Fundur nr. 221

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 14. desember, var haldinn 221. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32.

Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S) og Elín Oddný Sigurðardóttir (V). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Anna Garðarsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Örn Þórðarson. Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Eygló Traustadóttir og Soffía Pálsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir og Eygló Traustadóttir rituðu fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2021, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva fyrir skólaárið 2021-2022 ásamt starfsáætlunum Kringlumýrar, Miðbergs, Tjarnarinnar og Miðstöðvar útivistar og útináms. 

  -    Kl. 12:43 taka Alexandra Briem, Linda Ósk Sigurðardóttir og Geir Finnsson sæti á fundinum. 

  Samþykkt. SFS2021120019

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar lýsa faglegum metnaði og ástríðu þess unga fólks sem ber hita og þunga af fjölbreyttu starfi frístundaheimila og félagsmiðstöðva um alla borg. Sérstaklega er ánægjulegt hve starfsfólk og stjórnendur leggja sig fram um að innleiða með markvissum hætti menntastefnu og frístundastefnu borgarinnar. Stjórnendum og starfsfólki frístundamiðstöðvanna er þakkað fyrir vel unnin störf og skýra framtíðarsýn í vinnu við starfsáætlanirnar og afburða störf á krefjandi tímum í þágu barnanna í borginni.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. desember 2021, um staðfestingu starfsáætlana grunnskóla fyrir skólaárið 2021-2022 ásamt starfsáætlunum grunnskóla í Reykjavík. 

  Samþykkt. SFS2020020096

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er eitt af lögboðnum hlutverkum skóla- og frístundaráðs á hverju ári að staðfesta starfsáætlanir grunnskóla borgarinnar. Það er ánægjuefni að allir grunnskólarnir hafa skilað starfsáætlun á tilsettum tíma þrátt fyrir augljósar áskoranir í rekstri í tengslum við heimsfaraldur sem valdið hefur mikilli röskun í skóla- og frístundastarfi. Starfsáætlanirnar bera vott um faglegan styrk, þrautseigju og ástríðu fyrir hönd nemenda og starfsfólks í borginni, sem undirstrikar að í Reykjavík er skóla- og frístundastarf í fremstu röð. Stjórnendum og starfsfólki grunnskólanna eru færðar góðar þakkir fyrir vel unnin störf, fagmennsku og skýra sýn við gerð starfsáætlana og jafnframt fyrir þolgæði, útsjónarsemi og vandvirkni við krefjandi aðstæður á tímum heimsfaraldurs.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2021, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla fyrir skólaárið 2021-2022 ásamt starfsáætlunum leikskóla í Reykjavík. 

  Samþykkt. SFS2021060058

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Allir 62 leikskólar Reykjavíkurborgar hafa skilað inn starfsáætlun fyrir yfirstandandi starfsár og sömuleiðis þeir 17 sjálfstætt starfandi leikskólar sem borgin er í samstarfi við. Þetta er til fyrirmyndar og framför frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Það undirstrikar faglegan styrk og metnað leikskólastarfsins í borginni sem stenst prýðilega alþjóðlegan samanburð varðandi gæði fagstarfs, umbúnað, lág vistunargjöld og almennt gott aðgengi barna óháð efnahag forráðamanna. Stjórnendum og starfsfólki leikskólanna eru færðar góðar þakkir fyrir vandaða og góða vinnu við gerð starfsáætlana og ekki síður vel unnin störf við að leysa fjölmargar áskoranir við krefjandi aðstæður heimsfaraldurs - með hag og velferð barnanna í borginni í forgrunni. Þessar starfsáætlanir eru staðfestar með einni undantekningu.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2021: 

  Lagt er til að frá og með 1. janúar 2022 fái félagsmiðstöðin sem nú ber heitið Tían, nafnið Ársel. 

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021120023 

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2021: 

  Lagt er til að ný félagsmiðstöð við Sæmunarskóla fái nafnið Plútó í samræmi við niðurstöður nafnasamkeppni sem efnt var til meðal nemenda í 5. – 10. bekk. 

  Greinargerð fylgir.
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021120052

  -    Kl. 13.15 tekur Brynjar Bragi Einarsson sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2021: 

  Lagt er til að ný félagsmiðstöð við Dalskóla fái nafnið Fellið í samræmi við niðurstöður nafnasamkeppni sem efnt var til meðal nemenda í 5. – 10. bekk. 

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021120053

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 23. nóvember 2021:

  Lagt er til að viðhaldsmál Hagaskóla verði sett á dagskrá næsta fundar skóla- og frístundaráðs. Það vekur furðu að málefni Hagaskóla skuli ekki hafa verið sett sérstaklega á dagskrá fundar skóla- og frístundaráðs í dag í ljósi þess að mygla greindist í húsnæði skólans í liðinni viku. Þá hefur einni álmu skólans verið lokað sem óneitanlega mun hafa eitthvað rask á skólastarfi í för með sér. Leggja hefði átt fram skýrslu Mannvits frá því í apríl um ástand skólans sem hefur verið í mikilli viðhaldsþörf til margra ára og fá sérfræðinga frá framkvæmdasviði borgarinnar til að fara yfir þær framkvæmdir sem bráðnauðsynlegt er að ráðast í. Það ætti að vera sjálfsagt mál að upplýsa ráðið ítarlega um svo aðkallandi mál enda ber það ábyrgð á skólastarfi í borginni. Fram hefur komið að starfsmaður hafi farið í veikindaleyfi sem viðkomandi telur að rekja megi til myglunnar í skólanum. Þegar grunur um myglu kom upp í október hefði átt að loka húsnæðinu strax á meðan rannsóknir færu fram til að taka af allan vafa um að kennsla færi fram í heilsuspillandi húsnæði. Það er líka ámælisvert að árið 2019 voru engin sýni um myglu tekin þegar fjöldi nemenda og starfsmanna Hagaskóla sýndu einkenni sem bentu til að skólahúsnæðið væri heilsuspillandi. Að ofansögðu er nauðsynlegt að málið verði tekið til umfjöllunar í ráðinu hið fyrsta.

  Samþykkt. SFS2021110192

  -    Kl. 13:27 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum. 

  -    Kl. 13.30 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum. 

  Fylgigögn

 8. Fram fer kynning á stöðu húsnæðismála Hagaskóla. SFS2021110192

  Kristjana Ósk Birgisdóttir, Gréta Þórsdóttir Björnsson, Kristján Sigurgeirsson, Rúnar Ingi Guðjónsson og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  -    Kl. 13.34 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum. 

  -    Kl. 14.03 víkur Geir Finnsson af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur þar sæti.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er ljóst að margar af byggingum skóla- og frístundasviðs eru í þörf fyrir aukið viðhald, bæði vegna þess að þær eru komnar á aldur, og vegna viðhaldsskuldar sem safnaðist upp í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Reykjavíkurborg hefur brugðist við með því að semja nýjan verkferil um viðbrögð við grun um raka eða mygluvanda í húsnæði, í samráði við helstu sérfræðinga landsins, og með því að setja í gang metnaðarfullt viðhaldsátak þar sem 25-30 milljörðum verður varið í viðhald skóla- og frístundahúsnæðis á næstu 5-7 árum eða 4-5 milljörðum á ári. Síðan nýtt verklag var mótað hafa öll viðbrögð við málum sem tengjast myglu og loftgæðum verið ákveðin og fumlaus, nauðsynlegir aðilar mismunandi fagsviða hafa verið kallaðir til og samþætting verið til fyrirmyndar sem og upplýsingagjöf til skólasamfélagsins. Varðandi Hagaskóla liggur fyrir skýr þörf fyrir stækkun skólans og er mikilvægt að allar ákvarðanir um viðhaldsframkvæmdir taki mið af þeim stækkunaráformum svo niðurstaðan verði fullnægjandi húsnæði sem mætir þörfum hverfisins fyrir öflugan unglingaskóla sem áfram verði í fremstu röð til langrar framtíðar. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að borgaryfirvöld vinni með foreldrunum og skólasamfélaginu að lausn vandans. Fyrirséð er að þetta verkefni mun taka lengri tíma en áætlanir gera ráð fyrir enda umfang þess mikið. Fulltrúum Sjálfstæðisflokks finnst það miður að fyrirspurnir sem þeir lögðu fram á fundi skóla- og frístundasviðs árið 2019 þar sem óskað var eftir upplýsingum um Hagaskóla hafi ekki verið svarað en þar var óskað eftir upplýsingum um ástand skólans. Í fyrirspurninni segir meðan annars „Mikilvægt er að skóla- og frístundaráð sé betur upplýst um stöðu mála í Hagaskóla en fram hefur komið að stundum séu kennslustofur rennandi blautar, töluvert sé um silfurskottur og skemmdir sem bendi til raka.“ Áréttað er mikilvægi þess að ástand skólahúsnæðis og kennsluumhverfis sé í takti við þær stefnur sem borgin hefur sett sér. Það sé því miður ekki reyndin alltof víða, eins og nemendur, starfsfólk og foreldrar á þeim stöðum þekkja vel. Á þessu þarf að ráða bót hið fyrsta.

  Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Á undanförnum árum hafa komið upp mál sem snúa að óheilnæmu skólahúsnæði, nú síðast í Hagaskóla og Laugalækjarskóla. Fulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur árétta það að Eignasvið ber alla ábyrgð á því að skólahúsnæði sé með þeim hætti að búa börnum öryggi. Þá ábyrgð verður aldrei hægt að framselja til hins faglega leiðtoga hvers skóla, skólastjórans. Allar ákvarðanir varðandi húsnæði er á ábyrgð Eignasviðs, undantekningarlaust. Undanfarna mánuði hafa SFS og FSR unnið feril um aðkomu skólastjórnenda þegar upp koma slík mál innan skólanna, sá ferill þarf nú að verða formlega samþykktur og kynntur á meðal skólastjórnenda þar sem að viðbúið er að fram undan séu mörg slík verkefni. Fulltrúarnir vilja sérstaklega benda á að ef koma þarf til flutninga milli staða þarf að vinna þá áætlun upp í samráði við lykilfulltrúa hvers skóla og horft verði til þess að þar fer verk sem ekki er hægt að meta sem eðlilegan þátt starfa kennara og skólastjórnenda og greiða fyrir þau verk líkt og önnur sem falla utan hefðbundins vinnuramma. Forðast verður að ráðast á orlofsdaga þegar um slíka flutninga er að ræða.

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2021 og drögum að verklagi um framlag vegna skólavistar reykvískra nemenda í Arnarskóla skólaárið 2022 – 2023: 

  Skóla- og frístundaráð samþykkir með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra, dags. 8. desember 2021, verklag um meðferð umsókna foreldra reykvískra nemenda í sjálfstætt rekna sérskólann Arnarskóla. Lagt er til að samþykkt verði að viðmið um hámarksfjölda nemenda með lögheimili í Reykjavík sem heimilt er að greiða framlag vegna til Arnarskóla verði ellefu nemendur. Forgang eiga nemendur með lögheimili í Reykjavík sem nú þegar eru í Arnarskóla að því gefnu að foreldrar óski eftir skólavist og uppfyllt séu skilyrði verklags vegna umsókna í sjálfstætt rekinn sérskóla. Þessu til samræmis er lagt til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að gera samning við Arnarskóla árlega um framlag vegna ellefu reykvískra nemenda að hámarki að því gefnu að uppfyllt séu skilyrði verklags um meðferð skóla- og frístundasviðs vegna umsókna í skólann. Tekið er fram að með samþykkt viðmiða um hámarksfjölda er ekki fallið frá óskilyrtum rétti sveitarfélagsins til að synja einstaka umsóknum foreldra um skólavist í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélagsins. Gerður er fyrirvari af hálfu Reykjavíkurborgar um að fjárveitingar skóla- og frístundasviðs eru gerðar með fyrirvara um fjárheimildir skv. fjárhagsáætlun á hverju ári. 

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021060017 

  Fylgigögn

 10. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar - september 2021. SFS2021100141 

  -    Kl. 15:18 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hallarekstur á sviðinu hefur því miður aukist milli ára, en þá aukningu má að miklu leyti rekja til kostnaðar vegna aðgerða sem tengjast viðbrögðum og aðgerðum vegna Covid-19. Þar má nefna 500 milljónir vegna hólfunar í leikskólum og 450 milljónir vegna hólfunar í grunnskólum, en einnig 173 milljónir vegna aukinna þrifa. Það eru óvenjulegar aðstæður og erfitt að sjá hvernig komast hefði mátt hjá þeim kostnaði. Einnig hækka útgjöld til sjálfstætt starfandi skóla. Þeir liðir sem hafa valdið hallarekstri skóla- og frístundasviðs á síðustu árum svo sem afleysingar vegna langtímaveikinda, vanfjármögnun sérkennslu og annars rekstrarkostnaðar horfa nú til betri vegar, þar sem samþykkt hefur verið nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla, Edda, þar sem fjárþörfin er metin út frá raunverulegum kostnaði og áætlanir verða áreiðanlegri sem því nemur. Þá skiptir miklu að vinna er hafin við gerð nýs fjárhagslíkans leikskóla sem áætlað er að ljúka fyrir lok næsta árs.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. desember 2021, um fjármál sjálfstætt rekinna grunnskóla, trúnaðarmál. SFS2021120069

  Fylgigögn

 12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2021, um aldur barna við upphaf vistunar í leikskóla í Reykjavík. SFS2021120068

  -    Kl. 15:29 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Öllum börnum sem voru orðin 18 mánaða 1. september var boðið leikskólapláss í haust. Börn sem komu ný inn í leikskóla í Reykjavík í haust voru að meðaltali 19 mánaða gömul þegar frá eru talin þau börn sem voru nýflutt til borgarinnar og löngu komin á leikskólaaldur sem skekktu meðaltalið. Á undanförnum fjórum árum hefur inntökualdur barna í leikskólum Reykjavíkur lækkað afar mikið. Það segir mikla sögu að hlutfall þeirra barna sem voru tveggja ára og yngri við inntöku í borgarrekna leikskóla síðastliðið haust var 70% og hafði hækkað úr 46% frá árinu 2018. Það er líka ánægjulegt að inntökualdurinn mun lækka enn frekar á næsta ári þegar hægt verður að taka á móti a.m.k. 600 börnum til viðbótar í leikskóla borgarinnar vegna opnunar nýrra leikskóla, viðbygginga og nýrra leikskóladeilda víðs vegar um borgina. Staðsetning Ævintýraborga og nýrra leikskóladeilda ræðst ekki síst af eftirspurn eftir leikskólavist í ákveðnum hverfum borgarinnar. En kjarni málsins er því að börn eru að meðaltali 19 mánaða gömul þegar þau fá fyrst leikskólavist í Reykjavík, en ekki 29 mánaða, líkt og lesa mátti úr fyrra svari.

  Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fylgigögn

 13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2021, um hlutfall kennara með leyfisbréf í borgarreknum grunnskólum, fjölda nema með kennsluréttindi og fjölda leiðbeinenda og menntunarstig þeirra. SFS2019110123 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er ánægjulegt að sjá að hlutfall grunnskólakennara með leyfisbréf hefur hækkað jafnt og þétt á undanförnum árum og veittum undanþágum til að ráða leiðbeinendur án kennararéttinda hefur fækkað um þriðjung á undanförnum tveimur árum. Þá vekur athygli að 74% þeirra leiðbeinenda sem ekki hafa lokið grunnskólakennaraprófi eru á lokaári í kennaranámi og munu því ef að líkum lætur bætast í hóp kennara með leyfisbréf á allra næstu misserum.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tilfærslu kennara milli skólastiga. SFS2020050139

  Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Leikskólakennarar og stjórnendur leikskóla hafa í langan tíma bent á alvarlega stöðu leikskólans hvað varðar starfsumhverfi barna/starfsmanna og kennaraskort. Fjölgun undirbúningstíma, fækkun barna í rými, fjölgun starfsmanna með eldri börnum og skemmri opnunartíma leikskóla eru allt aðgerðir sem miða að bættu starfsumhverfi og þrátt fyrir þessar aðgerðir, er flæði á milli skólastiga enn leikskólanum í óhag. Tölur Kennarasambands Íslands frá byrjun árs 2018 til loka árs 2020 sýndu að 298 félagsmenn í Félagi leikskólakennara höfðu farið að kenna í grunnskóla, en einungis 97 félagsmenn í Félagi grunnskólakennara farið að kenna á leikskólastiginu. Munurinn var því 201 félagsmaður leikskólastiginu í óhag. Frá tölum skóla- og frístundasviðs er flæði kennara á milli skólastiga 52, leikskólanum í óhag í október 2021. Verkefninu er ólokið og mikilvægt er að fylgjast vel með framhaldinu.

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna lýsir yfir áhyggjum af tilfærslu starfsfólks með leikskólakennaramenntun frá leikskólastiginu yfir á grunnskólastigið. Þó að ýmislegt hafi verið gert til að bæta starfsaðstæður á leikskólum og til þess að styðja við menntun þess starfsfólks sem þegar er í vinnu á leikskólum borgarinnar þá er ljóst að betur má ef duga skal. Grípa þarf til róttækra aðgerða til þess að fjölga fagmenntuðu starfsfólki á leikskólum borgarinnar. Ef takast á að manna þá miklu fjölgun leikskóla sem fyrirhuguð er á fyrri hluta næsta árs og áfram til þess að hægt verði að bjóða öllum börnum leikskólavist frá 12 mánaða aldri í borginni getur þetta ekki gengið svona. Gott sérmenntað starfsfólk er grundvöllurinn undir það faglega og vandaða leikskólastarf sem börnin í borginni eiga skilið.

  Fylgigögn

 15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um notkun skóla- og frístundasviðs á Kjarvalsstofu. SFS2020100188 

  Fylgigögn

 16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. nóvember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um fjárhagslegan ávinning við sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi. SFS2020060260

  Fylgigögn

 17. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. desember 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu ráðningarmála. SFS2020070037

  Fylgigögn

 18. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. nóvember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um skólamáltíðir og vanskil. SFS2020100184 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það er gríðarlega streituvaldandi að eiga við reikninga í innheimtu og slíkt á ekki að eiga við um mataráskriftir barna. Streitunni fylgja einnig aukin gjöld. Í svarbréfi við fyrirspurninni kemur fram að skólaárið 2019-2020 voru að meðaltali 12.494 börn í skólamáltíðaáskrift og voru gefnir út að meðaltali 9.237 reikningar á mánuði. Af þessum reikningum fóru 7,3% útgefinna reikninga yfir í milliinnheimtu hjá Momentum og eru 1,7% enn ógreiddir í nóvember 2021. Skólaárið 2020-2021 voru að meðaltali 12.537 börn í skólamáltíðaáskrift og voru gefnir út að meðaltali 9.514 reikningar á mánuði. Af þessum reikningum fóru að meðaltali 4,2% útgefinna reikninga yfir í milliinnheimtu Momentum og eru 1,5% enn ógreiddir í nóvember 2021. Fulltrúi Sósíalista ítrekar mikilvægi þess að gjald eigi ekki að vera tekið fyrir skólamáltíðir og að reikningar fyrir slíkt eigi alls ekki að vera sendir til innheimtufyrirtækja. 

  Fylgigögn

 19. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda nemenda í tónlistarskólum. SFS2019100055

  Fylgigögn

 20. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skýrslu um húsnæðismál frístundastarfs. SFS2018100120 

  Fylgigögn

 21. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áætlanir um málefni Fossvogsskóla. SFS2021050201 

  Fylgigögn

 22. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2021, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, fjögur mál. SFS2019020033

  Fylgigögn

 23. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs. 

  -    Kl. 16.25 víkja Elín Oddný Sigurðardóttir, Helgi Grímsson, Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum. 

 24. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að málefni Laugalækjaskóla verði sett á dagskrá næsta fundar skóla- og frístundaráðs. Fulltrúarnir hafa heyrt frá áhyggjufullum foreldrum að greinst hafi mygla í skólanum og því sé 10. bekkur skólans í fjarkennslu hluta af desember.

  Frestað. SFS2021120084

 25. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að á næsta fundi skóla- og frístundaráðs verði fjallað um málefni leikskóla Reykjavíkur. Farið verði yfir styttingu vinnuvikunnar og hvort að hún sé að hafa áhrif á starf leikskólanna þannig að meira álag sé að myndast á starfsfólk. Eins verði farið yfir mönnunarmál og það hvort að mikið hafi verið um það síðustu mánuði að leikskólar hafi orðið að senda börn heim vegna manneklu. Fulltrúum Sjálfstæðisflokks hafa borist töluvert af erindum þess efnis að foreldrar hafa orðið að hafa börn sín heima vegna manneklu, fulltrúarnir vilja að málið sé sett á dagskrá næsta fundar til þess að geta áttað sig betur á stöðunni og rætt til hvaða aðgerða sé hægt að grípa til að lagfæra hana.

  Frestað. SFS2021120085

  -    Kl. 16.30 víkur Örn Þórðarson af fundinum. 

 26. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hver eru áætluð gjöld sem hafa verið lögð á foreldra og/eða forráðamenn vegna vanskila á reikningum frá skóla- og frístundasviði frá upphafi árs 2019 til dagsins í dag? Sem dæmi má nefna kostnað vegna innheimtubréfa og símtala samkvæmt verðskrá fyrir innheimtur Reykjavíkurborgar. Hvernig skiptast gjöld/kostnaður sem foreldrum er gert að greiða eftir öllum þjónustuþáttum, t.d. vegna mataráskriftar og leikskólaþjónustu?

  SFS2021120086

 27. Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  1. Óskað er eftir að fá upplýsingar um heildarfjölda leikskólakennara og starfshlutfall þeirra í Reykjavík, nóvember 2021. 2. Hversu margir af þeim eru deildarstjórar og starfshlutfall þeirra? 3. Hvað eru margir leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar af heildinni sundurgreint? 4. Hver er meðalaldur leikskólakennara, leikskólastjóra og svo samanlagt? 5. Hvað eru starfræktar margar leikskóladeildir í Reykjavík og hvað eru margir deildarstjórar með leikskólakennaramenntun?

Fundi slitið klukkan 16:47