B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, föstudaginn 11. júní, var haldinn sameiginlegur fundur Borgarstjórnar Reykjavíkur og Reykjavíkurráðs ungmenna. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Þórdís Pálsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Daníel Örn Arnarsson, Líf Magneudóttir, Rannveig Ernudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ásgerður Jóna Flosadóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Skúli Helgason og Geir Finnsson. Jafnframt voru komnir til fundar eftirtaldir fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna: Bára Katrín Jóhannsdóttir, Justina Kiskeviciute, Björk Arnardóttir, Freyja Rúnarsdóttir, Brynjar Bragi Einarsson, Elísabet Lára Gunnarsdóttir, Embla María Möller Atladóttir og Annija Keita Róbertsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Báru Katrínar Jóhannsdóttur frá ungmennaráði Árbæjar og Holta:

Lagt er til að borgarstjórn feli skrifstofu borgarstjórnar að finna leiðir til að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fyrir á árlegum fundi með borgarstjórn og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði gerðar aðgengilegar. Lagt er til að úrbætur verði kynntar eigi síðar en í janúar 2022.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060145
Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Justinu Kiskeviciute frá ungmennaráði Kjalarness:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að hefja vinnu við innleiðingu náms á unglingastigi þar sem áhersla er lögð á fræðslu um lýðræði og lýðræðislega þátttöku í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkur. Miða skal við að kennsla hefjist í öllum grunnskólum eigi síðar en á haustmisseri 2022.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060146
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Bjarkar Arnardóttur frá ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða:

Lagt er til að borgarstjórn feli aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks að yfirfara aðgengi fyrir hjólastóla í grunnskólum og félagsmiðstöðvum fyrir árslok 2021 og gera tillögur að úrbótum til umhverfis- og skipulagssviðs sem skal ljúka úrbótum fyrir árslok 2022.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060147
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

-    Kl. 15:55 víkur Skúli Helgason af fundi og Þorkell Heiðarson tekur sæti.
-    Kl. 16:00 víkur borgarstjóri af fundi og Heiða Björg Hilmisdóttir tekur sæti. 

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Freyju Rúnarsdóttur frá ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða:

Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði að bjóða nemendum á unglingastigi í grunnskólum aukna forvarnafræðslu í tengslum við ofbeldi unglinga. Lagt er til að boðið sé upp á slíka fræðslu frá og með hausti 2022.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060148
Vísað til meðferðar ofbeldisvarnarnefndar.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Brynjars Braga Einarssonar frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:

Lagt er til að borgarstjórn feli forsætisnefnd að gera nauðsynlegar breytingar til að tryggja fulltrúum Reykjavíkurráðs ungmenna laun fyrir setu á fundum ráðsins. Lagt er til að breytingin taki gildi haustið 2021.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060149
Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

-    Kl. 17:00 víkur Freyja Rúnarsdóttir af fundinum.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Elísabetar Láru Gunnarsdóttur frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:

Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundaráði að gera sund að valfagi á unglingastigi að því gefnu að nemandi hafi staðist stöðupróf um grunnhæfniviðmið skólasunds. Lagt er til að breytingin taki gildi í byrjun skólaárs 2021-2022.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060150
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Emblu Maríu Möller Atladóttur frá ungmennaráði Grafarvogs:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og heilbrigðisráði að hefja vinnu við að gera Reykjavík að plastlausri borg ekki seinna en árið 2026. Miða skal við að vinna við það hefjist ekki seinna en haustið 2021 og gefast þá fimm ár í að ná settu markmiði.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060151
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

8.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Anniju Keitu Róbertsdóttur frá ungmennaráði Breiðholts:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að sjá til þess að börn og unglingar á mið- og unglingastigi í grunnskólum í Reykjavík fái fræðslu um þungunarrof eigi síðar en veturinn 2022-2023.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21060152
Vísað til meðferðar starfshóps skóla- og frístundasviðs um kynja- og hinseginfræðslu.

Fundi slitið kl. 17:55
Forseti borgarstjórnar gekk frá fundargerð

Alexandra Briem