B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 3. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Aron Leví Beck, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Líf Magneudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Alexandra Briem, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson.
Fundurinn var haldinn sem fjarfundur með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fara óundirbúnar fyrirspurnir. 
Eyþór Laxdal Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um samgöngumál.
Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata beinir fyrirspurn til borgarstjóra um stöðu mála vegna COVID-19.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands beinir fyrirspurn til borgarstjóra um álagsgreiðslur til starfsfólks.
Borgarfulltrúi Miðflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um COVID-19 og stjórn borgarinnar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um skóla og frístund. R20080128

2.    Lögð fram uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar , sbr. 15. lið borgarráðs frá 29. október 2020.  R20090022

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavík er á mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar þar sem sérstök áhersla er á þéttingu byggðar sem stuðlar að sjálfbærni hverfanna og borgarinnar allrar. Húsnæðisáætlun er lögð fram að nýju uppfærð frá fyrra ári og telja íbúðirnar sem áætlunin inniheldur um 24.000 íbúðir en heildarfjöldi íbúða í Reykjavík er um 55.000. Ártúnshöfðinn er stærsta uppbyggingarsvæðið með um 6.000 íbúðum en hverfið verður byggt samkvæmt alþjóðlegum sjálfbærnistöðlum. Í áætluninni kemur einnig fram fjöldi íbúða í byggingu. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 hófst bygging skv. útgefnum byggingarleyfum á 843 íbúðum í Reykjavík en áætlað er að þær verði 1.045 í árslok. Allt árið 2019 hófst bygging á 846 íbúðum í Reykjavík. Árið 2018 var metár í útgefnum byggingarleyfum í Reykjavík og hófst bygging á 1.417 íbúðum það árið sem eru fleiri íbúðir á einu ári en nokkru sinni fyrr í borginni. Alls eru íbúðir húsnæðisfélaga nær 7.000 í áætluninni eða 29% allra íbúða. Í dag eru 1.227 íbúðir í byggingu á vegum húsnæðisfélaga í Reykjavík. Á næsta ári er áætlað að lóðum fyrir 1.028 íbúðum verði úthlutað. Hraði búsetuúrræða fyrir fatlað fólk er fordæmalaus og biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa minnkað um helming á undanförnum árum. Reykvíkingum fjölgar hratt á meðan fjöldi í nágrannasveitarfélögum er ýmist að standa í stað eða fækka.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjóri fullyrti að byggðar hafi verið eitt þúsund íbúðir á ári síðustu fimm árin. Þessi fullyrðing stenst enga skoðun enda kolröng. Hið rétta er að 533 íbúðir hafa verið byggðar að meðaltali sl. sex ár skv. tölum borgarinnar sjálfrar. Ekki 1.000 eins og borgarstjóri fullyrðir. Það þýðir að innan við 40% íbúða, sem byggðar voru á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 6 árum voru í Reykjavík. Þær hefðu þurft að vera nær 60%. Þá er mun minna af húsnæði í byggingu en þörf er fyrir samkvæmt gögnum borgarinnar sjálfrar. Sem dæmi má nefna að eingöngu 443 íbúðir eru skráðar á fokheldisstigi samkvæmt byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar en borgin telur sjálf að þörf sé fyrir að minnsta kosti 1.000 íbúðir á ári. Skortur á húsnæði hefur leitt til hækkandi húsnæðisverðs sem ekki sér fyrir endann á. Gat er í áætluninni upp á að minnsta kosti 4.000 íbúðir. Að mati Samtaka iðnaðarins eru nýbyggðar íbúðir í Reykjavík of dýrar til að uppfylla skilyrði hlutdeildarlána ríkisins sem bendir til þess að hagstæð byggingarsvæði skorti í borgarlandinu. Þetta er sjálfskapaður vandi og skortur en einmitt vegna þess hækkar verð húsnæðis umfram almennt verðlag.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Þegar biðlistar eru skoðaðir má sjá að um 1000 einstaklingar eru á bið eftir húsnæði hjá Reykjavíkurborg. Þessir biðlistar ná yfir einstaklinga og barnafjölskyldur sem eru að bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Það eru margir sem eru í ótryggri stöðu á húsnæðismarkaði og nauðsynlegt er að tryggja öllum öruggt húsnæðisskjól. Markmið Reykjavíkurborgar um að stefnt verði að því að um 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni dugar ekki til þar sem margir hafa beðið lengi eftir húsnæði og eru í þörf fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði. Mikilvægt er að Reykjavík stígi inn með félagslegri húsnæðisáherslur þar sem öruggt húsnæði er ein af grunnforsendum velferðar. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Græn skuldabréfaútgáfa Reykjavíkur, græna planið og grænt húsnæði = ný skuldsetningarleið Reykjavíkurborgar. Ein borgarstjóra-glærusýningin enn. Það er ekkert að marka hvað borgarstjóri segir því enginn býr í glærusýningum. Það þarf ódýrt hagkvæmt húsnæði núna strax í dag. Til að fá þessar upplýsingar á hreint þá hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn í borgarráði: „Hvað hefur borgin úthlutað mörgum lóðum frá 1. júní 2018 til dagsins í dag fyrir fjöleignarhús með fleiri en 5 íbúðir, hvaða lóðir eru það, hverjir fengu lóðirnar úthlutaðar og á hvaða byggingarstigi eru húsin.“

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Skortur er á þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum. Byggja á 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þjóðin er að eldast og þessi rými stytta biðlistann aðeins að hluta til. Bið eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk er enn of löng. Nú bíða á annað hundrað manns eftir sértæku húsnæði en á áætlun er að byggja um 100 íbúðir. Nýlega féll  úrskurður í Úrskurðarnefnd Velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Ekki hafa allir borgarbúar öruggt húsnæði. Biðlisti í félagslega íbúðakerfið eru tæp 600, með börnum talið þá um 1000 manns. Það er skortur á almennu hagkvæmu húsnæði sem eykur líkur þess að efnalítið fólk finni sér skjól í hættulegu, ósamþykktu húsnæði. Verið er að byggja agnarsmáar íbúðir sem deila má um hversu hagkvæmar þær eru þegar litið er til smæðar þeirra. Gengið er langt í þéttingu byggðar þegar tekið er upp á að fylla fjörur til að fá byggingarland eins og í Skerjafirði. Einnig er erfitt að fá iðnaðarhúsnæði í sumum hverfum í Reykjavík en atvinnutækifæri eru afar misgóð eftir hverfum, í sumum hverfum lítið sem ekkert.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá Reykjavíkurborg vegna kórónuveirunnar. Í kjölfarið verði unnin aðgerðaáætlun sem fylgt verði eftir. Fulltrúum velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs verði falin gerð úttektar annars vegar og aðgerðaáætlunar hins vegar enda eru það þau svið Reykjavíkurborgar sem málið snertir helst. Vinnan verði unnin í samstarfi við fagaðila á sviði geðheilbrigðismála ásamt fulltrúum frá samtökum sem sinna geðheilbrigðismálum. Lagt er til að vinnu við greiningu og aðgerðaáætlun ljúki eigi síðar en í árslok 2020 og niðurstöðunni verði skilað til borgarráðs. Aðgerðaáætlun komi til framkvæmda í ársbyrjun 2021

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarráði að skoða leiðir til að ná betur utan um stöðu geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna kórónuveirunnar. Vinnan verði unnin í samstarfi við embætti landlæknis með hliðsjón af nýjum talnabrunni embættisins og borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum sem sett var af stað vegna afleiðinga Covid-19 faraldursins s.l. vor. Velferðaráð mun í samstarfi með fulltrúum velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs að ná utan um stöðuna. Í kjölfarið verði unnin aðgerðaáætlun sem fylgt verði eftir. R20110074
Breytingartillagan er samþykkt. 

Tillagan er samþykkt svo breytt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að tillaga þeirra um geðheilbrigðismál hafi hlotið brautargengi með framlagðri sameiginlegri breytingartillögu meirihluta og Sjálfstæðisflokks.  Málið er mjög mikilvægt og ekki síst núna í ljósi COVID-19. Tillagan gerir ráð fyrir að velferðarráði verði falið að skoða leiðir til að ná betur utan um stöðu geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna kórónuveirunnar. Gert er ráð fyrir að vinnan verði unnin í samstarfi við embætti landlæknis með hliðsjón af nýjum talnabrunni embættisins og borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum sem sett var af stað vegna afleiðinga Covid-19 faraldursins s.l. vor. velferðarráð mun í samstarfi með fulltrúum velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs vinna leiðir til að ná utan um stöðuna. Í kjölfarið verði unnin aðgerðaáætlun sem fylgt verði eftir.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata skora á ríkisstjórn Íslands að taka geðheilbrigðismál föstum tökum í COVID-19 faraldrinum og fjármagna niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu í gegnum Sjúkratryggingar Íslands eins og samþykkt var af fulltrúum allra flokka á Alþingi á vormánuðum 2020. Geðheilbrigðismál falla eins og önnur heilbrigðismál undir verksvið ríkisins og er nauðsynlegt nú sem fyrr að þau séu viðurkennd sem slík og þeim sé sinnt af þar til gerðum stjórnvöldum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er alltaf mikilvægt að hlúa vel að geðheilbrigði og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem margir upplifa erfiðar breytingar vegna kórónuveirunnar. Það er mikilvægt að kortleggja hvar þarf að bregðast við og gera það skjótt. Hindranir eiga ekki að standa í vegi fyrir heilbrigði og einn þáttur í því er aðgengi að heilbrigðisþjónustu en margir neita sér t.a.m. um sálfræðiþjónustu vegna kostnaðar. Fyrr á þessu ári samþykkti yfirgnæfandi meirihluti Alþingis að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en ekki er gert ráð fyrir fjármögnun þess hjá ríkinu. Fulltrúi sósíalista tekur því undir áskorun borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata um að skora á ríkisstjórn Íslands að taka geðheilbrigðismál föstum tökum í COVID-19 faraldrinum og fjármagna niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu í gegnum Sjúkratryggingar Íslands.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt að borgin geri úttekt á stöðu geðheilbrigðismála til að sjá hvað þarf að gera betur eða öðruvísi. Aðstæður eru með ólíkindum. Hver átti von á að upplifa aðstæður þar sem banvæn veira skekur heiminn allan? Svona aðstæður kalla á æðruleysi og samvinnu. Enginn er beinlínis sökudólgurinn og enginn er óhultur. Ekki er í boði að leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva óteljandi skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka. Minna þarf á að það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga okkar munum við ná yfirhöndinni og að það kemur bóluefni. Halda þarf utan um þá sem eru veikir fyrir, andlega og líkamlega og þá sem hafa tapað lífsviðurværi sínu. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, vera skyndilega komin á bætur? Mörg börn eru einnig kvíðin.  Sem stjórnvald ber okkur líka að benda á það sem þó er jákvætt. Rafrænar lausnir bjarga miklu þótt þær komi ekki í staðinn fyrir nærveru. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki skerst að fullu. Hægt er að fara í göngu-, hjóla og hlauptúra sem sannarlega bjarga geðheilsu margra. Hvetjum fólk til að halda í vonina og hika ekki við að leita hjálpar.

4.    Umræðu um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga nr. 1/2020  vegna reikningsskila samstæðu Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. er frestað. R19120193

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Lagt er til að borgin skapi rými innanhúss sem er opin samverustaður fyrir borgarbúa sem vilja koma saman og ræða sín á milli, þeim að kostnaðarlausu. Rýmið verði hugsað fyrir stóra hópa jafnt sem minni og verði hannað þannig að hægt sé að taka mið af þeim nálægðartakmörkunum sem eru í gildi hverju sinni vegna kórónuveirunnar. Þeim sem koma í rýmið gefist færi á að snæða sinn eigin mat og lagt er til að boðið verði upp á kaffi- og vatnsaðstöðu og salernisaðstöðu. Vettvangurinn verði opinn almenningi en lagt er til þess að rýmið mæti sérstaklega þörfum þeirra sem eru án atvinnu og hafa áhuga á því að setja fram hugmyndir til atvinnusköpunar með öðrum eða vilja einfaldlega vera í samskiptum við fólk í svipaðri stöðu. Rýmið verði hugsað sem vettvangur fyrir samveru, hugmyndavinnu og staður fyrir þau sem vilja koma hugmyndum í framkvæmd. Mikilvægt er að þau sem vilja vinna að nýjum hugmyndum fái aðstöðu til slíks með nægu rými, fundarherbergjum og aðstöðu til símhringinga, svo dæmi séu nefnd. Á bókasöfnum borgarinnar geta hópar komið saman en slíkt er orðið erfiðara eftir því sem hóparnir stækka. Félagsmiðstöðvar og samfélagshús eru víðsvegar um borgina og stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk hefur unnið að tillögum um þróun félagsmiðstöðvanna. Lagt er til að skoðað verði hvort umrædd tillaga geti fallið að notkun samfélagshúsanna. Ef slíkt hentar ekki verði samveru- og sköpunartorginu fundinn annar staður. Menningar- og ferðamálasviði og velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með öðrum innan borgarinnar, eftir því sem við á.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20100369
Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að grípa til sértækra aðgerða til að hjálpa þeim hópum sem lenda í atvinnuleysi vegna Covid faraldursins, sem geti hindrað það að þeir einstaklingar festist utan vinnumarkaðar til langs tíma. Sú vinna fer fram á velferðarsviði í samstarfi við önnur svið borgarinnar og aðrar opinberar stofnanir. Á velferðarsviði eru einnig starfræktar 17 félagsmiðstöðvar víðs vegar um borgina, og því viðeigandi að þessari tillögu sé vísað til velferðarráðs þar sem hún verði tekin til nánari skoðunar og rædd í samhengi við aðgerðir borgarinnar á þessu sviði.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þ.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða niðurstöðu á Milli mála málkönnunarprófi eins og skóla- og frístundaráð hefur lagt til. Í skýrslu innri endurskoðunar (2019) um úthlutun fjárhagsramma og rekstur kemur fram að börn af erlendu bergi brotin fá ekki næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Á vorönn 2018 voru töluð 63 tungumál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka; grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð. Á árunum 2018-2019 var úthlutun 107.600 kr. á hvern nemanda sem fékk rauða niðurstöðu og 36.000 kr. á nemanda sem fékk gula. Í fjárhagsáætlun 2019 var aukning um 10.544 kr. hækkun á hvert barn, sé miðað við þann fjölda nemenda sem þreytti slík próf á árinu 2018, óháð niðurstöðu prófa. Ljóst er að úthlutun í þennan málaflokk er vel innan við 130 þ.kr. fyrir hvern nemanda sem er á rauðu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20110075
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillagan um hækkun á úthlutun fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna í samræmi við tillögu skóla- og frístundasviðs frá 2019. Tillögunni er vísað til skóla- og frístundaráðs til meðferðar. Fulltrúi Flokks fólksins mun halda áfram að vinna að þessari tillögu og vonandi í góðri samvinnu við skóla- og frístundasvið. Á það verður að horfa að yfirvöld borgarinnar á sviði skóla hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart börnum af erlendum uppruna þegar kemur að íslenskukennslu. Ekki er nóg  að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi. Tæpur helmings barna sem eru verst sett eru fædd hér á landi. Heldur dugir ekki að kvarta yfir að ekki fáist úthlutun úr Jöfnunarsjóði eins og borgarstjóri hefur gert. Fyrir því liggja ástæður. Reykjavík er ríkt sveitarfélag sem hefur einfaldlega ekki sett börn í nægilegan forgang í það minnsta ekki á þessu sviði nákvæmlega. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að þessi börn standi ekki hallari fæti en önnur börn. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Eitt mikilvægasta verkefnið í menntamálum þjóðarinnar er að búa betur að börnum með annað móðurmál en íslensku. Þar er aukin íslenskukennsla lykilatriði og forsenda þess að þessi börn hafi jöfn tækifæri á við jafnaldra sína þegar kemur að menntun. Fjármagn til íslenskukennslu fyrir börn af erlendum uppruna í grunnskólum borgarinnar var tvöfaldað fyrir nokkrum misserum en þörf er á enn meiri og markvissari vinnu með þennan hóp með áherslu á kröftugan stuðning á fyrstu stigum skólagöngunnar. Tillagan er ágætt innlegg í þá vinnu sem nú stendur yfir á skóla- og frístundasviði við að móta tillögur að leiðum til að efla íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku.

7.    Lagt er til að Ólafur Kr. Guðmundsson taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Egils Þórs Jónssonar. R20030171
Samþykkt.

8.    Lagt er til að Einar S. Hálfdánarson taki sæti í endurskoðunarnefnd í stað Diljár Mistar Einarsdóttur. Jafnframt er lagt til að Diljá taki sæti sem varamaður í nefndinni. R18060102
Samþykkt. 
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. október, skipulags- og samgönguráðs frá 21. október, skóla- og frístundaráðs frá 27. október, velferðarráðs frá 21. október og umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 21. og 28. október.
2. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga um framlengingu á heimild til notkunar á fjarfundabúnaði. R18060129

Borgarstjórn samþykkir tillöguna með þeim fyrirvara að auglýsing um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga, sem heimilar notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórna, ráða og nefnda, verði birt í b-deild Stjórnartíðinda fyrir 10. nóvember, þegar gildandi heimild rennur út. R20010285

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð skóla- og frístundaráðs:

Samstaða meðal kjörinn fulltrúa eftir að heimsfaraldurinn kom til landsins hefur verið mikil rétt eins og hjá borgarbúum. Neyðarstjórn tók til starfa á óvissustigi almannavarna í janúarmánuði á þessu ári og hefur fundað vegna heimsfaraldurs Covid-19. Fundir neyðarstjórnar hafa verið 68 talsins vegna heimsfaraldurs en neyðarstjórnin hefur mikilvægu samhæfingarhlutverki að gegna innan borgarinnar og til hinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fagráðin hinsvegar sjá um stefnumótun og eftirlit og falla stjórnunarlegar ákvarðanir ekki undir hlutverk þeirra. Sjálfsagt er að leggja fundargerðir neyðarstjórnar fyrir borgarráð.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað óskað eftir fundargerðum neyðarstjórnar, en fundir hennar hafa verið 68. Ekki hefur enn verið orðið við orðið sjálfsögðu ósk. Réttast væri að fundargerðir væri birtar opinberlega eins og gert er annars staðar. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Ég hef óskað eftir að valdheimildir neyðarstjórnar Reykjavíkur verði ræddar á næsta borgarráðsfundi sem haldinn verður fimmtudaginn 5. nóvember. Hef ég óskað eftir að borgarlögmaður, borgarritari og innri endurskoðandi Reykjavíkur verði viðstaddir þá umræðu. Læt ég því staðar numið hér á þessum fundi í frekari umræðu um neyðarstjórn Reykjavíkur, valdheimildir hennar og ákvarðanir. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð skóla- og frístundaráðs:

Mikilvægt er að fjölga fundum skóla- og frístundaráðs þannig að ráðið hittist vikulega og oftar ef þörf krefur vegna kórónuveirufaraldursins. Á meðan faraldurinn geisar og á meðan við erum á neyðarstigi almannavarna ætti skóla- og frístundaráð að vera í viðbragðsstöðu og ætti að vera hægt að kalla saman ráðið með stuttum fyrirvara og jafnvel hvenær sem er sólarhrings ef á þarf að halda. Rétt er að árétta að skóla- og frístundaráð ber ábyrgð á rekstri  og skólastarfi í borginni og starfar skv. lögum um grunn- og leikskóla. Þá kemur fram í samþykkt ráðsins að skóla- og frístundaráð fylgist með framkvæmd náms og kennslu í Reykjavík og gerir tillögur til skólastjóra og/eða borgarráðs um umbætur í skólastarfi. Hér er um langstærsta og umfangsmesta sviðið að ræða en undir það heyra hátt í 30.000 einstaklingar bæði nemendur og starfsfólk. Hvorki skóla- og frístundaráð né borgarráð hefur framselt heimildir sínar til neyðarstjórnar. Þá berast skóla- og frístundaráði ekki fundargerðir neyðarstjórnir sem snúa að skólamálum. Taka skal fram að Reykjavík er fjölskipað stjórnvald og umgangast verður allar valdheimildir með það í huga.  

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 28. október:

Tillögur stýrihóps um þjónustu við gæludýr eru til bóta og  ganga  út frá því að breyta eftirliti með gæludýrum úr refsikerfi yfir í leiðbeininga- og eftirlitskerfi með hagsmuni dýra að leiðarljósi. Í þessum tillögum eru hins vegar nokkrir ágallar.  Fulltrúi Flokks fólksins telur að skráning gæludýra  hjá borginni eigi að vera gjaldfrjáls. Rafræn skráning er ekki kostnaðarsöm. Kettir  hundar og kanínur eru þegar skráð í miðlægan örmerkjagagnagrunn hjá Matvælastofnun.  Fulltrúi Flokks fólksins  undrast viðhorf stýrihópsins að telja að kattaeigendur muni ekki skrá ketti sína þótt það væri skylda. Í þessum tillögum er því að finna talsverða fordóma þar sem misjafnt er  lagt til eftir því  hvaða gæludýr fólk heldur. Hundaeigendur hafa greitt hátt skráningargjald og eftirlitsgjöld árum saman en aðrir ekki. Eiga hundaeigendur að  greiða fyrir allt dýraeftirlit í borginni? Ábyrgðatryggingin frá borginni er of dýr og er þessi trygging gegnum borgina lítið nýtt.  Afar fátítt er að hundar valdi tjóni á umhverfi eða náttúru og langflestir hundar eru í taumi utandyra. Kettir valda hins vegar ákveðnu tjóni t.d.  á fuglalífi. Kettir fara sínar ferðir en ábyrgir kattaeigendur setja bjöllur á ketti sína. Kettir valda einnig tjóni með því að dreifa sníkjudýrum í sandkassa.

10.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 29. október. 
12. liður, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er samþykktur. R20010161
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.  R20010001

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 12. lið: 

Nú á að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur.  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og samhliða væntir hann þess að  konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin. Viðaukinn við fjárhagsáætlun, styrkir til íþróttafélaga. Fulltrúi Flokks fólksins styður alla styrki/viðauka til grunnþjónustu og til að tryggja heilbrigði og tómstundir.  Vissulega átti engin von á slíkri vá sem veiran er og áhrif hennar. Fjölmarga viðauka þarf að samþykkja næstu vikur, tillögur um breytingu á rekstri vegna COVID sem lækka mun handbært fé. Á sama tíma og þörf fólks eykst fyrir aðstoð eru gjaldskrár hækkaðar og krafa gerð um hagræðingu hjá sviðum sem veita grunnaðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins vill að beðið sé með allar gjaldskrárhækkanir þar til rofar til í aðstæðum vegna COVID. Hópurinn sem þarfnast aðstoðar stækkar. Fólk sem var í fastri vinnu er nú skyndilega atvinnulaust. Fyrirvarinn var enginn Huga þarf að skóla- og frístund- og velferðarsviði enda reynir mest á þessi svið. Í umræðunni er sjaldnast minnst á stöðu borgarinnar fyrir COVID. Fyrir faraldurinn var nærri stöðug skuldaaukning.

Fundi slitið kl. 20:13
Forsetar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Marta Guðjónsdóttir