B O R G A R S T J Ó R N

 

Ár 2022, þriðjudaginn 6. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Einar Þorsteinsson, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fram fer umræða um samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. SFS22060051

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Samstarfssáttmáli Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar endurspeglar þær áherslur sem flokkarnir töluðu fyrir í aðdraganda kosninga. Einhverjum verkefnum er þegar lokið, önnur verkefni eru komin af stað og mörg verkefni eru í útfærslu. Samstarfið fer afar vel af stað og má búast við því að verkefnum meirihlutasáttmálans verði lokið þegar kjörtímabilið er á enda.

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Ekki verður séð að samstarfssáttmáli Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar feli í sér þær breytingar sem borgarbúar hafa kallað eftir. Þær nýjungar sem helst má greina í sáttmálanum eru gjaldfrjáls aðgangur að sundlaugum fyrir börn, varðstaða um íslenska hestinn og aðgerðir gegn stjúpblindu. Engin mælanleg markmið í húsnæðismálum, engar trúverðugar aðgerðir í leikskólamálum og engin skýr áform um skattalækkanir eða áþreifanlega hagræðingu. Sáttmálinn virðist endurtekið efni frá fyrri kjörtímabilum og áþreifanlegar breytingar hvergi í sjónmáli.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Það er margt jákvætt í samstarfssáttmála meirihlutans. Auka á þjónustu við börn með því að innleiða betri borg fyrir börn og farsældarlög með sérstakri áherslu á börn í viðkvæmri stöðu. Það á líka að auka og bæta þjónustu við eldri borgara og aðra viðkvæma hópa sem er vel. Ánægjulegt var að í sáttmálanum segir „við ætlum að vinna gegn fátækt og afleiðingum hennar“. Sporin hræða eftir að hafa fylgst með forgangsröðun fyrri meirihluta. Á síðasta kjörtímabili var háum fjármunum eytt í ónauðsynlega hluti eins og sést í ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs fyrir árið 2021, en á árinu komu nokkrir tugir nýrra sérfræðinga til starfa á sviðinu sem náð var í frá einkageiranum með því að yfirbjóða laun. Þeim sem starfa við umönnun og menntun barna svíður þessi forgangsröðun. Leik- og grunnskóli er lögbundin grunnþjónusta sem sveitarfélögum ber að veita. Við í Flokki fólksins munum halda áfram og veita núverandi meirihluta aðhald þar sem við munum alltaf setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti.

 

 1. Fram fer umræða um stöðu leikskólamála í Reykjavík. MSS22090027

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Staða leikskólamála í Reykjavík er almennt sterk þó aðstæður séu að sumu leyti krefjandi. Mikil ánægja er meðal foreldra með starfið í leikskólunum, yfir 90% barna fá leikskólapláss í sínu hverfi og nú stendur yfir mesta uppbygging nýrra leikskóla sem borgin hefur staðið fyrir. Skortur á leikskólakennurum er mikil áskorun en fjölgun í leikskólakennaranám undanfarin ár gefur þó vonir um bættar horfur þar. Sex nýir leikskólar opna á þessu ári og fjölgar plássum um nærri 650 á árinu. Nýir leikskólar hafa þegar opnað við Eggertsgötu, Bríetartún og Kleppsveg og þrír til viðbótar opna fram til áramóta. Ævintýraborg við Nauthólsveg opnar í þessari viku, nýjar deildir opna við leikskólann Bakka í Staðarhverfi í næstu viku og nýr leikskóli í Ármúla opnar í október. Loks opnar ævintýraborg í Vogabyggð í desember. Á næsta ári fjölgar plássum verulega og stefnir í rúmlega 500 ný pláss. Tafir hafa orðið á inntöku yngstu barnanna í haust vegna ytri aðstæðna, húsnæðismála og þenslu á byggingamarkaði en með mótvægisaðgerðum tekst að flýta opnun tveggja leikskóla, húsnæði borgarinnar verður nýtt til leikskólastarfs a.m.k. tímabundið, dagforeldrakerfið verður eflt, innritunarkerfið bætt til að mæta betur þörfum foreldra og stefnt er að fjölgun uppbyggingarverkefna, m.a. í Fossvogi og við Suðurlandsbraut.

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Þann 3. mars síðastliðinn, í aðdraganda borgarstjórnarkosninga, kynnti borgarstjóri „verulega fjölgun leikskólarýma á næstu mánuðum og misserum“. Sagði hann stefnt að því að taka í notkun 850 ný leikskólarými í ár og að öllum 12 mánaða börnum yrði tryggt leikskólapláss strax í haust. Sjálfstæðisflokkur benti á strax í upphafi að áformin gætu aldrei raungerst á svo skömmum tíma enda torvelt að tryggja húsnæði og mannaráðningar fyrir svo mikinn fjölda leikskólarýma. Þær áhyggjur reyndust réttmætar enda hvergi nærri hægt að standa við loforð um leikskólarými fyrir öll 12 mánaða börn nú í haust. Foreldrum voru því gefnar falskar vonir um úrræði í kjölfar fæðingarorlofs. Mikilvægt er að atburðarásin endurtaki sig ekki - borgin þarf að setja sér heildstæða stefnu í leikskólamálum, hugsa í fjölbreyttum lausnum og hafa kjarkinn til að innleiða nauðsynlegar kerfisbreytingar svo unnt verði að leysa leikskólavanda meirihlutaflokkanna í Reykjavík.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Ástandið í leikskólamálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Vandinn hefur aldrei verið eins átakanlegur og nú. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt. Launin eru léleg og álag mikið. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur sem ekki hafa fengið skoðun en ein af þeim er að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið er að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Hin útfærsla Flokks fólksins er að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun létta á biðlistum. Það þarf að forgangsraða betur. Á meðan leikskólakennurum er ætlað að vinna í myglu og raka og foreldrum lofað pláss fyrir börn sín í leikskólum sem ekki eru til þá er verið að dekra við önnur svið og málaflokka sem ekki eru eins brýn.

 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Vandi leikskólastigsins er margþættur fortíðarvandi; seinagangur í eflingu leikskólastigsins og skortur stjórnmálamanna á hugmyndafræði um menntun barna svo eitthvað sé nefnt. Fjölmargt annað mætti tína til en það sem við ættum að vera að ræða og leysa er hvaða bil þarf og á að brúa og hvað þurfi til að skapa stöðugleika í kringum fyrsta menntastig þjóðar.

 

 1. Fram fer umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar. MSS22010045

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Að beiðni okkar Sjálfstæðismanna var á dagskrá borgarstjórnar í dag umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Vegna jarðskjálfta og eldsumbrota á Reykjanesi verður nú að teljast afar ólíklegt að reistur verði nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Þá er það nokkuð ljóst að hvergi verður fullbyggður nýr innanlandsflugvöllur næstu 15-20 árin. Þetta er skoðun Icelandair, helstu jarðvísindamanna okkar og fagmanna í flugvallargerð. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs, mikilvægur fyrir sjúkraflug og eini varaflugvöllur millilandaflugs á suðvesturhorni landsins. Vegna eldgosanna verður hlutverk hans nú mun mikilvægara en það hefur lengi verið, einkum af öryggisástæðum. Á meðan enginn annar kostur er í augsýn og annar flugvöllur ekki tilbúin til að taka við hlutverki Reykjavíkurflugvallar er mikilvægt að standa vörð um rekstraröryggi vallarins. Þá er óraunhæft að stefna að lokun vallarins árið 2032 líkt og meirihluti borgarstjórnar stefnir að, enda ljóst að ekki verður búið að reisa nýjan flugvöll fyrir þann tíma. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir skynsamlegri og raunsærri umræðu um framtíð flugvallarins.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Samstarf Reykjavíkurborgar og ríkisins varðandi Reykjavíkurflugvöll hefur verið mikið og gott á undanförnum árum. Unnið er að veðurrannsóknum í Hvassahrauni og beðið mats á náttúruvá frá Veðurstofu Íslands. Niðurstaða þessa mats mun liggja fyrir í vetur. Varðandi flugvöllinn í Vatnsmýri þá er verið að rýna niðurstöður EFLU og hollensku geimferðastofnunarinnar um vindafar í Vatnsmýri vegna fyrirhugaðrar nýrrar byggðar í Skerjafirði. Þá er stefnt að því að niðurstaða starfshóps um Skerjafjörð liggi fyrir 1. október nk.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Líkur hafa aukist á að flugvöllur í Hvassahrauni verði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð. Samkvæmt þessu lítur út fyrir að flugvöllur í Hvassahrauni sé úr myndinni sem framtíðar innanlandsflugvöllur. Meðan nýr flugvöllur í stað núverandi flugvallar í Reykjavík hefur ekki verið tekinn í notkun eru allir aðilar sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé miðstöð innanlandsflugs, varaflugvöllur fyrir millilandaflug og kjarninn í sjúkraflugi frá landsbyggðinni. Innviðaráðuneytið telur að ný byggð í Skerjafirði ógni rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og krefst þess að framkvæmdum verði frestað. Ráðuneytið geti ekki fallist á að framkvæmdir hefjist, nema sýnt sé fram á að flug- og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu. Mikil vinna og fjármagn hefur verið veitt í skipulagningu á uppbyggingu í Skerjafirði sl. ár. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um að þetta sé ótímabær vinna vegna óvissu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Flokkur fólksins var með tillögur um að fresta öllu skipulagi/deiliskipulagi í Skerjafirði en því miður var ekki hlustað á viðvaranir okkar. Það er von okkar og trú að nýr meirihluti hlusti á allar þessar viðvaranir.

 

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

 

Borgarstjórn samþykkir að fela viðeigandi sviðum innan borgarinnar að hefja nú þegar undirbúning að stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar, sem hefur það að markmiði að byggja íbúðir fyrir þær manneskjur og fjölskyldur sem eru í mestum húsnæðisvanda. Markmið byggingarfélagsins verði að sjá um allt ferlið frá upphafi til enda og er umhverfis- og skipulagssviði falið að skoða hvernig megi útfæra slíkt, í samvinnu við velferðarsvið og fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar. Þar þarf að skoða innflutning byggingarefnis og möguleg magninnkaup sem standa þar til boða og útfæra hugmyndir um ráðningar í verkin. Hlutverk byggingarfélagsins verði að sjá um uppbyggingu íbúðanna á borgarlandi og leigja út íbúðirnar í óhagnaðardrifnum rekstri.

 

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22090026

Tillagan er felld með nítján atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Tillagan fól í sér að borgarstjórn samþykki að fela viðeigandi sviðum innan borgarinnar að hefja nú þegar undirbúning að stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar. Markmið byggingarfélagsins væri að byggja íbúðir fyrir þær manneskjur og fjölskyldur sem eru í mestum húsnæðisvanda. Mikill fjöldi bíður eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá borginni, fjöldi fólks greiðir himinháa leigu og býr við ótrygga stöðu og borgin verður að stíga inn með sterkari félagslegar lausnir þar sem núverandi stefna mætir ekki öllum sem eru í þörf fyrir húsnæði.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Húsnæðismálin eru og verða viðvarandi verkefni í Reykjavík. Stofnframlagakerfið sem mótað var af verkalýðshreyfingunni, Reykjavíkurborg og velferðarráðuneytinu var gríðarlega mikilvægt til að endurreisa verkamannabústaðakerfið. Þar með var hægt á nýjan leik að reisa hagkvæmar íbúðir fyrir þær fjölskyldur sem eru í mestum tekjuvanda. Þá hefur borgin staðið fyrir því að fjölga félagslegum íbúðum svo um munar á undanförnum árum og á nú langflestar slíkar íbúðir á landinu. Óskandi væri ef önnur sveitarfélög gætu átt sama hlutfall félagslegra íbúða á hverja 1000 íbúa og Reykjavík gerir. Þá er borgin einnig í miklu samstarfi við önnur húsnæðissamvinnufélög, sama hvort þau nýti sér stofnframlagakerfið eða annarskonar fjármögnun. Allt stuðlar þetta að fjölbreyttum húsnæðismarkaði. Vandséð er hvernig borgin gæti leyst húsnæðismálin með þeirri tillögu sem hér er lögð fram og er hún því felld.

 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna lýsir stuðningi við þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki tillögu fulltrúa Sósíalistaflokksins um stofnun byggingarfélags Reykjavíkur. Það er ljóst að húsnæðisvandi almennings verður ekki leystur með því einu að treysta á frjálsa markaðinn, hann mun ætíð setja hagnaðarsjónarmiðin í öndvegi. Það á ekki að vera neitt feimnismál að beita afli hins opinbera við lausn samfélagslegra vandamála. Reykjavík á að stíga inn á fasteignamarkaðinn með beinum hætti. Í því samhengi má minna á áherslu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á uppbyggingu Reykjavíkurbústaða í nýafstaðinni kosningabaráttu. Slík gjörbreyting í húsnæðisstefnu borgarinnar er ekki einfalt tæknilegt mál, eins og ætla mætti af tillögu Sósíalistaflokksins, heldur kallar á stórar pólitískar ákvarðanir og undirbúning, þar sem t.d. er skilgreint hverjum slíkt borgarhúsnæði skyldi gagnast og hvernig standa skuli að fjármögnun þess. Sú vinna er forsenda þess að vel takist til. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr því hjá við afgreiðslu tillögunnar en áréttar stuðning hreyfingar sinnar við grunnhugsun hennar.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Hugsunin að baki þessari tillögu er góð og sannarlega í anda stefnu Flokks fólksins þ.e. að tryggja öllum þak yfir höfuðið og hlúa sérstaklega að þeim sem minna mega sín. En við höfum Félagsbústaði og þá er spurning hvernig þetta spilar saman með sérstöku byggingarfélagi sem rekið er af borginni. Það er vissulega óþolandi biðlisti eftir félagslegu húsnæði. Listinn telur nokkur hundruð manns. Þessum biðlista þarf að eyða. Vandi húsnæðismarkaðarins er slíkur nú að hann teygir sig í alla þjóðfélagshópa nema þá efnamestu. Ástandið kemur verst niður á fátækum sem jafnvel leita skjóls í ósamþykktu og hættulegu húsnæði. Við í Flokki fólksins viljum að tillaga Sósíalista fái góða skoðun hjá sem flestum ráðum. Það þarf vissulega fleiri lausnir í húsnæðismálum og við ættum að vera opin fyrir því sem nágrannar okkar gera í húsnæðismálum.

 

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins Íslands:

 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stimpilklukkan í vinnustund verði lögð niður í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur. Þannig væri kennurum sýnt traust og komið til móts við sjálfstæð vinnubrögð og sveigjanlegan vinnutíma kennara. Stimplun í vinnustund er hvorki bundin í lög né í kjarasamningi kennara. Reykjavíkurborg kom þessu kerfi á í andrúmslofti tortryggni. Tíðarandinn þá var að allir ættu að vera á vinnustaðnum því annars væri fólk að svíkjast um. Í dag er þessi hugsun gamaldags og alls ekki í anda nútíma starfshátta samanber átak ýmissa stofnana um störf án staðsetningar. Grunnskólakennarar taka að sér ákveðið verkefni í upphafi hvers skólaárs þ.e. að kenna ákveðnum hópi nemenda. Hlutverk kennarans er að handleiða þennan hóp þannig að árangur nemenda verði sem mestur. Það má líta á verklagið eins og verktöku sérfræðings. Háskóla-, framhaldsskólakennarar og aðrir sérfræðingar þurfa ekki að nota stimpilklukku og því mætti spyrja hvort grunnskólakennurum sé ekki jafn vel treystandi og öðrum sérfræðistéttum. Kennarar eyða löngum stundum í að færa inn stimplun í vinnustund. Fjöldi manns jafnvel kennarar eru í vinnu í skólum borgarinnar í einhvers konar bókunareftirliti með kerfinu. Væri ekki tíma kennara og þessara eftirlitsaðila betur varið í annað þarfara innan skólakerfisins?

 

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22090028

Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Starf kennara er mikilvægt og það að binda vinnu við undirbúning kennslu við ákveðna staðsetningu og tímaramma er úr takti við nútíma vinnuhætti. Undanfarið hafa grunnskólakennarar borgarinnar þurft að stimpla sig inn og út úr vinnu. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu í borgarstjórn um að stimpilklukkan verði lögð niður í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur. Þannig væri kennurum sýnt traust og komið til móts við sjálfstæð vinnubrögð og sveigjanlegan vinnutíma kennara. Stimplun í vinnustund er hvorki bundin í lög né er í kjarasamningi kennara. Grunnskólakennarar taka að sér ákveðið verkefni í upphafi hvers skólaárs þ.e. að kenna ákveðnum hópi nemenda. Kennarar eru stór hópur og það hentar sumum að ljúka allri vinnu í skólanum en margir vilja sinna undirbúningi kennslu heima í ró og næði. Þetta stimpilklukkueftirlit með grunnskólakennurum er í andstöðu við nýja tíma og sveigjanlegan vinnutíma. Grunnskólakennarar eyða óþarfa tíma í það að færa inn stimplun í vinnustund. Kennarar sjá ekki tilganginn með þessu eftirliti og veldur það pirringi og minnkar starfsánægju. Mælikvarðinn á árangur kennarans er árangur og hamingja nemendanna en ekki stimpilklukkan. Við viljum að grunnskólakennarar fái til baka það traust og þá virðingu sem þeir nutu um áraraðir.

 

 1. Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. MSS22090032

 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um einkarekna leik- og grunnskóla vekur upp margar spurningar um eftirlit með skólastarfi og meðferð á opinberu fé. Vinstrihreyfingin - grænt framboð minnir á þá stefnu sína að menntakerfið skuli vera í samfélagslegum rekstri, greitt úr sameiginlegum sjóðum og notendum sínum að endurgjaldslausu. Það er skoðun Vinstri grænna að hagnaðardrifin félög skuli ekki á nokkurn hátt koma að rekstri þess. Einkavæðingardekur og pilsfaldakapítalismi er aldrei til bóta og er sérstaklega varhugaverður þegar það kemur að viðkvæmri grunnþjónustu sem varðar menntun og velferð barna. Vinstri græn hafna einkavæðingu og nýfrjálshyggju í menntakerfinu.

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Ástæða er til að fagna skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla, m.a. vegna þess að hún veitir vissa yfirsýn yfir fjárhagslega stöðu þessara stofnana. Eigi að síður er það svo að skýrsla sem þessi er háð vissum takmörkunum þar eð hún byggir eingöngu á gögnum sem aflað er einhliða og án þess að gefa rekstraraðilum kost á að tjá sig áður en skýrslan er birt. Einnig er nauðsynlegt að árétta að margir sjálfstætt starfandi leikskólar eru tiltölulega fámennir vinnustaðir og eru þá jafnan í eigu eins eða tveggja fagaðila, svo sem fram kemur í skýrslunni (bls. 29). Með hliðsjón af eðli lítils atvinnurekstrar af þessu tagi getur það átt við málefnaleg rök að styðjast að stjórnendur afli sér tekna í formi arðs. Fyllsta ástæða er til að standa vörð um fjölbreytt rekstrarform leikskóla og engin þörf á að gera það tortryggilegt að eigendur hagi rekstrinum að þessu leyti með þeim hætti sem þeir telja heppilegast.

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Sósíalistum þykir óboðlegt að sjálfstætt reknir leikskólar með samninga við borgina hafi heimildir til að greiða sér út arð án skilyrða. Eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Arðgreiðslur úr einkareknum leikskólum í borginni eru engum skilyrðum háð af hálfu Reykjavíkurborgar. Þá er bent á að sviksemisáhætta sé nokkur í rekstri leikskóla, einkum sú áhætta að blanda persónulegum kostnaði eigenda við rekstur. Meginhlutverk barna hjá þessum skólum virðist vera að skila eigendum sjálfstætt rekinna leikskóla sem mestum arði. Með slíku fyrirkomulagi, eru börnin sett í annað sæti, ef skóli hefur það að leiðarljósi að skila arði. Leikskólastarf á fyrst og fremst að byggjast á þörfum barnanna. Það er ekki hægt að hámarka arðgreiðslur og halda bestu mögulegum gæðum á leikskólastarfi samtímis. Reykjavíkurborg þarf að ákveða hvort þeirra hún telur vera forgang. Að mati sósíalista eiga skólar að vera gjaldfrjálsir og reknir á félagslegum grunni, allt auka fé sem verður til á að fara beint í skólastarfið.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

Flokkur fólksins harmar niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Þetta er skelfileg niðurstaða og við henni þarf að bregðast strax. Flokkur fólksins getur ekki stutt arðgreiðslur án eftirlits og skilyrða. Það er algjörlega ólíðandi. Vissulega er það gott að til staðar sé fjölbreytt rekstrarform leikskóla en upplýsingar úr skýrslu innri endurskoðunar skapa tortryggni og vekja upp margar spurningar. Er verið að reka leikskóla til að græða? Við verðum að spyrja okkur að því hvort skattfé Reykvíkinga sé best varið í arðgreiðslur til einkaaðila. Eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir í tengslum við rýni ársreikninga hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Það er hætta á að starfsemin líði fyrir þetta. Tilhneiging gæti verið að spara of mikið til að borga sér arð. Afleiðing er að það hlýtur að bitna á skólastarfinu og þjónustu við börnin. Í skýrslunni kemur fram að engar kvaðir af hálfu Reykjavíkurborgar séu  um arðgreiðslur eða hvernig rekstarafgangur sem rekja má til opinberra framlaga skuli nýttur. Þetta þarf að laga og borgarstjórn verður strax að bregðast við. Setja þarf skýran ramma um rekstur þessara leikskóla með tilheyrandi eftirliti. Setja þarf jafnvel sektarákvæði ef skilyrðum er ekki fylgt.

 

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

 

Í því skyni að bæta aðstæður til hjólreiða í Reykjavík, samþykkir borgarstjórn að við hönnun nýrra gatna og endurgerð eldri gatna, verði leitast við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa.

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS22090029

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Þegar er í innleiðingu hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og eðlilegt er að tillagan sé skoðuð í samhengi við þá áætlun. Eins mætti skoða hana í samhengi við fyrirhugaða stefnu um borgarhönnun. Tillögunni er því vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

 

 1. Lagt til að Alexandra Briem og Kjartan Magnússon taki sæti í borgarráði í stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur og Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Magnús Davíð Norðdahl og Björn Gíslason taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Alexöndru og Kjartans.

Samþykkt. MSS22060043

 

 1. Lagt til að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Friðjóns.

Samþykkt. MSS22060045

 

 1. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir og Sandra Hlíf Ocares taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Þorleifs Arnar Gunnarssonar og Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur.

Samþykkt. MSS22060048

 

 1. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Alexöndru Briem og að Alexandra taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Elísabetar. Jafnframt er lagt til að Kristinn Jón Ólafsson verði kjörinn formaður ráðsins.

Samþykkt. MSS22060158

 

 1. Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í velferðarráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Söndru.

Samþykkt. MSS22060049

 

 1. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Kristins Jóns Ólafssonar. Jafnframt er lagt til að Kristinn taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Elísabetar.

Samþykkt. MSS22060064

 

 1. Lagt til að Ágústa Guðmundsdóttir taki sæti í íbúaráði Vesturbæjar í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Ágústu.

Samþykkt. MSS22060063

 

 1. Samþykkt að taka á dagskrá kjör í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

Lagt er til að Kjartan Magnússon taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Hildar Björnsdóttur.

Samþykkt. MSS22090052

 

 1. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í stjórn Faxaflóahafna.

Lagt er til að Hildur Björnsdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna í stað Arnar Þórðarsonar.

Samþykkt. MSS22090053

 

 1. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. og 30. júní, 7. júli og 21. júlí, 11., 18. og 25. ágúst og 1. september. MSS22010003

1. liður fundargerðarinnar frá 25. ágúst; samþykkt um göngugötur í Reykjavík er samþykktur. USK22060048

8. liður fundargerðarinnar frá 1. september; tillaga um samningsmarkmið vegna húsnæðissáttmála er samþykktur með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22080205

12. liður fundargerðarinnar frá 1. september; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 - fjárfestingaráætlun er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22030040

13. liður fundargerðarinnar frá 1. september; tillaga um breytingu á fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar 2022 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22030040

19. liður fundargerðarinnar frá 1. september; tillaga um breytingu á gjaldskrám er samþykktur með með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. FAS22080052

21. liður fundargerðarinnar frá 1. september; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 er samþykktur. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. FAS22010035

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð borgarráðs frá 1. september:

 

Enn sígur á ógæfuhliðina í fjármálum Reykjavíkurborgar eins og framlagður árshlutareikningur sýnir glögglega. Samkvæmt uppgjörinu nema skuldir samstæðunnar 420 milljörðum króna og hækkuðu þær um 13 milljarða fyrstu sex mánuði ársins eða um rúma tvo milljarða á mánuði. Matsbreyting fjárfestingareigna nemur 19,9 milljörðum króna, sem skýrir  hvernig svokallaður hagnaður samstæðunnar er reiknaður út. Tap á rekstri A-hluta stefnir í að verða viðvarandi en það nam 8,9 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt reikningnum. Er það rúmlega fjögurra milljarða lakari niðurstaða en áætlað var. Slíkar staðreyndir verða ekki umflúnar og er ljóst að útgjöld Reykjavíkurborgar eru langt umfram afkomu þrátt fyrir mettekjur af sköttum og gjöldum. Ljóst er að fráfarandi meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna ber ábyrgð á því ófremdarástandi, sem ríkir í fjármálum Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skora á nýmyndaðan meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar að snúa af þessari óheillabraut í fjármálum borgarinnar og koma rekstrinum á réttan kjöl.

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun við 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september:

 

Samningsmarkmiðin kveða á um „35.000 íbúðir, að lágmarki, verði byggðar á árunum 2023-2032“  „30% íbúðanna verði hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, þ.e. íbúðir innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlánaíbúðir eða óhagnaðardrifin uppbygging fyrir aðra hópa, s.s. stúdenta, eldra fólk og öryrkja“. Sósíalistar árétta að það er ekki nóg. Þak yfir höfuðið eru mannréttindi og húsnæði hinna verst stöddu á ekki að vera öðrum féþúfa. Það er staðreynd að stór hópur býr við óviðunandi aðstæður vegna skorts á viðunandi húsnæði. Sósíalistar leggjast gegn því að 70% íbúðanna verði hagnaðardrifnar. Að sama skapi er nauðsynlegt að endurskoða markmið borgarinnar um 5% markið þar sem þörf er á að fjölga félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar. Við teljum brýnt að hækka hlutfall félagslegra íbúða í eigu Reykjavíkurborgar á sama tíma og við viljum hvetja önnur sveitarfélög til að gera betur minnum við á að við erum höfuðborg landsins, gegnum ákveðnum skyldum og ber að axla ábyrgð á okkar íbúum. 918 manneskjur bíða eftir félagslegu húsnæði ásamt börnum sínum; 604 eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, 135 eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 61 eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 118 sem bíða eftir þjónustuíbúðum aldraðra. Meðalbiðtími er 22 mánuðir eða tæp tvö ár.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september:

 

Flokkur fólksins kallar eftir betri forgangsröðun með skattfé borgarbúa. Á meðan mörg hundruð leikskólapláss vantar og kennurum er gert að vinna við óboðlegar aðstæður er tugum milljóna eytt í endurbætur á þjónustu- og nýsköpunarsviði í Borgartúni. Þetta má lesa í nýútkominni ársskýrslu sviðsins. Ráðnir hafa verið lögfræðingar úr einkageiranum og starfsfólki sviðsins boðið hlunnindi umfram það sem starfsmönnum borgarinnar er boðið. Allt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar- eða tilraunafasa. Byrja hefði átt á lausnum til að einfalda umsóknarferli hjá umhverfis- og skipulagssviði, skóla- og frístundasviði og velferðarsviði í stað lausna eins og mælaborð sundlaugagesta, viðburðar- og sorphirðudagatal, lausnir sem ekki eru brýn. Ákveðinn hluti sem þarna á sér stað er komið úr böndum að mati Flokks fólksins t.d. sú gríðarlega áhersla sviðsins að ætla að „sigra hinn stafræna heim“ á erlendri grund. Áherslan þarf að vera á stafrænar lausnir sem gagnast borgarbúum beint og að velja ávallt hagkvæmustu leiðir í öllum tilvikum. Málaflokkurinn hefur verið fluttur í sérstakt ráð og óttast Flokkur fólksins áframhaldandi aðhaldsleysi og skort á gagnrýnni hugsun meirihlutans.

 

 1. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. september, fundargerðir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 30. júní og 25. ágúst, fundargerðir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. maí og 22. ágúst, fundargerðir skóla og frístundaráðs frá 24. maí og 17. og 22. ágúst, fundargerðir stafræns ráðs frá 29. júní og 24. ágúst, fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní, 10., 17., 24. og 31. ágúst og fundargerðir velferðarráðs frá 25. maí og 10. og 31. ágúst. MSS22010217

2. liður fundargerðir forsætisnefndar; tillaga að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er vísað til síðari umræðu. MSS22080219

3. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga að breytingu á samþykkt fyrir íbúaráð, er samþykktur. MSS22080241

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 24. ágúst:

 

Flokkur fólksins hefur lagt til að skóla- og frístundasvið fari í kraftmeiri aðgerðir í leikskólamálum. Þær 6 tillögur sem meirihlutinn lagði fram duga ekki til. Hluti þeirra lýtur að framtíðarlausnum sem hjálpa ekki þeim foreldrum sem núna eru í vandræðum og komast ekki til vinnu af því að það eru ekki til leikskólapláss. Það eru ekki aðeins foreldrar sem ekki komast til vinnu, börnin fá heldur ekki tækifæri til að hitta önnur börn. Horfa þarf út fyrir boxið. Foreldrar geta þegið margs konar aðstoð ýmist í formi styrkja eða sem dæmi að skipta leikskólaplássi milli tveggja barna, allt eftir því sem foreldrar sjá sér hag í. Aðstæður fólks eru mismunandi. Allt er betra en ekki neitt. Finna þarf leiðir til að nýta innviðina og mannauðinn en ekki bara bíða eftir að nýir skólar verði byggðir og að nýtt starfsfólk verði ráðið. Það þarf að vinna hratt og gera betur. Laga þarf innritunarferli leikskóla borgarinnar strax og gera það gagnsærra fyrir foreldra Leikskólinn þarf stöðugleika, hann þarf leikskólakennara, fjölga þarf þeim með öllum ráðum. Óvissan er að sliga foreldra. Upplýsingamiðlun til þeirra þarf að vera betri. Sá vandi sem nú ríkir var fyrirsjáanlegur en samt var ekkert gert í sumar.

 

Fundi slitið kl. 22:15

 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

 

Aðalsteinn Haukur Sverrisson                                                     Sanna Magdalena Mörtudóttir