B O R G A R S T J Ó R N 

Ár 2022, þriðjudaginn 24. maí var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komin til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Dóra Magnúsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Þorkell Heiðarsson og Örn Þórðarson. Rannveig Ernudóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagðar fram tillögur dags. 29. apríl 2022 að endurskoðun jafnlaunastefnu Reykjavíkur til 2030 auk þess sem lagt er til að þær verði samþykktar með fyrirvara um kostnaðarmat á aðgerð nr. 2, ásamt fylgiskjölum. MSS22040241
Samþykkt.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar hefur nú verið samþykkt með breytingum sem eiga að endurspegla enn betur margbreytileika starfsfólks borgarinnar. Ítrekað er að starfsfólk Reykjavíkurborgar skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð uppruna, stöðu og öðrum breytum, auk kyns. Einnig eru hér breytingar sem miða að því að störf borgarinnar séu öllum aðgengileg. Reykjavíkurborg, sem stærsti vinnustaður landsins, þarf að vera framúrskarandi í jafnréttismálum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Í jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að starfsfólk skuli njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu og/eða jafnverðmæt störf. Stefnan nær til alls starfsfólks borgarinnar en leggur fyrst og fremst áherslu á að útrýma kynbundnum launamun. Hér er fjallað um mikilvægi þess að tryggja launajafnrétti óháð kyni auk annarra þátta sem kunna að geta valdið launamun. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að borgarstjórn Reykjavíkurborgar útrými láglaunastefnu sem bitnar einna harðast á fátækum konum sem starfa í hefðbundum kvennastéttum, að ekki verði stuðst við útvistun sem keyrir niður launakjör og að fatlaðir fái viðunandi greiðslu fyrir störf í vinnu- og virkni úrræðum. Þá þarf einnig að setja fram launastefnu til að tryggja viðunandi launabil innan borgarinnar, þar sem laun borgarfulltrúa verði sérstaklega til skoðunar. Tillaga sósíalista sem lögð var fram í borgarstjórn í október 2021 um launagreiningu var vísað til vinnu stýrihóps um endurskoðun jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar, ekki liggur fyrir hvernig var unnið úr þeirri tillögu. Mikilvægt er að fá þær upplýsingar fram.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að skipuleg könnun verði gerð á lóðum í borgarlandinu sem henta fyrir stofnanir og skóla og þær teknar frá fyrir þá starfsemi. Sífellt vaxandi grunnþjónusta á vegum borgarinnar kallar á að lóðir sem tiltækar eru í hverfunum verði teknar frá til að geta sinnt eftirspurn stofnana borgarinnar sem sinna þessari þjónustu og þær nýttar annaðhvort til stækkunar eldra húsnæðis eða fyrir nýja uppbyggingu. Lóðir fyrir starfsemi skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs verði hafðar í forgangi. Hentugar lóðir fyrir aðra lykilstarfsemi borgarinnar verði sömuleiðis hafðar í huga í þessu verkefni. Umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar verði falið að gera úttekt á lausum lóðum í borgarlandinu sem henta fyrir grunnþjónustu sem unnt er að gera byggingarhæfar á skömmum tíma. MSS22050214

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að tillögunni hafi verið vel tekið og henni veitt brautargengi innan stjórnkerfis borgarinnar. Mikilvægt er að hafa góða yfirsýn yfir nothæfar lóðir í borgarlandinu sem hægt verði að nýta fyrir vaxandi og aðkallandi grunnþjónustu á vegum borgarinnar. Kortlagning af þessu tagi er sérstaklega áríðandi í grónum hverfum borgarinnar, en hafa verður í huga að í öðrum hverfum geta aðstæður breyst hratt og þar verður sömuleiðis mikilvægt að geta brugðist skjótt við til að veita rými fyrir stækkun á húsnæði fyrir grunnþjónustuna. Þó tillagan geri ráð fyrir að hentugar lóðir fyrir starfsemi skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs séu hafðar í forgangi við kortlagninguna, þá er áréttað, líkt og kom fram í umræðum um málið, að mikilvægt sé að hafa í huga lóðir fyrir aðra grunnþjónustu, hvort sem er á vegum borgarinnar, ríkisins eða félagasamtaka. Kortlagningin á mikilvægum lóðum er ekki síður áríðandi fyrir nýja borgarstjórn til að geta tekist á við komandi áskoranir við að bæta grunnþjónustu í borginni. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins styður tillögu um fjölgun lóða fyrir grunnþjónustu. Það er löngu tímabært að eyrnamerkja lóðir í borgarlandinu sem henta fyrir stofnanir og skóla og þær teknar frá fyrir þá starfsemi. Fjölgun er í öllum hverfum og eru innviðir gróinna hverfa víðast sprungnir. Ýmist þarf að stækka eldra húsnæði eða byggja nýtt. Lóðir fyrir skóla og frístund þarf að setja í forgang. Vinna við að styrkja og auka innviði hefur ekki fylgt áætlunum um þéttingu. Fjölgun fólks/nemenda hefur verið fyrirsjáanleg í mörg ár. Ástandið er slæmt í vesturhluta borgarinnar en einnig í Laugardal og nágrenni, Bústaða- og Háaleitishverfi og í Árbæ- og Norðlingaholti. Útbúa þarf áætlun um með hvaða hætti húsnæðismál vegna frístundastarfs í þessum hverfum verði leyst til framtíðar. Nú þegar er að staðan sums staðar með öllu óviðunandi og börn send úr hverfum sínum til að ýmist stunda nám eða tómstundir. Húsnæði nægir ekki lengur fyrir þörfina í dag né þá þörf sem er fyrirsjáanleg. Sums staðar er verið að grípa til bráðabirgða lausna en engu að síður verður að gera kröfu um að farið verði í eðlilega fjárfestingu innan hverfanna til að leysa málið til framtíðar. Hafa þarf íbúa og skólasamfélagið með í ráðum þegar framtíðarlausna er leitað.

3.    Fram fer umræða um vanda næturlífsins vegna næturklúbba í Reykjavík og mögulegar lausnir. MSS22050215

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins hefur rætt þetta mál allt frá 2018 þegar flokkurinn lagði fram tillögu um að reglugerð um hávaðamengun skyldi framfylgt. Vegna COVID fengu íbúar grið um stund en nú er vandamálið komið aftur af fullum þunga. Tillagan kom loks til afgreiðslu 18. maí, fjórum árum eftir að hún var lögð fram og var henni þá vísað til heilbrigðisnefndar. Vonandi mun tillagan ekki sofna þar. Framundan eru meirihlutaviðræður um myndun nýs meirihluta. Hvaða flokkar sem koma til með að skipa hinn nýja meirihluta þurfa að ávarpa þetta vandamál sem hér hefur verið reifað. Finna þarf flöt á þessu máli þar sem ekki er hægt að bjóða íbúum miðbæjar upp á að búa við aðstæður sem þessar. Hópurinn „Kjósum hávaðann burt” hafa komið með skýra kröfu um að gripið verði til viðeigandi aðgerða við þessum mikla hávaða sem spillir friðhelgi einkalíf íbúanna, hótelgesta og annarra sem svefnstað eiga í miðbænum. Að lifa við ærandi hávaða um hverja einustu helgi eyðileggur taugakerfi fólks. Það er ekki einungis lífs spursmál að geta sofið heldur einnig að geta upplifað öryggi á heimili sínu. Þegar hæst lætur einkennist skemmtanalífið af öskrum og gólum og ofbeldistilvik eiga sér gjarnan stað.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Undanfarin áratug hefur ásýnd miðbæjarins breyst mikið. Verslun á Laugavegi hefur átt undir högg að sækja og götumynd bæði Laugarvegar, Hverfisgötu og Skólavörðustígs orðin einsleitnari hvað tegund rekstrar varðar. Fyrir vikið sakar ekki að kanna hver áhrif þessa breytinga kunna hafa verið á íbúa byggð á svæðinu með það fyrir sjónum að leiða fram farsælt samlyndi íbúa og rekstraraðila. 

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að veita auknu fjármagni til skrifstofu opinna svæða og Grasagarðsins í Reykjavík í fjárhagsáætlun 2023, til uppbyggingar svæðis Bása og Fyssu.

Greinargerð fylgir tillögunni,
Samþykkt. MSS22050216
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar Reykjavíkur fyrir árið 2023.

-    Kl. 16.20 tekur Pawel Bartoszek sæti á fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoega víkur af fundi.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga mín um að veita auknu fjármagni til skrifstofu opinna svæða og Grasagarðsins í Reykjavík í fjárhagsáætlun 2023, til að opna svæðið milli Fyssu og Bása og uppbyggingar svæðisins, var samþykkt í borgarstjórn. Öllum borgarfulltrúum er þakkaður stuðningurinn.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins:

Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að því að tryggja fasta viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum borgarinnar í 100% starfi. Samkvæmt kostnaðarmati sem var lagt fyrir fund velferðarráðs 2. mars 2022, þyrfti 44 stöðugildi til að sinna öllum grunnskólunum ef einn sálfræðingur væri í 100% starfi í hverjum grunnskóla borgarinnar. Ef einn sálfræðingur væri í hverjum grunnskóla alla daga vikunnar þá vantar 409 m.kr. uppá fjárheimildir. Nánar má lesa um kostnaðarmatið hér. Einnig er þörf á því að tryggja góða aðstöðu innan skólanna fyrir sálfræðingana. Velferðarsviði verði falið að hefja þann undirbúning svo að föst viðvera sálfræðinga geti hafist sem fyrst. Leitað verði til annarra sviða og aðila innan borgarinnar vegna undirbúnings og útfærslu ef þörf þykir. Í framhaldi verði málinu vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2023.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar velferðarráðs. MSS22050218

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins hefur barist fyrir því allt kjörtímabilið að sálfræðingum verði fjölgað og að sálfræðingar hafi aðsetur út í skólum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Að sálfræðingar hafi aðsetur á þjónustumiðstöðvum frekar en úti í skólum er bæði óhagkvæmt og hvorki í þágu barnanna né kennara. Kostnaður vegna ferða sálfræðinga til og frá skólum þjónustumiðstöðvum eru um 3 milljónir á ári. Skólasálfræðingar eiga að starfa þar sem viðfang og verkefni þeirra eru, þar sem þeir geta verið til taks og sinnt ráðgjöf samhliða viðtölum og greiningum. Í raun mætti taka strax þá ákvörðun að sálfræðingar flytji aðstöðu sína út í þá skóla sem hafa rými, borð og stól fyrir skólasálfræðinginn. Enginn kostnaður hlýst þar af og gæti flutningurinn átt sér stað nú þegar. Dæmi eru um að sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur skipti með sér starfsaðstöðu enda hvorugir oftast nær í 100 % starfi þótt það sé vissulega markmiðið að verði. Ef horft er á þetta raunsætt vekur það kannski ekki svo mikla furðu hvað illa gengur að vinna niður biðlista barna til sálfræðinga og annarra fagaðila skóla s.s. talmeinafræðinga. Nú bíða milli 1800 börn eftir þjónustu. Biðlistinn var um 400 börn 2018. Hér er um brýnt forgangsmál að ræða.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar tillögu þess efnis að sálfræðingar hafi fasta viðveru í öllum grunnskólum borgarinnar en foreldrar og starfsfólk grunnskóla hafa lengi kallað eftir fastri viðveru sálfræðinga í grunnskólum. Jafnframt er það almennt viðmið í rekstri að styttri vegalengdir minnki viðskiptakostnað og bæti gæði þjónustu. Því ætti tillagan að vera vel til þess fallin að skila borginni meiri ágóða frekar en minni í framtíðinni. 

6.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 5. maí MSS22010003
9. liður fundargerðarinnar; breyting á endurgreiðsluhlutfalli til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar er samþykktur. FAS22040049
15. lið fundargerðarinnar; breyting á deilskipulagi vegna Starmýri er frestað. USK22010061
27. lið fundargerðarinnar; úthlutun lóðar og sala byggingarréttar vegna Einarsness 130 er frestað. MSS22050005

7.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 20. maí, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 28. apríl og 9. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 4. maí, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 18. maí og velferðarráðs frá 29. apríl og 4. maí. MSS22010217

2. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga að breytingu á staðarmörkum Reykjavíkur gagnvart Kjósarhreppi er samþykktur. MSS22050175

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 18. maí:

Það er ámælisvert að tillaga Flokks fólksins um að „borgarráð samþykki að tryggja að eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hljóðvist og hávaðamengun í borginni verði fylgt“ komi á dagskrá fjórum árum eftir að hún er lögð fram. Nú fjórum árum síðar er henni vísað til umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að ekki taki önnur fjögur ár að fá umsögn. Það er skylda okkar borgarfulltrúa, meirihluta og minnihluta að huga að velferð og líðan allra borgarbúa og umfram allt hlusta á þá. Á þessu eru lausnir sem bíða skoðunar sem vonandi mun leiða til þessa að allir haldi sínu, íbúar geti sofið og upplifað sig örugga í umhverfi sínu og hagsmuna aðilum næturklúbba missi ekki spón úr aski sínum. Sú staðreynd blasir þó við að diskóstaðir sem eru opnir langt fram eftir nóttu með tilheyrandi hávaða og látum sem dynur alla nóttina getur ekki starfað þar sem fólk er að reyna að sofa í næsta húsi. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur í því sambandi sem hægt er að leggjast yfir með aðilum sem málið varðar. Vonandi ber nýrri borgarstjórn gæfa til að taka á þessu máli í samráði við íbúa og hagaðila fljótt og vel.

Fundi slitið kl. 17:21
Alexandra Briem

Kolbrún Baldursdóttir Ellen Jacqueline Calmon