B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 21. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar auk staðgengils borgarstjóra, Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sabine Leskopf, Alexandra Briem, Aron Leví Beck, Björn Gíslason, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorkell Heiðarsson, Þórdís Pálsdóttir og Örn Þórðarson. 
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson og Skúli Helgason. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um grunnskólalíkanið Eddu, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september. R21090038

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Edda, nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla er stórt framfaraskref og mikið fagnaðarefni. Það snýst um að auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og jafnræði milli skóla og hverfa. Líkanið mun mæta betur mismunandi þörfum skóla með því að taka tillit til félagslegra og lýðfræðilegra þátta í úthlutun fjármagns. Dregið er úr aðstöðumun á milli skóla og verður úthlutun á hvert barn því réttlátari og eykur jöfnuð. Líkanið mun einnig efla faglegt frelsi og ábyrgð skólastjórnenda. Á sama tíma og líkanið skapar forsendur fyrir raunhæfari fjármögnun grunnskólanna er búinn til grunnur fyrir betri rekstur og fjármálastjórn þeirra, með skilgreiningum á ábyrgð á rekstri, stuðningi og eftirliti. Það er mikilvægt að standa vörð um líkanið til framtíðar, til að lenda ekki í sama flækjustigi og einkenndi það úthlutunarlíkan sem við erum að hverfa frá. Hér er því um að ræða mikilvæg tímamót í allri fjármálalegri umgjörð grunnskóla Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Kostnaður við rekstur grunnskóla hefur ítrekað farið fram úr fjárheimildum. Núverandi áætlanagerð hefur engan veginn gengið sem skyldi. Það er því ljóst að breyta þarf áætlanagerð og valdefla skólastjórnendur. Það er því jákvætt að nú hefur verið farið í ítarlega vinnu við að stokka upp núverandi kerfi. Gæta þarf að því að skólahúsnæði sé heilsusamlegt og viðhaldi sé sinnt. Þá er mikilvægt að grípa snemma inn í og reglulega svo sem vegna ÍSAT nemenda. Ef rétt er á innleiðingu haldið á áætlanagerð að vera áreiðanlegri og með því ætti að vera hægt að vinna að raunverulegri hagræðingu í rekstri og bættri meðferð fjármuna sem nýtast þá betur í þjónustu við nemendur. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nú sé að koma nýtt og betrumbætt reiknilíkan skólanna. Hið gamla var löngu orðið úrelt og plástrað eins og fram kom í skýrslu innri endurskoðunar um rekstur grunnskólanna. Einn starfsmaður kunni á líkanið sem notað var til að úthluta tæpum 35 milljörðum til skólanna. Úthlutun fjármagns var í sumum tilfellum byggð á kolröngum forsendum. Það sætir furðu að gamalt, úrelt excel-vinnuskjal hafi lifað svo lengi og fengið að valda svo miklum usla. Gera má ráð fyrir að hafi ekki skýrsla innri endurskoðunar verið með svo afgerandi álit þá væri hið plástraða skjal enn aðalleiðarljós skóla- og frístundasviðs við útdeilingu fjármuna til skóla. Fram hefur komið að við úthlutun fjármagns í framtíðinni á að draga enn meira úr greiningum. Síðustu ár hafa mörg börn með röskun, jafnvel með hamlandi einkenni röskunar útskrifast úr grunnskóla án þess að fá þjónustu fagaðila en á biðlista eru nú tæp 1.500 börn. Ef barn með hamlandi einkenni ADHD fær ekki greiningu með tilheyrandi eftirfylgni er það að glíma við afleiðingar kannski alla ævi. Sjálfsmat brotnar enda barnið sífellt að rekast á veggi. Nú er margra ára bið hjá ADHD teymi Landspítala, einstaklingar sem fengu ekki greiningu í grunnskóla.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg taki upp sveigjanleg starfslok, en í dag gilda reglur borgarinnar og ákvæði kjarasamninga sem skylda starfsmenn til að hætta í starfi við sjötugt. Mannauðs- og starfsumhverfissviði verði falið að vinna að útfærslu og innleiðingaráætlun og leggja hana fyrir borgarráð eigi síðar en 1. desember næstkomandi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21090173
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sveigjanleg starfslok hafa verið að velkjast í kerfinu í meira en 9 ár án þess að nokkur niðurstaða hafi fengist. Enginn tímarammi er á innleiðingu þessara mikilvægu breytinga, sem eru mannréttindamál. Starfshópar og skýrslur hafa ekki skilað sér í niðurstöðu og nú er þessari tillögu vísað frá án þess að fyrir liggi áætlun eða ákvörðun um að heimila sveigjanleg starfslok. Reglur borgarinnar banna fólki að starfa eftir 70 ára aldurinn. Það er kominn tími til að breyta þessum ósanngjörnu reglum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Starfshópur um sveigjanleg starfslok, með fulltrúum Reykjavíkurborgar og stéttarfélaga, auk ráðgjafarfulltrúa lífeyrissjóða og Félags eldri borgara, hefur verið skipaður og reiknað er með að hann muni skila af sér í apríl 2022. Meðal verkefna hópsins er að móta tillögur að breytingum sem svari breyttum þörfum bæði vinnuveitenda og starfsfólks varðandi starfslok vegna aldurs. Því er ekki ástæða til að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði að vinna að útfærslu og innleiðingaráætlun í verkefni sem þau eru nú þegar að vinna.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Í þeim tilfellum sem fólk treystir sér til þess að vinna lengur er eðlilegt að verða við því. Mikilvægt er að tryggja aðkomu stéttarfélaga að þessari vinnu og útfærslu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Á fundi 11. apríl 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Tillögunni var vísað frá. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins en leggja fram nánast sömu tillögu fram núna. Eitt aðalmál Flokks fólksins er að eldri borgarar og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði geti það og án skerðinga. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör þessa hóps með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki með öllum þeim störfum sem þar bjóðast og bjóða upp á sveigjanleika þegar komið er að starfslokum. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Kjarasamningar kveða á um heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu með sérstöku leyfi borgarstjóra. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar birtingamyndir um sveigjanleg starfslok. Vegferðin hófst fyrir meira en 6 árum en er enn á byrjunarreit hjá þessum meirihluta. 

3.    Fram fer umræða um starfsemi og virkni gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA og innleiðingu hringrásarhagkerfisins. R21090174

-    Kl. 18.00 víkur Katrín Atladóttir af fundinum og Elín Jónsdóttir tekur þar sæti. 
-    Kl. 18.05 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Þorkell Heiðarsson víkur af fundi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Starfsmenn SORPU höfðu snör handtök þegar myglugró greindist í GAJU í ágúst. Hafist var tafarlaust handa við að stemma stigu við útbreiðslunni og tryggja öryggi starfsfólks. Á meðan var fullvinnsla á lífefnum stöðvuð tímabundið en önnur starfsemi stöðvarinnar hélt áfram. Stjórnin fékk kynningu á viðfangsefninu 6. september og fól þá framkvæmdastjóra að fá óháða sérfræðinga til að gera ítarlega úttekt á umfangi vandans og leggja fram tillögur til úrbóta. Sú vinna stendur nú yfir og verða fulltrúar sveitarfélaganna upplýstir þegar niðurstöður liggja fyrir. Það er ekki rétt sem haldið er fram af nokkrum borgarfulltrúum að uppbygging gas- og jarðgerðarstöðvarinnar hafi verið mistök og að hún sinni ekki því sem henni var ætlað. Hins vegar er það rétt að til þess að GAJA geti framleitt nothæfa moltu þá þurfa efnisstraumarnir að vera hreinir. Moltan stenst þá þær kröfur sem gerðar eru til hennar. GAJA er liður í því að innleiða hringrásarhagkerfið og hætta urðun á lífrænum úrgangi sem getur skilað allt að 90.000 tonna samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er miður að borgarfulltrúar sem ættu að vera vel upplýstir um þau brýnu viðfangsefni sem steðja að heiminum öllum vegna loftslagsbreytinga finni GAJU allt til foráttu og tali hana ítrekað niður.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista telur nauðsynlegt að endurskoða uppsetningu byggðasamlaga til þess að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa og starfsfólks að starfi fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Íbúar sveitarfélaga og starfsfólk sem hjá þeim starfar ætti að fá að hafa meira um það að segja hvernig byggðasamlögum í okkar eigu er stjórnað. Með því má bæta starfsemi þeirra og tryggja að hún nái til fjölbreyttra þarfa. Mikilvægt er að sveitarfélög stuðli að uppbyggingu í þágu loftlagsverndar en upplýsingagjöf þarf að vera skýrari um framhald gas- og jarðgerðarstöðvarinnar. Á sama tíma og íbúar eru margir jákvæðir fyrir því sem GAJA mun færa hringrásarhagkerfinu er jafnframt furða gagnvart því að fjármagn virðist vera til staðar til að betrumbæta það en ekki í önnur mikilvæg grunnkerfi samfélagsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu 2019 að komið yrði á þriggja tunnu flokkunarkerfi við heimili. Því var hafnað og átti ný jarðgerðarstöð GAJA að sjá um flokkun og framleiða hágæða moltu og metan til að selja. SORPA hefur nú tekið u-beygju. Hefja á lífræna hirðu við heimili í haust. Nýjasta áfallið er mygla í límtré í burðarvirki GAJU. SORPA og hönnuðir GAJU kenna hvor öðrum um. Framkvæmdastjóri SORPU segir að ekki hefði átt að nota límtré í svona starfsemi en verkfræðistofan segir þetta hafa verið hugmynd SORPU. En þó er það þannig að allt timbur fer að rotna þegar rakinn í því fer yfir 20%. Komið er í veg fyrir myglu með góðri loftræstingu eins og gert er t.d. í fjósum sem eru byggð með burðarvirki úr límtré. Ljóst er að SORPA ræður ekki við verkefnið. Það er alvarlegt að eftirlit sé á svo lágu plani að svona geti gerst. Lærðu menn ekkert á braggamálinu? Því miður er skaðinn óafturkræfur og milljarðar flognir út um gluggann. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt bs. fyrirkomulagið. Hvert ruglið hefur fengið að þrífast í bs. kerfinu enda ólýðræðislegt. Í þeirri stöðu sem komin er upp telur fulltrúi Flokks fólksins að nú ætti að leggja áherslu á að hvetja til heimajarðgerðar. Víða er fólk með aðstöðu til þess.

-    Kl. 18:50 er gert hlé á fundi. 
-    Kl. 19:25 er fundi áfram haldið, þá hafði Skúli Helgason vikið af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tók sæti með fjarfundabúnaði. 

4.    Fram fer umræða um biðlista fatlaðs fólks eftir sértæku húsnæði og húsnæði með stuðningi. R21090063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi. Í þessi úrræði hefur alltaf verið biðlisti eins og um sé að ræða lögmál. Staðan þann 1. september sl. var að fjöldi umsækjenda sem bíða eftir fyrsta húsnæði er 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Það gera samtals 168 einstaklinga og hafa 40 einstaklingar beðið lengur en 5 ár. Biðlistatölur hafa lítið breyst síðustu ár. Árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3. flokki. Árið 2014 voru tölurnar þær sömu. Sumir hafa beðið í fjöldamörg ár, fatlað fólk sem er orðið fullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum. Kvartanir hafa borist um að umræddur biðlisti sé ekki eiginlegur biðlisti heldur sé frekar um að ræða haug heldur en kerfisbundinn skipulagðan lista. Þeir sem hafa beðið lengst virðast ekki endilega færast ofar á biðlistann. Dæmi eru um að einstaklingi sé sagt að hann sé „næstur“ en síðan hefur komið í ljós að það er ekki rétt og aðrir þá teknir fram fyrir. Búið er að dæma í einu máli sem þessu og var þar einstaklingi dæmd 1.m.kr. í miskabætur. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í gildi er uppbyggingaráætlun sem byggir á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 og stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum 2014–2023. Til grundvallar uppbyggingaráætluninni var greinargóð þarfagreining sem unnin var á velferðarsviði. Í heildina er um að ræða alls 183 íbúðir en áætlunin hefur verið uppfærð nokkrum sinnum. Nú er í gangi endurskoðun þarfagreiningar. Verði niðurstaða hennar sú að breyta þurfi uppbyggingaráætlun, til að ná utan um þörf fyrir húsnæði á þessum tíma, þá verður skoðað hvernig má mæta því. Það er erfitt að bíða lengi eftir húsnæði og enn bíða 136 einstaklingar eftir úthlutun. Í Reykjavík búa í dag 462 einstaklingar í húsnæði fyrir fatlað fólk og á síðustu 3 árum fengu 145 einstaklingar úthlutað húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að óska eftir því við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) að hún skipuleggi og hafi eftirlit með borgarstjórnarkosningum sem haldnar verða þann 14. maí 2022, sbr. ákvæði 24. gr. kosningalaga nr. 112/2021: „Almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram annan laugardag í maímánuði sem ekki ber upp á laugardag fyrir hvítasunnu. Beri sveitarstjórnarkosningar upp á laugardag fyrir hvítasunnu skal kjördegi flýtt um eina viku.“ Tillagan byggir á niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2018/831 um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, frá 7. febrúar 2019.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21090175
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tilkynnt var á borgarstjórnarfundi að kosningaeftirlit ÖSE komi til með að hafa eftirlit með borgarstjórnarkosningunum sem fara fram þann 14. maí 2022. Ef rétt reynist þá eru það miklar fréttir og varpar ljósi á getuleysi þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg. Byggja þessar upplýsingar á orðrómi í Ráðhúsinu. Eru þetta formleg samskipti eða óformleg samskipti og hvernig passa þau við stjórnsýslulög? Upplýst var eftir mikla eftirgangssemi að yfirkjörstjórn, fulltrúar skrifstofu borgarstjórnar og aðilar frá ÖSE hafi hist á fundi í maí og áttu þeir „óformlegt“ samtal eftir því sem formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs upplýsti. Á þeim grunni vísaði meirihlutinn tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins frá um kosningaeftirlit Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu með borgarstjórnarkosningunum. Það er ljóst að borgarfulltrúar í minnihlutanum þurfa að senda formlegt erindi til ÖSE og óska formlega eftir kosningaeftirliti frá stofnuninni í komandi borgarstjórnarkosningum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hafa þegar verið óformlega boðnir velkomnir til að hafa eftirlit með kosningunum 2022. Það sýnir að Reykjavíkurborg vill ekki bara hafa framkvæmd kosninga í lagi heldur leggur áherslu á að styðja við traust almennings á framkvæmdinni. Fulltrúar ÖSE ákveða sjálfir hvort þeir verða við því. Formlegt boð fer þó í gegnum fastanefnd Íslands í Vín. Þetta tengist ekki með neinum hætti áliti Persónuverndar um verkefni sem snéri að því að hvetja ákveðna hópa til þess að kjósa í kringum síðustu kosningar. Það álit fjallaði um persónuverndarlög en ekki kosningalög og álitaefnið var verkefni sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og Háskóli Íslands héldu utan um en ekki skrifstofa borgarstjórnar sem heldur utan um framkvæmd kosninga.

6.    Fram fer umræða um húsnæðiskostnað borgarbúa sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. R21090176

7.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. september. R21010001
Staðfestingu á 9. lið fundargerðarinnar frá 9. september; lýðheilsustefna Reykjavíkur til 2030 er frestað. R19110027
11. liður fundargerðarinnar frá 9. september; lagfæringar og breytingar á gatnamótum er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R21090044
7. liður fundargerðarinnar frá 16. september; Furugerði 23 – aðkoma að lóðinni er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R21090103 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 9. september:

Víða er verið að þrengja að umferð í borginni, það er m.a. gert með því að afnema svokallaða hægrivasa eða beygjur og þyngja þannig umferð. Nauðsynlegt er að skoða allar slíkar aðgerðir heildstætt áður en ákvarðanir um svona þrengingar eru teknar. Þá vekur sérstaka athygli að málið hefur hvorki verið borið undir né kynnt íbúaráðum eða íbúasamtökum.

8.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. september, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. september, skipulags- og samgönguráðs frá 8. og 10. september, skóla- og frístundaráðs frá 14. september, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 3. og 10. september og velferðarráðs frá 1. og 15. september. R21010063
- 2. liður fundargerðar forsætisnefndar; síðari umræða um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar – fjarfundarbúnaður er samþykktur. R18060129
- 3. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík er samþykktur. R21050311
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 
- 4. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt um hundahald í Reykjavík er samþykktur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R21090110
- 7. liður fundargerðar forsætisnefndar; samþykkt fyrir listasafn Nínu Tryggvadóttur er samþykktur. R21060076

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Endurskoðun á hundasamþykktum Reykjavíkurborgar var unnið í nánu og ítarlegu samstarfi við hagsmunafélög. Dýraþjónusta Reykjavíkurborgar hefur tekið til starfa og mikil ánægja er með starfsemina og eykst bæði fjöldi samtala og þjónustubeiðna, enda geta nú íbúar leitað á einn stað til þess að fá úrlausn mála sem tengjast hvers konar dýratengdum málefnum. Stórt skref var tekið með því að nú er hundahald leyft í borginni, einungis er skráningarskylda. Umráðamenn hunda þurfa einfaldlega að staðfesta að fara eftir lögum og reglum sem gilda hverju sinni. Reykjavíkurborg er með þessu orðin borg þar sem velferð hunda, umráðamanna þeirra og annarra borgarbúa er í fyrirrúmi.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Það er mikilvægt að tryggja að íbúar geti flokkað lífúrgang frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Það er jákvætt að verið sé að bjóða upp á brúntunnu svo að safna megi umræddum úrgangi. Lögum samkvæmt ber sveitarfélögum að innheimta gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs í samræmi við kostnað. Fulltrúi sósíalista ítrekar þá skoðun að gjald vegna sorphirðu eigi að vera innan útsvars sem íbúar greiði og að þar sé mikilvægt að leggja útsvar á fjármagnstekjur til að tryggja að borgarsjóður geti staðið undir útgjaldaliðum í stað þess að gjald sé tekið af íbúum vegna sorphirðu. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Liður 3; Fulltrúi Flokks fólksins vill ekki að lögð verði frekari gjöld á borgarbúa sem tengjast SORPU og vandamálum þess bs. fyrirtækis. Við meðhöndlun úrgangs vill fulltrúi Flokks fólksins að fólk hafi ávallt val um hvort það þiggi lífræna tunnu eður ei ef hún verður gegn gjaldi. Í þeirri stöðu sem komin er upp núna með GAJU og nauðsyn þess að gera það sem átti að gera fyrir löngu þ.e. að flokka lífrænan úrgang þar sem hann verður til, er mikilvægt að borgarbúar eigi þess ávallt kost að hafa sína eigin heimajarðgerð hafi þeir aðstöðu til þess. Liður 4; Vænst er að eftir flutning verði þessi mál gegnsærri og hætt verði að fela hluti svo sem hversu mikil vinna er hjá hundaeftirlitsmanni. Ljóst er að ekki er þörf á tveimur hundaeftirlitsmönnum. Hundaeigendur einir eru látnir halda uppi dýraþjónustu í borginni með gjaldtöku fyrir að eiga hund. Þeim er skylt að greiða skráningargjald, 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundurinn, kr. 30.200. Enginn afsláttur er gefinn ef fólk á fleiri hunda og ekki er hægt að framselja leyfi. Komið er inn ákvæði um refsingar sé samþykktinni ekki fylgt, allt að fjögurra ára fangelsi. Hundaeigendur þurfa ekki á dýraþjónustu Reykjavíkur að halda. Hagsmunasamtök hundaeigenda sjá um flest allt, t.d. fræðslu. Matvælastofnun sinnir ábendingum ef grunur er t.d. um illan aðbúnað. Áfram á að halda inni að birta lista yfir hvar hundar eiga heima. Fulltrúa Flokks fólksins finnst engin haldbær rök vera fyrir því.

9.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

a) Er stýrihópur eigenda starfandi? Hann var formlega skipaður til að fylgjast með framkvæmdum og framvindu GAJA fyrir hönd eigenda 25. október 2013. b) Hver er fulltrúi Reykjavíkurborgar í honum? c) Hefur verið ákveðið að leggja hann niður? d) Hvenær var fundað síðast? e) Voru niðurstöður um myglu í burðarvirki sem lágu fyrir um GAJA í ágúst ræddar á stjórnarfundi 30. ágúst 2021? f) Er eitthvað fleira sem stjórnarformaður SORPU eða staðgengill borgarstjóra vill upplýsa (í fjarveru borgarstjóra) sem hefur farið úrskeiðis hjá SORPU og ekki hefur komið fram í fjölmiðlum? g) Hver er skoðun formanns stjórnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER)? Formaður stjórnar SORPU gegnir jafnframt stjórnarformennsku hjá eftirlitsaðilanum. h) Liggja fyrir niðurstöður um nýja brennslustöð og kostnað við hana eins og lagt var upp með í júní 2021 að ættu að liggja fyrir nú um mánaðarmótin? R21090180

Fundi slitið kl. 00:12

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon    Kolbrún Baldursdóttir