Fundur nr. 234

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 17. ágúst, var haldinn 234. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherbergi borgarráðs í Ráðhúsi Reykjavíkur  kl. 9.02.
Eftirtalin voru komin til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Ragnheiður E. Stefánsdóttir.
Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á stöðu innritunar í leikskóla í Reykjavík.

  Skúli Helgason, formaður stýrihóps um uppbyggingu leikskóla, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði lýsa yfir fullum skilningi á erfiðri stöðu þeirra foreldra sem nú bíða eftir leikskólaplássi fyrir börnin sín. Þetta tímabil í lífinu okkar er einn af mestu álagstímum. Síðan ljóst var að tafir hafa orðið á því að hægt væri að taka á móti yngstu börnunum og staðan er langt frá því sem áætlað var, hafa þeir sem bera ábyrgð á málaflokknum unnið hörðum höndum að því að finna lausnir í þessu máli. Á morgun verða lagðar fram tillögur í borgarráðinu sem við bindum miklar vonir við að muni koma til móts við þarfir foreldra sem hafa þurft að þola bið og óvissu um sína stöðu. Gert er ráð fyrir að borgarráð fylgist vel með framgangi verkefnisins og þeirra tillagna sem fram koma á hverjum tíma. Einnig hafa verið bókaðir samráðsfundir með foreldrum til að upplýsa þá reglulega sem og að hlusta á þeirra sjónarmið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor var því lofað af hálfu núverandi flokka sem standa að meirihluta borgarstjórnar, fyrir utan Framsóknarflokkinn, að öll börn frá og með 12 mánaða aldri fengju dagvistunarpláss í Reykjavík frá og með 1. september 2022. Þótt það hafi verið vel til fundið að halda þennan aukafund í skóla- og frístundaráði og margar gagnlegar upplýsingar veittar á honum, liggur eigi að síður fyrir að því fer fjarri að áðurnefnt loforð verði efnt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa sig reiðubúna að koma með uppbyggilegum hætti að lausn þeirra vandamála sem við er að glíma í leikskólamálum og af þeim ástæðum eru lagðar fram sjö tillögur til að leysa þann bráðavanda sem fyrir liggur. Til lengri tíma litið hins vegar er það lykilatriði að margvíslegar lausnir séu í boði þannig að foreldrar hafi raunverulegt val um úrræði. Í því sambandi má nefna fjölbreyttara rekstrarform leikskóla, fjölgun sjálfstætt starfandi leikskóla og að dagforeldrakerfið sé eflt. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Staða barnafjölskyldna er mjög erfið. Fyrir kosningar lofuðu flokkar í núverandi meirihluta að öllum börnum yfir 12 mánaða aldri yrði tryggt leikskólapláss. Einnig hefur borgin lofað foreldrum leikskólaplássum sem hafa síðan ekki verið til staðar. Borgin verður að bregðast við og tryggja barnvæna borg. Mæta þarf bráðavanda foreldra sem verða fyrir tekjumissi, þannig að skaðinn lendi ekki á foreldrum, drífa í því að klára lóðafrágang við leikskóla svo að þeir verði tilbúnir í síðasta lagi í september. Ef ekki er til hentugt húsnæði þarf að taka húsnæði til leigu sem hentar leikskólaþörfum, þangað til að leikskólabyggingar verða tilbúnar. Til langtíma er mikilvægt að tryggja að gott sé að vinna á leikskóla með góðum launum og góðri aðstöðu fyrir starfsfólk og börn. Það er mikilvægt að borgin geri foreldrum, borgarbúum og fulltrúum skýra grein fyrir því á hverju þessi mál eru að stranda. Óvissan er að valda foreldrum gríðarlegri streitu og vanlíðan. Komum þessu í lag hið snarasta. 

  Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og leikskólakennara leggja fram svohljóðandi bókun:

  Leikskólinn er fyrsta skólastigið ekki þjónustustofnun. Leikskólastigið hefur vaxið umfram efni og getu síðustu 20 árin og langt umfram fæðingatíðni og dvalartími barna hefur lengst til muna.  Fjölgun leikskólakennara hefur ekki náð að fylgja þeirri þróun. Leikskólinn þarf stöðugleika, hann þarf leikskólakennara og það verður að ráðast að rót vandans og stefna að því að fjölga leikskólakennurum með öllum ráðum til að ná markmiði laga sem kveður á um að 66% starfsmanna leikskóla skulu vera leikskólakennarar. Þannig náum við að byggja góða og faglega skóla.

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þörfin fyrir örugga dagvistun barna í Reykjavík eftir að fæðingarorlofi lýkur er brýn. Núverandi ástand hefur sett margar fjölskyldur í mjög erfiða stöðu vegna óvissu um hvenær börn komist inn í leikskóla og valdið tekjutapi fyrir fjölskyldur á erfiðum tíma. Laga þarf innritunarferli í leikskóla borgarinnar strax og gera það gagnsærra fyrir foreldra. Gjörbreyta og auka þarf upplýsingamiðlun til foreldra þegar tafir verða á opnum nýrra úrræða svo skýrt sé á hverjum tíma hver staðan er.
  Á sama tíma þarf að gæta vel að því mikilvæga faglega starfi sem fram fer á leikskólum borgarinnar og börn eiga rétt á og foreldrar gera kröfu um.

  -    Kl. 9.09 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum.
  -    Kl. 10.08 víkur Trausti Breiðfjörð Magnússon af fundinum.
  -    Kl. 11.01 víkja Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum. 

  SFS22080109

 2. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu

  Lagt er til að komið verði á fót bakvarðasveit til að tryggja nægjanlega mönnun leikskólanna. Um yrði að ræða bakvarðasveit leikskólakennara, leikskólakennaranema, tómstundafræðinga og annarra uppeldismenntaðra einstaklinga auk almennra starfsmanna sem leikskólar geti leitað til tímabundið meðan verið er að tryggja mönnun leikskólanna til frambúðar. Fyrirmynd slíkrar bakvarðasveitar er sótt til heilbrigðisstofnana í landinu sem nýttu sér þetta úrræði í Kórónuveirufaraldrinum. Hvetja má alla leikskólamenntaða kennara sem sinnt hafa öðrum störfum og sömuleiðis þá leikskólakennara sem eru komnir á eftirlaun til að skrá sig í bakvarðasveitina til  tímabundinna starfa við leikskóla borgarinnar. Mikil þekking og reynsla  felst í þessum mannauði sem getur nýst vel á meðan verið er að tryggja mönnun leikskólanna til frambúðar.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080115

 3. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Til að tryggja mönnun leikskólanna er auk þess lagt til að skóla- og frístundasvið leiti samstarfs við menntamálaráðuneytið og þá framhaldsskóla sem bjóða upp á leikskólaliðanám, um að komið verði á starfsnámi fyrir þessa nemendur á leikskólum.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080116

 4. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að starfsmönnum frístundaheimila verði boðið upp á heilsdags- og heilsársstörf. Þannig munu starfskraftar þeirra nýtast fyrri hluta dags við leikskólana en seinni hlutann við frístundaheimilin.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080117

 5. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að skóla- og frístundasvið leiti eftir undanþágu fyrir rekstrarleyfi nýrra leikskóla þar sem húsnæðið er fullbúið þó að lóðin sé ekki full frágengin.  Í millitíðinni yrðu nærliggjandi útivistarsvæði notuð til útivistar barnanna. Í núverandi neyðarástandi, þar sem börnum hefur verið boðið leikskólapláss sem ekki er fyrir hendi, er nauðsynlegt að slíkar heimildir séu fyrir hendi og nýttar til bráðabirgða.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080118

 6. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að komið verði fyrir færanlegum kennslustofum á lóðum þeirra leikskóla þar sem aðstæður eru fyrir hendi í þeirri viðleitni að fjölga leikskólarýmum á meðan unnið er að varanlegum lausnum. Slíkar lausnir eru nærtækar og hafa þann kost að hægt er að nýta þá innviði sem til staðar eru. Með því móti yrði hægt að flýta fyrir inntöku og aðlögun þeirra barna sem eru á biðlista.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080119

 7. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista verði settar í svokallað mæliborð á vef Reykjavíkurborgar. Þar komi fram aðgengilegar sundurgreindar og auðskiljanlegar upplýsingar eftir leikskólum og hverfum um stöðu biðlista og laus leikskólarými. Þá er ennfremur lagt til að þessar upplýsingar verði uppfærðar um leið og breytingar verða. Markmiðið með tillögunni er að auðvelda foreldrum aðgengi að upplýsingum, gera stjórnsýsluna gagnsærri og skilvirkari. Slíkt fyrirkomulag sparar foreldrum mikla fyrirhöfn við að afla sér upplýsinga innan úr kerfinu og dregur jafnframt úr álagi á leikskólana og leikskóladeild skóla- og frístundasviðs að veita upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista. Það ætti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að tölulegar upplýsingar um jafn mikilvæga þjónustu við borgarbúa sem leikskólarnir eru séu opinberar og aðgengilegar á hverjum tíma þannig að foreldrar geti betur gert ráðstafanir og fylgst með stöðunni í stað þess að þær séu lagðar fram tvisvar til þrisvar á ári á fundi í skóla- og frístundaráði til upplýsingar.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080120

 8. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að fé fylgi barni á leikskólaaldri og stuðlað verði að því að sjálfstætt starfandi leikskólum fjölgi þannig að foreldrar hafi raunverulegt val um fjölbreytt dagvistunarúrræði fyrir börn sín.

  Vísað til borgarráðs. SFS22080121

Fundi slitið klukkan 11:15