Fundur nr. 414

Velferðarráð

Ár 2021, 10. nóvember, var haldinn 414. fundur velferðarráðs og 219. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 15:02.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi fyrir hönd skóla- og frístundaráðs: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Ólafur Kr. Guðmundsson (D), Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Örn Þórðarson (D). Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi fyrir hönd velferðarráðs: Heiða Björg Hilmisdóttir formaður (S), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Ellen Jacqueline Calmon (S), Kolbrún Baldursdóttir (F), Rannveig Ernudóttir (P) og Sanna Magdalena Mörtudóttir (J). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn: Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Diljá Ámundadóttir Zoëga (C) og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar skóla- og frístundaráðs: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn: Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Soffía Vagnsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Guðmundsdóttir, Hákon Sigursteinsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Sigþrúður Erla Arnardóttir, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir og Unnur Halldórsdóttir.

Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á stöðumati verkefnisins Betri borg fyrir börn í Breiðholti. VEL2021100040.

  Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 15.15 tekur Jórunn Pála Jónasdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 8. nóvember 2021: 

  1. Lagt er til, að í tengslum við innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn í alla borgarhluta Reykjavíkur og í samræmi við nýsamþykktar breytingar á skipuriti velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs, verði samþykkt að eftirfarandi verkefni skólaþjónustu sem hefur verið sinnt af velferðarsviði færist í nýja skóla- og frístundaþjónustu í borgarhluta: Kennslu- og sérkennsluráðgjöf, hegðunarráðgjöf, þjónusta talmeinafræðinga og málefni daggæslu. 

  2. Helstu verkefni skóla- og frístundaþjónustu í borgarhluta verði: Skipulag og stjórnun skóla- og frístundastarfs, stuðningur við stjórnendur, málefni daggæslu, ráðgjöf um almenna starfs- og kennsluhætti, ráðgjöf og meðferð einstaklingsmála, styrking félagsauðs, kennslu- og sérkennsluráðgjöf, hegðunarráðgjöf, ráðgjöf talmeinafræðinga og farteymi að hluta eftir aðstæðum og stærð borgarhluta. 

  3. Samkvæmt nýsamþykktu skipuriti þjónustumiðstöðva verður til ný eining, deild barna og fjölskyldna í fjórum borgarhlutum. Deildinni er ætlað að veita heildstæða og samþætta þjónustu til barna og fjölskyldna þar sem lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 verða leiðarljósið í skipulagi þjónustunnar. Sérstök áhersla verður á þjónustu við langveik og fötluð börn með fjölþættar þjónustuþarfir auk sálfræðiþjónustu við skóla. Innan deildar barna og fjölskyldna starfa ýmsir sérfræðingar t.d. félagsráðgjafar, þroskaþjálfar og sálfræðingar. 

  4. Lagt er til að í hverjum borgarhluta verði mannauðs- og rekstrarteymi innan þjónustumiðstöðvarinnar sem sinnir mannauðsþjónustu og fjármálalegri ráðgjöf við starfseiningar sviðanna í hverfinu. Starfsfólk sem sinnir mannauðs- og fjármálum í borgarhlutum heyrir undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið eftir því sem við á en mynda sameiginlegt teymi. 

  5. Lagt er til að skóla- og frístundaþjónusta í borgarhluta og velferðarþjónusta þjónustumiðstöðva verði samþætt til að þjónustan nýtist sem best börnum og fjölskyldum þeirra og starfseiningum hverfisins. Vegna þessa verður starfsemi skóla- og frístundaþjónustu staðsett á þjónustumiðstöðvum og enn fremur færast skrifstofur frístundamiðstöðva Tjarnarinnar, Kringlumýrar og Gufunesbæjar/Ársels í þjónustumiðstöðvar í þeim borgarhluta sem við á. 

  6. Lagt er til að beina því til borgarráðs að Reykjavíkurborg standi fyrir nafnasamkeppni um heiti á þjónustumiðstöðvum í borgarhlutunum fjórum. Niðurstöður samkeppninnar skuli liggja fyrir í janúar 2022. 

  7. Lagt er til að gerður verði samstarfssamningur á milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs um verkefnið. Í samningum verði kveðið á um eftirtalda þætti: 
  a. Samstarf sviðanna í þágu barna og ungmenna 
  b. Aðgengi, verklag og árangursmælingar 
  c. Úttekt á verkefninu í síðasta lagi árið 2024 
  d. Kostnaðarskiptingu á milli sviða m.t.t. húsnæðis og almenns rekstrarkostnaðar. 
  Samningurinn liggi fyrir eigi síðar en í desember 2021.

  Breytingin tekur gildi 1. janúar 2022. 

  Greinargerð fylgir. 

  -    Kl. 16.17 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum og Geir Finnsson tekur þar sæti. 

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021080154 / VEL2021100016.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Samstarf velferðarráðs og skóla- og frístundarráðs í þágu barna í borginni hefur verið meira og þéttara undanfarin misseri en dæmi eru um áður, með það að markmiði að bæta og samþætta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Verkefnið Betri borg fyrir börn er mikilvægasta birtingarmynd þessa samstarfs, þar sem ábyrgð og kröftum er beint út í borgarhlutana til styrkingar á nærþjónustu og sömuleiðis til að auka dreifstýringu í skólastarfi. Þannig er bein þjónusta við börn og foreldra færð inn í samfélagið, nær vettvangi barnsins og jafnframt styrkist samstarf skóla-, frístunda- og velferðarþjónustu við börn og fjölskyldur. 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja þessa tillögu um yfirfærslu og innleiðingu tilraunaverkefnisins Betri borg fyrir börn í Breiðholtinu í önnur hverfi borgarinnar. Því markmiði er fagnað að efla og þétta eigi samstarf milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í málefnum barna. Tilraunaverkefnið hefur gengið vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður vegna Covid 19 faraldursins og þakka ber starfsfólki sviðanna sem unnið hefur að framgangi verkefnisins.  Þó enn sé eitthvað í land að verkefnið nái markmiðum sínum er stefnan rétt og reynslan góð. Heilt yfir styður Sjálfstæðisflokkurinn við allar þær aðgerðir sem kunna að koma til með að bæta skilvirkni í þjónustu borgarinnar, sérstaklega þegar málefni barna eru annarsvegar.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tekið er undir þörf á markvissara samstarfi skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Mikilvægt er að sú þjónusta sem að börn þurfa á að halda sé í nærumhverfi við þau, líkt og inni í skólum, þannig að börn geti auðveldlega leitað í hana, til að mynda til sálfræðinga og að aðrir ráðgjafar líkt og talmeinafræðingar séu innan veggja skólans. Þá er mikilvægt að tryggja nægilegt fjármagn og góða aðstöðu fyrir þjónustuveitendur svo að biðlistar eða annað sé ekki að koma í veg fyrir þjónustuveitingu. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillaga meirihlutans er að innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn í öll þjónustuhverfi borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að treysta á árangursmat vegna meðal annars þess að matsaðilar voru allir innanbúðar og hallaði þar á suma hópa. Foreldrar og börn voru ekki spurð um árangur. Tilraunatímanum er ekki lokið auk þess sem Covid setti strik í reikninginn. Ef horft er til þjónustu við skólabörn eins og þeirri sem börn bíða eftir hjá skólaþjónustu þá sér ekki högg á vatni. Ekki er séð að staðan sé neitt betri í Breiðholti en í öðrum hverfum. Biðlistinn í Breiðholti telur nú 285 börn, í Grafarvogi/Kjalanesi 206 börn, í Árbæ/Grafarholti 278 og í Vesturbæ 203 börn. Því er velt upp hvað liggi á að tilkynna innleiðingu þessa verkefnis í önnur hverfi þegar árangur er ekki skýrari en raun ber vitni. Fulltrúi Flokks fólksins er skíthræddur um að jafnvel þótt allt það starfsfólk sem kemur að málum sé að vinna stórkostlegt starf þá sé meirihlutinn í borginni meira að skreyta sig vegna komandi kosninga. Hugsunin og hugmyndin að baki verkefninu er góð og auðvitað styður fulltrúi Flokks fólksins innleiðingu eins og allt annað sem hjálpað getur börnum og foreldrum þeirra. 

  Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum í skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur lýsa yfir ánægju með tillögu um innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn í öll þjónustuhverfi borgarinnar. Verkefnið miðar að því að auka samtal innan nærumhverfis grunnskólanna og flytja miðlæga þjónustu nær skólunum sjálfum. Mikilvægt er að í innleiðingarferli verkefnisins í skólahverfunum muni kennarar og skólastjórnendur vera virkir þátttakendur í því ferli og með því valdefla hvern skóla og um leið samábyrgð þeirra á verkefninu. Verkefnið mun á þann hátt geta bætt starfsaðstæður kennara og þar með auka líkur á gæðum náms. Fulltrúarnir vilja sérstaklega benda á það misræmi sem er á fjölda grunnskóla innan borgarhlutanna fjögurra. Horfa þarf sérstaklega til þess að jafnræðis verði gætt varðandi þjónustu skólanna. 

  Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

  Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva telur Betri borg fyrir börn mikilvægt skref í að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Aukið samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í hverjum borgarhluta mun án efa auka skilvirkni og leiða til markvissari þjónustu í skóla- og frístundaumhverfi barna og ungmenna. 

  Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:27