Fundur nr. 216

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 28. september, var haldinn 216. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S) og  Diljá Ámundadóttir Zoëga (C). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Bára Katrín Jóhannsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt greinargerð um útlit og skipulag á nýju leikskólahúsnæði á fjórum stöðum í borginni:

  Lagt er til að settir verði á fót nýir leikskólar við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Barónsstíg og í Vogabyggð. Leikskólarnir verði svokallaðar Ævintýraborgir í færanlegu húsnæði sem hæfir vel nútíma leikskólastarfi og kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks. Leikskólarnir munu geta tekið á móti um 340 börnum samtals og er stefnt að því að þeir opni á tímabilinu nóvember 2021 til mars 2022. Skóla- og frístundasvið hefji formlegan undirbúning að mótun ferla varðandi umsóknir foreldra og innritun barna, ráðningu starfsfólks, kynningarmál og öðru sem tengist opnun leikskólanna.

  Greinargerð fylgir. 

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021090247

  Hallgrímur Hafsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  -    Kl. 13:00 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum. 

  -    Kl. 13:08 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fjórir nýir leikskólar opna á næstu 6 mánuðum í borginni sem mun bæta til muna möguleika ungbarnafjölskyldna á að tryggja sér leikskólapláss fyrir börn sín. Leikskólarnir verða staðsettir við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Barónsstíg og í Vogabyggð. Leikskólarnir verða svokallaðar Ævintýraborgir í færanlegu húsnæði sem hæfir vel nútíma leikskólastarfi og kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks. Þessir fjórir leikskólar munu geta tekið á móti um 340 börnum og er stefnt að því að þeir opni á tímabilinu nóvember 2021 til mars 2022. Opnun nýrra leikskóla er liður í aðgerðaráætluninni Brúum bilið sem hefur að markmiði að fjölga leikskólarýmum í Reykjavík svo bjóða megi börnum leikskólapláss þegar 12 mánaða fæðingarorlofi sleppir. Aðgerðaáætlunin var samþykkt í borgarstjórn fyrir tæpum tveimur árum og felur í sér byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingar við starfandi leikskóla og viðbótardeildir í færanlegu húsnæði. Þá er fjölgað rýmum í sjálfstætt reknum leikskólum. Foreldrar geta strax farið að sækja um í Ævintýraborgunum fjórum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um mjög dýrt tímabundið úrræði að ræða. Því miður hefur borgin vanrækt uppbyggingu á leikskólarýmum síðustu kjörtímabil með þeim afleiðingum að grípa þarf til mjög dýrra bráðabirgðaúrræða á kosningavetri svo „brúa megi bilið“ milli kosningaloforða og raunveruleikans. Betur færi á því að leita framtíðarlausna við viðvarandi biðlistavanda leikskólanna. Samkvæmt síðustu tölum voru 740 börn á biðlista eftir leikskólaplássi en þess utan er fjöldi barna sem sækir leikskóla í öðru hverfi en sínu eigin. Mikilvægt verður að tryggja sátt við nágrenni þegar þessum tímabundnu úrræðum verður komið fyrir.

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar því að Ævintýraborgir við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Vörðuskóla við Barónsstíg 34 og Vogabyggð 5 með plássum fyrir 340 börn muni opna í borginni á næstu sex mánuðum. Það er gleðiefni að búið er að ráða til starfa leikskólastjóra við allar Ævintýraborgirnar en mikilvægt er að vel takist til að manna þessa nýju leikskóla þar sem á þeim verður mikið af börnum í yngsta aldurshópi. Huga þarf sérlega vel að kynningu til foreldra nú þegar opnað hefur verið fyrir umsóknir um pláss á Ævintýraborgunum svo allir foreldrar í borginni standi jöfn þegar kemur að úthlutun plássa. Vanda þarf kynningu fyrir foreldra sem ekki hafa íslensku sem móðurmál sem oft þekkja ekki jafn vel hvernig fyrirkomulag umsókna er. Við uppsetningu lóða Ævintýraborga þarf einnig að huga sérstaklega að góðri aðstöðu til að geyma hjól til að ýta undir virka samgöngumáta.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram skýrsla starfshóps um verklag vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar, ódags. SFS2021090248

  -    Kl. 13.30 víkur Alexandra Briem af fundinum og Dóra Björt Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

  Stefanía Scheving Thorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Að frumkvæði meirihlutans í borgarráði hefur verið mótaður nýr verkferill um hvernig beri að bregðast við þegar koma upp raka- og myglumál í húsnæði borgarinnar. Þessi ítarlegi verkferill hefur verið unninn með sérfræðingum í málaflokknum. Með þessu er verið að skerpa á því sem betur megi fara varðandi skipulag, verkstjórn, undirbúning og upplýsingagjöf um framkvæmdir sem tengjast myglu og rakaskemmdu húsnæði í eigu borgarinnar. Við höfum séð þörfina á betra verklagi í slíkum málum og hér er brugðist við til að gera betur í framtíðinni. Um er að ræða greiningar á helstu orsökum lélegra loftgæða og rakaskemmda, að draga fram þær áhættur sem vakna eftir að léleg loftgæði og rakaskemmdir hafa birst, viðbragðsáætlun og virkt eftirlit. Þá er hér að finna greiningu á veikum hlekkjum og flöskuhálsum í verkferli og viðbragðsáætlun. Með fylgir svo úrbótaáætlun með tilgreindum eigendum og tímamörkum. Nýr verkferill dregur lærdóm af fortíðinni og vísar veginn til framtíðar þar sem tekið er hratt og vel á slíkum málum enda metnaðarmál að búa vel að skóla- og frístundastarfi eins og kveðið er á um í aðgerðaáætlun menntastefnu borgarinnar.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að nú sé loksins kynnt verklag vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar. Langvarandi skortur á viðhaldi hefur dregið fram rakaskemmdir og myglu allt of víða í húsnæði skóla- og frístundasviðs. Mikilvægt er að standa vel að þessum viðbrögðum og verklagi enda húsnæðið fyrst og fremst ætlað ungum börnum og ungmennum. Nauðsynlegt er að viðgerðir og viðhaldsframkvæmdir séu unnar hratt og vandlega, og aðstæður séu nýttar sem best, sérstaklega þegar húsnæði er ekki í notkun, s.s. yfir sumarmánuði eða þegar skólafrí eru. Þannig hafa framkvæmdir minni áhrif en ella á skólastarf. Allt of mörg dæmi eru um að litlar eða engar framkvæmdir hafi verið í gangi á þeim tíma sem skólastarf er niðri. Þessa framkvæmdaglugga þarf að nýta sem best.

  Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva vill lýsa yfir ánægju með þann mikilvæga áfanga að verkferill vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði borgarinnar sé tilbúinn. En um leið er mikilvægt að úttekt á húsnæði frístundastarfs, sem farið var í síðastliðið vor, verið kláruð og kynnt fyrir stjórnendum frístundastarfs sem fyrst.

  Fylgigögn

 3. Fram fer umræða um húsnæðismál skóla- og frístundasviðs. SFS2021090249 

  Agnar Guðlaugsson, Ámundi V. Brynjólfsson og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Undir þessum lið voru kynntar lagfæringar á skólahúsnæði þar sem greinst hefur raki eða mygla. Mikilvægt er að farið verði eftir öllum framkomnum ábendingum Eflu og annarra ráðgjafa, um lagfæringar á Fossvogsskóla, Kvistaborg, Ægisborg og eftir atvikum öðru skólahúsnæði borgarinnar. Mikilvægt er að koma í veg fyrir frekari vandamál vegna myglu í skólahúsnæði Reykjavíkurborgar, en skemmdirnar hafa þegar haft umfangsmikil áhrif á skólastarf og heilbrigði fyrir börnin í Reykjavík.

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands frá fundi borgarstjórnar 7. september 2021 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

  Ýmislegt hefur áhrif á upplifun barna á skólamáltíðum og mötuneyti og mikilvægt er að líta til radda þeirra við skipulagningu þjónustunnar. Lagt er til að unnið verði að eins árs tilraunaverkefni þar sem börn í grunnskólum Reykjavíkurborgar komi að mótun matseðla í skólum sínum. Þá er einnig lagt til að börn fái að hafa áhrif á uppsetningu mötuneyta sinna ef þau telja þörf á breytingu þar á. Uppsetning miði að þáttum líkt og skipulagningu rýmisins og lengd matmálstíma svo dæmi séu tekin. Mikilvægt er að leita eftir upplifunum og skoðunum barna á skólamáltíðum þegar verið er að skipuleggja matseðla og mötuneyti. Börn hafa kallað eftir fjölbreyttari fæðu í mötuneytum og því er lagt til að leitað verði til þeirra í ríkari mæli þegar verið er að skipuleggja matseðla í grunnskólum. Áfram verði unnið út frá viðmiðum um hollan mat en mark barnanna fái að setja svip sinn á matseðlana. Sem dæmi mætti nota slembival barna úr öllum bekkjum og mynda þannig hópa eftir árgöngum sem skipuleggi matseðla og fái utanumhald starfsfólks eftir því sem við á. Skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með skólaráðum og nemendafélögum og skólasamfélaginu þannig að raddir barnanna móti matseðla og uppsetningu mötuneyta. Sviðinu verði einnig falið að útfæra í samvinnu við skólasamfélagið á hvaða skólum skuli byrjað, hvort allir skólar taki þátt í verkefninu samtímis eða einn skóli í hverju hverfi til að byrja með. Áður en tilraunaverkefnið hefst verði skráð niður hversu mikil matarsóunin hefur verið í skólanum og fjöldi barna í mataráskrift. Að loknu tilraunaverkefni verði gerður samanburður til að sjá hvort einhverjar breytingar hafi orðið á þessum þáttum. Einnig verði fylgst með þessum þáttum reglulega á meðan á tilraunaverkefninu stendur. Markmið með þessu er að fylgjast með því hvort að breytingar hafi áhrif á matarsóun og fjölda skráninga í mataráskrift.

  Greinargerð fylgir. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tilraunaverkefni um aðkomu barna að mótun matseðla og uppsetningu mötuneyta í grunnskólum er vísað til stýrihóps um innleiðingu matarstefnu Reykjavíkurborgar.

  Samþykkt. SFS2021090173

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í tillögunni eru viðraðar ýmsar ágætar uppástungur um hvernig bæta megi samráð og aðkomu barna að máltíðum sínum, þar sem þau geti haft áhrif á uppbyggingu matseðla eða komið á framfæri ábendingum varðandi skipulag í matsal. Það fer vel á því að þessari tillögu sé vísað í starfshóp um innleiðingu á matarstefnu borgarinnar.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi borgarráðs 10. júní 2021 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2021: 

  Lagt er til að við undirbúning og þarfagreiningu fyrir Dans- og fimleikahús í Efra Breiðholti verði teknar upp viðræður við skóla- og frístundasvið um að leik- og grunnskólar í hverfinu bjóði upp á danstengt nám sem og valáfanga í dansi á unglingastigi sem myndi auka fjölbreytni á grunnskólastiginu. Það myndi auk þess skapa samfellu í námi á þessu sviði þar sem fyrirhugað er að taka upp viðræður við Fjölbrautaskólann í Breiðholti um danstengt nám. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

  Tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um danstengt nám í leik- og grunnskólum í Breiðholti er vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

  Samþykkt. SFS2021060209

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er áhugaverð tillaga á ferð um að við undirbúning að væntanlegu dans- og fimleikahúsi í Efra Breiðholti verði teknar upp viðræður við skóla- og frístundasvið um möguleika þess að leik- og grunnskólar í hverfinu bjóði upp á danstengt nám. Tillögunni verður vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs og síðan tekin til meðferðar og afgreiðslu í skóla- og frístundaráði í kjölfarið.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að Reykjavíkurborg verði í fararbroddi í menntamálum og heildstæð náms- og starfsráðgjafaráætlun verði mörkuð fyrir árin 2020-2030. Lagt er til að Reykjavíkurborg setji í forgang að marka heildstæða náms- og starfsráðgjafaráætlun og efla náms- og starfsfræðslu í grunnskólum borgarinnar fyrir 1. – 10. bekk sem lið í að framfylgja nýrri menntastefnu fyrir árin 2020-2030. Með slíku frumkvæði væri Reykjavíkurborg að sýna ákveðið fordæmi í menntamálum. Ekkert sveitarfélag hefur markað sér stefnu í náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu með þessum hætti.

  Greinargerð fylgir. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

  Tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildstæða náms- og starfsráðgjafaráætlun er vísað til framtíðarhóps um innleiðingu menntastefnu 2022-2024. 

  Samþykkt. SFS2021060210 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er metnaðarfull tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks þar sem lagðar eru til mikilvægar breytingar á skólastarfi í Reykjavík. Ef gerð væri heildstæð náms- og starfsráðgjafaráætlun og náms- og starfsfræðsla innan grunnskólanna efld, væri Reykjavíkurborg að stíga mikilvægt og stórt skref í þá átt að búa börn undir framtíðina með það veganesti að búa yfir sjálfsþekkingu og hafa trú á eigin getu, búa yfir færni til að stjórna eigin náms- og starfsferli og geta haft áhrif á samfélagið í nútíð og framtíð. Það er því leitt að þessi tillaga nái ekki fram að ganga og sé vísað áfram til framtíðarhóps um innleiðingu menntastefnu 2022 - 2024.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2021, drögum að reglum um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar, reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum, núgildandi reglum með merktum breytingum og reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar:

  Skóla- og frístundaráð samþykkir nýjar og uppfærðar reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Reglurnar taki gildi 1. nóvember 2021 og frá sama tíma falla úr gildi reglur um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar, samþykktar í Menntaráði 3. nóvember 2005. Þegar samþykktur skólaakstur með skólabifreiðum heldur gildi sínu. 

  Greinargerð fylgir. 

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018110156

  Fylgigögn

 8. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. september 2021, að breytingum á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð og reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar. 

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021090267

  -    Kl. 14.33 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Geir Finnsson tekur þar sæti.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. september 2021, um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu ásamt greinargerð og drögum að reglum um leikskólaþjónustu sem gildi frá 1. nóvember 2021, drögum að reglum um leikskólaþjónustu sem gildi frá 1. janúar 2022, núgildandi reglum um leikskólaþjónustu, minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. ágúst 2021, um tillögu varðandi opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og umsögn sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. ágúst 2021.

  Samþykkt og vísað til borgarráðs með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2021060016

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér eru gerðar breytingar á reglum á leikskólaþjónustu til samræmis við nýsamþykktar tillögur stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs, þar með talið um opnunartíma leikskóla. Breytingarnar eru liður í því að bæta starfsumhverfi barna og starfsfólks í leikskólunum og standa vörð um gæði leikskólastarfsins. Lögð er áhersla á að bregðast við niðurstöðum jafnréttismats með því að bjóða þeim foreldrum sem þurfa lengri opnunartíma að nýta sér lengri opnun í 1-2 leikskólum í hverju hverfi.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Sjálfstæðisflokkur leggst eftir sem áður alfarið gegn fyrirhugaðri skerðingu á opnunartíma leikskólanna og leggur áherslu á óskerta þjónustu við fjölskyldur í Reykjavík. Jafnréttismat sýnir glöggt hvernig skerðingin kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Útlit er fyrir að skerðingin verði mikil afturför í jafnréttisbaráttunni. Hvað vakir fyrir jafnaðarmönnum í Reykjavík?

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna mótmælir aftur styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og takmörkun á leyfilegum heildarvistunartíma í 42,5 klst. Sumar fjölskyldur þurfa meiri vistunartíma en þetta og fyrirséð er að þessar breytingar muni auka álag á fjölskyldur í borginni. En þar sem þessar breytingar hafa verið samþykktar er mjög mikilvægt að vel sé staðið að kynningu á þessum breytingum og þeim mótvægisaðgerðum sem lagt hefur verið upp með. Sérstaklega þarf að huga að því að kynna þessar breytingar vel fyrir foreldrum af erlendum uppruna.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram drög að rekstrarleyfi fyrir leikskólann Regnbogann ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. september 2021. 

  Rekstrarleyfi fyrir Gaudium ehf. samþykkt með þeim hætti að það taki gildi 1. október 2021. Frá sama tíma fellur úr gildi rekstrarleyfi Dignitas ehf. Vísað til borgarráðs. SFS2021060296

  Fylgigögn

 11. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. september 2021 og samningur um framlag skóla- og frístundasviðs til leikskólans Regnbogans fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, dags. 18. desember 2018:

  Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. september 2021, að gerður verði nýr samningur vegna sjálfstætt rekna leikskólans Regnbogans, Bleikjukvísl 10, Reykjavík, frá og með 1. október 2021, við Gaudium ehf, kt. 600721-0970. Heimilt verði að greiða framlag vegna 74 barna með lögheimili í Reykjavík. Lagt er til að gildistími samningsins verði til 31. júní 2022 til samræmis við aðra samninga við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík. Sviðstjóra er falið að gera samning við leikskólann Regnbogann vegna framangreinds. Gerður er fyrirvari um að rekstrarleyfi fyrir nýjan rekstraraðila verði samþykkt af skóla- og frístundaráði og borgarráði. 
   
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021060296

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. september 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu ráðningarmála á skóla- og frístundasviði. SFS2021080305

  Fylgigögn

 13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 22. júlí 2021 um framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. SFS2021080053

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 9. september 2021 um framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. SFS2021090155

  Fylgigögn

 15. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. 

  -    kl. 14:55 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum. 
  -    kl. 15:00 víkur Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir af fundinum. 

 16.     Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. ágúst 2021, um mataráskrift grunnskólabarna. SFS2021010076

  Ólöf Kristín Sívertsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er mjög gagnlegt að mæla þátttöku barna í skólamáltíðum og þær ástæður sem að baki liggja þegar börn nýta ekki þennan möguleika. Það er mikilvægt að fá staðfest að mjög lágt hlutfall þeirra sem ekki nýta skólamáltíðir gera það vegna verðs, eða fjárhagsaðstæðna, eða undir 1% í öllum mælingum, en máltíðirnar eru mikið niðurgreiddar. Mun fleiri bera við að þeim finnist maturinn ekki góður, þau vilji frekar koma með nesti, eða af menningar- eða trúarástæðum. Hér eru lagðar til nokkrar úrbætur. Að upplýsingagjöf við foreldra verði efld, sérstaklega til foreldra sem tala önnur tungumál en íslensku, um aðstoð sem hægt sé að fá ef verðið er hindrandi þáttur, og að skólarnir haldi utan um notkun mataráskrifta, og umsjónarkennarar fylgist með að börn sem ekki nota mataráskrift séu þá sæmilega nestuð. Aðrar tillögur eru að áfram sé fylgst með mataráskriftum í skólapúls, samráð og samtal nemenda og foreldra við umsjónarfólk eldhúss sé eflt svo bæta megi matseðla, framboð og gæði, ásamt upplýsingagjöf og að aukið verði framboð á grænkeramat og ávöxtum.

  Fylgigögn

 17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Óskað er upplýsinga um þá verkferla sem unnið er eftir við ráðningar skólastjóra í grunnskólum Reykjavíkurborgar? Sérstaklega er óskað upplýsinga um það hvort notast sé við samræmdar og/eða gagnsæjar aðferðir við val á umsækjendum í slíku ráðningarferli.

  SFS2021090309

 18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hefur verið farið eftir öllum þeim tillögum sem Efla hefur lagt til vegna lagfæringar á Fossvogsskóla?

  SFS2018120034

 19. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Framkvæmdaáætlun stenst augljóslega ekki miðað við stöðuna á framkvæmdum í dag út frá því sem á að vera hafið en er það ekki. Hver er staðan á framkvæmdum við Fossvogsskóla? Hvers vegna eru þessar tafir og hver ber ábyrgð á þeim? Hafa foreldrar verið upplýstir um tafirnar? Er vitað hvenær framkvæmdir eiga að hefjast? Hver er ný lokadagsetning á framkvæmdum? Hver er og verður eftirlitsaðili með framkvæmdum við skólann. 

  SFS2021090310

 20. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Stjórn Foreldrafélags Fossvogsskóla hafa borist nokkrar tilkynningar frá foreldrum um flutning barna úr Fossvogsskóla vegna stöðunnar í skólanum, þ.m.t. húsnæðis, stjórnunarhátta og samskiptaleysis. Einnig var foreldrafélaginu tilkynnt að margir foreldrar hafi haft beint samband við skóla- og frístundasvið um óánægju með málefni Fossvogsskóla. Hversu margar tilkynningar hafa borist til skóla- og frístundasviðs vegna óánægju með málefni Fossvogsskóla? Hversu mörg börn hafa hætt í Fossvogsskóla síðustu tvö skólaár skipt á milli ára? Er vitað hversu margir nemendur í hverfinu eru í einkareknum skólum, eins og t.d Ísaksskóla, Landakotsskóla eða Suðurhlíðaskóla eða í öðrum almennum skólum utan hverfis?

  SFS2021090310

 21. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Foreldrar hafa miklar áhyggjur af starfsmannamálum og samskiptum við stjórnendur. Nú eru 11 ár síðan skólinn fór í gegnum ytra mat og því erfitt að gera sér grein fyrir stöðu mála. Hversu margir kennarar hafa sagt upp störfum síðustu tvö skólaár sundurliðað á milli ára/anna? Hversu marga kennara vantar í Fossvogsskóla í dag? Hafa foreldrar verið upplýstir um það ef kennara skortir í þeirra árgangi? Hvert er hlutfall faglærðra og ófaglærðra kennara við skólann? Hver er meðalstarfsaldur kennara og starfsfólks sem eru í skólanum og hefur sú tala breyst síðustu tvö árin? Hver gætir hagsmuna nemenda og kennara þegar skólastjóri hefur lýst því yfir að hún sé ekki sá aðili? Hefur verið gert úttekt á starfsumhverfinu í Fossvogsskóla? Ef já, hvernig kom hún út? Ef nei, hvers vegna ekki? Hefur verið gerð úttekt á ánægju kennara og starfsfólks á stjórnendum skólans? Ef já, hver var niðurstaðan? Ef nei, hvers vegna ekki? 

  SFS2021090310

 22. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Foreldrar yngri barna hafa lýst yfir ánægju með aðstöðu yngri barnanna í húsnæði Hjálpræðishersins en sama má ekki segja um aðstöðu eldri barnanna í Korpuskóla. Mikill tími fer í að keyra upp í Grafarvog og í Fossvoginn aftur á hverjum degi og eru börn að lenda í því að mæta of seint á íþróttaæfingar þar sem skóladagurinn þeirra lengist sem nemur akstri til og frá skóla. Þar fyrir utan er áreitið í rútunum mikið og fer það misvel í börn og því meira um það að börn séu að byrja skóladaginn í ójafnvægi. Eitthvað er um að foreldrar séu að skutla og sækja börnin í skólann til að hlífa þeim við þessu áreiti. Hefur verið skoðað að hafa yngri börnin áfram í húsnæði Hjálpræðishersins og að eldri börnin verði í skúrum á skólalóð Fossvogsskóla? Ef nei, er það eitthvað sem skóla- og frístundasvið væri tilbúið að skoða með foreldrum? Hvernig er haldið utan um mætingar barna í rúturnar og hvaða börnum er skutlað í skólann? Hvað gerist ef barn missir af skólarútunni og hefur ekki það bakland sem þarf til að vera skutlað í skólann? Hvenær verða skúrarnir tilbúnir til notkunar? 

  SFS2021090310

 23. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Á bæjarstjórnarfundi á Akranesi þann 2. febrúar 2021 þar sem rætt var um myglumál, kom fram að samkvæmt Verkís hafi Reykjavíkurborg ekki farið eftir þeirra tilmælum og ráðleggingum varðandi úttekt á Fossvogsskóla. Fulltrúi Verkís sem var á umræddum fundi sagði sjálfur frá því að ekki hafi verið farið eftir þessu að hálfu Reykjavíkurborgar. Er það rétt að ekki hafi verið farið að ráðleggingum Verkís þegar húsnæði Fossvogsskóla var skoðað? Ef já, hver var ástæða þess að ekki var farið eftir þeirra tilmælum, hver tók þá ákvörðun um að fara ekki eftir þeirra tilmælum og ráðum? Ef já, óskum við eftir upplýsingum og upptalningu á þeim atriðum sem ekki var farið eftir.

  SFS2021090310

Fundi slitið klukkan 15:41