Fundur nr. 225

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 22. febrúar, var haldinn 225. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fjarfundi kl. 12.31.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Hildur Björnsdóttir (D), Sara Björg Sigurðardóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Ástheiður Inga Gígja, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir staðgengill sviðsstjóra, Eygló Traustadóttir, Ólafur B. Bjarkason og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram ákvörðun Persónuverndar um notkun Seesaw-nemendakerfisins í grunnskólum Reykjavíkur, dags. 20. desember 2021. SFS22020089

  Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Teitur Skúlason taka sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

  -    Kl. 13:05 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tekið er undir það sjónarmið að verndun persónuupplýsinga um nemendur er mikilvæg. Það er ljóst að þessi úrskurður Persónuverndar er í senn hamlandi fyrir innleiðingu á notkun nútímalegra kennsluaðferða í skólum borgarinnar og kemur í veg fyrir framþróun í skólastarfi. Í svörum Reykjavíkurborgar er ekki gert ráð fyrir að viðkvæmar persónuupplýsingar séu skráðar í það kerfi sem hér er til umræðu enda er það bannað. Innleiðing á stafrænni kennslutækni er gífurlega mikilvægt framfaraskref og eitt mikilvægasta verkefni skóla nútímans er að búa nemendur undir líf og störf á 21. öldinni og uppfæra þær aðferðir sem til þess eru nýttar. Það getur ekki verið markmið persónuverndarlaga að beinlínis koma í veg fyrir nútímavæðingu kennsluaðferða. Sviðsstjóra er falið að meta áhrif þessa úrskurðar á áform um innleiðingu stafrænnar tækni í kennslu og gera tillögur að því hvernig bregðast megi við. Til dæmis með skýrari samningum við þjónustuaðila eða með því að útbúin verði sér lausn sem samræmist lögum um persónuvernd.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf eignaskrifstofu, dags. 13. desember 2021, um leigu á húsnæði fyrir leikskóla við Ármúla 6 ásamt svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um stækkun Múlaborgar. SFS22020125

  Jón Valgeir Björnsson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Leikskólinn Múlaborg í Ármúla verður stækkaður með leigu á 767 fm húsnæði í Ármúla 6 auk útisvæðis. Með þessu viðbótarhúsnæði mun leikskólinn geta tekið á móti allt að 60 börnum til viðbótar í þremur leikskóladeildum sem kemur í góðar þarfir við að mæta eftirspurn foreldra ungbarna miðsvæðis í borginni. Stefnt er að því að húsnæðið verði tilbúið innan fimm mánaða frá undirritun leigusamnings og eru því líkur á að leikskólinn verði tilbúinn til notkunar í ágúst næstkomandi. Verkefnið er liður í Brúum bilið aðgerðaáætluninni.

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar fyrirhugaðri stækkun leikskólans Múlaborgar um þrjár deildir með plássi fyrir allt að 60 börn með húsnæði í Ármúla 6. Mikilvægt er að kynna fyrirætlanirnar vel fyrir íbúum í hverfinu, framkvæmdin komi inn í framkvæmdasjá á vef Reykjavíkurborgar og verði kynnt í íbúaráði. Kynna þarf tímaáætlun og tilkynna ef miklar tafir verða á opnun sem nú er fyrirhuguð haustið 2022. Huga þarf að mönnun leikskólans með góðum fyrirvara.

  Fylgigögn

 3. Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi tillögu: 

  Lagt er til að allir leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar setji sér áfallaáætlun og áætlunin sé tengd verkefninu Betri borg fyrir börn. Allir þeir aðilar sem fá hlutverk tengiliða í leik- og grunnskóla, námsráðgjafar, deildarstjórar í grunnskóla og forstöðumenn frístundaheimila og félagsmiðstöðva sæki námskeið um börn, áföll og sorg. Öllu starfsfólki skóla- og frístundasviðs standi til boða að sækja sér fræðslu, stuðning og ráðgjöf um börn, áföll og sorg sem hluta af starfi sínu. 

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt. SFS22020198

  Bókun skóla- og frístundaráðs: 

  Í skólakerfinu okkar eru börn sem þurfa á því að halda að við fléttum mennta- og velferðarkerfunum saman í einstaklingsmiðaðan stuðning. Áföll í barnæsku eru algeng en rannsóknir benda til að 60 prósent barna upplifi einhvers konar áfall eða áföll frá fæðingu til 18 ára aldurs. Barn í sorg eða með einhvers konar áfallastreitu getur illa einbeitt sér að námi. Því er mikilvægt að starfsfólk skóla- og frístundasviðs fái stuðning, fræðslu og ráðgjöf til að mæta þeim börnum sem þurfa á að halda hvort sem þau eru í leikskóla, grunnskóla eða frístundastarfi. Einstaklingsmiðaður stuðningur er einmitt það sem gera á í verkefninu Betri borg fyrir börn og því mikilvægt að flétta áfallaáætlun og fræðslu inn í þá vinnu og innleiðingu.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. desember 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. febrúar 2022: 

  Lagt er til að skóla- og frístundasviði verði falið að gera úttekt á því hvort skert skólahald í kórónuveirufaraldrinum hafi haft áhrif á námsárangur nemenda. Skoðaðar verði niðurstöður samræmdra prófa og skólaprófa milli ára.

  Tillagan er dregin til baka. SFS22020199

  Fylgigögn

 5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. febrúar 2022, um breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar ásamt núgildandi reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar og reglum með merktum breytingum. 

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22020200

  Fylgigögn

 6. Lögð fram dagskrá loftslagsþings grunnskóla. SFS22020214

  Hulda Valdís Valdimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

  Bókun skóla- og frístundaráðs: 

  Loftslagsþing grunnskólanna verður haldið næstkomandi föstudag 25. febrúar í Tjarnarsal Ráðhússins en viðburðurinn tengist vitundarvakningu um loftslagsmál í grunnskólum sem ráðið samþykkti á síðastliðnu ári. Alþjóðlega samstarfsverkefnið Grænskjáir verður kynnt með upplýsingum um kolefnisfótspor grunnskólanna í borginni. Það stefnir í prýðilega þátttöku en ungmenni frá 21 grunnskóla í borginni hafa boðað komu sína ásamt kennurum og munu taka þátt í vinnusmiðjum um mögulegar aðgerðir til að minnka kolefnisfótsporið í skólaumhverfinu, svo sem með því að taka á orkunotkun, matarsóun, sorpmagni o.fl.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa og erindisbréf september 2021 – febrúar 2022, dags. 10. febrúar 2022. SFS22020034 

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um skráningu leikskólabarna í frí milli jóla og nýárs. SFS22020120

  Fylgigögn

 9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. janúar 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins varðandi einstaklingsmiðaða þjónustu. SFS22020149

  Fylgigögn

 10. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs.

Fundi slitið klukkan 14:44