B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 15. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Jórunn Pála Jónasdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga og Örn Þórðarson. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að velferðarstefnu Reykjavíkur til 2030, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní sl.  R21040016
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Velferðarstefnan er afrakstur víðtæks samráðs stýrihóps, starfsfólks, notenda og þeirra fjölmörgu aðila sem hafa látið velferðarþjónustu borgarinnar sig varða. Á grunni ítarlegrar greiningarvinnu var mótuð ný framtíðarsýn til 10 ára auk þess sem hlutverk velferðarsviðs er skilgreint upp á nýtt. Grunnmarkmið stefnunnar er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir alla borgarbúa. Meginþættir stefnunnar byggja á sjö stefnumarkandi áherslum en þær eru; engin tvö eru eins, nálægð og aðgengileiki, þjónustulipurð og skilvirkni, virðing og umhyggja, forvarnir og frumkvæði, samtal og samráð og fagmennska og framsýni. Í aðgerðaáætlun eru settar fram þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í til að markmið stefnunnar nái fram að ganga. Þar er m.a. lögð áhersla á notendasamráð, samráð við hagsmunaaðila og reglulegar mælingar á ánægju með þjónustu sviðsins. Aðgerðaráætlunin mun síðan verða endurskoðuð árlega m.t.t. kostnaðar og stöðu verkefna hverju sinni. Reykjavík hefur ekki áður sett sér heildstæða velferðarstefnu sem tekur utan um allar þær fjölmörgu stefnur sem við höfum markað og munum marka í framtíðinni. Velferðarþjónusta er gríðarlega mikilvæg mannréttindaþjónusta sem þarf að vera í stöðugri þróun. Velferðarráð þakkar þeim þúsundum Reykvíkinga sem tóku þátt í mótun þessarar stefnu, saman getum við tryggt að Reykjavík verði sannarlega fyrir okkur öll.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Velferðarstefnu sem hér liggur fyrir er fagnað sérstaklega í því ljósi að þar er tekið undir sjónarmið og ábendingar Sjálfstæðisflokks í velferðarráði. Það er sömuleiðis jákvætt að velferðarstefnan taki mið af einstaklingnum, enda er fólk ekki allt steypt í sama mót og með mismunandi þarfir. Þó er bent á að nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg gæti að því í velferðarmálum að fólk geti lifað sem sjálfstæðustu lífi og að þeir sem hafa vilja og getu til að komast út úr félagslegum úrræðum sé gefinn möguleiki á því. Reykjavíkurborg þarf að tryggja tækifæri fyrir fólk til að tryggja sjálfstæði sitt, ekki síst í húsnæðismálum en margir festast í félagslegum úrræðum til langs tíma. Kerfið þarf að vera fyrir fólkið en ekki öfugt.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista styður heilshugar stefnumarkandi áherslur velferðarstefnunnar sem eru 7 talsins. Þær eru að engin tvö eru eins, í því felst að mál hvers einstaklings er metið á eigin forsendum, áhersla er lögð á nálægð og aðgengileika og að íbúar eiga að geta nálgast upplýsingar og þjónustuna sjálfa hvernig og hvar sem þeim hentar. Þriðja áherslan snýr að þjónustulipurð og skilvirkni. Fjórði liðurinn snýr að virðingu og umhyggju og aðrar stefnumarkandi áherslur snúa að frumkvæði og forvörnum, samtali og samráði og fagmennsku og framsýni. Einn liður í aðgerðaáætlun velferðarstefnunnar fjallar um sameiningu þjónustumiðstöðva. Fulltrúi sósíalista getur ekki tekið undir það að þjónustumiðstöðvar borgarinnar verði færri í upphafi árs 2022 og ítrekar mikilvægi þess að slíkt auki ekki skrefin fyrir íbúa borgarinnar og að þau fái þjónustu í sínu nærumhverfi. Af þeim sökum getur fulltrúi sósíalista ekki stutt aðgerðaáætlun sem er meðfylgjandi velferðarstefnu. Hér er verið að efla rafrænar lausnir t.a.m. með því að setja á laggirnar eina rafræna þjónustumiðstöð. Mikilvægt er að gera slíkt, þar sem mikið ákall er um stafrænar lausnir en á sama tíma þarf að tryggja þjónustu í nærumhverfi fyrir þau sem treysta á aðrar lausnir.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér er á ferðinni enn ein stefnan frá borgarstjóra og meirihlutanum og bera þau alfarið ábyrgð á henni. Talað er um mikið samráð en samráð er ekki samráð hjá meirihlutanum nema að þau ráði sjálf för. Skipta stefnurnar fleiri tugum og eru þær án fjármagns og ekki kostnaðargreindar. Meirihlutinn er löngu búinn að tapa sjónum á hver fjöldinn á stefnuplöggunum er. Þessi velferðarstefna á að gilda til ársins 2030. Borgin er rekin á glærusýningum en ekki raunveruleika og ekki fara saman orð og efndir í raun. Það vita og finna borgarbúar á eigin skinni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarstefna er hin fínasta en stefna gagnast fáum nema hún komist í framkvæmd. Hefðu þessi mál verið í forgangi hjá þessum og síðasta meirihluta væri stefna af þessu tagi komin í innleiðingu og orðin virk. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar ekki síst börnum sem í hundraða tali hafa á þessu kjörtímabili beðið eftir t.d. þjónustu fagfólks í skólaþjónustu. Ekki orð er um biðlista í stefnunni. Börn sem fá ekki nauðsynlega aðstoð eiga á hættu að þeim hraki. Með biðinni er líðan þeirra ógnað enn frekar, jafnvel til frambúðar. Langir biðlistar, fátækt og ójöfnuður er eitt stærsta velferðarvandamálið í borginni. Í borginni er vaxandi fátækt, vaxandi vanlíðan barna og biðlistar í sögulegu hámarki og um 800 manns bíða eftir húsnæði. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat liggur fyrir í október. Ósennilegt er hvort eitthvað af þessum tillögum verði komnar í virkni fyrr en á næsta kjörtímabili. Sú upphæð sem hér um ræðir er ekki há ef samanborið sem dæmi við 10 milljarða sem ráðstafað er nánast á einu bretti í stafræna umbreytingu. Það segir í raun allt um forgangsröðunina hjá meirihlutanum.

-    Kl. 15:20 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur. 

2.    Fram fer umræða um málefni GAJA – gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. R20010342

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sorphirðumál í Reykjavík hafa verið í ólestri í langan tíma og því miður hafa markmið meirihlutans ekki náðst. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað bent á að bæta þurfi flokkun á sorpi en lítið hefur gerst í því á kjörtímabilinu þrátt fyrir að önnur sveitarfélög hafi flokkað sorp um áratugaskeið. Gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, hefur kostað meira en 6 milljarða sem er langt umfram kostnaðaráætlanir. Enn hefur henni ekki tekist að sinna sínu hlutverki sem var að framleiða moltu enda þarf að urða afurðir GAJA í jörðu. Gjaldskrár vegna sorphirðu hafa snarhækkað á kjörtímabilinu án þess að markmiðin hafi náðst og algjör óvissa er um verksmiðjuna þrátt fyrir mikil aukaframlög eigenda. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Gas- og jarðgerðarstöð er stærsta einstaka verkefni í þágu loftslagsmála á Íslandi á undanförnum áratugum. Hún sparar 90.000-100.000 tonn af CO2-ígildum. Til að spara 90.000 tonn af CO2 þarf að taka 30.000 til 45.000 bíla og breyta þeim í rafbíla. Þá er fjárfesting í GAJA átta sinnum arðbærari en orkuskipti á bílum. Stórt skref í þágu loftslagsmála verður stigið í haust þegar söfnun á lífrænum úrgangi við heimili hefst. Í janúar 2023 verður öllum sveitarfélögum skylt að hirða lífrænan úrgang við heimili. Framtíð GAJA er björt og eitt lykilverkfæri Íslands til að ná markmiðum í loftslagsmálum.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ekki má bíða lengur með að ríki og öll sveitarfélög á landinu taki höndum saman og hugsi heildstætt um sorphirðumál. Ein „ríkissorpbrennsla“ verður að líta dagsins ljós sem fyrst. Enda hafa þingmenn Miðflokksins þegar flutt þingsályktunartillögu þess efnis: https://www.althingi.is/altext/151/s/0126.html. Það er fáránlegt að hvert sveitarfélag fyrir sig skuli vera að paufast í sínu horni að leysa þessi mál. Hátæknisorpbrennslustöðvum fylgja fjölmargir kostir. Með því að brenna sorp í hátæknibrennslustöð er sorpinu breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku. Finna verður brennslunni stað sem allir geta verið sáttir við og helst á einhverju af köldu svæðunum á Íslandi. GAJA verksmiðjan er á engan hátt að virka og framleiðir plastmengaða moltu sem verið er að urða/nota í landmótun því moltan stenst ekki umhverfiskröfur! Uppbygging GAJA verksmiðjunnar átti að kosta 3,4 milljarða. Kostnaðurinn stendur nú í 6 milljörðum í það minnsta. Ljóst er að rekstrarforsendur eru löngu brostnar því rekstrarmódelið var ónýtt í upphafi. Jafnframt segja stjórnendur Sorpu að GAJA sé í einhverju sem þau kalla tilraunafasa. Það passar ekki við fyrri orð því GAJA átti að hoppa fullsköpuð fram þegar verksmiðjan var opnuð og mala gull/moltu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

GAJA var dýr framkvæmd og illa skipulögð og kemur nú í bakið á eigendum sem eru að stærstum hluta borgarbúar. Þegar hún var í bígerð og byggingu var talað um að frá henni kæmu söluvörur, metan og molta. Enn er verulegur hluti metans brenndur á báli, þrátt fyrir grænt plan og tal um umhverfisvænar áherslur. Meira að segja Strætó bs. er að skoða að kaup á rafvagni um þessar mundir en ekki metanvagn. Þessi tvö bs-fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar geta ekki átt samvinnu um þessi mál. Og moltan, þar er staðan verri. Moltan er ekki frambærileg, full af gleri og plasti en engu að síður sögð „ágætis molta“ af stjórnarmanni borgarinnar í SORPU. Ekki var minnst á þessa mögulega stöðu í áætlunum GAJU. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði 2. júní 2020 eftirfarandi: „Margt bendir til þess að væntanleg molta verði ekki söluvara þar sem verkun verður ekki nógu góð. SORPA leggur ekki áherslu á flokkun við heimili heldur treystir á jarðgerðarstöðina.“ En málið er að lítið hefur verið gert til að losna við plastið. Tæknibúnaður er notaður til að skilja plastið frá sem dugar skammt. Nú liggur fyrir það sem blasti við frá upphafi að flokkun þarf að eiga sér stað þar sem sorpið verður til.

3.    Fram fer umræða um skýrslu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. R21060073

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs hefur aldrei verið nánara en nú og sameiginleg framtíðarsýn sviðanna í málefnum barna er innsigluð með þeim tillögum sem sameiginlegur stýrihópur formanna og sviðsstjóra sviðanna skilar hér af sér. Tillögurnar marka tímamót þar sem vörðuð er leið inn í framtíð þar sem heildstæð þjónusta við börn er samþætt og efld í nærumhverfi barna, ekki síst í verkefninu betri borg fyrir börn sem nú verður innleitt í öllum borgarhlutum frá næstu áramótum eftir tilraunaverkefni í Breiðholti sem mælst hefur vel fyrir. Stórátak verður gert í að vinna á biðlistum eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga í skólaþjónustu með 140 m.kr. aukafjárveitingu sem mun duga til að þjóna um 650 börnum. Fjárveitingar til grunnskóla munu í auknum mæli taka mið af lýðfræðilegum þáttum til að auka jöfnuð milli barna og borgarhluta. Tekið verður upp markvisst árangursmat í sérkennslu, sértækum stuðningi og skólaþjónustu til að stuðla að því að börn sem þess þurfa fái stuðning sem skilar þeim betri líðan, námsárangri og/eða félagsfærni. Átak verður gert í að rafvæða umsóknarferla í skólaþjónustu og sérstök verkefnastjórn mun sjá um að innleiðing tillagnanna verði hnitmiðuð og skýr.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista styður efni tillagnanna en vill ganga lengra. Verkefnið Betri borg fyrir börn verður innleitt um alla Reykjavíkurborg en miðað er við fjögur þjónustusvæði en ekki fimm miðað við núverandi hverfaskiptingu þjónustumiðstöðva. Mikilvægt er að tryggja að þjónustan sé pottþétt í nálægð við þá sem hana sækja. Í því samhengi þarf einnig að tryggja að þjónustan sem börn og ungmenni þurfa á að halda, sé veitt inni í skólunum eða þar sem þeim hentar, t.d. að sálfræðingar og aðrir sem veita stuðning við börn séu með fasta viðveru í skólum. Einnig er mikilvægt að börn séu ekki að bíða til lengdar eftir þjónustu. Þann 1. maí sl. biðu 1033 börn eftir fyrstu þjónustu, 525 börn eftir þjónustu sálfræðings og 430 eftir þjónustu talmeinafræðings. Ein tillagan hér um tímabundna fjölgun sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga gerir ráð fyrir 140 m.kr. fjárheimild. Áætlað er að fjárveitingin dugi til að veita allt að 650 börnum þjónustu á 12 mánaða tímabili. Sérfræðingar sem starfa nú á þjónustumiðstöðvum munu jafnframt vinna við að þjónusta börn á biðlistunum til að hægt sé að vinna á honum. Fulltrúi sósíalista hefur áhyggjur af því að 140 m.kr. dugi ekki.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Verkefnið betri borg fyrir börn var sett á laggirnar 2019. Nú á að innleiða verkefnið betri borg fyrir börn um alla Reykjavíkurborg. Engar árangursmælingar liggja fyrir um hvernig verkefni hefur reynst í Breiðholti. Biðlistar þar hafa ekkert styst en nú bíða 309 börn eftir fyrstu og frekari þjónustu í hverfinu en í allri borginni bíða 1577 börn. Segir á vef borgarinnar að verkefnið miði að því að færa þjónustu í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna og þétta samstarf skóla- og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað er átt við með að „þétta“ því ekki á að færa aðsetur skólasálfræðinganna inn í skólana. Hvernig á þá að færa þjónustuna nær? Eiga sálfræðingar að hitta börnin einhversstaðar á milli þjónustumiðstöðva og skóla? Fulltrúa Flokks fólksins finnst að það hefði átt að byrja að mæla árangur af verkefninu áður en ákveðið er að innleiða verkefnið um alla borg í þessari mynd. Árangursmat ætti að vera haft til hliðsjónar við útfærslu verkefnisins frá fyrstu stigum. Ef sífellt er farið af stað með verkefni án þess að undirbúa það m.a. með því að beita viðeigandi mælingum er hætta á að fjármagni sé eytt út í loftið alla vega að einhverju leyti.

-    Kl. 18:05 er gert hlé á fundi.
-    Kl. 18:40 er fundi fram haldið og Diljá Ámundadóttir Zoëga víkur af fundinum og Geir Finnsson tekur þar sæti. 

4.    Lögð fram tillaga að hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní sl. R21050314
Samþykkt.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Við fögnum framkominni hjólreiðaáætlun 2021-2025. Frá því fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt árið 2010 hefur hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum aukist úr 2% í 7% og við vitum að betri og fleiri hjólastígar hafa þar skipt sköpum. Stefnt er að því að fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum verði að lágmarki 5 milljarðar króna á árunum 2021-2025. Jafnframt er sett fram framtíðarsýn fyrir hjólanetið í Reykjavík til ársins 2030. Við leggjum áherslu á að vinna við innleiðingu áætlunarinnar hefjist þegar í stað.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Hér er um metnaðarfulla áætlun að ræða um bættar hjólreiðar með mælanlegum markmiðum. Áætlunin er unnin í þverpólitískri sátt undir forystu fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Greinilegt er að áhugi á hjólreiðum hefur aukist mikið og þátttaka er bæði almenn og vaxandi.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi sósíalista fagnar hjólreiðaáætlun sem hefur það að markmiði að bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk og auka hlutdeild hjólandi. Fulltrúi sósíalista hefur þó áhyggjur af gjaldtöku í tengslum við liðinn sem fjallar um að rekstur hjólaskápa fyrir almenning, á völdum stöðum í borgarlandinu og í bílastæðahúsum, verði boðinn út. Hjólreiðaáætlunin nefnir að „skapa þarf umhverfi sem hvetur til hjólreiða. Góð hjólaborg er borg sem tekur mið af öllum aldurshópum, öllum kynjum, borg sem hugar að þörfum fatlaðs fólks og styður við hjólreiðar óháð efnahag.“ Í þessu samhengi þarf t.a.m. að tryggja að rafhlaupahjól séu ekki fyrir neinum í borgarlandinu, hvað varðar aðgengi. Fulltrúi sósíalista minnist einnig nýlegs viðtals um hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi þar sem leitast var við að safna hjólum fyrir börn og unglinga sem ekki hafa tök á því að kaupa sér reiðhjól. Það er gott og mikilvægt að bæta hjólaaðstæður í borginni, á sama tíma þarf að útrýma stéttskiptingu til að tryggja að borgarbúar hafi tök á því að útvega sér hjól.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Markmiðið er að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Það er mikilvægt að hvetja börn og ungmenni til að hjóla og samhliða verður að tryggja öryggi þeirra sem best. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á mikilvægi þess að taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana og hefur verið vel tekið í það. Fulltrúa Flokks fólksins finnst einnig mikilvægt að hjólastígar séu flokkaðir eftir öryggi þeirra og gæðum þannig að hægt sé að skoða á netinu hvaða hjólastígar væru öruggir og hverjir jafnvel hættulegir. Víða eru stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Þá þarf að lagfæra til að þeir verði öruggir fyrir bæði hjólandi og gangandi. Yfirleitt er ekki vöntun á rými og hægt að breikka stígana og búa til aflíðandi beygjur og minnka brekkur. Áhyggjur eru af fjölgun slysa þeirra sem nota minni vélknúin farartæki sem kallar ekki aðeins á aukna fræðslu heldur einnig aukið eftirlit með umferð á blönduðum stígum. Þess utan þá gengur, hleypur og hjólar fólk gjarnan með tónlist í eyrunum og heyrir ekki ef t.d. hjólandi nálgast. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi í fyrri bókunum að fjarlægja þurfi járnslár og nú hefur skipulags- og samgönguráð samþykkt að það verði gert.

-    Kl. 19:40 víkur Björn Gíslason af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Reykjavíkurborg samþykkir að gera það sem í hennar valdi stendur til að tryggja að útvistun verði hætt innan Strætó bs. og að undið verði ofan af henni. Slíkt verði gert með því að beina því til stjórnar Strætó bs., á eigendavettvangi og með öðrum leiðum sem eru færar. Þetta skal gert til að tryggja sömu kjör fyrir sömu störf, hjá þeim sem starfa fyrir byggðasamlagið. Eftir því sem starfsfólk er ráðið inn frá ólíkum fyrirtækjum í kjölfar útboðs geta réttindi, skyldur og kjör verið mismunandi, líkt og sjá má hjá vagnstjórum. Með því að ráða starfsfólk beint inn til Strætó bs. er unnið að því að sömu kjör séu fyrir sömu störf og leitast er við að mynda eina starfsmannaheild.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060156
Tillagan er felld með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að vinna gegn útvistun til að tryggja að sömu laun verið alltaf greidd fyrir sömu störf og að starfsfólk ráðið inn í gegnum verktöku búi ekki við minni réttindi en þau sem eru fastráðin hjá fyrirtækinu. Eftir því sem starfsfólk er ráðið inn frá ólíkum fyrirtækjum í kjölfar útboðs geta réttindi, skyldur og kjör verið mismunandi, líkt og sjá má hjá vagnstjórum. Strætó bs., sem er opinbert fyrirtæki, ber að vinna gegn slíkri þróun í stað þess að hluta grunnþjónustuna niður og færa hana í hendur einkaaðila.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga er um að hætta útvistun. Strætó bs. er eitt af þessum bs.-kerfum þar sem stjórnir taka ákvarðanir sem ekki þjóna endilega notendum og starfsmönnum. Tilviljanleg útvistun getur skemmt starfsanda sem svo leiðir til verri vinnubragða. Borgarstjórn þarf að taka ákvörðun um hvort hún styðji útvistun verkefna yfir höfuð.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík stofni vinnumiðlun eftirlaunafólks. Um er að ræða hugmynd að sænskri fyrirmynd, þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni tímabundið. Sambærileg hugmynd er nú til skoðunar á Húsavík og hefur verið fjallað um verkefnið í tímariti Landssambands eldri borgara. Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýðir það ekki að það geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi stórgræða á að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060157
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarstjórn samþykkti að setja á laggirnar vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík. Tillagan er felld en á sama tíma er sagt að mál af þessu tagi sé í skýrum farvegi. Þessi tillaga byggir á sænskri fyrirmynd, þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni. Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýðir það ekki að það geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi njóta góðs af því að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna tímabundið. Það eru mannréttindi að fá að vinna eins lengi og kraftar leyfa og áhugi er fyrir hendi og auðvitað án skerðinga og njóta umfram allt afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem málefni eldri borgara fái ekki mikið vægi í borgarstjórn og sjaldan er minnst á þennan aldurshóp t.d. í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Verkefnið sem tillagan fjallar um er ekki talið á ábyrgð borgarinnar. Ber að nefna að í ráðum borgarinnar hafi fulltrúar ráðanna tillögurétt og málfrelsi. Því eru verkefni mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og það sem tekið er fyrir þar afurð þess sem fulltrúarnir leggja til. Ráðið hefur ekki sjálfstæðan vilja óháð fulltrúum þess.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það kann að vera rétt að tillagan um vinnumiðlun eftirlaunafólks sé ekki verkefni mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs. Fulltrúi Flokks fólksins vildi aðeins koma því að í þessu sambandi að sjaldan ef nokkurn tímann er fjallað um eldri borgara í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja það til að bragabót verði gerð á því.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki fæst séð að það sé hlutverk borgarinnar að taka að sér vinnumiðlun fyrir fólk sem komið er á eftirlaunaaldur. Fjöldi fyrirtækja og stofnana ráða til sín fólk á öllum aldri, þ.m.t. Reykjavíkurborg.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að auka tækifæri eldra fólks til að starfa og að samfélagið njóti krafta þeirra og þekkingar. Þá telja sjálfstæðismenn að það eigi að draga mjög úr skerðingum og jaðarsköttum sem leggjast þungt á eldri borgara og öryrkja.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að tryggja veru Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli til framtíðar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060158
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn felldi tillögu mína um að tryggja veru Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli til framtíðar. Það eru skýr skilaboð borgarstjóra og viðreista meirihlutans að rétt væri að beina framtíðaruppbyggingu gæslunnar annað og að Hvassahraun á Reykjanesi væri líklegasti staðurinn fyrir nýjan flugvöll, eins og kom fram í máli formanns skipulags- og samgönguráðs í fjölmiðlum þann 21. maí sl. Þetta eru köld skilaboð til Landhelgisgæslunnar. Reykjavíkurflugvöllur hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki við að tengja landsmenn saman, landsbyggðina við höfuðborgina og Ísland við umheiminn í 80 ár. Það skilur ekki borgarstjóri og meirihlutinn. Þó hefur dómsmálaráðherra sagt frá því í fjölmiðlum að ríkið ætli að sækja um framkvæmdaleyfi til að byggja yfir Landhelgisgæsluna. Af þessu má ráða að engu er líkara en að borgarstjóri óski þess heitast að Gæslan fari fyrir fullt og allt úr Vatnsmýrinni og það sem fyrst. Hvers vegna var þá verið að staðsetja nýjan Landspítala á umferðareyju við Hringbraut og í nálægð við flugvöllinn vegna öryggissjónarmiða? Hver getur sýnt af sér slíkt ábyrðarleysi að fórna öryggi landsmanna með þessum hætti? Jú, borgarstjórinn í Reykjavík. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Enda þótt ekki sé hægt að tryggja neitt þá eru allar líkur á að flugvöllurinn í Vatnsmýri komist hvorki lönd né strönd. Veðurfarsmælingar svo sem á Hólmsheiði og Hvassahrauni eru í skötulíki og nú kann að vera að eldgos mitt á milli Hvassahrauns og Reykjanesbæjar setji einnig strik í reikninginn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Flugvallarmálið er í ágætum farvegi og málefni Landhelgisgæslunnar einnig. Í gildi er samkomulag milli ríkis og borgar um að fullkanna flutnings vallarins en jafnframt að tryggja starfsemi hans á meðan á því stendur. Í nýjum tillögum að aðalskipulagsbreytingum er þannig lagt til að flugvöllurinn verði áfram til 2032 og jafnframt er skapað rými fyrir nýjan þyrlulendingarstað syðst í Vatnsmýri sem tengist nýja Landspítalanum með sérakreinum sem heimila forgangsakstur. Hins vegar er það stefna borgarinnar að flugvöllurinn eigi að víkja fyrir byggð og því ljóst að vaxtar- og þróunarmöguleikar flugtengdar starfsemi eru meiri annars staðar en í Vatnsmýri.

-    Kl. 21:05 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Elín Jónsdóttir tekur sæti.

8.    Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu Kristínar Soffíu Jónsdóttur, borgarfulltrúa á dagskrá. 

Lagt er til að börn sem útskrifast af leikskóla snúi ekki aftur á leikskólann eftir sumarfrí heldur taki þátt í starfi frístundaheimilis fram að skólasetningu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060170
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta að mörgu leyti góð tillaga. Þó má nefna að núverandi fyrirkomulag hentar mörgum börnum mjög vel. Einhverjum börnum kann að finnast það vera nokkuð stórt stökk að byrja í frístund í heilan dag í 2 vikur með nýju fólki og nýju umhverfi. Frístundin getur verið krefjandi fyrir 6 ára börn, mikill fjöldi barna og kannski fáir starfsmenn. Þetta er ekki róleg stund með börnunum til að aðlagast. Gæti jafnvel verið mjög erfitt fyrir sum börn. Síðan er auðvitað vandamál að manna frístund á sumrin og haustin. Hvaða lausnir liggja fyrir í þeim efnum?  Kostir eru þeir að þau börn sem væru að byrja ný í leikskóla komast þá fyrr að sem myndi mögulega eyða óvissutíma og millibilsástandi hjá þeim börnum.

9.    Fram fer kosning tveggja skrifara borgarstjórnar til eins árs og tveggja til vara. R18060080
Fallið var frá hlutfallskosningu sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og kosin voru án atkvæðagreiðslu:
Ellen Jacqueline Calmon og Kolbrún Baldursdóttir. 
Varaskrifarar voru kosin með sama hætti Skúli Helgason og Jórunn Pála Jónasdóttir.

10.    Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara.Lagt er til að eftirtaldir borgarfulltrúar taki sæti í borgarráði:

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Líf Magneudóttir
Eyþór Laxdal Arnalds
Hildur Björnsdóttir
Valgerður Sigurðardóttir

Jafnframt er lagt til að eftirtalin verði kosin varamenn:

Pawel Bartoszek
Elín Oddný Sigurðardóttir
Alexandra Briem
Skúli Helgason
Marta Guðjónsdóttir
Katrín Atladóttir
Jórunn Pála Jónasdóttir

Jafnframt er lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði formaður ráðsins. R18060082
Samþykkt.

11.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ragnhildur taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Egils Þórs Jónssonar. R18060085
Samþykkt.

12.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Egils Þórs Jónssonar. R18060088
Samþykkt.

13.    Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Egils Þórs Jónssonar. Jafnframt er lagt til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Valgerðar Árnadóttur. R18060089
Samþykkt.

14.    Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólk í stað Egils Þórs Jónssonar. R19040033
Samþykkt.

15.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti sem varamaður í fjölmenningarráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. R18060104
Samþykkt.

16.    Lagt til að Valgerður Árnadóttir taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Alexandra og Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Rannveigar Ernudóttur og Egils Þórs Jónssonar. R20030171
Samþykkt.

17.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í öldungaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. R18060107
Samþykkt.

18.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í íbúaráði Breiðholts í stað Egils Þórs Jónssonar. R19090034
Samþykkt.

19.    Lagt til að Valgerður Árnadóttir taki sæti í íbúaráð Kjalarness í stað Rannveigar Ernudóttur. R19090038
Samþykkt.

20.    Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar í stað Egils Þórs Jónssonar. Jafnframt er lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Jórunnar. R18060119
Samþykkt.

21.    Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Skúli Helgason, Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson taki sæti í stjórn Faxaflóahafna til eins árs og Sabine Leskopf, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Hildur Björnsdóttir taki sæti til vara.
Jafnframt er lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir verði formaður stjórnar. R18060108
Samþykkt.

22.    Lagt til að Brynhildur Davíðsdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Gylfi Magnússon, Hildur Björnsdóttir og Eyþór Laxdal Arnalds taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sf. til eins árs og að Auður Hermannsdóttir, Margrét Björnsdóttir, Páll Gestsson, Katrín Atladóttir og Björn Gíslason taki sæti til vara. Jafnframt er lagt til að Brynhildur Davíðsdóttir verði formaður stjórnarinnar. R18060109

23.    Fram fer kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og fjögurra varaforseta: R18060080
Forseti er kosin Alexandra Briem með 23 atkvæðum.

Kjör varaforseta fer fram með hlutfallskosningu sbr. ákvæði 4. mgr. 7. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
1. varaforseti er kosin Sabine Leskopf
2. varaforseti er kosinn Eyþór Laxdal Arnalds
3. varaforseti er kosin Kristín Soffía Jónsdóttir
4. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir

24.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. júní. R21010001

9. liður fundargerðarinnar frá 3. júní; gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21050311
1. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – íbúðarbyggð og blönduð byggð, er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R21060053
Samþykkt að taka 2.-5. lið fundargerðarinnar frá 10. júní á dagskrá. 
2. liður fundargerðarinnar frá 3. júní; hverfisskipulag – leiðbeiningar er samþykktur. R21060058
3. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; hverfisskipulag – Breiðholt 6.1 – neðra Breiðholt er samþykktur. R21060059
4. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; hverfisskipulag – Breiðholt 6.2 – Seljahverfi er samþykktur. R21060060
5. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; hverfisskipulag – Breiðholt 6.3 – Efra Breiðholt er samþykktur. R21060061
10. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; Hringbraut 117 – Sólvallagata 77 – Steindórsreitur – deiliskipulag er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. R21060057
15. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; áhættustefna Reykjavíkur, er samþykktur. R20050004
17. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er borinn upp í 9. liðum: R21010107
1. liður, borgin okkar – úthlutun úr miðborgarsjóði, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
2. liður, tilflutningur fjárheimilda á fjármála- og áhættustýringarsviði, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
3. liður, tilflutningur UTR fjárheimildar á fjármála- og áhættustýringarsvið, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
4. liður, fjarfundarbúnaður í stjórnsýsluhúsum, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
5. liður, tilflutningur á fjárheimildum á velferðarsviði, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. liður, leikskólar – breyting á fjölda leikskólabarna, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
7. liður, orlofsgreiðslur skóla- og frístundasviðs, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
8. liður, bókmenntaborg UNESCO, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
9. liður, Vinnuskóli Reykjavíkur, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
18. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins. R21010107
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
33. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; kjörstaðir í Reykjavík við alþingiskosningar 25. september 2021, er samþykktur. R20090044
34. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; umboð til borgarráðs vegna alþingiskosninga 25. september 2021, er samþykktur. R20090044
35. liður fundargerðarinnar frá 10. júní; þóknanir til kjörstjórna við alþingiskosningar 25. september 2021, er samþykktur. R20090044

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 10. júní:

Aðalskipulagið 2010-2030 markaði tímamót í skipulagssögu borgarinnar. Horfið var frá bílmiðuðum hugmyndum seinustu aldar og stefnan sett á þétta, mannvæna, nútímalega borgarbyggð þar sem virkir samgöngumátar eru í fyrirrúmi. Markmiðið er ekki síst að bregðast við loftslagsvandanum, stærstu áskorun heimsbyggðarinnar í samtímanum. Með tillögunum nú er lagt til að aðalskipulagið sé framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir borgarlínu og stokka. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við styðjum þessar tillögur heilshugar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 10. júní:

Aðalskipulag til 2040 er gallað, ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um kröftugan vöxt rætist er árleg þörf talin 1.210 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ-reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru, en í athugasemdum Skipulagsstofnunar er bent á að ekki liggur fyrir ákvörðun af hálfu ríkisins að leggja af flugvöll í Vatnsmýri. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og beinlínis gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Af þessum sökum öllum leggjumst við gegn þessu aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní:

Fulltrúi sósíalista fagnar að verið sé að fara í söfnun á lífúrgangi en telur að gjaldtaka fyrir sorphirðu eigi að vera inn í því gjaldi sem greitt er til sveitarfélagsins í formi útsvars og að fjármagnseigendur þurfi líka að greiða slíkt. Hvorugum þeirra þátta er hægt að breyta nema með breytingum frá Alþingi en fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að nefna slíkt hér í tengslum við gjaldtöku og hver greiðir til samfélagins fyrir grunnþjónustu. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní:

Í 4. lið í viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021 er lagt til að fjárheimildir þjónustu- og nýsköpunarsviðs hækki um tæpar 55 milljónir vegna fjarfundarkerfa í stjórnsýsluhúsum borgarinnar. Þessi tillaga er fáheyrð og sýnir valdaframsal borgarráðs og borgarstjórnar til hinnar svokölluðu neyðarstjórnar Reykjavíkur. Neyðarstjórn hefur ekki fjárútlátsheimildir eins og margoft hefur verið bent á. Hér er því verið að sækja fjárheimildir löngu eftir ákvörðunartöku af stjórn sem fer ekki með fjárveitingavald og er því ljóst að sveitarstjórnarlög hafa verið brotin. Hin svokallaða neyðarstjórn Reykjavíkur fól upplýsingatækniþjónustu borgarinnar í byrjun árs 2020 að fara í innkaupaferli á fjarfundarbúnaði Cisco webex. Ekki voru gerðar áætlanir um kostnað og fjárheimildir sóttar í viðauka 2020 sem er óskiljanlegt og eins og áður segir brot á lögum og ekki var sótt um að koma kostnaðinum inn í fjárhagsáætlun 2021. Hvernig er hægt að koma þessum kostnaði upp í tæpar 55 milljónir þegar fyrir liggur að borgin leigi allan tölvu- og skjábúnað? Þessi ráðstöfun er alveg í takti við óskiljanleg 10 milljarða fjárútlát í það sem er kallað stafræn umbreyting borgarinnar. Með öðrum orðum blind og ómarkviss fjárútlát án markmiða og lokatakmarks.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum 10 milljörðum sem þjónustu- og nýsköpunarsviði er veitt í stafræna umbyltingu og hefur farið þess á leit við innri endurskoðun að skoða hvort skynsamlega sé verið að verja þessu gríðarmikla fjármagni og að skoðaðar verði fjármálahreyfingar sviðsins aftur í tímann. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beint ýmsum fyrirspurnum til sviðsins en ekki fengið öll svör. Enn bíða fyrirspurnir vegna brottreksturs fólks af sviðinu og nýráðningum og hvort lögbundnu ráðningarferli hafi ávallt verið fylgt. Einnig hefur verði spurt um launamál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert á móti því að borgin snjallvæðist en þessi skref þarf að taka í samræmi við þann veruleika sem borgin býr við nú. Hagkvæmni þarf skilyrðislaust að vera leiðarljósið. Borgin er ofurskuldsett, er auk þess að vinna sig út úr COVID og þjónustu við börn er verulega ábótavant. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að þegar á heildina sé litið er umhverfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs komið langt út fyrir það sem eðlilegt mætti teljast um aðkomu, umfang og fjársýslu einnar einingar í borgarkerfinu. Fulltrúi Flokks fólksins er fyrst og síðast áhyggjufullur yfir þessu og minnir aftur á biðlista barna eftir aðstoð, s.s. fagþjónustu skólanna, en á biðlista eru nú 1577 börn.

25.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. júní, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 2. og 9. júní, skóla- og frístundaráðs frá 8. júní og velferðarráðs frá 8. júní. R21010063
3. liður; lausnarbeiðni Alexanders Witold Bogdanski, er samþykktur. R20010362
5. liður; samþykkt fyrir innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar, er samþykktur. R21050256
9. liður; fundargerðar forsætisnefndar, svohljóðandi tillaga um sumarleyfi borgarstjórnar:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella sbr. ákvæði 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samþykkt. R21060117

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 27. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Mikilvægt er að kjarnahlutverk innri endurskoðunar verði áfram innri endurskoðun. Hætta er á hagsmunaárekstrum ef innri endurskoðun er ráðgjafi þess sem á síðan að endurskoða. Betur færi á því að hlutverk innri endurskoðunar væri einskorðað við innri endurskoðun.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2.-5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. júní:

Meirihlutinn leggur til að samþykkt verði 140 m.kr. aukafjárheimild til að vinna niður biðlista. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta allt of lága upphæð, bara dropi í hafið. Hér þarf meiri innspýtingu enda 1577 börn á biðlista núna. Þegar börn eru annars vegar þarf að taka hærra stökk. Með þessu áframhaldi tekur of langan tíma að ná niður biðlistum og börn hafa ekki þann tíma. Bernskan bíður ekki frekar en annað tímaskeið. Þessar tillögur hefði átt að leggja fram á fyrsta ári þessa kjörtímabil. Annað verkefni sem hefur legið á láginni er að auka jöfnuð milli barna. Þeim er jafnvel mismunað eftir því hvar þau búa en fyrst og fremst er mismununin tilkomin vegna mismunandi aðstæðna og fjárhags foreldra. Í COVID hefur fátækt aukist. Vanlíðan barna hefur einnig aukist sbr. niðurstöður nýrrar könnunar Háskólans í Reykjavík og Rannsóknar og greiningar. Í tillögum meirihlutans er snemmtæk íhlutun reifuð eins og um sérstakt úrræði sé að ræða. Börn eiga ávallt að fá strax aðhlynningu og viðeigandi úrræði ef vart verður við vandamál eða frávik. Samhliða eiga börn að fá þær skimanir og greiningar sem foreldrar og kennarar hafa sammælst um að þörf sé á. Eftir slíku úrræði á ekkert barn að þurfa að bíða.

Fundi slitið kl. 22:49

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson    Örn Þórðarson