BORGARSTJÓRN

Ár 2022, þriðjudaginn 20. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar, auk Einars Þorsteinssonar, staðgengils borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um málefni barna 0-6 ára.

-    Kl. 14:55 víkur Sandra Hlíf Ocares af fundinum og Birna Hafstein tekur þar sæti. MSS22090138

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Við eigum að skipuleggja borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna. Mikilvægt er að horfa til þess hve ólíkur hópur börn á aldrinum 0-6 ára og fjölskyldur þeirra er og þarf því að leita fjölbreyttra og frumlegra leiða til að mæta þörfum þeirra og veita þeim valfrelsi um þjónustu. Við þurfum að vinna að stefnu sem tekur mið af þörfum og velferð barna og leiðir saman börn, fjölskyldur, ríki, sveitarfélög, fagfólk og atvinnulífið í þverfaglega stefnumótun um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára. Reykjavík á að vera með sterka og ígrundaða framtíðarsýn sem unnið er út frá og setur málefni barna í forgang.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér má minna á biðlista barna eftir fagþjónustu. 401 leikskólabarn í Reykjavík bíður eftir þjónustu hjá sálfræðingi og 330 eftir talmeinafræðingi. Flokkur fólksins hefur lagt til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð taki upp og beiti sér fyrir mannréttindum lítilla barna. Málefni leikskólans hafa verið í sviðsljósinu. Meirihlutinn, sá síðasti og þessi, hefur brugðist foreldrum og börnum í stórum stíl. Leikskólaplássum var úthlutað sem eru ekki til og nú er verið að reyna að redda málum. Í vor blasti vandinn við, en hvernig var sumarið notað? Foreldrar hafa stigið fram sem aldrei fyrr, þetta er einsdæmi í sögu borgarinnar. Ákvæði barnasáttmálans eru margbrotinn í þessum málum. Það skýtur nokkuð skökku við að Reykjavík vill verða fyrsta barnvæna höfuðborgin á heimsvísu þegar borgin er ekki einu sinni að innleiða barnasáttmálann eins og Flokkur fólksins hefur lagt til. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur vegna leikskólavandans, að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið er að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Hin útfærsla Flokks fólksins er að bjóða foreldrum sem það hentar mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss.

2.    Fram fer umræða um stöðu skóla- og íþróttamála í Laugardal.

-    Kl. 16:45 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Stefán Pálsson tekur sæti. MSS22090139

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Almennt er viðurkennt að starf grunnskólanna í Laugardal, þ.e. í Laugarnesskóla, Laugarlækjaskóla og Langholtsskóla, hafi um langt árabil verið farsælt. Allar götur frá árinu 2013 hins vegar hafa stjórnendur grunnskóla í Laugardal komið á framfæri áhyggjum sínum við borgaryfirvöld að húsnæði skólanna dugi ekki vegna fjölgunar nemenda. Viðbrögð borgarinnar við þessum áhyggjum hafa ekki falist í aðgerðum sem eru til þess fallnar að leysa viðfangsefnin til lengri tíma, aðeins í bráðabirgðalausnum. Þess í stað hafa margir starfshópar verið skipaðir og ófáar skýrslur og forsagnir verið samdar en það er fyrst núna sem frumdrög liggja fyrir að kostnaðarmati á þeim þrem sviðsmyndum sem til greina koma til að leysa langtímavanda skóla- og frístundastarfs í Laugardalnum. Til þess verður einnig að líta að engin haldbær tímaáætlun fyrir einstakar sviðsmyndir er til staðar. Fyrirséð er því að vandi hverfisins í skólamálum verður áfram til staðar á næstu árum. Einnig kemur það spánskt fyrir sjónir að í hverfi sem geymir vöggu reykvískrar íþróttastarfsemi sé aðstaða fyrir skólaíþróttir og íþróttastarf hverfisfélaganna Þróttar og Ármanns ófullnægjandi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja brýnt að ákvarðanir í þessum málum séu teknar og verkin látin tala, á forsendum skólafólks, nemenda og foreldra í Laugardal.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar fagnar þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um stöðu skóla í Laugardal. Mikilvægt er að sátt ríki meðal borgarfulltrúa og hagaðila skólahverfanna sem um ræðir, um að ná sem allra fyrst niðurstöðu um hvaða leið á að velja varðandi framtíðar uppbyggingu skólastarfsemi Laugardals. Farið hefur verið í víðtækt þverpólitískt samráð meðal allra hagaðila, við stjórnendur, starfsmenn og börn í Laugardalnum. Framundan er fundur með bæði íbúðaráði sem og borgarfulltrúum sem eru í skóla- og frístundaráði.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Vandamálið er ekki staðbundið eða tímabundið og mun koma upp aftur annarsstaðar. Skólahverfin í borginni hafa sífellt verið að breytast og þróast í gegnum tíðina og munu halda því áfram. Svona aðstæður mega ekki koma á óvart eða koma aftan að skipulags- og borgaryfirvöldum. Það er erfitt að stjórna því hvert fólk ákveður að flytja með börnin sín á hverjum tíma en að geta lesið í þróunina og verið tilbúin með viðbrögð þegar vandinn fer að rísa er vel hægt, vinna í upphafi út frá tímabilum í áratugum, ekki kjörtímabilum. Það þarf að skipuleggja og byggja þannig að skólar séu sveigjanlegri gagnvart stærðarsveiflum í árgöngum. Hafa vökult auga með hreyfingu og þróun í íbúasamsetningu og fjölda og hefja strax undirbúningsstarf til mögulegs viðbragðs ef virðist stefna í óefni. Mikilvægt er að huga að því að vernda þá staðbundnu menningu í barnastarfi sem er undir, sem og í menningararfi í formi byggingarlistar í hverfinu. Ekki er undir neinum kringumstæðum hægt að fara í lausnir sem ganga gegn sjálfsögðum hagsmunum eða réttindum barnanna, öryggi þeirra eða sem bitna á menntun þeirra. Ekki er heldur hægt að ganga þvert gegn óskum forráðamanna barna. Þetta er beinlínis skylda, að hafa snörp vinnubrögð í svona aðstæðum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Málið velkist um og fátt er að frétta. Allir eru orðnir þreyttir. Vilji stjórna foreldrafélaga er skýr og það er að velja á sviðsmynd 1, sem er að byggja við hvern skóla fyrir sig og vernda þannig skólagerð þeirra, skólahverfin og hverfamenningu. Það sárvantar upplýsingar frá skóla- og frístundasviði. Það vantar einnig tímalínu framkvæmda, forgagnsröðun, kostnað, rekstrarkostnað, hvernig á að bæta íþróttaaðstöðu og fleira. Í gær, 19. september, átti að vera stóri dagurinn, þá var stefnt að tillögu skóla- og frístundasviðs til borgarstjóra. Nú er 20. september. Í stuttu máli hefur borgin komið illa fram við íbúa þessa hverfis og þar með talið börnin. Laugalækjarskóli er eini grunnskólinn í borginni með 7.-10. bekk. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 167 frá 2008 og stefnir í fjölgun um 115 út áratuginn. Ástandið er slæmt. Húsnæðisskortur hefur verið ríkjandi frá árinu 2013. Íþróttahúsið er barn síns tíma. Nú eru sjö færanlegar stofu og eiga tvær að bætast við. Allt annað er löngu sprungið, mötuneyti, smíða-, myndmennta- og tónmenntaaðstaða og aðstaða fyrir kennara og starfsfólk. Skólahljómsveitinni hefur verið úthýst. Hljóðvist er erfið og loftræstingu vantar í gamla skólahúsinu. Úttekt á rakaskemmdum stendur yfir. Frístund er langt í burtu.

3.    Fram fer umræða um hvort bruðl og sóun hafi átt sér stað í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar. MSS22090140

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í á þriðja ár hefur verið reynt að benda á ákveðið bruðl í stafrænni vegferð borgarinnar, ranga forgangsröðun, sérkennilega áherslu á flotta ytri ásýnd. Skort hefur aga og aðhald meirihlutans allt síðasta kjörtímabil. Flokkur fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir, lagt fram tillögur til að sporna gegn sóun og almennt reynt að sinna hlutverki sínu í minnihluta. Allt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar- eða tilraunafösum. Önnur verkefni hafa dagað uppi eftir að búið var að setja í þau umtalsvert fjármagn. Byrja hefði átt fyrir þremur árum að forgangsraða lausnum sem létta á borgarbúum að eiga samskipti við borgina. Þenslan er komin úr böndunum og áhersla á að „sigra hinn stafræna heim“ á erlendri grundu er hlægileg. Með umræðu um þessi mál er borgarfulltrúi Flokks fólksins að sýna verkefninu aðhald og kallar eftir eftirliti. Vissulega er nú kominn nýr meirihluti og sett hefur verið á laggirnar sérstakt ráð sem halda á utan um málaflokkinn. Hér er um að ræða útsvarsfé borgarbúa og víða er brýn þörf á meira fjármagni til þess að bæta þjónustu. Kallað er eftir gagnrýnni hugsun og aðhaldi frá nýjum meirihluta borgarstjórnar og hinu nýja stafræna ráði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við fögnum því að kallað sé eftir opinskárri umræðu í borgarstjórn um stafrænu vegferðina en mælumst til að það sé gert með upplýsandi hætti fyrir íbúa og gætt sé að staðreyndum. Raunfjárfestingin í stafrænni umbreytingu og öðrum tengdum verkefnum fyrir árið 2021 og til 1. ágúst 2022 er tæpir 4,5 milljarðar en ekki 13 milljarðar líkt og borgarfulltrúi Flokks fólksins staðhæfir. Staða fjárfestingarinnar var kynnt í borgarráði 8. september síðastliðinn þegar farið var yfir stöðu stafrænnar umbreytingar og þar var m.a. kynntur listi með yfir 100 verkefnum sem hafa verið í uppfærslu, endurnýjun, þróun eða innleiðingu á þjónustu- og nýsköpunarsviði yfir síðastliðið 1½ ár. Þjónustu- og nýsköpunarsvið sér um mikilvæga miðstýringu á stafrænu umbreytingarverkefnum borgarinnar til þess að stuðla að heildrænni nálgun og samhæfðri þjónustu sem uppfyllir þarfir íbúa. Fjárfesting í stafrænni umbreytingu er eitt stærsta umbreytingarverkefni Reykjavíkurborgar frá upphafi og mikilvægt skref til að halda borginni í takti við þær samfélags- og tæknibreytingar sem á okkur herja þannig að íbúar fái ávallt bestu þjónustu sem völ er.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Kostnaður vegna þátttöku barns í skipulögðu frístundastarfi getur numið tugum, jafnvel hundruðum þúsunda á ári. Núverandi frístundastyrkjakerfi uppfyllir ekki yfirlýstan tilgang sinn og því er lagt til að borgin samþykki eftirfarandi aðgerðir til að tryggja börnum jafnari tækifæri til þátttöku í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag: 1) Frá og með 1. janúar 2024 verði frístundaheimili borgarinnar gjaldfrjáls. Skóla- og frístundasviði og fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra verkferlið. 2) Borgarstjórn þrýsti á að fá lagt útsvar á fjármagnstekjur. Fjármála- og áhættustýringasviði verði falið að funda með ríkisstjórn fyrir hönd borgarinnar. 3) menningar-, íþrótta- og tómstundasviði verði falið að tryggja að aðildarfélög frístundakortsins bjóði upp á möguleikann að dreifa gjöldum gjaldfrjálst í a.m.k. fjóra hluta yfir tímabilið sem greitt er fyrir. Með því er komið til móts við foreldra og forráðamenn sem geta ekki lagt út fyrir öllum kostnaði þátttöku- eða æfingagjalds í einni greiðslu. 4) Íþrótta- og tómstundasviði verði falið að kortleggja hvað gengur vel í tilraunaverkefninu frístundir í Breiðholti, sbr. samþykkt borgarráðs frá 27. ágúst 2020, og leggja fram tillögur til borgarráðs um hvað af því megi yfirfæra á önnur hverfi borgarinnar. Lagt er til að útfærslan nái til allra barna 6-18 ára.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. MSS22090141

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn leggur mikla áherslu á það pólitíska markmið að jafna tækifæri barnanna í borginni hvað varðar skóla- og frístundastarf í borginni. Byggt er á metnaðarfullri frístundastefnu sem mótuð var 2016 og leggur áherslu á jafnræði, virkni, fjölbreytni og gæði. Frístundastyrkurinn hækkar um helming um næstu áramót og verður 75 þúsund krónur á ári fyrir hvert barn. Samhliða verður áfram beitt sértækum aðgerðum til að auka þátttöku barna sem ekki hafa lagt stund á formlegt frístundastarf, ekki síst í Breiðholti. Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins snertir á ýmsum gagnlegum þáttum sem mikilvægt er að skoða vel þó annað sé óraunhæft og er því lagt til að henni verði vísað til borgarráðs.

5.    Fram fer umræða um boðaða sölu Orku náttúrunnar á rekstrar- og þjónustudeild götulýsinga. MSS22090142

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur að umræður í borgarstjórn fimmtudaginn 20. september 2022 um yfirvofandi sölu Orku náttúrunnar á rekstrar- og þjónustudeild götulýsingar og svör borgarstjóra í þeim efnum hafi leitt í ljós í að mikið vanti upp á að kjörnir fulltrúar Reykvíkinga hafi náð að kynna sér til hlítar þetta stóra og viðkvæma málefni. Götulýsing er stórt öryggismál og stíga verður varlega til jarðar í allri ákvörðunartöku henni tengdri. Fulltrúi Vinstri grænna telur einboðið að kallað verði eftir frekari upplýsingum í málinu og efnt til lýðræðislegrar umræðu á vettvangi borgarstjórnar áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar varðandi söluna.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að grípa til aðgerða í því skyni að stemma stigu við hættulegum hraðakstri bifhjóla á göngu- og hjólreiðastígum borgarinnar, sem og á gangstéttum. Aðgerða er þörf þar sem mikil brögð eru að því að léttum bifhjólum, bæði raf- og bensíndrifnum, sé ekið eftir göngu- og hjólastígum, langt yfir þeim lögbundna 25 kílómetra hámarkshraða sem er í gildi á slíkum stígum. Aðgerðirnar verði þrenns konar: 1. Betri merkingar. Skýrar merkingar um hámarkshraða léttra bifhjóla,25 km/klst. verði settar upp við göngu- og hjólreiðastíga. 2. Aukin fræðsla. Ráðist verði í fræðsluátak í skólum borgarinnar til að kynna gildandi reglur um akstur léttra bifhjóla í þéttbýli. Þar komi fram reglur um hámarkshraða á göngu- og hjólastígum, hjálmaskyldu, hvar megi hjóla o.s.frv. Óskað verði eftir samstarfi við Samgöngustofu að þessu leyti. 3. Löggæsla. Óskað verði eftir því að lögreglan herði umferðareftirlit á göngu- og hjólreiðastígum borgarinnar og komi í veg fyrir að vélknúnum hjólum sé ekið þar yfir löglegum hámarkshraða.

Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS22090144

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að farið verði í átak við að setja upp snjallgangbrautir við alla grunnskóla í borginni til að auka umferðaröryggi skólabarna. Um er að ræða nýjar tæknilausnir sem skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikja þá LED götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Þá kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Umræddar gangbrautir verði þáttur í snjallvæðingu Reykjavíkurborgar með umferðaröryggi gangandi vegfarenda og þá sérstaklega skólabarna að leiðarljósi.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. MSS22090145

8.    Lagt til að Andrea Helgadóttir taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Trausta Breiðfjörð Magnússonar.
Samþykkt. MSS22060043

9.    Lagt til að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti sem aðalmaður í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Trausta Breiðfjörð Magnússonar. Jafnframt er lagt til að Andrea Helgadóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Sönnu Magdalenu Mörtudóttir.
Samþykkt. MSS22060044

10.    Lagt er til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti aðalmanns í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í stað Egils Þórs Jónssonar og að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti varamanns í stað Þorkels.
Samþykkt. MSS22060053

11.    Lagt er til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti varamanns í fjölmenningarráði í stað Egils Þórs Jónssonar.
Samþykkt. MSS22060054

12.    Lagt er til að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti varamanns í heilbrigðisnefnd í stað Egils Þórs Jónssonar.
Samþykkt. MSS22060075

13.    Lagt er til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti aðalmanns í íbúaráði Kjalarness í stað Egils Þórs Jónssonar og að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti varamanns í stað Þorkels.
Samþykkt. MSS22060060

14.    Lagt er til að Þórður Gunnarsson taki sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Söndru Hlífar Ocares og Sandra Hlíf Ocares taki sæti varamanns í ráðinu stað Þórðar.
Samþykkt. MSS22060062

15.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. september.
4. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. september; gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunareftirlit í Reykjavík, er samþykktur. USK22060113
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22010003

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september og 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september: 

Bókun við 4. lið, gjaldskrá heilbrigðis- og mengunareftirlits í Reykjavík: Lögð er til 4,5% hækkun sem er mikið. Það er hart í ári hjá fjölmörgum. Þeir hópar sem hafa það erfitt hafa sennilega aldrei haft það eins erfitt og núna. Ójöfnuður hefur aukist og bilið milli ríkra og fátækra hefur breikkað á vakt Samfylkingarinnar. Svo mikil hækkun á þjónustu kemur verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna. Verðbólga hefur aukist mikið sem rekja má einna helst til vanda á húsnæðismarkaði því ekki nóg hefur verið byggt. Ytri aðstæður koma líka til. Liður 5 í fundargerð borgarráðs frá 8. september: Við lestur ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs virðist sem alþjóðafrægð skipti mestu máli. Nú er liðið á þriðja ár frá því samþykkt var að fjárfesta 10 milljörðum í stafræna umbreytingu á þriggja ára tímabili. Búið er að bæta við nokkrum milljörðum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að rannsókn McKinsey and Company sem sýnir að stafræn umbreyting hefur mistekist í að minnsta kosti 70% tilvika. Ástæður er skortur á aga og aðhaldi. Í þessari vegferð borgarinnar hefur skort fókus og sviðinu verið sleppt lausu með þessa miklu peninga.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun undir 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september: 

Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs minnir á mikilvægi þess að viðmiðunarfjárhæðir fyrir sérstakan húsnæðisstuðning séu ætíð uppfærðar í samræmi við hækkun á örorkulífeyrisgreiðslum. Örorkulífeyrisþegar á leigumarkaði er sá hópur sem stendur einna verst í efnahagslegu tilliti og því brýnt að hverjar þær kjarabætur sem honum koma til handa tapist ekki vegna skerðingaráhrifa annarra bóta eða stuðningsaðgerða. Vissulega er frammistaða Reykjavíkurborgar mun betri en flestra annarra þegar kemur að húsnæðisstuðningi og viðmiðunarfjárhæðir hærri en gerist og gengur, hins vegar mikilvægt að borgin haldi ætíð vöku sinni í þessum efnum og bregðist hratt við.

16.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. september, skóla- og frístundaráðs frá 5. september, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. september, stafræns ráðs frá 14. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. september og velferðarráðs frá 14. september. MSS22010217
5. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir heilbrigðisnefnd, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22080228
6. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir kjaranefnd, er samþykktur. MSS22080216
7. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð, er samþykktur. MSS22080226
8. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir stafrænt ráð, er samþykktur. MSS22080221
9. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð, er samþykktur. MSS22080227
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands Andrea Jóhanna Helgadóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.
10. liður fundargerðar forsætisnefndar; síðari umræða um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er samþykktur. MSS22080219
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar forsætisnefndar: 

Mikilvægt er að tryggja að áheyrnarfulltrúar sem tengjast sviði ofbeldisvarna komi að öllum þeim málum sem falla undir verksvið þeirra.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 5. september:

Liður 3, lesfimi: Flokkur fólksins lagði til að lesfimipróf eða hraðlestrarpróf yrðu val og aðeins lögð fyrir barn í samráði við foreldra og sátt við nemandann þar sem slík próf valda sumum börnum kvíða. Í umsögn segir að hraðlestur sé mikilvægur í lestrarnámi eins og lesskilningur þó lesskilningur sé markmiðið. Þessir tveir þættir haldast í hendur. Tillagan er felld þrátt fyrir að meirihlutinn í skóla- og frístundaráði bóki að leggja skuli eindregið áherslu á að mæla lesskilning. En sagt er einnig að leshraði tengist lestrarkunnáttu. Það er reyndar ekki alltaf þannig. Áherslan á nr. eitt að vera á lesskilning. Hraði er einstaklingsbundinn og kemur af sjálfu sér. Hraðlestrarsamanburður getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Liður 12, úrræðið Birta: Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um framtíðarskipulag tilraunaverkefnisins Birtu sem er móttökudeild fyrir börn umsækjenda um alþjóðlega vernd sem staðsett hefur verið í Álftamýrarskóla. Sex starfsmenn hafa sagt upp störfum sem gefur vísbendingar um að ekki hafi verið allt með felldu. Eftir því sem skilst á svari á úrræðið að halda áfram en í Seljaskóla.

Fundi slitið kl. 21:09

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir    Sanna Magdalena Mörtudóttir