B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 7. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:10. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Aron Leví Beck, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir og Vigdís Hauksdóttir. 
Eftirtaldir fulltrúar, auk borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Dóra Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um niðurstöður forhönnunar Laugavegar í níu skrefum.  R21090057

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögurnar eru afrakstur vinnu þriggja þverfaglegra teyma sem leggja meðal annars áherslu á gróður og lýsingu sem nýtur sín allan ársins hring. Lögð er áhersla á aðgengi fyrir alla og algilda hönnun og þau atriði rýnd enn frekar í samráði við aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Það er ánægjulegt að sjá stækkandi göngusvæði í borginni verða að veruleika. Jafnframt ríkir einhugur meðal okkar um að varanlegur regnbogi eigi að vera hluti af því svæði og við munum við tryggja að svo verði, í góðu samráði við samfélag hinsegin fólks.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Óvissa er um kostnað og framkvæmdir vegna áforma um breytta ásýnd Laugavegar og Skólavörðustígs. Framkvæmdir munu taka ófá ár, en nálægar götur hafa þurft að þola áralanga lokun vegna framkvæmda. Þá vekur stöllun gatna með tröppugangi upp spurningar fyrir þá sem fara um göturnar. Nýlega er búið að setja upp 100 rampa í miðborginni sem sjálfsagt þurfa að víkja ef þessi áform ná fram að ganga. Sjálfstæðisflokkur leggst gegn því að regnboginn, tákn hinsegin fólks, víki af Skólavörðustíg, en hann nýtur sérstakrar varanlegrar verndar með samþykkt borgarstjórnar frá 4. júní 2019. Regnboginn hefur fest sig í sessi sem þekkt kennileiti í Reykjavík og sendir sterk skilaboð um að Reykjavík sé borg mannréttinda og frelsis.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

„Laugavegur í 9 skrefum“ og niðurstaða forhönnunar var rædd á fundi borgarstjórnar. Þarna fá arkitektar, ljóshönnuðir og fleiri að leika sér með útsvarstekjur Reykjavíkur þráðbeint út um gluggann. Í kynningunni kemur fram að „von er um að framtíðar göngugötur fái sterka staðarsjálfsmynd, staðaranda og ímynd og aukið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, fyrirtæki, fjárfesta og nýja íbúa með aðgengi fyrir alla í fyrirrúmi.“ Já einmitt – þessar tillögur ganga út á að loka alfarið á bílaumferð, umgengni þeirra sem komast ekki leiðar sinnar nema í hjólastól og skapa mikla hættu fyrir blinda og sjónskerta því verið er að setja blómaker, bekki og annað hist og her. Ekkert samráð var haft við verslunareigendur og rekstraraðila á svæðinu og er það mjög ámælisvert. Einnig er lýst yfir miklum áhyggjum af aðgengi slökkviliðs- og lögreglubíla að svæðinu. Ekki verður betur séð en að þessar aðgerðir þrengi verulega að aðkomu öryggisaðila í hættuástandi. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flestum hugnast göngugötur sem hluti af borgarstemningu þar sem þær eiga við en þær mega þó ekki vera á kostnað aðgengis og umfram allt þarf að skipuleggja þær í sátt og samlyndi við borgarbúa, íbúa í nágrenni og hagaðila. Aðgengi er sagt vera fyrir alla en það er ekki rétt, sbr. misfellur vegna kanta og kantsteina og óslétts yfirborðs sem er að finna í göngugötum. Aðgengi er ekki nógu gott fyrir þá sem nota hjálpartæki, hjólastóla og hækjur. Taka má undir að skreytingar eru fínar, ljós/lýsing, bekkir og blóm, ekkert er yfir þessu að kvarta. Þó eru áhyggjur af því að sjónskertir detti um allt þetta götuskraut. Hvað sem þessu líður þá er göngugötusvæðið orðið mun einsleitara en áður hvað varðar verslun. Tugir verslana hafa flúið af þeim götum sem nú eru göngugötur. Eftir eru helst barir og veitingahús. Verslanir fóru vegna þess að viðskipti snarminnkuðu þegar götum var lokað fyrir umferð. Aðferðafræðin sem notuð var í þessari vegferð hefur skapað leiðindi og reiði sem ekki hefur sjatnað enn. Kannski átti enginn von á að svo sterku orsakasamhengi milli lokunar umferðar og hruns viðskipta verslana. Þegar það blasti við átti að staldra við og eiga alvöru samráð um aðalatriðin.

-    Kl. 15:55 tekur borgarstjóri sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

2.    Fram fer umræða um málefni Fossvogsskóla. R21090058

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa áhyggjur af líðan starfsfólks og barna vegna þeirrar upplausnar sem verið hefur á skólastarfi í Fossvogsskóla síðastliðin þrjú ár. Bregðast þarf strax við svo ekki kvarnist frekar úr starfsliði skólans, en fjölmiðlar hafa þegar greint frá verulegri fækkun í hópi starfsfólks og miklu álagi á þeim sem eftir eru. Huga þarf betur að viðhaldi skólahúsnæðis hjá Reykjavíkurborg en sinnuleysi og viðhaldsskortur hefur alvarlegar afleiðingar líkt og sjá má í málefnum Fossvogsskóla. Þrátt fyrir loforð um bætt samskipti hefur foreldrum ekki enn verið kynnt hvernig vinnu og framkvæmdum við Fossvogsskóla verður háttað, úr því þarf að bæta. Tekið er undir með umboðsmanni barna um að gera þurfi óháða úttekt á viðbrögðum og aðgerðum vegna ástands á húsnæði Fossvogsskóla án tafar, svo fyrirbyggja megi að ástandið endurtaki sig.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samráð við foreldra hefur ráðið miklu varðandi þær tímabundnu ráðstafanir sem ákveðnar hafa verið á skólahaldi Fossvogsskóla. Vilji foreldra hefur staðið til þess að yngstu árgangarnir stundi nám í nærumhverfinu og er 1. bekk kennt á lóð Fossvogsskóla og 2.-4. bekk tímabundið í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Hefur sú ráðstöfun mælst vel fyrir meðal nemenda og starfsfólks. Nemendur í 2.-4.bekk snúa aftur á lóð Fossvogsskóla innan fárra vikna þar sem nú er unnið að uppsetningu og frágangi nýrra færanlegra húsa sem munu hýsa fjölbreytt skóla- og frístundastarf nemendanna á þessu skóla. Þá er tilbúinn nýr verkferill þar sem dreginn er skýr lærdómur af því sem betur má fara varðandi skipulag, verkstjórn, undirbúning og upplýsingagjöf um framkvæmdir sem tengjast myglu og rakaskemmdu húsnæði í eigu borgarinnar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Afskriftartími fasteigna í opinbera geiranum er 50 ár og því eiga 2% af virði eignanna að fara í viðhald á ári. Innri leiga Fossvogsskóla hefði því átt að nema a.m.k. þessari fjárhæð á hverju ári. Fasteignamat skólans samkvæmt álagningu fyrir árið 2022 losar rúman 1,3 milljarð og því hefði átt að ráðstafa 26-30 milljónum í viðhald á ári. Á fundi borgarráðs 2. september sl. lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurnir: Hver hefur innri leiga Fossvogsskóla verið sl. 20 ár sundurliðað eftir árum og hvað hafa háar fjárhæðir runnið til viðhalds Fossvogsskóla undanfarin 20 ár sundurliðað eftir árum? Einnig óskaði ég eftir að borgarráð fái viðhaldssögu Fossvogsskóla samhliða svörum við þessum spurningum. Hefði verið tekið á vandanum af festu strax í upphafi þá væru börn, starfsfólk og foreldrar í allt annarri og betri stöðu. Nú þegar hafa verið settar 500 milljónir í endurbætur sem virðist til einskis. Málefni Fossvogsskóla eru því á byrjunarreit og Hjálpræðishernum er þakkað innilega fyrir að bjarga reykvískum börnum frá þessu ástandi sem er heimatilbúið af borgarstjóra. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ekki sér fyrir endann á myglumáli Fossvogsskóla. Það sem fer hvað mest fyrir brjóstið á borgarfulltrúa Flokks fólksins er að ekki var hlustað þótt börn væru að veikjast. Viðbrögð meirihlutans sýndu vanvirðingu meirihlutans í garð foreldra, barna og starfsfólks. Loks þegar gengið var í verkið var verktaki greinilega ekki að vinna fullnægjandi vinnu og komst upp með það. Ef spurt var um málið hjá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur var svarað með hroka og skætingi. Við tók tímabil hunsunar. Það situr í fólki. Í sumar var sagt að samhljómur hafi verið um ákveðna niðurstöðu skoðanakönnunar sem Reykjavík sendi á starfsfólk og foreldra barna í Fossvogsskóla. Næsta sem fréttist var að misbrestur var á framkvæmd könnunarinnar sem sögð var hafa verið keyrð í gegn á sólarhring. Sú sviðsmynd sem samhljómur var um var að koma átti nemendum í 1. til 3. bekk í tíu færanlegar kennslustofur á bílastæði við skólalóð skólans fyrir skólabyrjun mánudaginn 23. ágúst. Nú eru tafir á því vegna COVID-19. Það sem vekur þó furðu er að einingarnar sem voru pantaðar eru hannaðar til nota í heitari löndum en á Íslandi og hefur verið gripið til þess ráðs að þykkja útveggi. 

-    Kl. 18:00 er gert hlé á fundi. 
-    Kl. 18:45 er fundi áfram haldið og þá hafa Katrín Atladóttir og Dóra Magnúsdóttir vikið af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekið sæti í gegnum fjarfundarbúnað. Jafnframt tekur Skúli Helgason sæti á fundinum að hléi loknu í gegnum fjarfundarbúnað. 

3.    Umræðu um framgang mála á á kjörtímabilinu er frestað.  R21090059

4.    Fram fer umræða um niðurstöður könnunar á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu.  R21090060

-    Kl. 20:10 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti í gegnum fjarfundarbúnað. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er ánægjulegt að sjá þessa ferðakönnun sem staðfestir að Reykvíkingar eru ekki að yfirgefa fjölskyldubílinn og 78,7% ferðast til og frá vinnu á bíl. Athygli vekur að einungis 4% ferðast með strætó sem er ekki í samræmi við uppbólgnar farþegatölur sem berast frá Strætó bs. Það er sama hvað meirihlutinn hamast á móti fjölskyldubílnum og leggi í mikinn kostnað við að útrýma bílastæðum í miðborginni, þá tekur fólk ekki við þeim kúgunartilburðum sem betur fer. Reykjavíkurborg liggur á stóru landssvæði og fólk einfaldlega verður að sinna daglegu lífi á bílum. Það er mál að linni hjá meirihlutanum og viðurkenni að stefna þeirra í umferðarmálum hefur magalent út í skurði. Þau geta ekki þröngvað sínum lífstíl og hugarórum upp á Reykvíkinga í átt að þröngsýni, einsleitni, rörsýn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt ferðavenjukönnun Maskínu til og frá vinnu vill meirihluti fólks helst nýta aðra ferðamáta en einkabílinn til og frá vinnu og þetta hefur haldið sér í gegnum fjórar kannanir. Í þessari könnun er í fyrsta sinn mæld notkun og áhugi á rafmagnshlaupahjólum til og frá vinnu og ljóst að örflæðibyltingin er raunveruleg og hefur orðið hluti af hversdagslífi fólks og breytt ferðavenjum í borginni. Það eru miklu fleiri sem ferðast með bíl í dag heldur en þau sem vilja helst nota slíkan ferðamáta. Stórt hlutfall þeirra sem fara oftast til vinnu með bíl myndu þó frekar vilja nýta annan fararmáta. Það eru mikilvæg skilaboð sem borgin þarf að hlusta á.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú er birt ferðavenjukönnun Reykjavíkurborgar í fjórða sinn, en þetta er í fyrsta sinn sem spurt er á sama tíma milli ára. Spurt er um hvernig fólk ferðast til vinnu. Athygli vekur að töluvert fleiri velja sér einkabílinn til að fara til vinnu eða 75% sem bílstjóri, en í fyrra voru það 63%. Þá voru 4% ferða til vinnu með strætó sem er umtalsvert minna en í fyrra, en þá voru það 7% ferða. Rétt er að rifja upp að borgarstjórn samþykkti að auka tíðni strætó á helstu leiðum í 7,5 mínútur í upphafi kjörtímabilsins 2018. Það hefur ekki verið gert. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það kom kannski ekki á óvart í þessari könnun sem og fyrri könnunum að um 80% eru með bíl sem sitt fyrsta val þegar horft er til ferða til og frá vinnu. Samt eru nú komnir öflugir hjólainnviðir víða í borginni. Ekki er að sjá að ferðabreytingar séu í aðsigi enda þótt fólk vilji fleiri valmöguleika. Þetta er áhugavert í ljósi þess að borgaryfirvöld hafa lagt mikið á sig til að koma hlutdeild bílsins niður undir 50%. Reynt hefur verið að þrýsta fólki til að leggja bíl sínum. Þrýstiaðgerðir eru í formi þess að gera tilveru bílnotenda erfiða s.s. með því að laga ekki þá staði þar sem umferðarteppur og flöskuhálsar myndast og laga ljósastýringar sem eru víða í ólestri. Hjólareiðar hafa aukist bæði sem áhugamál og sem samgöngutæki. Notendum strætó hefur fækkað hlutfallslega, margir farnir að nota rafhjól frekar. Helstu mistök þessa meirihluta er vinna ekki í því að liðka fyrir öllum ferðamöguleikum. Hafa ætti að markmiði að draga úr töfum hvernig svo sem fólk kýs að koma sér milli staða. Enn er langt í borgarlínu, a.m.k. 2-3 ár í 1. áfanga. Vandinn er að það eru ekki fyrir hendi öflugar almenningssamgöngur sem val fyrir þá sem aka bíl.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Ýmislegt hefur áhrif á upplifun barna á skólamáltíðum og mötuneyti og mikilvægt er að líta til radda þeirra við skipulagningu þjónustunnar. Lagt er til að unnið verði að eins árs tilraunaverkefni þar sem börn í grunnskólum Reykjavíkurborgar komi að mótun matseðla í skólum sínum. Þá er einnig lagt til að börn fái að hafa áhrif á uppsetningu mötuneyta sinna ef þau telja þörf á breytingu þar á. Uppsetning miði að þáttum líkt og skipulagningu rýmisins og lengd matmálstíma svo dæmi séu tekin. Mikilvægt er að leita eftir upplifunum og skoðunum barna á skólamáltíðum þegar verið er að skipuleggja matseðla og mötuneyti. Börn hafa kallað eftir fjölbreyttari fæðu í mötuneytum og því er lagt til að leitað verði til þeirra í ríkari mæli þegar verið er að skipuleggja matseðla í grunnskólum. Áfram verði unnið út frá viðmiðum um hollan mat en mark barnanna fái að setja svip sinn á matseðlana. Sem dæmi mætti nota slembival barna úr öllum bekkjum og mynda þannig hópa eftir árgöngum sem skipuleggi matseðla og fái utanumhald starfsfólks eftir því sem við á. Skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með skólaráðum og nemendafélögum og skólasamfélaginu þannig að raddir barnanna móti matseðla og uppsetningu mötuneyta. Sviðinu verði einnig falið að útfæra í samvinnu við skólasamfélagið á hvaða skólum skuli byrjað, hvort allir skólar taki þátt í verkefninu samtímis eða einn skóli í hverju hverfi til að byrja með. Áður en tilraunaverkefnið hefst verið skráð niður hversu mikil matarsóunin hefur verið í skólanum og fjöldi barna í mataráskrift. Að loknu tilraunaverkefni verði gerður samanburður til að sjá hvort einhverjar breytingar hafi orðið á þessum þáttum. Einnig verði fylgst með þessum þáttum reglulega á meðan á tilraunaverkefninu stendur. Markmið með þessu er að fylgjast með því hvort að breytingar hafi áhrif á matarsóun og fjölda skráninga í mataráskrift.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21090061
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan fellur vel að bæði matarstefnu borgarinnar og lýðræðisstefnu borgarinnar þar sem sérstaklega er fjallað um aukið lýðræði í skóla og frístundastarfi. Tillagan felur í sér valdeflingu barna og að hlustað sé á raddir barna og ungmenna varðandi uppbyggingu matseðla í skólamötuneytum, skipulag rýmis mötuneyta o.s.frv. Tillagan verðskuldar rýni á vegum skóla- og frístundasviðs og -ráðs og verður tekin til vandlegrar meðferðar og úrvinnslu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þátttaka og aðkoma barna að mötuneytismálum skóla er afar mikilvæg. Börn njóta sín best í umhverfi þar sem þau fá að skapa, finna hugmyndum sínum farveg og framkvæma sjálf hlutina eftir því sem aldur og þroski leyfa. Þátttaka og aðkoma barna að mötuneytismálum skóla sinna geta verið í mörgum myndum. Ein aðkoma er að þau skammti sér sjálf. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt inn fyrirspurn um í hversu mörgum skólum börnin skömmtuðu sér sjálf (fyrir COVID). Taka börnin þátt í að setja saman fjölbreyttan matseðil? Hvað vilja börnin borða í skólanum? Ein mikilvægasta aðkoma barna í þessu tilliti er hvernig hægt er að draga úr matarsóun. Í sumum skólum vigta nemendur matinn sem þau sjálf leifa og halda yfir það skráningu. Þessi aðgerð eykur meðvitund þeirra og kapp að sporna við matarsóun. Fulltrúi Flokks fólksins vill gjarnan sjá alla skóla grænfána skóla eða grænfána vottaða. Grænfáninn er skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Sjálfsagt er að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður. Markmið borgarinnar á skilyrðislaust að miðast að því að gera öllum leik- og grunnskólum borgarinnar kleift, m.a. fjárhagslega, að taka þátt í verkefninu.

6.    Fram fer umræða um rekstur og stöðu SORPU bs. í ljósi umfjöllunar í Stundinni.  R21090062

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir umræðu vegna umfjöllunar um SORPU í Stundinni. Málið er alvarlegt og er stjórn ein ábyrg sem og meirihlutinn í borgarstjórn sem hlýtur að hafa vitað af því að þarna á ferðinni voru rangir og óeðlilegir hlutir á ferð. Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, árið 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. Ekki var farið í útboð. Framkvæmdakostnaður fór langt fram úr áætlun. Innri endurskoðun skoðaði þetta mál og skilaði svartri skýrslu. GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plasti frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Stjórn SORPU hlustaði ekki á varnaðarorð um að moltan yrði aldrei laus við plast. Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. SORPA hefur hindrað aðgengi að gögnum og neitaði að afhenda sýni. Ekki hefur tekist að selja metangas sem er nú brennt á báli. Strætó nýtir metanið lítið, aðeins tveir metanvagnar eru á döfinni. GAJU ævintýrið var bara draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fé. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Unnið hefur verið afar vel úr þeirri stöðu sem upp kom í SORPU bs. á kjörtímabilinu og hefur félagið gengið í endurnýjun lífdaga. Nú stendur fyrir þrifum gerbreytt úrgangsstjórnun sem hefur í för með sér innleiðingu hringrásarhagkerfisins og endalok urðunar á lífrænum úrgangi. Reykjavíkurborg er að hefja sérsöfnun á lífrænum úrgangi í haust og stendur til að innleiða hana fyrst í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Árbæ og Norðlingaholti sem val og síðan hverfi eftir hverfi og að lokum, eins og lög gera ráð fyrir, skylda flokkun lífefna við upprunastað. Eins fer fram umfangsmikil vinna á höfuðborgarsvæðinu við að samræma söfnun úrgangsflokka og taka höndum saman um að ná kolefnishlutleysi og stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum. Traust auðlindastjórnun með aukinni endurvinnslu, endurnýtingu og endurnotkun er leiðin sem skilar okkur árangri í þeirri vegferð.

7.    Umræðu um biðlista fatlaðs fólks og vöntun á sértæku húsnæði og húsnæði með stuðning er frestað. R21090063

8.    Lagt er til að Ólafur Kr. Guðmundsson taki sæti sem varamaður í skipulags- og samgönguráði í stað Arnar Þórðarsonar. R18060086
Samþykkt. 
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og Ellen Jacqueline Calmon, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9.    Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í skipulags- og samgönguráði í stað Valgerðar Árnadóttur. R18060086
Samþykkt.

10.    Lagt er til að Ólafur Kr. Guðmundsson taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R20030171
Samþykkt. 
Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata og Ellen Jacqueline Calmon borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

11.    Samþykkt að taka á dagskrá beiðni borgarfulltrúans Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur um lausn frá störfum til loka kjörtímabilsins dags. 1. september sl. R21090004
Samþykkt.

12.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 24. júní, 1. og 22. júlí, 12. og 26. ágúst og 2. september. R21010001

-    Kl. 22:35 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og tekur sæti með fjarfundarbúnaði. 

12. liður fundargerðarinnar frá 2. september, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021 er samþykktur. R21010107
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
17. liður fundargerðarinnar frá 2. september, umbætur á skipulagi og umhverfi leikskólastarfs Reykjavíkurborgar er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R20010252
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar frá 2. september:

Tillögur um breyttan opnunartíma og breytingar á skipulagi leikskóladagsins eru liður í að standa vörð um gæði leikskólastarfsins og bæta daglegt vinnuumhverfi barna og starfsfólks í leikskólum borgarinnar. Það er eitt mikilvægasta verkefni málaflokksins því gæði starfsins eru grundvöllur þess að yfir 90% foreldra lýsa yfir ánægju með starfið í leikskólunum. Komið er til móts við þarfir foreldra sem þurfa lengri opnunartíma með því að 1-2 leikskólar í hverju hverfi verða opnir til kl. 17. Þess má geta að leikskólar í öðrum sveitarfélögum eins og Kópavogi, Akureyri og Reykjanesbæ eru opnir til 16:30 og hefur það reynst vel. Þá var stærstur hluti umsagna þar á meðal frá foreldrafélögum jákvæður í garð breytinganna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar frá 2. september:

„Fjölskyldur í forgang“ er slagorð Samfylkingar fyrir alþingiskosningar. Það er kaldhæðnislegt nú þegar blasa við þjónustuskerðingar á leikskólum borgarinnar sem koma munu illa niður á fjölskyldufólki í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkur leggst eftir sem áður alfarið gegn skerðingunni. Það hefur fulltrúi foreldra leikskólabarna í skóla- og frístundaráði jafnframt gert. Jafnréttismat hefur sýnt glöggt hvernig skerðingin kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Fjölmargir eru á biðlistum eftir leikskólaplássi og frístund um alla borg. Dagforeldrum fer fækkandi ár frá ári. Nemendur Fossvogsskóla hafa ekki fengið varanlega lausn í áralangri baráttu fyrir heilnæmu skólahúsnæði. Málefni fjölskyldunnar virðast afgangsstærð í borginni – allt í boði Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. september:

Hér eru lagðar fram tillögur um umbætur og skipulag leikskólastarfs og þ.m.t. tillaga um að opnunartími leikskóla tíma styttist til 16:30. Jafnréttismat sýndi fram á að ýmsir eigi erfitt með að mæta breyttum opnunartíma. Mikilvægt er að skólastarf taki tillit til þarfa og aðstæðna ólíkra barna og fjölskyldna þeirra og að frekar sé leitast við að skoða eflingu skólastigsins í stað þess að ábyrgðinni sé velt yfir á fjölskyldur til að mæta breytingum. Jafnréttismat sýnir fram á að ekki geta allir foreldrar sótt börn sín fyrr úr leikskólanum né treyst á félagslegt tengslanet. Tillaga meirihluta felur í sér að einn til tveir leikskólar verði opnir í hverju hverfi til 17:00 fyrir þau sem þurfa sem leiðir til þess að börn þurfi að skipta um leikskóla. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að byggja skólastarfið upp í kringum núverandi þarfir barna í stað þess að börn þurfi að aðlaga sig að breytingum. Mikilvægt er að allt verði skoðað til að tryggja að starfsfólk leikskóla fái það sem þau þurfi til að tryggja að skólarnir geti verið opnir til 17:00 án þess álags sem þau lýsa í meðfylgjandi skýrslu og þannig að starfið geti verið byggt upp með þeim leiðum sem þau telja farsælast.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. september:

Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði leggur til að opnunartími leikskóla borgarinnar verði 7:30 til 16:30 hjá öllum leikskólum frá 1. nóvember 2021. Þessi ákvörðun er tekin í óþökk flestra foreldra enda er verið að skerða þjónustuna. Skerðing þjónustu hefur slæmar afleiðingar fyrir marga foreldra, þá sem hafa ekki sveigjanlegan vinnutíma og starfa fjarri leikskóla barna sinna. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi en foreldrar vinna sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og sitja jafnvel fastir í umferðarteppu á þessum tíma. Enginn fulltrúi foreldra sat í stýrihópnum sem vann tillöguna og finnst fulltrúa Flokks fólksins það miður. Nú vill meirihlutinn að fólk hjóli í stað þess að nota einkabílinn. Stytting opnunartíma leikskóla kemur illa við þá foreldra sem nota hjól sem samgöngutæki. Fulltrúi Flokks fólksins er tortrygginn út í samráðsferlið og telur að úti í samfélaginu sé stór hópur foreldra sem er ósáttur með skerðingu þjónustunnar. Raddir þeirra hafa ekki náð eyrum meirihlutans í skóla- og frístundaráði. Fulltrúi Flokks fólksins skilur viðhorf leikskólastarfsfólks sem er undir miklu álagi vegna manneklu. Lausnin er ekki að skerða þjónustu heldur finna leiðir til að fjölga starfsfólki.


13.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. september, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. júní og 12. og 26. ágúst, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. og 28. júní og 23. ágúst, skipulags- og samgönguráðs frá 23. og 30. júní, 7. júlí, 25. ágúst og 1. september, skóla- og frístundaráðs frá 22. júní og 17. og 24. ágúst, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 16. júní og velferðarráðs frá 16. júní og 18. ágúst. R18060129
5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. september, tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar – fjarfundarbúnaður, er vísað til síðari umræðu. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. september og 17. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 16. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins vonar að fjarfundamöguleikinn sé kominn til að vera enda gagnlegt að eiga þess kost að vera á fjarfundi eftir atvikum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að forsætisnefnd samþykki að fundarmenn á fjarfundum skuli ávallt vera í mynd á fjarfundunum en að leyft verði að slökkva á myndavél rétt á meðan snætt er eða farið á salerni. Á því hefur borið alltof oft að borgarfulltrúar í fjarfundi séu með slökkt á myndavélum allan fundinn. Það er óviðunandi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að hundar verði leyfðir í anddyri eða afgreiðslurými borgarþjónustufyrirtækja í stað þess að eigendur þeirra þurfi að festa þá utandyra meðan þeir ganga erinda sinna hjá borginni. Hundar eru óvelkomnir á flesta staði innanhúss í opinberu rými borgarinnar og í borginni. Tillögunni vísað frá með þeim rökum að fylgja þurfi lögum. Að sjálfsögðu á að fylgja lögum en borgin setur sínar eigin reglugerðir. Reykjavík státar sig af því að vera hundavæn borg en gerir of lítið til að sýna það viðhorf. Frá meirihlutanum getur komið hvatning til eininga borgarinnar um fjölmargt sem snýr að málefnum hunda í borginni.

Fundi slitið kl. 23:06

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon    Kolbrún Baldursdóttir