B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 16. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Aron Leví Beck Rúnarsson, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Geir Finnsson, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Vigdís Hauksdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga og Örn Þórðarson. Valgerður Sigurðardóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að almennum aðgerðum menntastefnu Reykjavíkurborgar 2022-2024, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. R21110080
Samþykkt. 
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hér er lögð fram tillaga að almennum aðgerðum menntastefnu Reykjavíkur fyrir tímabilið 2022-2024 en framtíðarhópur helstu haghafa í menntamálum borgarinnar hefur unnið að þeim allt árið. Aðgerðirnar skiptast í tíu liði sem saman mynda ákveðna forgangsröðun varðandi innleiðingu menntastefnunnar á komandi árum. Þar er að finna tíu ný áhersluatriði, sem dæmi loftslagsmál, sem er stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir. Líka er vert að vekja sérstaka athygli á þeirri áherslu sem lögð er á heilbrigði og vellíðan með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál sem verða enn veigameiri þáttur í kjölfar heimsfaraldursins, sem hefur að vonum aukið andlegt og líkamlegt álag á bæði börn og starfsfólk. Tillagan um almennu aðgerðirnar var send til umsagnar í öll foreldra- og skólaráð borgarinnar sem og til helstu haghafa um formlega og óformlega menntun í Reykjavíkurborg. Á grunni þessara aðgerða verður lögð fram útfærð aðgerðaráætlun með skilgreindum verkþáttum sem verður um leið kjarninn í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2022-2024. Aðgerðirnar eru tengdar beint við áherslur stefnunnar og eru liður í innleiðingu menntastefnunnar sem gildir til 2030.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í febrúar 2009 samþykkti borgarstjórn einróma, að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, að hefja vinnu við mótun menntastefnu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Menntastefnan leggur áherslu á sköpun og almennt læsi sem er mikilvægur grunnur undir framtíðina. Mikilvægt er að tryggja faglegt sjálfstæði skóla, minnka miðstýringu og yfirbyggingu og færa fjármagn beint til kennara og nemenda að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Eins vilja fulltrúarnir auka jafnræði milli sjálfstæðra skóla og borgarrekinna. Mikilvægt er að fjármagn fylgi fyrirheitum. Án þess eru orðin tóm. Þá er gagnrýnivert að í aðgerðaráætluninni er ekki að finna nein mælanleg markmið en án þeirra eru minni líkur á að árangur náist. Þá er vandi drengja í menntakerfinu mikill en ekkert er minnst á hann í aðgerðarætluninni. Ekkert er að finna um aukið framboð forritunarnáms og forritunarkennslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar en borgarstjórn samþykkti tillögu Sjálfstæðisflokks þess efnis einróma í desember 2018. Tölvur og þjarkar eru hluti af daglegu lífi flestra og munu verða enn veigameiri þáttur þegar fram líður. Forritunarkunnátta er í raun samskiptamáti við tölvur og því mikilvægur hluti af læsi 21. aldarinnar. Þá eru 1500 börn á biðlista eftir aðstoð sérfræðinga sem ekki er ávarpað í áætluninni. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Líkt og kemur fram í umfjölluninni með aðgerðaráætlun menntastefnunnar er uppeldi og menntun barna og unglinga samfélagslegt verkefni sem á sér stað bæði með formlegum og óformlegum hætti. Fulltrúi sósíalista bendir á mikilvægi þess að skólarnir verði gjaldfrjálsir, að engin gjaldtaka fari þar fram. Þar þarf að afnema gjald fyrir máltíðir þannig að öll börn geti gengið að því vísu að þau geti borðað með félögum í skólanum. Þá er líka mikilvægt að maturinn nái til fjölbreyttra þarfa barna. Eitt markmiðið í aðgerðaráætlunni fjallar um að stuðlað verði að félagslegu réttlæti og jafnræði barna til náms og virkrar þátttöku. Til þess þurfa skólarnir að vera gjaldfrjálsir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Til að börn geti einbeitt sér að menntun, nýtt greind og styrkleika þarf að fullnægja grunnþörfum. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá borgina hlúa betur að þeim verst settu svo þau börn geti líka látið draumana rætast. Börn frá tekjulægstu heimilunum eiga að fá fríar skólamáltíðir. Einstæðir foreldrar eru oft þeir verst settu. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn einstæðra foreldra í Reykjavík 7.251 undir 18 ára (2021). Gera má ráð fyrir að allir þeir sem eru með tekjur undir 440.000 kr. á mánuði þurfi að fá sértæka aðstoð til að falla ekki í fátækt. Komið er inn á málþroska og lestrarfærni en ekkert er um hvort verið sé að mæla þetta. Nú er búið að ákveða að einfalda stoðkerfi við börn með sérstakar þarfir og að veita börnum þjónustu í nærumhverfi þeirra. Fagfólk skólaþjónustu er enn staðsett á þjónustumiðstöðvum. Fjölga á fagmenntuðu fólki en vandinn er að erfitt getur reynst að fá fagfólk. Finna þarf leiðir til að laða fólk til starfa hjá Reykjavíkurborg. Talað er um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og við aðrar stofnanir ríkisins og að það skuli eflt. Óljóst er hvort kerfisbundið samstarf er fyrir hendi og ekki kemur fram hvernig það skuli eflt. 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að koma aftur á fót nýju neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur sem starfrækt yrði samkvæmt skaðaminnkandi nálgun og verði í formi herbergjagistingar. Líkt því sem var komið á í Skipholti sem neyðarhúsnæði vegna COVID-19 faraldursins en hefur nú verið lokað.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100374
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokknum þykir miður að meirihlutanum hafi ekki hugnast að samþykkja tillöguna hér og nú, heldur hafi frekar viljað að vísa henni í nefnd. Nú mun hún róa lífróður í velferðarráði þar til hún er endanlega felld eða þá samþykkt sé hún undantekningin sem sannar regluna þar fyrir innan. Í ljósi þess að það er engin leið að vita hvenær tillagan fær endanlega afgreiðslu í velferðarráði óttast borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að það verði ekki fyrr en á nýju kjörtímabili sem heimilislausar konur mega eygja von um að þetta þarfa þjónustuúrræði verði tekið fyrir. Það er nefnilega brýn þörf á úrræði sem þessu eins og reynslan af tímabundna neyðarathvarfinu í Skipholti sýndi. Það er um heimilislausar konur að ræða og því bókstaflega þolir málið ekki bið. Það að vísa tillögunni í ráð þýðir jafnframt að meirihluti borgarstjórnar treysti sér ekki til að taka skýra afstöðu í þessu máli, sem er miður. Sjálfstæðisflokkurinn vonar að þegar tillagan verður þá tekin fyrir í velferðarráði muni borgarfulltrúar meirihlutans hafa kjarkinn til að samþykkja tillöguna og þar með sýna það á borði sem og í orði að þeim er í raun umhugað um málaflokkinn.


Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er nauðsynlegt að tryggja að það sé til nægilegt húsnæði til staðar sem hentar þörfum hvers og eins, staðan er ekki þannig nú. Á sama tíma þarf líka að vera til neyðarathvarf sem hægt er að leita í, upplifi íbúar ótryggar aðstæður og þurfi á athvarfi og/eða stuðningi að halda. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er með ólíkindum að búið sé að loka sólarhringsneyðarskýli fyrir konur í fjölþættum vanda. Samkvæmt greinargerð með tillögunni kemur þar fram að mikil ánægja hefði verið með úrræðið hjá þjónustuþegum. Að auki er kostnaðurinn tiltölulega lítill miðað við virði þjónustunnar. Það gerir ekkert gagn að skrifa skýrslur og búa til stefnur. Neyðin er núna. Neyðin er í dag. Minnt er á neyðarfund sem haldinn var að sumri 2018 skömmu eftir borgarstjórnarkosningar þar sem öllu fögru var lofað í málefnum heimilslausra. Orðunum fylgdu litlar efndir. Þessi staða er til skammar fyrir höfuðborg landsins. Fjórði veturinn er skollinn á síðan borgarstjóri og meirihlutinn lofuðu hraðfara úrbótum í málefnum heimilslausra. Verkleysið er algjört.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu og þá helst að setja á stofn neyðarathvarf að fyrirmynd þess sem var í Skipholtinu, en það var opið allan sólarhringinn og með sérherbergjum og baðherbergjum fyrir konurnar sem þangað leituðu. Þar var einnig starfsfólk á vakt allan sólarhringinn konunum til stuðnings. Þetta var gott fyrirkomulag að mati kvennanna sjálfra og starfsfólks.

-    Kl. 17.15 er gert hlé á fundi.
-    Kl. 17.23 er fundi framhaldið.

3.    Lögð fram tillaga að menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. R21080014
Menningarstefna Reykjavíkurborgar er samþykkt. 
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

List og menning í Reykjavík 2030 er heiti á nýrri menningarstefnu borgarinnar. List og menning eru snar þáttur í lífsgæðum fólks og um leið mikilvægir drifkraftar í þróun samfélagsins. Í öllum öflugum menningarborgum verður líf borgaranna innihalds-ríkara, fjölbreyttara og skemmtilegra. Menningarstefnan sem samþykkt er í borgarstjórn hér í dag gefur listafólki og þeim sem reka menningarstofnanir kleift að hafa áhrif á það hvaða markmiðum skuli stefnt að næstu árin og til hvaða aðgerða skuli gripið til að ná settu marki. Menningarstefnan byggir á víðtæku samráði við fulltrúa allra listgreina, menningarstofnana og félaga sem borgin styrkir. Stefnan brýnir borgar¬yfirvöld til að leggja metnað í að skapa sem bestar aðstæður fyrir listsköpun og öflugt menningarstarf.
    
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að hverfi borgarinnar séu á meðal hornsteina nýrrar menningarstefnu Reykjavíkurborgar. Þá er gleðiefni að borgin vilji á ný leggja áherslu á að halda upp á þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní ár hvert, enda augljóst viðfangsefni höfuðborgar. Færa á hátíðarhöldin í auknum mæli út í hverfin sem er góðra gjalda vert. Hinsvegar verður að gefa hátíðinni þann stall sem hún á skilið í miðbænum sömuleiðis. Gerður er fyrirvari við það að einhver verkefni sem fjallað er um í stefnunni eru enn ófjármögnuð, til dæmis svonefndur Þríæringur. Jafnframt skal tekið fram að í stefnunni er fjallað um verkefni í kringum Grófarhúsið en ráðgert er að kostnaður við húsið sé 4,5 ma.kr. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa hingað til ekki talið vera forsendur fyrir samþykkt þess. Menningarstefnan staðfestir vilja borgarstjórnar að Reykjavík sé og verði menningarborg með jöfn tækifæri til að að njóta lista, menningar og menningararfs bæði sem þátttakendur og neytendur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Stefnan er ágætlega metnaðarfull. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að menning og listir séu í öllum hverfum. Því miður vantar mikið upp á að hægt sé að segja að öll hverfi státi af slíku. Áherslan er að mestu á miðbæinn og nágrenni. Til dæmis ef horft er til hátíða Reykjavíkurborgar, fastra liða svo sem 17. júní, Menningarnætur, aðventunnar og Barnamenningarhátíðar. Fulltrúi Flokks fólksins þekkir marga í menningargeiranum. Sumum finnst þeir ekki hafa aðgang að tækifærum, þeir útilokaðir eða jaðarsettir. Hvernig á að komast hjá þessu? Allir verða að hafa rödd. Í þessum geira þarf að vera sveigjanleiki og rammar verða að geta færst til án þess að gliðna. Samfélagið er að breytast ört. Þarfir breytast, áhugi fólks breytist, sýn þeirra og upplifun samhliða. Það sem var gamaldags er það kannski ekki í dag. Kannski er of þröngur hópur sem leggur línurnar. Nýjar hugmyndir flæða um heim allan. Í og með tilkomu COVID-19 þarf kannski að færa út kvíarnar, búa til stærri og fjölbreyttari vettvang þar sem fólk upplifir og nýtur menningar án þess að vera of nálægt öðrum. Rekstur margra menningarsmiðja er þungur nú. Hvernig tryggjum við jafnræði? Á því tekur stefnan ekki nógu vel að mati fulltrúa Flokks fólksins.

-    Kl. 18.20 er gert hlé á fundi.
-    Kl. 18.40 er fundi framhaldið, þá tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti og Diljá Ámundadóttir víkur af fundi, Hildur Björnsdóttir víkur af fundi og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti. Jórunn Pála Jónasdóttir tekur jafnframt sæti á fundinum með rafrænum hætti eftir fundarhlé.
-    Kl. 19.35 víkur Björn Gíslason af fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur þar sæti

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera svohljóðandi breytingar á skipuriti og innra skipulagi þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkur: Nafni sviðsins verði breytt í upplýsinga- og þjónustusvið Reykjavíkur sem skiptist í eftirfarandi starfseiningar: A. Skrifstofa sviðsstjóra: Ber ábyrgð á fjármálum, áætlanagerð og því að markmiðum sviðsins sé náð. B. Þjónustuskrifstofa: Þjónustuver Reykjavíkurborgar ásamt einni rafrænni þjónustumiðstöð sem heldur utan um allar rafrænar umsóknir fyrir öll svið og skrifstofur borgarinnar. C. Upplýsingatækniskrifstofa: Öll grunntölvuþjónusta, kerfisrekstur (umsjón með verktökum o.fl.). Umsjón með stafrænni umbreytingu, vefstjórn og öll innri rafræn þróunarvinna og forritun verða undir þessari skrifstofu og unnin í nánu samstarfi við rafræna þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar. D. Gagnaþjónusta: Borgarskjalasafn og öll rafræn gagnavinnsla. Leitað verði eftir auknu samstarfi við Stafrænt Ísland og island.is um stafræna þróun borgarinnar, innskráningu notenda í gegnum island.is og sameiginleg innkaup á tækjabúnaði og hugbúnaðarleyfum. Með þessum breytingum verður lögð enn meiri áhersla á að stafræn umbreyting auðveldi aðgengi borgarbúa að rafrænni þjónustu á vefjum borgarinnar í stað þess að stór hluti fjármagnsins fari í innri umbreytingar á sviðinu sjálfu. R21110166

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þegar milljarðarnir (10 á þremur árum) voru samþykktir var ætt af stað í ótal verkefni án þess að ítarlegar framkvæmda- og tímaáætlanir lægju fyrir hvað þá skýr forgangsröðun um hvaða verkefni voru mikilvæg. Um 33 verkefnalausnir liggja fyrir, flestar enn í tilraunafasa. Þriðjungur eru hrein gæluverkefni en mikilvægar lausnir sem starfsmenn og þjónustuþegar bíða eftir eru föst í verkefnahrúgunni. Sviðið hefur í kjölfarið þanist út, ráðið tugi sérfræðinga, sumum nappað beint úr einkageiranum með tilheyrandi yfirboðum á launum. Ómælt fé hefur farið í að „brainstorma“ og í tilraunir í stað þess að leita strax samstarfs við Stafrænt Ísland (SÍ). SÍ hefur það hlutverk að þróa og reka miðlægar lausnir sem gagnast öllum þvert á ríkið og styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga til að tryggja að ekki sé unnið að sambærilegum lausnum á mörgum stöðum. Búið er að kroppa eitthvað í öll þessi verkefni, þriðjungur þeirra eru ónauðsynleg og hefðu mátt bíða. Kannski tvö eru komin í endanlega virkni. Þjónustu- og nýsköpunarsvið birtir metnaðarfulla mynd af þessu en fátt liggur að baki annað en eyðsla nokkurra milljarða sem farið hafa í tilraunasmiðjur og þenslu. Dæmi um sýndarmennsku er umsókn þjónustu- og nýsköpunarsviðs um að komast í stafræna tilraunasmiðju með Mexíkóborg og Bógóta í Kólumbíu undir forystu Bloomberg í Bandaríkjunum. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Meirihluti borgarstjórnar hefur þegar ákveðið að ráðstafa um 10 milljörðum í þágu stafrænnar umbreytingar. Þjónustu- og nýsköpunarsviði hefur verið falið að forgangsraða þeim fjármunum í þágu brýnustu verkefna. Þau verkefni sem sviðið hefur sett af stað og eru í undirbúningi eru framúrskarandi. Þá hefur borgin þegið styrk frá Bloomberg Philantropies sem gefur verkefninu byr undir báða vængi. Stafræn umbreyting snýst ekki bara um tölvur og tölvunarfræðinga heldur einkum að hugsa verkefni og þjónustu upp á nýtt. Ef borgin myndi einfaldlega hverfa frá þeim áherslum líkt og borgarfulltrúinn leggur til, værum við komin aftur á byrjunarreit og þjónusta borgarinnar myndi líða fyrir það.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Enginn er að tala um að hverfa frá stafrænni vegferð. Fulltrúi Flokks fólksins vill að horfið sé frá tilraunum á lausnum sem þegar eru til og útsvarsfé borgarbúa þar með sýnd meiri virðing. Leitað verði eftir auknu samstarfi við Stafrænt Ísland sem hefur það hlutverk að þróa og reka miðlægar lausnir sem gagnast öllum þvert á ríkið og styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga til að tryggja að ekki sé unnið að sambærilegum lausnum á mörgum stöðum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Kerfið hefur bólgnað mikið út á síðustu árum og ekkert lát er á því. Skipulagsbreytingar hafa snúist um að breyta starfsheitum yfirmanna fremur en stytta boðleiðir og bæta aðgengi fólks að málum. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Æsingurinn í borgarstjóra undir þessum dagskrárlið var eftirtektarverður. Hjólaði hann í tillöguflytjanda persónulega í stað þess að vera á málefnalegum nótum. Bloomberg þarf greinilega sitt. Minnt er á að skrifstofa borgarstjóra hefur ekki enn svarað fyrirspurn frá mér síðan í ágúst á hvaða lagagrunni móttaka 300 milljóna íslenskra króna byggi. Þær eiga að renna í rekstur borgarinnar. Mótframlag útsvarsgreiðenda í Reykjavík er 10.000 milljónir/10 milljarðar í hina svokölluðu „stafrænu umbreytingu Reykjavíkur“. Hvað liggur hér að baki? Hér er ferð án fyrirheits og markmiða. 

-    Kl. 20.20 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Rannveig Ernudóttir tekur sæti með rafrænum hætti. Skúli Helgason víkur af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti. 

5.    Fram fer umræða um erindi ESA til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um reikningsskil Reykjavíkurborgar. R21110167

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Nú hefur ESA – eftirlitstofnun EFTA sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu bréf með spurningum um hvernig ráðuneytið meti og útskýri sína skoðun á reikningsskilum Reykjavíkurborgar vegna Félagsbústaða. Ráðuneytið fékk frest til 15. nóvember sl. en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu í dag fékk ráðuneytið framlengdan frest til 29. nóvember nk. Ágreiningurinn snýr að því hvort Félagsbústaðir séu félagslegt húsnæðisfélag eða fjárfestingafélag. Í áliti borgarlögmanns þegar rætt var um hæfilegt ábyrgðargjald Félagsbústaða vegna eigandaábyrgðar Reykjavíkurborgar kemur skýrt fram að félagið sé ekki rekið í hagnaðarskyni heldur eigi að sinna félagslegri, lögbundinni þjónustu. Á meðan A-hlutinn er gerður upp samkvæmt kostnaðarverðsreglu og í samræmi við sveitarstjórnarlög og lög um ársreikninga eru reikningsskil Félagsbústaða gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Þetta misræmi og deilur innanlands um málið hefur nú fengið áheyrn ESA. Það eru engar smá upphæðir sem liggja undir en eftir að Reykjavíkurborg hóf þessa reikningsskilaaðferð hafa matsbreytingar Félagsbústaða numið á sjötta tug milljarða, áætlað er að matsverðsbreytingin skili rúmum 17 milljörðum árið 2021 og áætlað er að í árslok 2026 nemi þær samtals 100 milljörðum sem færast á rekstrarreikning og skapa því froðu sem því nemur í rekstri samstæðunnar. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fyrirspurn ESA til ráðuneytisins snýst um hvernig reikningsskilastaðlar hafi verið innleiddir varðandi uppgjör sveitarfélaga á mati eigna þeirra. Þá skal það tekið fram að engin efnisleg afstaða ESA liggur fyrir. Í málinu er ekki verið að gagnrýna reikningsskil Reykjavíkurborgar heldur aðeins verið að spyrja ráðuneytið út í lögleiðingu reikningsskilastaðla í íslensk lög og lagaframkvæmd á Íslandi í úrskurðum nefnda eða dómstóla. Mál þetta á rætur sínar í skoðunum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Þær skoðanir fengu ítarlega og faglega umfjöllun í endurskoðunarnefnd með ytri endurskoðendum á nokkrum fundum. Fundað var með fjármála- og áhættustýringarsviði sem óskaði álits óháðra sérfræðinga í reikningsskilum. Niðurstaðan var sú að núverandi reikningsskilaaðferð Félagsbústaða væri heimil og í samræmi við reikningsskilastaðla. Þá kom fram að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið úrskurðaði 11. júlí 2013 að: „Ráðuneytið staðfestir ákvörðun ársreikningaskrár frá 29. maí 2012 um að félaginu […] sé skylt til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, IFRS, við gerð ársreiknings síns fyrir árið 2011“. Þessi úrskurður er afdráttarlaus um að Félagsbústöðum sé skylt að beita IFRS og hafi ekki val um annað. Þá er þess að geta að þrjú hérlend endurskoðunarfyrirtæki, sem eru hluti alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja, hafa endurskoðað ársreikninga Félagsbústaða frá árinu 2004 og hafa ekki gert fyrirvara varðandi beitingu gangvirðis í reikningsskilum félagsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu bréf, þar sem ráðuneytið er krafið skýringa á reikningsskilum Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur síðustu ár tiltekið gríðarlegan hagnað sem hlýst af eignarhaldi Félagsbústaða á fasteignum við reikningsskil. Líkur eru á því að þessi aðferð sé andstæð löggjöf EFTA um reikningsskil vegna húsnæðis í eigu borgarinnar en á það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ítrekað bent og gert fyrirvara við ársreikninga borgarinnar vegna þessa. Skýrt er greint frá því í bréfi ESA að óheimilt sé að tiltaka hagnað af húsnæði í eigu hins opinbera samkvæmt stöðlum eftirlitsstofnunarinnar. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða eru vel reifaðar í ársskýrslunni. Félagsbústaðir eru til fyrir þá sem þurfa aðstoð við húsnæði. Borgin er ekki fasteignafélag, en seld er ein og ein íbúð og aðrar keyptar. Félagsbústaðir eiga yfir 2000 íbúðir, markmiðið er ekki að græða, en matsbreyting sem þarna er, þar sem verið er að tekjufæra endurmat á verðmæti íbúða, sem þýðir hærra fasteignamat, er fært sem tekjur. Ef þetta væri ekki gert væri hallarekstur 300 milljónir. Hvað ef fasteignamat lækkaði? Yrðu þá Félagsbústaðir reknir með halla þótt ekkert breyttist í rekstrinum (þetta má sjá í rekstrarreikning og yfirlit um heildarafkomu ársins 2020). Enda kemur fram að borgin hefur bókfært hagnað af félagslegu húsnæði með þessum reikningsskilum árum saman. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem dropinn hafi holað þennan stein, allavega smávegis. Farið er að kveða við aðeins annan tón, málið kallar ekki á eins neikvæð viðbrögð og áður í það minnsta. Því er fagnað að málið sé í ferli hjá ráðuneytinu.

6.    Fram fer umræða um félagslega blöndun í húsnæðisuppbyggingu borgarinnar. R21110168

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þessari umræðu er fagnað enda dregur Reykjavík vagninn í húsnæðisuppbyggingu, hvort sem er á almennum markaði, félagslegum eða óhagnaðardrifnum. Húsnæðisáætlun er lykiltæki við að framkvæma stefnu borgarinnar með áherslu á blöndun innan borgar, innan hverfa og innan mannvirkja. Þess vegna hafa Félagsbústaðir keypt ákveðið hlutfall íbúða í nær öllum nýjum uppbyggingarverkefnum á undanförnum árum og má segja að borgin eigi íbúð í hverjum einasta stigagangi í Reykjavík. Gott samfélag einkennist af því þegar allir eru með og jöfnuður ríkir frekar en ójöfnuður. Félagsleg einsleitni getur orðið ef fáar eða engar félagslegar íbúðir eru í sveitarfélagi eða hverfi en í því sambandi má nefna að Reykjavík á þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Því var lofað að félagsleg blöndun og fjölbreytni yrði höfð að leiðarljósi við skipulagningu nýrra hverfa í Reykjavík og framboð húsnæðis verði með þeim hætti að sem flestir geti flutt innan hverfis, þegar stækka eða minnka þarf við sig. Við hönnun íbúðabyggðar þarf að horfa til stærðar og gerðar íbúða fyrir mismunandi fjölskyldugerðir og mismunandi efnahag fólks. Þetta hefur ekki gengið eftir. Íbúðir eru ekki nógu hagkvæmar á þéttingarreitum því þar er dýrt að byggja. Meira en 90% allrar uppbyggingar í Reykjavík á síðustu árum hefur því verið á þéttingarsvæðum og þannig verður það áfram ef haldið er áfram með þéttingarstefnu meirihlutans í þeirri mynd sem hún er nú. Næstu ár mun 80% íbúðauppbyggingar í Reykjavík vera meðfram hinni nýju borgarlínu. Reykjavíkurborg þarf kerfisbundið að hækka það hlutfall þannig að þeir sem fái lóð geri ráð fyrir fleiri íbúðum ætluðum efnalitlum fjölskyldum. Kaupa þarf fleiri íbúðir á reitum sem verða framseldar til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða til að ná fram markmiðum um félagslega blöndun. Borgarstjórn Reykjavíkur ræður ekki yfir öðrum sveitarfélögum. Sjálfsagt er að ræða þessi mál við önnur sveitarfélög og sjá hvort þau sem sinna þessu minnst taki við sér.

7.    Lagt til að Páll Grétar Steingrímsson taki sæti sem varamaður í endurskoðunarnefnd í stað Diljár Mistar Einarsdóttur. R18060102
Samþykkt.

8.    Lagt til að Stefanía Sigurðardóttir taki sæti í íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals í stað Freys Gústavssonar og að Freyr verði varamaður Stefaníu í ráðinu í stað Garðars Sævarssonar. Jafnframt er lagt til að Stefanía verði formaður ráðsins. R19090035
Samþykkt.

9.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. nóvember 2021. R21010001
6. liður fundargerðarinnar frá 11. nóvember; gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. er samþykktur. R21100377
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar frá 11. nóvember.

Borin er upp til atkvæðagreiðslu gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS). Fulltrúi Flokks fólksins er með spurningar enda margt óljóst sem tengist gjaldskránni. Í gr. 11, 2. málsgrein kemur fram ,,að þar sem um sérstakan viðbúnað er að ræða, sbr. 12.-14. gr., er að lágmarki innheimt fyrir fjóra starfsmenn í tvær klukkustundir, eða 190.836 kr.“ Fulltrúi Flokks fólksins telur að þarna sé verið að misnota sérstöðu slökkviliðsins þar sem annað er ekki í boði. Í 12. gr., 2 málsgrein er sagt „Slökkvistörf [...] s.s. eldur í vinnuvélum og bifreiðum […] falla ekki undir lögin“. Getur slökkviliðið þá rukkað eftir geðþótta? Í 13. gr. segir að upphreinsun sem fellur ekki undir 3. gr. sé sinnt enda þótt ekki sé mælt fyrir um það og á það að vera matskennt. Allt sem er matskennt er viðsjárvert í svona löguðu. Og hvers konar upphreinsun er hér átt við? Í 14. gr. kemur fram að SHS sinni útköllum vegna vatnsleka og að tryggingafélög hafi borgað SHS fyrir þetta hingað til. Hvernig er þetta í dag? Er þetta greitt af tryggingafélögunum? Of margt er óljóst í þessari gjaldskrá og greinum hennar og það á við um fleira í starfi SHS og situr fulltrúi Flokks fólksins því hjá. 

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. nóvember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. nóvember, skipulags- og samgönguráðs frá 3. og 10. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 9. og 10. nóvember og velferðarráðs frá 3., 5. og 10. nóvember. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október og 14. og 15. lið í sömu fundargerð:

Spurt var m.a. um aðgerðir sem snúa að fækkun sjálfsvíga. Aðgerðir borgarinnar eru háðar aðgerðum ríkisins sem er slæmt. Um þessar mundir er áherslan á að gefa út leiðbeiningar í samvinnu við aðstandendur þeirra sem svipt hafa sig lífi. Notast er við norskar leiðbeiningar. Fulltrúi Flokks fólksins vill einnig benda á að margt er til á íslensku sem hægt væri að nýta. Oft þarf ekki að leita langt yfir skammt. Þátttaka aðstandenda við gerð leiðbeininga af þessu tagi skiptir öllu máli. Hjálp og stuðningur frá öðrum aðstandendum sem lengra eru komnir í sorgarferli sínu er ómetanleg. Þátttaka aðstandenda er auk þess mikilvæg í allri stefnumótun og aðgerðaráætlunum í tengslum við innleiðingu geðræktarstarfs og forvarna til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Liður 14 og 15 í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 9. október. Spurt var af hverju foreldrar barna sem eru að hefja leikskólagöngu geti ekki fengið dagsetningu uppgefna þegar líður að haust. Þetta veldur álagi á foreldra sem hafa engin önnur ráð og í sumum tilfellum ekki annan kost en að segja upp samningi hjá dagforeldri. Helsta ástæðan er mannekla. Tímabært er að laga þessa hluti að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Fundi slitið kl. 21:50

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon     Kolbrún Baldursdóttir