B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 19. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Aron Leví Beck Rúnarsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Þórdís Pálsdóttir, Berglind Eyjólfsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Dóra Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október sl. R18010207

-    Kl. 15:15 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum og Þórdís Pálsdóttir víkur af fundi. 
-    Kl. 15:19 tekur Jórunn Pála Jónasdóttir sæti á fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson víkur af fundi. 
-    Kl. 16:00 víkur Berglind Eyjólfsdóttir af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur sæti. 

Samþykkt. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkur til 2030 með aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum hefur verið unnin í þverpólitísku samstarfi fulltrúa allra flokka í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði frá hausti 2019. Þannig skipa sex fulltrúar stýrihópinn, jafn margir frá meirihluta og minnihluta í stað oddatölu sem venjan er, enda hefur verið lögð mikil áhersla á gott samstarf og sátt milli flokka. Byggir stefnan á niðurstöðum umfangsmikils og metnaðarfulls samráðsferils sem lögð var áhersla á að væri aðgengilegur öllum óháð fötlun, stöðu og tungumálakunnáttu þar sem boðið var upp á víðtækt samtal um lýðræði og þátttöku í Reykjavík. Opið samráðsferli stóð yfir bæði við upphaf og lok vinnunnar, skipulagðir voru rýnihópar með slembivöldum íbúum borgarinnar, haldnir voru margir vinnufundir með starfsfólki í stjórnsýslunni, opinn fundur fyrir íbúa, fundir með íbúaráðum, umsagnarferli í ráðum og nefndum sem og vinnustofa kjörinna fulltrúa. Drög að lýðræðisstefnu sem lágu fyrir við lok síðasta kjörtímabils hafa nýst sem mikilvægt gagn við vinnuna. Markmið stefnunnar eru fjögur og endurspegla hringrás lýðræðislegra vinnubragða sem eru að hlusta, rýna, breyta og miðla og undir þau heyra undirmarkmið sem svo er fylgt eftir með aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum til þriggja ára. Sérstakt áhersluatriði meðal aðgerða er að efla gagnsæi, upplýsingamiðlun og lýðræðislega þátttöku ungmenna.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Áherslur meginmarkmiða byggja á fjórum þáttum sem eru að: 1. Starfrækja skilvirkar leiðir fyrir borgarbúa til að hafa áhrif á ákvarðanir með nýstárlegum aðferðum á forsendum þeirra sjálfra. 2. Tryggja aðgengi til að stuðla að jafnrétti og inngildingu svo að allir hópar samfélagsins hafi jöfn tækifæri til aðkomu að ákvarðanatöku. 3. Auka vitund borgarbúa um ólíkar leiðir sem í boði eru til að koma sjónarmiðum sínum áleiðis. 4. Skýra mismunandi stig þátttöku, upplýsa um feril ákvarðanatöku og skapa þannig raunhæfar væntingar. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að huga að og tryggja aðgengi borgarbúa til að koma sinni rödd á framfæri. Mikilvægt er að tryggja aðgengi, þannig að íbúar með fötlun mæti ekki hindrunum. Ýmsir þættir geta haft áhrif á það að erfitt getur verið fyrir suma að koma sínum skoðunum áleiðis. Þar má nefna efnahagslega stöðu, tímaskort vegna anna og tungumálakunnáttu. Til að heyra fjölbreyttar raddir íbúa þarf borgin að vera meðvituð um ólíka stöðu borgarbúa í allri starfsemi og þjónustuveitingu sinni. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem segir að tekið hafi verið mark á fjölmörgum ábendingum og umsögnum sem og athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu við gerð lýðræðisstefnu. Markmið lýðræðisstefnunnar, sem eru fjögur, að hlusta, rýna, breyta og miðla, eru góð og verður þeim vonandi fylgt eftir með aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum til þriggja ára. Sérstakt áhersluatriði er lýðræðisleg þátttaka ungmenna sem er afar ánægjulegt. Á ýmsu hefur gengið á kjörtímabilinu fram til þessa þegar kemur að „samráði“ við borgarana. Samráð, gegnsæi og traust er kjarni þess að hægt sé að byggja upp lýðræðislegt samfélag að mati fulltrúa Flokks fólksins. Auk samráðs þar sem aðilar koma saman til að taka grundvallarákvarðanir sem lúta að borgarmálum þarf meira gegnsæi. Einnig telur fulltrúi Flokks fólksins að auka þurfi almennt lýðræði þannig að látið sé t.d. af forræðishyggju gagnvart fullorðnu fólki og ákvörðunum þess um hvernig lífsstíl það velur að að tileinka sér. Hér er átt við málefni eins og hvernig samgöngumáta fólk velur sér og til dæmis hvenær það, sem eldra fólk, ákveður að yfirgefa vinnumarkaðinn. Traust á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er lítið sem stendur en mun án efa vænkast verði þessari lýðræðisstefnu fylgt af heilindum og ábyrgð.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að skipulagi Keldnalands og Keldnaholts verði flýtt. Þá samþykkir borgarstjórn að íbúðir verði skipulagðar við BSÍ-reit og lóðum verði úthlutað við Halla á M22 í Úlfarsárdal. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að skila nánari útfærslu til skipulags- og samgönguráðs svo fljótt sem verða má.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100369
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Brýn þörf er á að fara í uppbyggingu á hagstæðum byggingarreitum í Reykjavík. Tillaga um 3.000 íbúðir í Úlfarsárdal, við Keldur og BSÍ er hóflegt fyrsta skref til að vinda ofan af skortsstefnu sem hefur leitt til hærri húsnæðiskostnaðar í Reykjavík. Borgin skuldbatt sig til að skipuleggja Keldnalandið í tengslum við lífskjarasamninginn 2019. Það hefur ekki verið gert. Allir innviðir eru tilbúnir í Úlfarsárdal og skipulag M22 liggur fyrir. Engin rök eru fyrir því að hafna þessari tillögu, en uppsafnaður vandinn verður ekki leystur með þróunarverkefnum einum saman.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ítrekað er látið í veðri vaka að ekkert sé byggt í Reykjavík meðan staðreyndin er sú að undanfarin 2-3 ár hafa verið metár þegar kemur að uppbyggingu nýrra íbúða og hafa yfir 1000 nýjar íbúðir komið inn á markað árlega frá 2019. Um 2000 íbúðir eru í byggingu og 3000 íbúðir eru á deiliskipulögðum svæðum. Með Ártúnshöfðanum munu deiliskipulögð svæði fyrir hátt í 4000 íbúðir bætast við. Stærsta svæðið í tillögunni, Keldur/Keldnaholt, er skilgreint þróunarsvæði og ekki er skynsamlegt að forgangsraða uppbyggingu þar ofar annarri uppbyggingu sem þegar er komin lengra í skipulagsferli.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Síðustu 10 ár hafa að jafnaði komið 500 íbúðir inn á markaðinn á ári. Það er langt undir því sem þörf er á. Hægt gengur með þróunarreiti sem ganga nú kaupum og sölum á milli fjárfestingasjóða. Miklar tafir eru á þróunarreitum sem auk þess eru mjög kostnaðarsamir. Núgildandi húsnæðisáætlun borgarinnar dugar engan veginn enda hækkar húsnæðisverð gríðarlega. Sérbýli hefur hækkað um 21% á síðustu 12 mánuðum enda mikil eftirspurn og ekkert framboð af byggingarlóðum fyrir sérbýli hjá borginni. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt að flýta íbúðauppbyggingu þar sem fjöldi fólks er á bið eftir húsnæði sem hentar þeirra þörfum og er að greiða allt of hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að húsnæðisuppbygging fari fram á félagslegum forsendum en í tillögunni er ekki fjallað um hvernig íbúðir eigi að byggja. Sé miðað við óbreytt ástand færi einungis um 25% af þessum íbúðum í hið óhagnaðardrifna kerfi sé litið til núverandi húsnæðisstefnu borgarinnar. Horfa þarf til nýrra leiða með afmarkaðsvæðingu húsnæðiskerfisins að leiðarljósi svo við endum ekki alltaf í þeirri sömu stöðu að stór hluti íbúa sé skilinn eftir, ófær um að komast í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Sé litið til allra biðlista borgarinnar þá eru 835 manneskjur á bið eftir húsnæði. Hér er verið að vísa í biðlista eftir almennu félagslegu húsnæði, þar eru 507 að bíða, nýjar umsóknir undir liðnum fjöldi umsækjenda eftir húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem 138 eru að bíða, 62 eru að bíða eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 128 eru að bíða eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fasteignaverð í Reykjavík hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum vegna hækkunar fasteignaverðs. Reykjavíkurborg er haldið í heimatilbúinni kreppu vegna lóðaskorts. Það er sannað að þétting byggðar í grónum hverfum er mun kostnaðarsamari en að byggja íbúðahúsnæði á nýjum reitum. Þessar staðreyndir endurspegla ástandið í Reykjavík í dag og þær íbúðir sem koma í sölu hafa mjög hátt fermetraverð. Það leiðir til þess að ungt fólk á mjög erfitt með að eignast sína fyrstu íbúð. Nýtilkomin hlutdeildarlán ríkisins, sem er langbesta úrræðið sem komið hefur fram síðustu áratugi, nýtast lítt ungu fólki í Reykjavík því gríðarlegur skortur er á hagkvæmum íbúðum sem falla undir úrræðið vegna þéttingarstefnunnar. Borgin og ríkið eru því að ganga í sitthvora áttina. Enginn vilji virðist vera hjá borgarstjóra og meirihlutanum að fjölga úrræðum í borginni fyrir venjulegt fólk sem vill komast af leigumarkaði og í sitt eigið húsnæði. Þar með er borgin að bregðast skyldum sínum sem höfuðborg.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er sérstakt að við skulum vera að glíma við húsnæðisvandamál í höfuðborginni eins og raun ber vitni. Borgarstjóri segir borgina hafa tekið forystu í húsnæðismálum. En ekki hvað? Hver annar hefði átt að taka forystu en framkvæmdastjóri stærsta sveitarfélags landsins? Umræða um húsnæðisskort væri ekki svo hávær nema af því að um er að ræða raunverulegt vandamál. Varla væru seðlabankastjóri, Samtök iðnaðarins og verkalýðsfélög að tjá sig með þessum hætti ef umræða um húsnæðisskort væri bara eitthvað pólitískt upphlaup. Þetta er sannarlega pólitík og eiginlega frekar pólitískur þvermóðskuháttur meirihlutans að vilja ekki horfa raunsætt á þennan vanda. Að byggja sem aldrei fyrr var jú helsta loforð þessa meirihluta þegar hann tók við. Sagt hefur verið að borgarstjóri „skilji þetta bara ekki“ og „sé í afneitun“. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem líkja mætti þéttingarstefnu meirihlutans við spennitreyju. Það komast bara ákveðið margir í þá spennitreyju. Flótti er orðinn úr Reykjavík, fólk í leit að húsnæði, hagkvæmu húsnæði. Það er ekki eins og skorti land í borgarlandinu. Þetta getur varla verið flókið, það vantar íbúðir í Reykjavík, hagkvæmt húsnæði, fyrir ungt fólk, fyrstu kaupendur, láglaunafólk og eldra fólk sem vill minnka við sig. Ef eitthvað er ekki nóg, þarf að gera meira og hraðar.

3.    Lögð fram til síðari umræðu, tillaga að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, endurskoðun stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040 ásamt fylgiskjölum, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október sl. og 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 6. október. Fyrri umræða fór fram á fundi borgarstjórnar 16. febrúar sl. R21060053

-    Kl. 18:00 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti. 
-    Kl. 18:00 er gert hlé á fundinum til kl. 18:30, en þegar fundur var settur að nýju hafði Katrín Atladóttir vikið af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekið sæti. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingatillögu: 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að samþykkt verði breyting á framlagðri tillögu á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 á þann hátt að fallið verði frá síðustu breytingum sem gerðar voru á „Álfsnes iðnaðarsvæði 12“, bls. 99, og hverfa aftur að þeim heimildum sem fram komu við fyrri umræðu um tillögurnar.

Breytingatillagan er felld með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillaga að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, endurskoðun stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040 er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Með tillögunum nú er lagt til að hið sögulega aðalskipulag 2010-2030 verði framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir borgarlínu og stokka. Frá auglýsingatíma hafa verið gerðar þær breytingar að hæð bygginga Mjódd er nú miðuð við 4-7 hæðir. Rétt er að árétta að í breyttum ákvæðum hæðastefnunnar er nú undirstrikað að aðeins stakar byggingar geti notið hámarksheimilda og settar eru ákveðnari kröfur um gæði við hönnun m.t.t. sólríkra dvalarsvæða og almenningsrýma. Eðlilegt er að við mótun byggðar verði leitast við að skala byggðina niður næst hinni lágreistu íbúðabyggð og lágmarka þannig skuggavarp. Hnykkt er á ákvæðum sem heimila endurnýjun starfsleyfis þegar gildistími starfsleyfis er innan tímamarka gildandi skipulagstímabils og uppbygging samkvæmt framtíðar landnotkun ekki hafin. Tillagan í heild sinni skapar rými fyrir uppbyggingu á yfir hundrað stöðum í borginni. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við fögnum þessari uppfærslu aðalskipulags.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Aðalskipulag til 2040 er gallað. Ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um vöxt rætist er árleg þörf 1.210 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og möguleikar lítið nýttir á Kjalarnesi. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ-reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Þá er þrengt verulega að þróunarmöguleikum Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Af þessum sökum og öðrum leggjumst við gegn aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Breytingatillögur sem hér eru lagðar til snúa helst að markmiðum aðalskipulags um sjálfbæra borgarþróun og fjalla helst um stefnu um íbúðabyggð innan þéttbýlis borgarinnar. Einnig eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Tillögurnar gera ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og sett eru fram ný meginmarkmið í völdum málaflokkum. Stefnan fjallar um þá þætti sem þarf til að mynda góða borg og fléttar inn stefnur borgarinnar sem miða að því að efla góða lýðheilsu borgarbúa. Einn grundvallarþáttur í því er að tryggja borgarbúum aðgengi að góðu og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Að mati fulltrúa sósíalista verður húsnæði fyrir alla ekki tryggt með núverandi húsnæðisáætlun borgarinnar þar sem stefnt verði að því að um 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Meira þarf til svo að allir borgarbúar eigi gott líf en eins og stendur í aðalskipulagi í umfjöllun um lýðheilsu og borgarskipulag þá er það satt að „við viljum öll eiga gott líf, við viljum njóta lífsins og vera hamingjusöm. Lýðheilsustarf snýst ekki bara um að bæta árum við lífið heldur líka lífi við árin.“ Til þess þarf m.a. að tryggja öruggt húsnæði. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Verið er að breyta aðalskipulagi til ársins 2040 sem byggir á endurskoðaðri stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknilegri uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Byggir þessi breyting á viðaukum við það aðalskipulag og er það gagnrýnt. Þegar aðalskipulagi er breytt ber að taka það upp í heilu lagi. Allt þetta miðar að þrengingu á þéttingarreitum og er sett fram til að réttlæta hina svokölluðu borgarlínu, að gefa leyfi fyrir háum byggingum með tilheyrandi skuggavarpi í hverfunum ásamt því að útrýma bílastæðum fyrir fjölskyldubílinn. Þetta er afleit stefna í sveitarfélagi sem á gnótt landsvæðis sem gæti leitt til hraðrar uppbyggingar á hagkvæmu og fjölbreyttu húsnæði og er eingöngu til þess fallið að halda fasteignaverði í botni. Þetta er ekkert annað en mannfjandsamleg stefna í höfuðborg Íslands þvert á skoðanir málsmetandi einstaklinga í samfélaginu eins og seðlabankastjóra, Samtaka iðnaðarins og talsmanna verkalýðshreyfingarinnar. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Skortur er á húsnæðismarkaði. Eignir hækka í verði því barist um hverja eign. Fasteignaverð er í neysluvísitölu svo þetta hækkar verðbólgu. Stýrivextir eru að hækka vegna skipulagsmála í Reykjavík. Afleiðingar fyrir sveitarfélagið eru alvarlegar. Húsnæðisverð og hækkun á því leiðir út í verðlag, vextir hækka í kjölfarið. Umsóknarferli um byggingarleyfi er enn alltof flókið og langt. Í aðalskipulaginu er alvarlegt að sjá að búið er að bæta við Álfsnes, iðnaðarsvæði 12, skilgreiningu svæðisins, sbr. bls. 99 í gögnum. Þetta er grundvallarbreyting á aðalskipulagi Álfsness sem fer fram án auglýsingar og fór því hvorki fram kynning á breytingunni né umhverfismat. Svæðið sem um er rætt hefur verið mjög umdeilt að minnsta kosti sl. 16 ár og því er óskiljanlegt að „lauma“ því nú inn í aðalskipulagið. Krafist er að þessi breyting fari í venjulegt ferli sem tilheyrir breytingu/nýtt aðalskipulag. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram eftirfarandi breytingatillögu: Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að samþykkt verði breyting á framlagðri tillögu á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 á þann hátt að fallið verði frá síðustu breytingum sem gerðar voru á „Álfsnes iðnaðarsvæði 12“, bls. 99, og hverfa aftur að þeim heimildum sem fram komu við fyrri umræðu um tillögurnar. Tillagan var felld með öllum atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

4.    Fram fer umræða um fjárhagsstöðu Strætó bs. R21100370

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Miklum áhyggjum er lýst yfir með rekstur Strætó bs. Betlistafur til ríkisins fyrir síðustu áramót upp á 900 milljónir króna vegna COVID bar ekki árangur og fjármálaráðherra tók ekki upplýsingar að grunni þeirrar fjárkröfu til greina. Ríkisstyrkurinn endaði í 120 milljónum sem í fundargerð Strætó kemur fram „sem 780 milljóna króna minna framlag en áætlað var“. Fjárhagsáætlun Strætó fyrir árið 2021 var sem sagt byggð á óraunhæfum væntingum um ríkisfé til viðbótar við þá áætluðu 15 milljarða sem ríkið ætlar að leggja til til ársins 2025 allt frá 2010. Í vor/sumar var félaginu veitt heimild til 300 milljóna yfirdráttarláns og nú er stjórnin búin að gefa samþykkt fyrir 400 milljóna grænni lántöku til fjárfestinga í rafmagnsvögnum. Lánið er grænt kúlulán og er til 8 ára, er á föstum 4,5% vöxtum sem greiðast fyrstu sex árin og höfuðstóll lánsins greiðist á síðustu tveimur árum lánstímans. Öllum má vera ljóst að Strætó bs. er komið í þrot í rekstri sínum og skuldsetningu sem er velt inn í framtíðina. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Strætó var í mikilli sókn og farþegum fjölgaði allt fram að COVID. Stjórnendur og stjórn eiga hrós skilið að takast á við erfiða stöðu í sóttvörnum og fjármálum af festu. Það að vonir brugðust um að ríkið veitti sambærilegan fjárhagsstuðning og almenningssamgöngufyrirtæki fengu á Norðurlöndum og víðar skrifast ekki á stjórnendur eða rekstur strætó. Mikilvægt er að snúa vörn í sókn á næstu árum og tryggja góðar og öflugar almenningssamgöngur um allt höfuðborgarsvæðið.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Þjónusta Strætó hefur versnað undanfarið. Stoppistöðvum hefur verið fækkað í Grafarvogi, næturstrætó verið aflagður, vagnar ekki keyptir með tilheyrandi bilunum og skertri þjónustu. Þetta hefur leitt til þess að farþegar hafa verið beðnir að taka ekki Strætó á álagstímum, https://www.straeto.is/is/upplysingar/frettir/biladir-vagnar-og-mikid-alag-a-leidum-1-og-6-a-morgnana. Auk þess hefur ekki hefur verið staðið við að auka tíðni á helstu leiðum þannig að Strætó gangi á 7,5 mínútna fresti eins og samþykkt var í borgarstjórn 2. október 2018. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að mikið hefur gengið á hjá Strætó bs. í mörg ár. Nú er gríðarlegur taprekstur. Illa gekk fyrir tíma COVID og ekki bætti veirufaraldurinn úr skák. Það sem er ekki síður alvarlegt er að fólk hefur stigið fram og kvartað yfir neikvæðum samskiptum sem mætt hefur í einhverjum tilfellum sofandahætti eftir því sem fullyrt er. Fengið var sálfræðifyrirtæki til að greina málin og leiddi könnun til staðfestingar á einelti í einhverjum tilfellum. Veitt var ráðgjöf með tilheyrandi kostnaði sem ekki bar  tilætlaðan árangur. Enn eru mál erfið eftir því sem heyrist. Þótt Strætó sé bs.-fyrirtæki er það ekki yfir gagnrýni hafið af hálfu borgarfulltrúa sem hafa sína ábyrgð og skyldur. Flokkur fólksins telur að í ljósi rekstarvanda og ekki síður samskiptavanda þyrfti að gera stjórnsýsluúttekt á Strætó bs., þar sem farið yrði yfir ferla og vinnulag síðustu fimm ára. Skoða þarf stjórnsýslu og vinnubrögð stjórnenda og leggja mat á hvort vinnubrögð og ferlar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram þessa tillögu við fyrsta tækifæri.

-    Kl. 21:25 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Elín Jónsdóttir tekur sæti. 

5.    Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um könnun á þjónustuveitingu borgarinnar. 
Greinargerð fylgir tillögunni. R21100371

-    Kl. 21:48 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur sæti. 

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margsinnis bent á að Reykjavíkurborg ætti að vera þátttakandi í samræmdri þjónustukönnun Gallup. Þar gefst gott tækifæri til að meta gæði þjónustunnar á samræmdan hátt eins og hann horfir við íbúum. Borgin hefur hafnað því að taka þátt í þessari könnun en Reykjavíkurborg hefur ítrekað skrapað botninn þegar niðurstaða hefur verið birt.

6.    Fram fer umræða um fátækt í Reykjavík og mikilvægi nýrrar úttektar á stöðu fátæks fólks.  R21100372

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Eitt af aðaláherslumálum Flokks fólksins er að útrýma fátækt og þess vegna var óskað eftir umræðu um fátækt hér í borgarstjórn. Í Reykjavík leitar nú stækkandi hópur til hjálparsamtaka og félagsþjónustunnar, þetta er breiður hópur. Stærsti hópurinn er á atvinnuleysisbótum eða örorkubótum. Einnig leita ellilífeyrisþegar, láglaunafólk og fólk af erlendum uppruna til hjálparsamtaka. Opinber framfærsla og lægstu laun standa ekki straum af grunnþörfum. Húsnæðiskostnaður er liður sem tekur stóran hluta af ráðstöfunartekjum heimila. Ef allt væri eðlilegt væri starfsemi hjálparsamtaka óþörf, við búum jú í velferðarsamfélagi. Úrræði Reykjavíkur duga ekki til. Dæmi eru um að fólki er bent á hjálparsamtök þótt lög um sveitarfélög kveði á um að velferðarkerfið eigi að grípa þá sem höllum fæti standa. Reykjavíkurborg þarf að endurmeta kerfið allt og hækka upphæðina til framfærslu. Borgin bendir stundum á ríkið. Ríkið greiðir lífeyri til öryrkja en ef tekjur eru undir viðmiði á borgin að taka við. Nýleg rannsókn Vörðu fyrir ÖBÍ 2021 sýndi sláandi niðurstöður. Það er vont til þess að vita að í Reykjavík býr stækkandi hópur barna foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði. Ætti ekki að vera sjálfsagt að þessi börn njóti fyrirgreiðslu innan leikskóla, grunnskóla, skólamáltíða og frístundaheimila? 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjölmargar úttektir og rannsóknir hafa verið gerðar á fátækt hér á landi á síðustu árum. Reykjavíkurborg hefur gripið til ýmissa aðgerða til að vinna gegn fátækt í borginni. Sérstök borgarvakt á sviði velferðar- og atvinnumála var sett á laggirnar í kjölfar COVID. Stýrihópur setti í lok síðasta árs fram aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra, meðal aðgerða þar má nefna þjónustugreiðslur til barna notenda fjárhagsaðstoðar. Meðal annarra aðgerða má nefna mikla fjölgun félagslegra leiguíbúða, ný viðmið um sérstakan húsnæðisstuðning og markvissar aðgerðir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Flestar niðurstöður rannsókna og tillögur sem gerðar eru í kjölfarið lúta að framfærslumálum öryrkja og einstæðra foreldra og samverkun ólíkra kerfa. Velferðarráð samþykkti á fundi sínum þann 6. október sl. að beina því til velferðarvaktarinnar að kortleggja þann fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum, greina þarfir þessa hóps og hvar þörf sé á úrbótum. Velferðarvaktin er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og fylgir þeim eftir. Að velferðarvaktinni standa ýmis félagasamtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.

7.    Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu í skólamálum í Grafarvogi er frestað. R21100373

8.    Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur er frestað. R21100374

9.    Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. R18060109

Lagt er til að Vala Valtýsdóttir taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Sigríðar Rutar Júlíusdóttur. 
Samþykkt.

10.    Samþykkt að taka á dagskrá lausnarbeiðni Ásmundar Jóhannssonar, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar. R21100316

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að veita Ásmundi Jóhannssyni lausn frá störfum. 
Samþykkt.

11.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. október sl. R21010001

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingatillögu vegna 1. liðar fundargerðar borgarráðs frá 7. október, Laugardalur, austurhluti – deiliskipulag: 

Lagt er til að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að skoða að koma smáhýsunum, sem til stendur að setja niður í Laugardalnum, fyrir í Örfirisey, á svæði Faxaflóhafna, þar sem hverfisbækistöð Vesturbæjar stendur. Þar er um 12.000 m2 tilbúin lóð og hægt yrði að koma smáhýsunum fyrir strax áður en kólna tekur og vetur gengur í garð. Fyrir á lóðinni eru fjögur smáhýsi og komið hefur í ljós að staðsetningin hentar vel fyrir úrræði af þessu tagi en stutt er í alla þjónustu í nágrenninu. Með fjölgun smáhýsanna í Örfirisey skapast grundvöllur til að samnýta starfsmann til að hafa umsjón með húsnæðinu og styðja við íbúa þeirra til sjálfstæðs lífs.

Breytingatillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

1. liður fundargerðarinnar frá 7. október, Laugardalur, austurhluti – deiliskipulag, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. R20020112
7. liður fundargerðarinnar frá 7. október, breytingar á reglum um leikskólaþjónustu er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. R21090277
3. liður fundargerðarinnar frá 14. október, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er samþykktur. R21010107
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar frá 7. október: 

Sjálfstæðisflokkur leggst eftir sem áður alfarið gegn fyrirhugaðri skerðingu á opnunartíma leikskólanna og leggur áherslu á óskerta þjónustu við fjölskyldur í Reykjavík. Jafnréttismat sýnir glöggt hvernig skerðingin kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Útlit er fyrir að skerðingin verði mikil afturför í jafnréttisbaráttunni. Hvað vakir fyrir jafnaðarmönnum í Reykjavík?

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. október:

1. liður; Laugardalur – austurhluti – deiliskipulag, það þarf að gera allt til að ná sátt um þetta viðkvæma mál við íbúa hverfisins. Á staðnum er mikilvægt að hafa umsjón allan sólarhringinn, einstaklingur og fagteymi sem er tilbúið að stíga inn og aðstoða eftir þörfum. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum, ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist. 7. liður; breytingar á reglum um leikskólaþjónustu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og tekur þar með undir með foreldrafélaginu. Einnig er mótmælt takmörkun á leyfilegum heildarvistunartíma í 42,5 klst. Sumar fjölskyldur þurfa meiri vistunartíma en þetta. Breytingarnar munu auka álag á fjölskyldur í borginni. Stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur og minnkað gæðastundirnar í fjölskyldunni. Þessi breyting mun minnka þjónustu í nærumhverfi íbúa og leiða til meiri aksturs í andstöðu við markmið borgarinnar í umhverfismálum. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður.

12.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. október, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. október, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. október, skipulags- og samgönguráðs frá 6. og 13. október, skóla- og frístundaráðs frá 28. september og velferðarráðs frá 6. október. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 17. lið fundargerð velferðarráðs frá 6. október: 

Svar við áhyggjum um framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Í svari kemur fram að starfshópur er að rýna í stöðuna með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum grunnskóla- og frístundastarfs. Starfshópurinn skilaði tillögum af sér síðastliðið vor en ekki hefur frést meira. Fulltrúa Flokks fólksins og fleiri er farið að lengja eftir þarfagreiningu og að sviðsmyndir sjáist. Tíminn líður og nemendum fjölgar hratt í hverfinu. Fundargerð velferðarráðs frá 6. október, liður 17: Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um hvort ekki mætti vera meiri fjölbreytni í kvöldmat eldri borgara í einni af þjónustuíbúðum aldraðra í Reykjavík. Í öll mál eru súpur og grautar. Hugsa mætti sér margt annað í kvöldmat, jafnvel léttan kvöldmat. Segir í svari að greiddar séu 390 kr. fyrir kvöldverð og sé tekið mið af þeirri upphæð þegar valið er á matseðilinn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að annað eins sé niðurgreitt í borginni og mætti vel niðurgreiða þetta meira, öðru eins er nú eytt í vitleysu í borgarkerfinu. Þessi aldurshópur þarf einmitt á hollum og staðgóðum mat að halda í öll mál. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þetta verði endurskoðað með tilliti til gæða og fjölbreytni. 


Fundi slitið kl. 23:25

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon    Kolbrún Baldursdóttir