vaxandi en ráðgert er að þær fari í 450 milljarða 2025 skv. áætlunum. Ljóst er þó að upphæðin verði talsvert hærri enda vakti sérstaka athygli Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsætlunar þessa árs að ekki var gert ráð fyrir að Orkuveitan greiddi skuld upp á þrjá og hálfan milljarð við Glitni þó dómur  Landsréttar lægi fyrir um að það ætti að gera. Og nú í síðasta mánuði synjaði Hæstiréttur Orkuveitu Reykjavíkur um áfrýjunarleyfi á niðurstöðu Landsréttar í málsókn þrotabús Glitnis. Þá var ekki gert ráð fyrir krónu í rekstur borgarlínu næstu fimm árin. Jafnframt voru vanmetnar í áætluninni hinar ýmsu fjárfestingar sem ljóst var þá að borgin þyrfti að ráðast í á næstunni, svo sem vegna sorpbrennslu og hreinsistöðva í frárennsli. Stóraukinn kostnaður í rekstri borgarinnar hefur leitt til þess að skuldir og skattar hafa hækkað úr hófi fram. Í maí verður kosið um hvort áfram verði haldið á þessari braut stækkandi bákns. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er ekki góð. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans. Eins og fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er í dag er ljóst að æ erfiðara verður að finna peninga til að fjármagna mikilvæga grunnþjónustu. 1804 börn bíða eftir fagaðilum skólanna, sálfræðingum og talmeinafræðingum helst. Erfiðast er þó að horfa upp á hversu illa víða er farið með fjármagn borgarbúa í borgarkerfinu. Víða er bruðl og sóun. 
Skýrasta dæmi er útstreymi fjármagns frá þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON) í fjölmargar snjalllausnir sem ekki eru brýnar og hvernig sviðið undir stjórn meirihluta mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs vill sífellt finna upp hjólið.  Hvers vegna hefur Reykjavíkurborg líkt og önnur sveitarfélög og stofnanir ekki nýtt sér gæði og hagkvæmni rammasamnings Ríkiskaupa um rafrænar undirskriftir í stað þess að gera kostnaðarsama sérsamninga við Dokobit? Sviðið getur auðvitað svarað þessari spurningu hvernig sem er. Annað dæmi er að sviðið þáði heldur ekki boð Ríkiskaupa um samstarf í útboði vegna Microsoft leyfa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að meðhöndlun fjármagn þjónustu- og nýsköpunarsviðs verði skoðað af innri endurskoðun sem hefur þá ábyrgð og skyldur að hafa eftirlit með því að vel og skynsamlega sé farið með útsvarsfé borgarbúa. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er margoft búið að hrekja þessar ósmekklegu og endurteknu ásakanir á hendur þjónustu- og nýsköpunarsviði. Spurningu um rafrænar undirritanir hefur verið svarað skriflega. Verkefnin sem heyra undir stafræna umbyltingu eru tilnefnd af sviðunum og svo forgangsraðað út frá gagnsæjum viðmiðum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er alltaf jafn hissa á meðvirkninni sem ríkir í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði, meirihluta þess. Það skortir algerlega á gagnrýna hugsun. Því hefur ekki verið svarað með rökum af hverju ekki var gengið til samninga við Ríkiskaup  eins og mörg önnur sveitarfélög gerðu um rafrænar undirskriftir í stað þess að gera kostnaðarsama sérsamninga við Dokobit.  Í þessu tilfellu þarf heldur betur ekki að fara í tilraunafasa, uppgötvunarfasa eða þróunarfasa enda rafrænar undirskriftir  ekki nýjar á nálinni. 

6.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. febrúar. MSS22010003

17. liður fundargerðarinnar frá 10. febrúar; Knarrarvogur 2 - kaup á fasteign er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. FAS22020014

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. febrúar:

Hér er Reykjavíkurborg að kaupa húsnæði fyrir hálfan milljarð króna til að búa til rými fyrir borgarlínuna. Málefni borgarlínunnar eru í sérstöku félagi sem heitir Betri samgöngur ohf. Það skýtur því skökku við að Reykjavíkurborg sé að verja hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í að kaupa húsnæði til niðurrifs til að búa til rými fyrir borgarlínu. Fyrirliggjandi er verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir fundinum. Hér er því verið að greiða yfirverð fyrir eign sem á að rífa undir borgarlínu. Rétt er að benda á að þessi „fjárfesting“ er ekki á fjárhagsáætlun borgarinnar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. febrúar:

Þetta mál er hneyksli. Reykjavíkurborg er að kaupa upp eignir á yfirverði. Áætlað söluverð Knarrarvogs 2 í núverandi ástandi er 330 milljónir. Reykjavíkurborg kýs hins vegar að kaupa eignirnar á 460 milljónir. Lóðin er 5.000 fermetrar og alveg á pari við stærð bensínstöðvalóðina á Ægisíðu 102. Þessi fjárútlát eru í nafni borgarlínu. Hvar eru Betri samgöngur ohf. í þessum díl? Jú á fundi Vegagerðarinnar í morgun kom fram að borgin sæti uppi með þennan kostnað því ekki var haft samráð við Betri samgöngur ohf. um kaupin. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. febrúar:

Að eyða 460 milljónum til að kaupa hús til niðurrifs fyrir borgarlínu þegar fyrirtækið Betri samgöngur ohf. á að fjármagna borgarlínuverkefnið hlýtur að vera á gráu svæði vægast sagt og þar að auki virðist verðið fyrir niðurrifið vera mjög hátt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki ganga upp. Það skýtur skökku við að Reykjavíkurborg sé að verja hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í að kaupa húsnæði til niðurrifs til að búa til rými fyrir borgarlínu. Fyrirliggjandi er verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir í gögnum.  Hér er því verið að greiða yfirverð fyrir eign sem á að rífa undir borgarlínu. 

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. febrúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. janúar, skipulags- og samgönguráðs frá 2. og 9. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 8. febrúar og velferðarráðs frá 2. febrúar MSS22010217
4. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Gunnlaugs Braga Björnssonar til loka kjörtímabilsins, er samþykktur. MSS22020127

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6., 7, og 8.  lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurnir um skóla- og íþróttamál í Laugardal m.a. um íþróttakennslu,  um upplýsingagjöf til foreldra vegna framtíðarskipulags skólamála í Laugardal og spurt var einnig um kostnaðargreiningu vegna skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfis. Skemmst er frá því að segja að af svörum að dæma er nákvæmlega ekkert að frétta af þessum málum. Ekkert er vitað og ekkert liggur fyrir. Skýrsla starfshópsins um sviðsmyndir var send í umsagnarferli til hinna ýmsu aðila og var skilafrestur 1. febrúar. Hinn 10. janúar var málið lagt fram á fundi íbúaráðs Laugardals. Ekki er séð að fundað hafi verið síðan í íbúðaráðinu hvað þá að umsögn hafi borist. Þarf ekki að fara að ýta við þessu máli, drífa í að safna saman umsögnum og taka næsta skref? Þetta mál er á ábyrgð skóla- og frístundasviðs. Nú er kominn 15. febrúar.  Ekkert bólar heldur á kostnaðargreiningu vegna hugmynda  sem kynntar voru í skýrslu starfshópsins um skóla- og frístundastarf í Laugardal. 

Fundi slitið kl. 21:11

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon     Kolbrún Baldursdóttir