Fundur nr. 223

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 25. janúar, var haldinn 223. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fjarfundi kl. 12.35.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Skúli Helgason formaður (S), Rannveig Ernudóttir (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Kolbrún Baldursdóttir (F) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Ástheiður Inga Gígja, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. nóvember 2021:

  Lagt er til að ráðist verði í stækkun leikskólans Sæborgar við Starhaga. Fjölgað verði um 2 deildir með viðbyggingu þar sem verði rúm fyrir um 48 börn til viðbótar núverandi barnafjölda sem er 74 börn skv. rekstrarleyfi skólans. Leikskólinn rúmi því allt að 122 börn eftir stækkun. Jafnframt verði ráðist í breytingar og endurbætur á núverandi húsnæði og breytingum á lóð. Gert er ráð fyrir að undirbúningur og framkvæmdir taki 2-3,5 ár og verði viðbyggingin tilbúin til notkunar á árunum 2024-2025. 

  Greinargerð fylgir.
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2022010051

  Gréta Þórsdóttir Björnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Lagt er til að leikskólinn Sæborg við Starhaga verði stækkaður með nýrri viðbyggingu sem rúmi allt að 48 börn. Samhliða verði gerðar úrbætur á núverandi leikskólahúsnæði með uppfærslu í samræmi við nútímakröfur. Stækkun Sæborgar kemur í góðar þarfir í Vesturbænum þar sem eftirspurn eftir leikskólaplássum hefur farið vaxandi. Verkefnið er hluti af Brúum bilið aðgerðaáætluninni sem miðar að því að mæta þörfum barnafjölskyldna fyrir leikskólapláss frá lokum fæðingarorlofs. Gert er ráð fyrir verkefninu í fimm ára fjárfestingaráætlun borgarinnar sem samþykkt var í desember.

  Fylgigögn

 2. Fram fer kynning á fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2022. SFS2021100140 

  -    Kl. 12:57 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum. 

  Einnig lagðar fram bókanir sem skráðar voru í trúnaðarbók skóla- og frístundaráðs 12. október 2021.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun á fundi skóla- og frístundaráðs 12. október 2021: 

  Fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2022 sýnir að velta þessa stærsta fagsviðs borgarinnar hækkar um 3 milljarða milli ára eða um 7%. Helstu breytingar á komandi ári munu tengjast nýju úthlutunarlíkani grunnskóla sem mun styrkja rekstrargrundvöll grunnskólanna til muna, fjölgun leikskólaplássa með opnun nýrra leikskóla, innleiðingu Betri borgar fyrir börn í öllum hverfum borgarinnar, og nýrri aðgerðaáætlun Menntastefnu Reykjavíkurborgar sem stefnt er að því að afgreiða fyrir áramótin. Metnaður, framsækni og jöfnuður einkenna stefnu borgarinnar í málaflokknum þar sem sótt er fram á öllum sviðum með það markmið að borgin sé leiðandi afl í menntamálum á Íslandi.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun á fundi skóla- og frístundaráðs 12. október 2021:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu draga að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2022. Hins vegar er því fagnað að fjármagn til þessa mikilvæga málaflokks sé aukið. Sömuleiðis eru í áætluninni jákvæð fyrirheit um nauðsynlegar leiðréttingar við fjármögnun málaflokksins, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lengi bent á og kallað eftir. 

  Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum lögðu fram svohljóðandi bókun á fundi skóla- og frístundaráðs 12. október 2021:

  Fulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur lýsa yfir ánægju með nýtt úthlutunarlíkan fyrir grunnskóla borgarinnar, Eddu. Á sama hátt er ákaflega ánægjulegt að líkanið sé nú þegar samþykkt í borgarráði og þar með tryggt það fjármagn sem kemur inn í skólana samkvæmt úthlutun þess. Það er sérstakt ánægjuefni að fjármagnið fer allt inn til skólanna sjálfra en það hefur verið áhersluatriði beggja félaga í umræðu um fjármál grunnskólanna á síðustu árum. Framundan er vinna við að skoða sértæka sérkennslu grunnskóla. Fulltrúar félaganna lögðu skólaárið 2019 – 2020 fram tillögur um fyrirkomulag sérkennslu byggðar á sameiginlegri vinnu stjórna sinna og lýsa sig enn á ný reiðubúna til samtals um það málefni. Þannig er tryggt að raddir sérfræðinganna í grunnskólunum, kennara og stjórnenda, verði hluti öflugrar umgjarðar þeirra nemenda sem falla þar undir. Fulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur telja úthlutunarlíkanið Eddu vera stórt skref í átt að árangursríkara skólastarfi í borginni og mikilvægt er að halda áfram á þeirri leið í öflugu samstarfi.

  Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lagði fram svohljóðandi bókun á fundi skóla- og frístundaráðs 12. október 2021:

  Flýta þarf vinnu við endurskoðun á áætlunarlíkani fyrir fjárhagsramma leikskóla og fara þarf yfir allt leikskólahúsnæði borgarinnar með tilliti til fjölda barna, starfsmanna og fermetrarýmis í öllum skólum. Í fjárhagsáætlun verður að gera ráð fyrir möguleikum leikskólakennara og stjórnenda leikskóla til að fara í launað námsleyfi, samkvæmt grein 10.5 í kjarasamningi borgarinnar við KÍ, þar sem heimilt er að veita leikskólakennara launað námsleyfi til þess að stunda viðurkennt framhaldsnám eða sækja endurmenntun í sérgrein sinni. Heimilt er að veita leyfi í allt að þrjá mánuði eftir hver 5 starfsár sem leikskólakennari, allt að sex mánuði eftir 10 starfsár og allt að níu mánuði eftir hver 12 starfsár.

 3. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. júlí – september 2021. SFS2021100142

  Fylgigögn

 4. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs júlí – september 2021, dags. 10. janúar 2022. SFS2021100145

  Fylgigögn

 5. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 13. desember 2021, um kaup á skólavörum af Múlalundi. SFS2021080310

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Múlalundur vinnustofa SÍBS heldur úti samfélagslega þýðingarmikilli starfsemi sem felur í sér mikilvæg atvinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsorku. Þar starfar saman fjölbreyttur hópur fólks með og án örorku og eftirspurn eftir störfum er mikil. Starfsmenn eru tæplega 50 í um 25 stöðugildum en um 80 manns gefst færi á að spreyta sig árlega við störf á Múlalundi. Með samkomulagi Reykjavíkurborgar og Múlalundar sem borgarráð samþykkti skömmu fyrir jól mun Reykjavíkurborg kaupa 15 þúsund stykki af skólavörum að verðmæti 4,5 m. kr sem munu tryggja verkefni fyrir starfsfólk Múlalundar það sem eftir lifir vetrar og fram á sumar.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í ágúst sl. um að skóla- og frístundasvið kaupi skólamöppur frá Múlalund. Nú ætlar borgarstjóri að versla ákveðið magn af skólamöppum af Múlalundi. Það er ánægjulegt. Það á einfaldlega að versla við Múlalund það sem framleitt er þar og skólar í borginni geta notað. Það fjármagn skilar sér til baka í verkefnum fyrir þá sem fá ekki vinnu annars staðar. Þarna eru flestir að vinna sem eru skjólstæðingar Reykjavíkurborgar. Við eigum að standa saman að jákvæðu hugarfari og jákvæðri uppbyggingu. Með því að versla við Múlalund er ekki verið að bruðla heldur skapa atvinnutækifæri fyrir stóran hóp og velja að nota íslenskt í stað þess að flytja inn vörur frá t.d. Asíu. Þessi aðgerð skerðir þess utan ekki fjárheimildir sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins vonar innilega að viðskiptin aukist hratt og að þau séu komin til langrar framtíðar.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 24. ágúst 2021: 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið kaupi skólamöppur frá Múlalundi. Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund – vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum. Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þessu verði breytt hið snarasta og að Reykjavíkurborg hefji viðskipti við Múlalund enda ekki stætt á öðru. Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það eru löng bið eftir plássi þar. Þótt vörur séu ívið dýrari þá er það dropi í hafið. Á móti skapar Reykjavíkurborg atvinnu fyrir hóp sem er í brothættri stöðu. Starfsemin í Múlalundi er félagslega og tilfinningalega mikilvæg fyrir starfsfólkið. Borgin vill ekki versla við Múlalund en vill að Múlalundir ráði fleiri starfsmenn til að framleiða vörur sem Reykjavíkurborg vill ekki kaupa. Þetta er óskiljanlegt. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn í júlí af hverju ekki er verslað við Múlalund. Í svari verst fjármálasviðið með því að bera við rammasamningi. Reykjavíkurborg hefur fulla heimild til þess að víkja frá rammasamningum þegar um er að ræða viðskipti við verndaða vinnustaði eins og Múlalund.

  Samþykkt. SFS2021080310

  -    Kl. 13:20 tekur Helgi Grímsson sæti á fundinum. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Tillaga fulltrúa Flokks fólksins sem hér er lögð fram um að skóla- og frístundasvið kaupi skólamöppur frá Múlalundi er samþykkt. Því ber að fagna. Fulltrúi Flokks fólksins elur þá von í brjósti að fljótlega verði gengið alla leið og verslað alfarið skólavörur frá Múlalundi. Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Sífellt er krafa frá borginni um að Múlalundur ráði fleiri starfsmenn með lögheimili í borginni. Við eigum að standa saman að jákvæðu hugarfari og jákvæðri uppbyggingu og nota öll tækifæri til að velja íslenskar vörur að sjálfsögðu. Hér græða allir. Því meiri sem eftirspurnin er eftir skólavörum frá Múlalundi því fleiri atvinnutækifæri eru sköpuð fyrir stóran hóp sem nú þegar vinnur hjá Múlalundi og sem eru á biðlista eftir að vinna hjá Múlalundi. Þess utan hefur það verið staðfest að viðskiptin skerða ekki fjárheimildir skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að viðskiptin ekki aðeins aukist heldur séu komin til langrar framtíðar. 

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. janúar 2022, um leiðréttingu vegna afgreiðslu verklags um meðferð umsókna og framlag vegna skólavistar reykvískra nemenda í Arnarskóla og ákvörðun um viðmið um hámarksfjölda. SFS2021020047

  Fylgigögn

 8. Fram fer umræða og kynning um loftslagsþing grunnskóla í Reykjavík. SFS2021060103 

  Andrea Anna Guðjónsdóttir, Jón Ágúst Þorsteinsson, Sólrún Sæmundsen og Þorsteinn Svanur Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Loftslagsmál eru lykilmál í nýrri aðgerðaáætlun menntastefnu borgarinnar sem samþykkt var í nóvember. Vitundarvakning um loftslagsmál í grunnskólum er þar meginverkefni og einn af viðburðum þess verkefnis er að efna til loftslagsþings ungmenna í grunnskólum 25. febrúar næstkomandi. Þar verður boðið upp á fræðslu um loftslagsmál og vinnusmiðju þar sem nemendur takast á við spurningar um mögulegar aðgerðir til að draga úr kolefnisfótspori grunnskólanna. Verkefnið Grænskjáir sem Klappir eiga frumkvæði að í samvinnu við Reykjavíkurborg, Landvernd, Sorpu, Faxaflóahafnir, Origo og erlenda aðila felur einmitt í sér að unnið er með gögn um kolefnisfótspor allra grunnskóla borgarinnar og leitað leiða til að minnka það með marktækum aðgerðum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Loftlagsþing grunnskóla í Reykjavík er frábært verkefni og eru viðfangsefnin ærin. En hvar eru skólar Reykjavíkur staddir í grænfána hugmyndinni? Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 2018 um að borgin beitti sér með hvatningu og einnig fjárhagslega fyrir því að allir skólar í Reykjavík yrðu Grænfánaskólar. Tillögunni var hafnað. Sumir skólar eru Grænfánaskólar en ekki allir. Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Grænfáninn er Evrópskt verkefni og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann. Sumir skólar hafa sagt sig úr verkefninu vegna tilkostnaðar. Það er miður. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða í heildarsamhenginu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Auðvitað eru það verkefnin sem skipta máli en allt hangir þetta saman, hvatning, hugmyndafræðin, verkefnin og síðan hin raunverulegu verk, atferli og hegðun. Öllu máli skiptir að börnin séu virkir þátttakendur í verkefnunum. Til dæmis ef horft til matarsóunar þá er mikilvægt að leyfa börnum að skammta sér sjálf og vigta leifarnar. Raunveruleg þátttaka skiptir mestu máli því hún vekur börnin til vitundar um umhverfið sitt.

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 14. desember 2021: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að málefni Laugalækjaskóla verði sett á dagskrá næsta fundar skóla- og frístundaráðs. Fulltrúarnir hafa heyrt frá áhyggjufullum foreldrum að greinst hafi mygla í skólanum og því sé 10. bekkur skólans í fjarkennslu hluta af desember.

  Samþykkt. SFS2021120084 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að umræðan er tekin á fundinum og er um að ræða myglu og raka í Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Hagaskóla. Staðan í Laugalækjarskóla er þannig að vonir standa til að viðgerð ljúki senn. Búið er að gera við nokkrar stofur og nú er verið að gera við fleiri sem reiknað er með að verði lokið í lok febrúar. Þetta eru engin smámál og hefur 10. bekkur sótt kennslu í KSÍ húsinu. Fulltrúi Flokks fólksins óttast sífellt að vandi sem þessi sé oft vanmetinn enda ekki alltaf sýnilegur vandi. Vanda þarf til verka og ef ákall kemur um frekari viðgerðir að grípa þá strax inn í. Það var ekki raunin með Fossvogsskóla eins og lengi verður í minni haft. Eins er því velt upp hvort foreldrar barna í Laugarnesskóla viti af myglunni og rakanum sem þar hefur fundist á nokkrum stöðum? Í málum af þessu tagi þýðir ekki að horfa í krónuna. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin ansi stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar er staðan háalvarleg. Ljóst er að fara þarf í byggingarframkvæmdir hið fyrsta.

  Fylgigögn

 10. Fram fer umræða og kynning um stöðu mála í Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla og Hagaskóla. SFS2021120084

  Rúnar Ingi Guðjónsson og Jón Valgeir Björnsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Húsnæðismál Fossvogsskóla hafa verið í brennidepli og sýndu fram á mikilvægi þess að bæta ferla og vinnubrögð hjá borginni. Skýr lærdómur hefur verið dreginn af málinu m.a. um mikilvægi þess að vera með reglulega og góða upplýsingagjöf til stjórnenda, starfsfólks og foreldra. Mótaður hefur verið skýr verkferill í myglumálum, aukið verulega fjármagn í viðhald skólahúsnæðis sem nú verður 4-5 milljarðar á ári næstu árin og stærsta einstaka framkvæmdin þar felur einmitt í sér gagngerar endurbætur á húsnæði Fossvogsskóla. Mál sem tengjast alvarlegum rakaskemmdum og myglu eru tekin föstum tökum þar sem strax er kallað til viðbragðsteymi með fulltrúum skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs, eignaskrifstofu og upplýsinga- og samskiptasviðs borgarinnar og mál sett í tafarlausan lausnamiðaðan forgang. Nú er unnið markvisst að úrbótum á húsnæði Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla þar sem stefnt er að verklokum í lok febrúar. Sömuleiðis er unnið hörðum höndum að úrbótum í húsnæði Hagaskóla samhliða vinnu við að móta tillögur um framtíðarlausnir á húsnæðismálum Hagaskóla þar sem stækkun með viðbyggingu er markmiðið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka kynninguna og leggja áherslu á að viðgerðir gangi hratt og hafi ekki teljandi áhrif á skólastarf. Draga þarf úr óvissu um húsnæðismál Hagaskóla samhliða þessari vinnu. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að umræðan er tekin á fundinum og er um að ræða myglu og raka í Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Hagaskóla. Staðan í Laugalækjarskóla er þannig að vonir standa til að viðgerð ljúki senn. Búið er að gera við nokkrar stofur og nú er verið að gera við fleiri sem reiknað er með að verði lokið í lok febrúar. Þetta eru engin smámál og hefur 10. bekkur sótt kennslu í KSÍ húsinu. Fulltrúi Flokks fólksins óttast sífellt að vandi sem þessi sé oft vanmetinn enda ekki alltaf sýnilegur vandi. Vanda þarf til verka og ef ákall kemur um frekari viðgerðir að grípa þá strax inn í. Það var ekki raunin með Fossvogsskóla eins og lengi verður í minni haft. Eins er því velt upp hvort foreldrar barna í Laugarnesskóla viti af myglunni og rakanum sem þar hefur fundist á nokkrum stöðum? Í málum af þessu tagi þýðir ekki að horfa í krónuna. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin ansi stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar er staðan háalvarleg. Ljóst er að fara þarf í byggingarframkvæmdir hið fyrsta.

 11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. desember 2021, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda kennara sem hafa sagt upp störfum í Fossvogsskóla. SFS2018120034 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Spurt var um hvað margir kennarar hafa sagt upp störfum í Fossvogsskóla og er svarið að af 31 kennara hafa 9 kennarar sagt upp störfum sl. tvö ár. Þetta er tæpur þriðjungur. Fulltrúi Flokks fólksins er sleginn yfir þessum upplýsingum en skilur vel að kennarar hafi upp til hópa gefist upp á að starfa við skólann í ljósi þeirra erfiðleika sem þar hafa verið í langan tíma. Það tók yfirvöld í borginni allt of langan tíma að taka við sér og grípa inn í mygluvandamál skólans.

  Fylgigögn

 12. Dagskrárliðnum fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfsánægjukannanir meðal starfsmanna Fossvogsskóla er frestað. SFS2018120034 

 13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. desember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum um starfsmannamál Fossvogsskóla. SFS2021090310 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Starfsmannabreytingar starfsfólks í leik- og grunnskólum geta verið af ýmsum ástæðum, og kemur m.a. fram í svari fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði að árið 2019 hafi þó nokkuð margir kennarar í Fossvogsskóla látið af störfum sökum aldurs og er því ekkert athugavert við þær uppsagnir. Einnig kemur fram í sama svari, að starfsaldur kennara í Fossvogsskóla er almennt hár og að í gegnum tíðina hafi litlar breytingar verið á starfsmannaveltu skólans. Þar kemur líka fram að í desember 2021 hafi einungis vantað tónmenntakennara við skólann. Svörin endurspegla hversu mikilvægt það var að setja upp verkferla til að bregðast við málum sem þessum. Ánægjulegt er að starfsmannahópurinn í Fossvogsskóla virðist ætla að standast þessa raun með prýði undir forystu nýs stjórnanda og eiga þau þakkir skildar fyrir það.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir áhyggjur áheyrnarfulltrúa foreldra af starfsmannamálum og samskiptum við stjórnendur í Fossvogsskóla. Þriðjungur kennara tæpur hafa sagt upp sl. tvö ár. Áhyggjur eru af því að enginn virðist vilja gæta hagsmuna nemenda og kennara. Eftir því sem fram kemur segist skólastjóri ekki gera það en sviðsstjóri segir það vera hlutverk skólastjóra Fossvogsskóla að gæta hagsmuna nemenda og starfsfólks. Hver bendir á annan sem auðvitað gengur ekki upp. Hlutverk verða að vera skýr og skilgreina þarf hvað felst í hagsmunum í þessu tilfelli. Nú styttist í næstu viðhorfskönnun og vonandi verður svarhlutfall hærra en í fyrra sem var þá óvenju lágt. Það er mjög mikilvægt nú að fá fram viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta sem stjórnendur nýta til að bæta starfsumhverfið ekki síst í ljósi þess sem á undan er gengið í skólanum.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. desember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði um eftirlit vegna sjálfstætt starfandi skóla. SFS2021110168

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. janúar 2022, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs. SFS2019020033

  Fylgigögn

 16. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs.

 17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Á fundi skóla- og frístundaráðs var farið yfir fjárhagsáætlun sviðsins og talað um kostnað vegna Stafrænnar grósku eins og það var orðað. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði hvað af þeim rafrænum/stafrænu lausnum sem ákveðið hefur verð að sviðið fái á kjörtímabilinu eru komnar í fulla virkni og farnar að skila tímasparnaði. Hvaða lausnir eru rétt ókomnar og hvaða lausnir eru enn á tilraunastigi eða í þróunarfasa? Og hvaða raf/stafrænar lausnir, ef einhverjar, sem áttu að vera tilbúnar núna er ekki fyrirsjáanlegt að komist í virkni á þessu ári? Óskað er eftir upplýsingum um ástæður fyrir af hverju þær lausnir komust aldrei í notkun eins og ráðgert var. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram spurningu á fundinum en óskað var eftir að hún yrði lögð fram með formlegum hætti og er það hér með gert.

  SFS2022010166

 18. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Getur ráðið fengið kynningu á fyrirhugaðri stækkun á leikskólanum Múlaborg? Þann 17. desember 2021 kom eftirfarandi fram í frétt á reykjavik.is: „Borgarráð samþykkti í gær samhljóða tillögu um opnun nýs leikskóla í húsnæði Ármúla 6 sem starfræktur verður sem hluti af leikskólanum Múlaborg sem er til húsa í Ármúla 8a. Leikskólinn mun geta tekið á móti 60 börnum í hinu nýja húsnæði sem verður kærkomin viðbót fyrir ungbarnafjölskyldur í borginni. Ráðgert er að nýi leikskólinn verði tilbúinn til notkunar næsta vor.” Eftir því sem áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna kemst næst hefur þetta ekki komið til umfjöllunar í skóla- og frístundaráði.

  SFS2022010167

Fundi slitið klukkan 15:50