B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 18. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Pálsdóttir og Örn Þórðarson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.       Fram fer umræða um innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030.

-        Kl. 14:04 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum.

-        Kl. 14:07 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

-        Kl. 15:43 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Diljá Mist Einarsdóttir tekur þar sæti.  R17010123

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Menntastefna Reykjavíkurborgar er tímamótaverk sem varð til í lýðræðislegu ferli með aðkomu þúsunda í skólasamfélaginu yfir tveggja ára tímabil. Stefnunni fylgir skýr forgangsröðun um þá hæfniþætti barna sem sérstaklega skuli efla: félagsfærni, sjálfseflingu, heilbrigði, sköpun og læsi. Markviss aðgerðaáætlun er í gildi og allir leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar hafa fengið fjármagn til að innleiða stefnuna með skýrum hætti. Mikil áhersla hefur verið lögð á starfsþróun og yfir 6.500 þátttakendur hafa nýtt sér starfsþróunartilboð, fjármagn til skólaþróunar er tryggt m.a. með fjölbreyttum samstarfsverkefnum og aflað hefur verið á annað hundrað milljóna úr evrópskum sjóðum til alþjóðlegra samstarfsverkefna sem styrkja faglegt starf skólanna í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030 tekur á mörgum málum og er metnaðarfullt plagg en það er ekki nóg að vera með fögur fyrirheit því fjármagn og fagfólk verður að fylgja með. Tryggja þarf skólum það faglega sjálfstæði að þeir geti komið til móts við og sinnt börnum með sérþarfir eins og þau eiga rétt á. Stjórnendur verða að hafa það vald og traust að geta metið þessar aðstæður því ekki fylgja greiningar/peningar með öllum börnum með sérþarfir og eru þá tilfærslur á fjármagni frá nemendum með fjármagn algengar og geta haft áhrif á þjónustu. Tryggja þarf að stjórnendur skóla geti mannað þær stöður sem þarf hverju sinni. Talmeinafræðingar, sérkennarar, iðjuþjálfar og þroskaþjálfar verða að vera aðgengilegir börnum sem þurfa á stuðningi að halda ef skólarnir eiga að standa undir stefnu borgarinnar. Sérstaklega á þetta við um minni skóla þar sem þörfin getur verið mismunandi milli ára. Mikilvægt er að tryggja faglegt sjálfstæði skóla, minnka miðstýringu og yfirbyggingu og færa fjármagn beint til skóla. Þá er mikilvægt að hafa mælanleg markmið en aðeins ein mæling hefur verið gerð af flestum þáttum frá árinu 2018.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Heiti menntastefnunnar er „Látum draumana rætast“. Til að draumar allra barna geti ræst er mikilvægt að börn fái ekki þau skilaboð að draumar þeirra séu of dýrir. Þegar gjaldskrár Reykjavíkurborgar eru skoðaðar getur munað um tíu þúsund krónum á mánuði fyrir einstætt foreldri að skrá barn sitt úr leikskóla, í grunnskóla með mataráskrift og frístundaheimili að loknum leikskóla. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að skólar séu að fullu gjaldfrjálsir og að börnum og ungmennum séu tryggðar gjaldfrjálsar tómstundir. Þá er einnig mikilvægt að öll sú þjónusta sem börn eiga rétt á sé færð inn í skólana svo að börn og fjölskyldur þeirra séu ekki að ferðast til og frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Margt er gott í þessari stefnu en stefna leysir engin vandamál nema henni sé fylgt eftir með framkvæmdum. Mestu skiptir að börn stundi nám þar sem þeim líður vel og mæta þarf þörfum allra barna. En það er ekki raunin á vakt þessa né síðasta meirihluta. Flokkur fólksins greiddi atkvæði með stefnunni á sínum tíma í þeirri von að tekist væri á við það sem þarf að bæta. Vandinn er m.a. að skólaþjónustan er sprungin og ekki er hreyfður fingur til að bæta þar úr þrátt fyrir hávært ákall. Nú bíða 1033 börn eftir þjónustu. „Skóli án aðgreiningar“ fær ekki nægt fé til að bera nafnið með rentu. Ekki öll börn stunda nám þar sem þau finna sig meðal jafningja. Sérskólaúrræðin eru löngu yfirfull. Mikið álag er á mörgum kennurum/sérkennurum og starfsfólki. Ekki eru samræmdar árangursmælingar á hvort sérkennsla skilar sér. „Snemmtæk íhlutun“ er auðvitað sjálfsagt mál og hefur alltaf verið en kemur ekki í staðinn fyrir sértækar greiningar. Hætta er á að barni sé ekki veitt rétt meðferð ef vandi þess er ekki greindur með gagnreyndum mælitækjum. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% drengja um 15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega.

-        Kl. 16:00 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga víkur af fundi.

2.       Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að ljúka skipulagsvinnu vegna gatnamóta við Bústaðaveg og Arnarnesveg við Breiðholtsbraut án tafar svo unnt verði að framkvæma úrbætur í samræmi við samgöngusáttmálann. Enn fremur verði ekki frekari tafir á hönnun Sundabrúar og Sundabrautar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21050206

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt samgöngusáttmála átti að ljúka endurbótum á Bústaðavegi og Arnarnesvegi með nýjum gatnamótum á yfirstandandi ári; 2021. Það hefur ekki gerst og er ekkert sem bendir til þess að þessum framkvæmdum ljúki á þessu kjörtímabili. Þá hefur undirbúningur við Sundabraut stöðvast og er ekkert verið að vinna að hönnun þrátt fyrir skýra niðurstöðu í samráðsnefnd sem borgin sjálf, Faxaflóahafnir og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu áttu aðkomu að. Með því að vísa þessari tillögu frá er borgarstjórnarmeirihlutinn að staðfesta þann vilja sinn að standa ekki við þá tímaáætlun sem borgin staðfesti sjálf í framkvæmdaáætlun samgöngusáttmála árið 2019.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Skipulagslýsing vegna Arnarnesvegar hefur verið sett í auglýsingu sem er undanfari deiliskipulagsauglýsingar. Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar liggja á viðkvæmu svæði nálægt íbúðabyggð og vinsælu útivistarsvæði. Áætlanir framkvæmdaaðila gera ráð fyrir að vinnu við frumdrög gatnamótanna við Bústaðaveg ljúki á þessu ári. Þá á eftir að ráðast í vinnu við umhverfismat sem þarf að vera lokið áður en hægt er að fullklára skipulagsferlið. Því er hafnað að verið sé að tefja skipulagsvinnu vegna ofannefndra framkvæmda eða brjóta samgöngusáttmálann og er tillögunni vísað frá.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg leggur alla þá steina sem hægt er í götu samgöngusáttmálans og greiðari umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Undirskrift borgarstjóra á samninga- og sáttmála við ríkið er ekki pappírsins virði. Hvenær gefst ríkið upp gagnvart efndaleysi og ósannindum borgarstjóra?

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hefði ekki getað samþykkt þessa tillögu vegna þessa að í henni er verið að reka á eftir að ljúka skipulagsvinnu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Arnarnesveg hafa verið kærðar af vinum Vatnsendahvarfs og afgreiða verður kærumál áður en framkvæmdir hefjast. Hagur borgarinnar af þessari framkvæmd er lítill, en ókostir eru margir. Þúsundir fugla, þar á meðal lóur, hrossagaukar og spóar verpa á svæðinu og verulega er þrengt að fyrirhuguðum vetrargarði og framtíðarþróun hans er því í uppnámi. Byggja á framkvæmdina á 18 ára umhverfismati. Lögfræðingur Vegagerðarinnar reynir að fá kærunni vísað frá á þeim rökum að vinir Vatnsendahvarfs séu ekki skráð hagsmunasamtök. Því er velt upp hvort fólk sem „dílar og vílar“ með þetta svæði hafi ekki séð það með eigin augum heldur skoði það aðeins á kortum. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur sem flesta til að koma á staðinn og sjá hvernig landið liggur. Á sama tíma og þetta er að gerjast talar meirihlutinn um grænar áherslur, aukið gildi náttúruverndar og útivistar. Engu að síður er búið að kvitta upp á að setja hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarfið og ekki aðeins skaða lífríkið heldur er brautin einnig ofan í leiksvæði barna, skíðalyftunni og svo auðvitað væntanlegum vetrargarði.

3.       Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hefja nú þegar deiliskipulag fyrir blandaða byggð í Úlfarsárdal. Áhersla verði lögð á blandaða byggð – sérbýli og fjölbýli. Sérbýlin verði allt frá 120 m2 par- og raðhúsum í stærri einbýlishús með góðum görðum og nýtingarhlutfall einbýlishúsalóðanna verði ekki meiri en 0,25. Fjölbýlishúsin verði lyftulaus og íbúðir á jarðhæð hafi sérgarð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21050209

-        Kl. 17:23 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi og Aron Leví Beck tekur þar sæti.

-        Kl. 18:10 víkur Sabine Leskopf af fundi og Dóra Magnúsdóttir tekur þar sæti. 

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% í apríl og um 3% í mars. Það er mesta hækkun á einum mánuði frá 2007. Síðustu þrjá mánuði var hækkun vísitölunnar 6,7%, síðustu 6 mánuði 8,3% og um 13,7% á ársgrunni. Heimild: Þjóðskrá. Það er sannað að þétting byggðar í grónum hverfum er mun kostnaðarsamari en að byggja íbúðahúsnæði á nýjum reitum. Þessar staðreyndir endurspegla ástandið í Reykjavík í dag og þær íbúðir sem koma í sölu hafa mjög hátt fermetraverð. Það leiðir til þess að ungt fólk á mjög erfitt með að eignast sína fyrstu íbúð. Nýtilkomin hlutdeildarlán ríkisins, sem er langbesta úrræðið sem komið hefur fram síðustu áratugi nýtist lítt fyrir ungt fólk í Reykjavík því gríðarlegur skortur er á hagkvæmum íbúðum sem falla undir úrræðið vegna þéttingarstefnunnar. Borgin og ríkið eru því að ganga í sitthvora áttina. Enginn vilji virðist vera hjá borgarstjóra og meirihlutanum að fjölga úrræðum í borginni fyrir venjulegt fólk sem vill komast af leigumarkaði og í sitt eigið húsnæði. Þar með er borgin að bregðast skyldum sínum sem höfuðborg.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Úlfarsárdalur er í hraðri uppbyggingu og hefur lóðum þar verið úthlutað til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis af miklum krafti á undanförnum árum. Á sama tíma hefur langstærsta fjárfesting Reykjavíkur verið í Úlfarsárdal en það er menningarmiðstöð, bókasafn, leikskóli, grunnskóli, sundlaug og önnur íþróttamannvirki fyrir borgarhlutann. Á þessu ári áætlar borgin að úthluta lóðum fyrir 1.028 íbúðir, í Skerjafirði, Bryggjuhverfi III í Grafarvogi, Gufunesi, Úlfarsárdal og Kjalarnesi. Er það gert samkvæmt húsnæðisáætlun borgarinnar. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur voru um 3.000 íbúðir í Grafarholti og Úlfarsárdal en samkvæmt nýjustu breytingu er gert ráð fyrir að fjölga íbúðum þar í um 768 á tímabilinu. Samanlagt væri íbúðafjöldi í borgarhlutanum aðeins minni en heildarfjöldi íbúða í Árborg.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 14% á síðustu tólf mánuðum. Ástæðan er ekki síst lóðaskortur í boði núverandi meirihluta sem hefur vanrækt hlutverk sitt í þessum efnum. Athygli vekur að sérbýli hækkar mest eða um 16% á síðustu tólf mánuðum. Þessar tölur sýna að markaðurinn er ekki í jafnvægi enda eru nær engar lóðir í boði hjá borginni, langstærsta sveitarfélagi landsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessi tillaga felur í sér blandaða byggð – sérbýli og fjölbýli. Sérbýlin verði allt frá 120 m2 par- og raðhúsum í stærri einbýlishús. Aukin uppbygging er af hinu góða en fulltrúi sósíalista getur ekki stutt þessa áherslu á sérbýli og sér ekki að það sé til þess fallið að mæta þörfum ungs fólks. Þá er mikilvægt að tryggja aðgengi að húsnæði og því ekki hægt að styðja óaðgengileg lyftulaus fjölbýli líkt og fram kemur í tillögunni. Hvað varðar húsnæðisuppbyggingu er mikilvægt að aðlaga stefnu þannig að hún verði ekki bara fyrir þá efnameiri.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Umræðan um Úlfarsárdal, blandaða byggð, hefur verið gagnleg og vill fulltrúi Flokks fólksins nefna nokkur atriði í tengslum við þetta hverfi en mikið hefur gengið þar á að undanförnu. Kærur hafa verið allt of margar. Uppbygging sumra lóða hefur tafist og eru þær lóðir jafnvel notaðar fyrir byggingarúrgang. Skoða þarf umferðaröryggi, ljósastýringu, lýsingu, þveranir, göngu- og hjólastíga en íbúar, margir hverjir, hafa lýst áhyggjum sínum af þessum þáttum. Kvartað hefur verið yfir að tilfelli eru um að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Einnig eru kvartanir vegna synjunar skipulagsyfirvalda án sýnilegra raka, t.d. stækkun glugga, framkvæmdir sem enginn hefur mótmælt og hefur ekki áhrif á umhverfið. Skipulagsyfirvöld verða að taka tillit til íbúa, þótt uppbygging sé á valdi þeirra. Húsnæði í þessu nýja hverfi er nokkuð einsleitt. Fram hefur komið hjá fulltrúa meirihlutans að til séu lóðir á þessu svæði sem bjóða upp á meira rými umhverfis, lóðir sem ekki hafa gengið út. Það er ánægjulegt að heyra þótt heyrst hafi annað, að ekki sé hægt að fá slíkar lóðir í þessu hverfi.

-        Kl. 18:22 er gert hlé á fundi.

-        Kl. 18:55 er fundi fram haldið.

4.       Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að vinna aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni. Reykjavíkurborg er vinnustaður, borg þar sem ýmis starfsemi fer fram og jafnframt rými þar sem fólk kemur saman á ólíkum stöðum. Mikilvægt er að borgin geri allt sem hægt er til að vinna gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Hér þarf t.a.m. að skoða forvarnir, fræðslu, verkferla og öryggi á vinnustað. Samfélagið og hið opinbera þarf að bregðast við þeim frásögnum sem hafa borist frá þolendum kynferðisofbeldis sem hafa stigið fram með reynslu sína. Lagt er til að ofbeldisvarnarnefnd verði falið að leiða vinnuna við mótun aðgerðaáætlunarinnar og að samráð verði haft við viðeigandi aðila, svo sem starfsfólk borgarinnar, fyrirtækja í eigu borgarinnar og samtök sem vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Lagt er til að aðgerðaáætlunin verði síðan lögð fram í borgarstjórn.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21050208

Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018 til 2020 var samþykkt í borgarstjórn 15. maí 2018. Endurskoðuð aðgerðaáætlun fyrir 2021 til 2023 er á lokametrunum og allar tillögur velkomnar. Það er því ekki hægt að samþykkja gerð aðgerðaáætlunar þar sem aðgerðaáætlunin er til. Engu að síður var mikilvægt að ræða #metoo og það ákall sem til staðar er í samfélaginu um þolendavænt samfélag. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að bregðast við og við tökum því hlutverki alvarlega og munum eftir sem áður hafa ofbeldisvarnir í forgangi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að vinna aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni sem hér er lögð fram af Sósíalistaflokki. Tillögunni er hins vegar vísað frá. Í þessum málaflokki er seint nóg gert. Það er ekki nóg að hlusta aðeins heldur þarf að bregðast við. Viðbrögð í formi viðeigandi stuðnings, fræðslu og eftirfylgni mála. Ekki nægir að leggja fram aðgerðaáætlanir ef þær eru ekki innleiddar. En mótun aðgerðaáætlunar er fyrsta skrefið. Ofbeldi er í mörgum birtingamyndum og er einelti þar með talið. Af og til koma fram upplýsingar um einelti sem viðgengst hefur á einstaka vinnustöðum borgarinnar. Kjörnir fulltrúar vita oftast lítið sem ekkert hvernig gengur að vinna úr þeim málum, því miður. Í þeirri bylgju sem nú er í hæstu hæðum hafa fjölmargir þolendur stigið fram og greint opinberlega frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og samfélagslegu. Gerendur hafa einnig stigið fram og hugtakið gerendameðvirkni er nýtt sem mun opna fyrir nýjan skilning og nýjan vinkil á þessum erfiðu málum. Í öllum samfélögum er eitthvað ofbeldi en ótal margt er hægt að gera til að vinna að því að það dragi úr ofbeldi. Reykjavíkurborg er hér stór ábyrgðaraðili.

5.       Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að veita auknu fjármagni til skólanna, þ.e. kennara og starfsfólks frístundaheimila og ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans), til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Þetta er lagt til í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt. Styðja þarf jafnframt við bakið á samtökum, s.s. Heimili og skóla (Landssamtök foreldra) sem reka einnig SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) og Samfok (Svæðissamtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík). Markhópur þessara samtaka eru foreldrar/forsjáraðilar. Markmiðið er að veita þeim fræðslu og stuðning m.a. með því að halda málþing og námskeið. Skóla- og frístundasvið, skólastjórnendur, starfsfólk frístundaheimila og hagsmunasamtök barna og foreldra þurfa nú að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast grannt með net- og tölvunotkun barna sinna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21050207

Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að auknu fjármagni verði veitt til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs hefur verið vísað frá með rökum sem reyndar eru fulltrúa Flokks fólksins ekki ljós. Tillagan er lögð fram í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd. Ljóst er af þessum niðurstöðum að við höfum sofnað á verðinum. Það er ábyrgð okkar að sjá til þess að börn fái þjálfun að viðhafa gagnrýna hugsun og hvetja þau til að „vingast“ ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er. Það er áfall fyrir foreldra að uppgötva að barnið þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Að hafa dreift sjálfsmynd sem komin er í dreifingu er einnig byrði fyrir unga manneskju. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur áður sagt er biðlisti hjá Skólaþjónustunni í sögulegu hámarki en nú bíða 1033 börn eftir aðstoð fagaðila vegna ýmissa vandamála og vanlíðunar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Unnið er að forvörnum vegna klámáhorfs barna á vettvangi ofbeldisvarnarnefndar, Jafnréttisskólans og sem hluta af heilsueflandi skóla. Þessi tillaga er því í vinnslu á ýmsum stöðum innan borgarkerfisins og því rétt að vísa henni frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að megi gera betur í þessum málum og sérstaklega styðja við innviði skóla- og frístundafólks. Til er fjármagn í borgarsjóði sem vert væri að setja í þennan málaflokk nú þegar ljóst er að við sem samfélag og borg höfum sofnað á verðinum eins og niðurstöður Rannsóknar og greiningu sýna í þessum málum.

6.       Fram fer kosning forseta borgarstjórnar. R18060080

Forseti er kosinn Alexandra Briem með 22 atkvæðum.

7.       Lagt er til að Diljá Ámundadóttir Zoëga taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd í stað Alexöndru Briem. R18060080

Samþykkt.

8.       Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur. R18060082

Samþykkt.

9.       Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur og að Valgerður Árnadóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Alexöndru Briem. Einnig er lagt til að Pawel Bartoszek verði kjörinn formaður ráðsins. R18060086

Samþykkt.

10.     Lagt er til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í umhverfis- og heilbrigðisráði í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur. Jafnframt er lagt til að Valgerður Árnadóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Rannveigar. R18060088

Samþykkt.

11.     Lagt er til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í velferðarráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Valgerður Árnadóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Rannveigar. R18060089

Samþykkt.

12.     Lagt til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Dóra taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Alexöndru Briem. R19040033

Samþykkt.

13.     Lagt til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í íbúaráði Kjalarness í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur. R19090038

Samþykkt.

14.     Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. maí. R21010001

-        Kl. 20:25 er gert hlé á fundi.

-        Kl. 20:55 er fundi fram haldið.

- 4. liður fundargerðarinnar, Laugardalur, austurhluti deiliskipulag, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20020112

- 6. liður fundargerðarinnar, Vogabyggð, svæði 2 deiliskipulag, er staðfestur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R21040100

- 7. liður fundargerðarinnar, Hraunbær 133, deiliskipulag, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R21020130

- 14. liður fundargerðarinnar, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.  R21010107

- 15. liður fundargerðarinnar, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 vegna COVID-19, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21010107

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. og 6. lið lið fundargerðarinnar:

4. liður: Hér er verið að fylgja eftir samþykkt borgarráðs frá 2018 sem samþykkt var einróma að fela umhverfis- og skipulagssviði að finna lóðir fyrir smáhýsi. 6. liður: Í þessu máli takast á tvö sjónarmið. Annars vegar þau sjónarmið að íbúar eigi að ráðstafa sínum sérafnotareitum með þeim hætti sem þeir kjósa og hins vegar sjónarmiðin um gróðurþekju og líffræðilega fjölbreytni á svæðinu. Umsóknin gengur út á að breyta skipulagi þannig að krafan um gróðurþekju á sérafnotareitum víki, án þess að bætt sé fyrir það með gróðurþekju annarsstaðar til að koma til móts við heildarhugsunina, með þeim afleiðingum að heildargróðurþekja á svæðinu öllu lækkar. Það er ábyrgð verktaka að gróðurskilmálar séu virtir og að hönnun styðji við þá skilmála, einnig að kaupendur séu upplýstir um skilmála samkvæmt deiliskipulagi. Á þeim forsendum er ekki unnt að verða við beiðni um deiliskipulagsbreytingu. Komi fram aðrar hugmyndir að hönnun sem hvort tveggja koma til móts við óskir væntanlegra íbúa og falla að kröfum um heildargróðurþekju er mögulegt að senda inn fyrirspurn á skipulagsfulltrúa til að fá viðbrögð við því hvernig þær nýju hugmyndir kunni að samrýmast skipulagsáætlunum fyrir svæðið.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. og 6. lið fundargerðarinnar:

4. liður: Mikilvægt er að taka á vanda húsnæðislausra með raunhæfum og góðum lausnum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að Laugardalurinn fái að vera í friði fyrir íbúðaáformum, hvort sem um er að ræða smáhýsi eða stórhýsi. 6. liður: Forræðishyggjan birtist víða. Hér er meirihlutinn að hafna þeirri ósk íbúa og verktaka að íbúar fái að ráða þeim litlu svæðum sem þeir hafa í görðum sínum. Því erum við ósammála og teljum að fólk eigi að hafa athafnafrelsi á heimilum sínum og í görðum. Þá vekur athygli að þótt ekki eigi að tryggja íbúum frelsi um ráðstöfun eigin garða, er ekki fyrirhugað að framkvæma lokaúttekt á sérafnotareitunum. Á sama tíma og íbúar eru skikkaðir til að rækta pínulitla berjarunna er verulega vegið að grænum svæðum borgarinnar sem henni hefur verið treyst fyrir.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 20. lið fundargerðarinnar:

Kolsvört eða réttara sagt eldrauð starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kynnt. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur kallað eftir henni í marga mánuði. Skýrslan spannar tímabilið frá maí 2019 til nóvember 2020. Á henni er augljóst að ekki er hægt að kenna COVID-19 um lélegan vinnuanda innan slökkviliðsins. Stofnaðir voru úrbótahópar í maí 2019 sem komu með tillögur að úrbótum sem greinilega hafa misst marks því í nóvember 2020 eru allir þættir sem spurt var um komnir á rautt sem flokkast meðalgóður árangur og undir. Mikil óánægja er með starfshætti innan slökkviliðsins. Borgarstjóri er formaður stjórnar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Það er hreint með ólíkindum að hann hafi ekki tekið af málinu með festu til að laga ástandið. Í staðinn eru undirmenn látnir fara.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 6. lið fundargerðarinnar:

4. liður: Fulltrúi Flokks fólksins hefur stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð og það er einmitt eitt af baráttumálum Flokks fólksins Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði á sólarhringsvakt til að styðja við einstaklingana í þeirra nýja umhverfi. Um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda og þurfa einhverjir þeirra bæði mikla þjónustu og stuðning. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist. 6. liður: Krafa um að hafa berjarunna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þegar hanna á hverfi sé reynt að stíla inn á ákveðið heildarútlit. Gæta þarf þess að fara ekki út í öfgar með slíkt eins og gerst hefur í þessu máli sem fjallar um að íbúar eru neyddir til að hafa gróðurþekjur og berjarunna innan sérafnotareita íbúða sinna. Hér hefðu mátt vera tilmæli en sannarlega ekki gera kröfur um slíkt. Um er að ræða lítinn reit sem sjálfsagt er að leyfa fólki að ráða hvernig er skipulagt. Íþyngjandi kröfur af hálfu borgarinnar eru forræðishyggja.

15.     Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. maí, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 5. og 12. maí, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 5. maí og velferðarráðs frá 30. apríl og 5. maí. R21010063

B-hluti fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 12. maí er samþykktur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. og 10. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

Nú liggur fyrir gjaldskrá sumarnámskeiða í Fjölskyldugarðinum. Hálfsdags námskeið í 5 daga hækkar og kostar nú 19.400 og 4 daga 15.500. Í þessi námskeið er ekki hægt að nota frístundakortið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til að opnað verði fyrir að nota frístundakortið á sumarnámskeið m.a. Kortið er langt því frá að vera fullnýtt allt niður í 65% til 70% í einstaka hverfum. Reglurnar voru endurskoðaðar í haust og viðmiðið lækkað úr 10 vikum í 8 vikur. En sú breyting nær skammt. Hópur foreldra er svo bágstaddur að þeir hafa þurft að nota frístundakort barns síns til að greiða frístundaheimili. Væri ekki nær að leyfa þessum börnum að nota sjálf sinn rétt til kortsins á t.d. sumarnámskeið og styrkja foreldrana sem hér um ræðir sérstaklega til að greiða gjald frístundaheimilis samkvæmt gr. 16 grein b í reglum um fjárhagsaðstoð? Liður 9, gjaldskrá hunda. Að innheimta hundagjald og hafa skráningar er óviðunandi og ósanngjarnt ef horft er til þessa hóps sem heldur gæludýr. Vissulega hefur orðið einhver þróun til betri áttar, t.d. eru störf dýraþjónustunnar nú eilítið gagnsærri en áður. Þróun þessara mála í borginni er afar hæg borið saman við aðrar borgir.

Fundi slitið kl. 21:33

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson                                                                Örn Þórðarson