Fundur nr. 417

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 8. desember var haldinn 417. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Rannveig Ernudóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Elín Oddný Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

 2. 1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 8. desember 2021, um skipulag á fagskrifstofum velferðarsviðs:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki nánari útfærslu á þeim skipulagsbreytingum sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs 8. júní sl. og í borgarráði 10 júní sl., eins og að neðan er lýst. Kostnaði vegna breytinganna verður mætt með tilfærslu verkefna og fjárheimilda innan velferðarsviðs. Á skrifstofu velferðarsviðs verði eftirfarandi breytingar á fagskrifstofum: 
  1.    Á skrifstofu ráðgjafarþjónustu verða eftirfarandi breytingar: 
  a.    Innan skrifstofunnar verða starfræktar tvær deildir þ.e. deild barna og fjölskyldumála og deild virkni og ráðgjafamála. Auk þess verður verkefni úthlutunarteymis húsnæðismála eitt af verkefnum skrifstofunnar. 
  b.    Að auki verði skrifstofunni falið að halda utan um verkefni þriggja sérhæfðra teyma sem starfa þvert á þjónustumiðstöðvar þ.e. Farsæld barna, Keðjan og Virknihús. 
  c.    Tvö stöðugildi ráðgjafa sem starfað hafa með rafrænu þjónustuteymi verða færð í Rafræna þjónustumiðstöð.  
  2.    Á skrifstofu málefna fatlaðs fólks verða eftirfarandi breytingar: 
  a.    Vettvangsgeðteymi, samstarfsverkefni velferðarsviðs og Landspítala, verður fært undir skrifstofu málefna fatlaðs fólks. Í vettvangsgeðteymi eru tveir starfsmenn sem verða áfram staðsettir á þjónustumiðstöð. 
  b.    Vinnu- og virknimiðuð stoðþjónusta, Gylfaflöt, Iðjuberg, Arnarbakki og Völvufell, verða færð undir skrifstofuna tímabundið. Markmiðið er að fara í þriggja ára umbótavinnu varðandi skipulag. 
  3.    Á skrifstofu öldrunarmála verða eftirfarandi breytingar:
  a.    Framleiðslueldhús sem nú tilheyrir þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða mun tímabundið heyra undir skrifstofu öldrunarmála meðan á umbreytingarverkefni stendur.
  b.    Þjónustuíbúðir að Lindargötu, Dalbraut, Furugerði, Norðurbrún og Lönguhlíð munu tímabundið heyra undir skrifstofu öldrunarmála meðan unnið verður að þróun úrræðisins.
  4.    Öldrunarráðgjöf verður skilgreind sem eitt af sérhæfðu teymunum sem starfa þvert á borgina og verður staðsett á  þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021110086.

  -    Rannveig Ernudóttir víkur af fundinum við afgreiðslu málsins.

  Samþykkt.

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram minnisblað, dags. 8. desember 2021, um stöðumat á stefnu aðgerða í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. VEL2021110088.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir þakka fyrir stöðumat á aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Af þeim 34 mælanlegu aðgerðum sem þar eru útlistaðar er tólf aðgerðum lokið eða þær eru viðvarandi, 18 aðgerðir eru í ferli og vinna ekki hafin við 4 aðgerðir. Eðlilegt er þar sem mikil framþróun er í málaflokknum og ný úttekt liggur fyrir að aðgerðaráætlunin sem gildir til 2025 verði endurskoðuð. 

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í desember eru 72 umsóknir á biðlista eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og skiptast niður með þessum hætti; 11 bíða eftir áfangaheimili, 55 umsóknir eru vegna sjálfstæðrar búsetu - dreifðar íbúðir og 6 umsóknir vegna sjálfstæðrar búsetu - samliggjandi íbúðir. Samhliða stuðningi er nauðsynlegt að tryggja að nægt húsnæði sé til staðar. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram kemur undir þessum lið að reglulegir fundir hafi verið haldnir  á milli Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, lögreglu, Landspítala, Heilsugæslu og Fangelsismálastofnunar og að samstarfið hafi ekki enn skilað þeim árangri að hægt hafi verið að búa til verkferil um þjónustu þegar heimilislausir einstaklingar eru að útskrifast af stofnun. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað þarf til, til að þessir aðilar geti náð að vinna saman þannig að samstarfið skili einhverjum árangri? Samstarf þessara aðila er mikilvægt. Spurning hvort þessir aðilar geti komið sér saman um einhvern  „stjóra“ sem tekur það að sér að stilla upp fundum og fá aðila að borðinu. En staðan hefur lagast sem er frábært.  Alla vega þurfa engir að hverfa frá neyðarskýlum vegna plássleysis. Gera þarf svo miklu meira engu að síður. Athuga ber að þessi hópur er ekki einsleitur. Ekki er hægt að setja alla undir sama hatt. Úrræði þurfa þess vegna að vera fjölbreytt. Heildarfjöldinn er 301 einstaklingur. Karlar eru í miklum meirihluta og eru þeir allt niður í 21 árs. Áherslan hefur verið á konur sem er mikilvægt en ljóst er að áherslan þarf ekki síður að vera á karla.

  Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á skrifstofu sviðsstjóra tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri vettvangs- og ráðgjafarteymis, og Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Fylgigögn

 4. Lögð fram úttekt velferðarsviðs á stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir í október 2021. VEL2021110090. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir þakka fyrir nýja úttekt á stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Mikilvægt er að halda vel utan um hópinn og gera reglulegar úttektir til að byggja ákvarðanir um þjónustu og úrræði á. Sú breyting er á gagnasöfnuninni núna að stuðst er við ETHOS flokkunina sem veldur því að gögnin eru marktækari og skýrari. Fækkað hefur í hópnum frá árinu 2017 um 14%. Af þeim sem teljast heimilislausir í úttektinni 2021 eru 54% í húsnæði og 31 % í neyðargistingu. Um þriðjungur hópsins eru konur og um 71% hópsins er á aldrinum 21-49 ára. Hærra hlutfall heimilislausra kvenna en karla dvelur í neyðargistingu en fleiri karlar dvelja í húsnæði fyrir heimilislausa meðan konur dvelja frekar í húsnæði með langtímastuðningi. Vettvangs-og ráðgjafateymi (VoR-Teymið) sinnir nú um 40% af þeim sem eru heimilislausir, eða 48% heimilislausra kvenna og 36% heimilislausra karla. Ljóst er að mikil framþróun hefur orðið í þjónustu við heimilislausa í Reykjavík. Frá október 2019 hefur neyðarrýmum/íbúðum fjölgað um alls 49. Heildarútgjöld til málaflokksins voru 732 m.kr árið 2019 og hljómar áætlun ársins 2021 upp á 1,4 m.kr. Því er ljóst að meirihlutinn í Reykjavík leggur mikla áherslu á viðeigandi þjónustu við heimilislaust fólk í Reykjavík.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Stutt kynning er á könnun:  Skýrsla um fjölda og stöðu heimilislausra í Reykjavík í október 2021. Heildarfjöldi heimilislausra er 301 einstaklingur. Þar af eru 54% í húsnæði sem er rétt rúmlega helmingur, 3% á víðavangi og 31% í neyðargistingu. Skipting milli kynja er 214 karlar (71%) og 87 konur (29%). Um 71% hópsins er á aldrinum 21-49 ára. Karlar eru í meirihluta og eru með annars konar vanda en konurnar og eru þeir allt niður í 21 árs sem eru orðnir heimilislausir. Grípa þarf þessa einstaklinga fyrr. Oft um 15 ára aldur má sjá sterkar vísbendingar um hverjir stefna þessa leið og oftast liggja fyrir gögn, greiningargögn og fleira.  Ná þarf til þessara einstaklinga áður en vandinn  nær að stækka svo mikið að viðkomandi er orðinn fastur í fíkn, er í viðjum geðrænna sjúkdóma og kominn á götuna. Markmiðið ætti að vera að vinna enn meira fyrirbyggjandi fremur en að lenda í að vera bara að slökkva elda.

  Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á skrifstofu sviðsstjóra, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, vettvangs- og ráðgjafarteymis taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 8. desember 2021, um viðbótarfjármagn vegna samnings um rekstur Konukots, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að samningsupphæð við Rótina um rekstur neyðarskýlis fyrir húsnæðislausar konur (Konukot) verði aukin um 29 m.kr. frá núgildandi samningi vegna breytinga á starfseminni og nýrra verkefna. Hætt verður að reiða sig á framlag sjálfboðaliða og breytingar gerðar á vaktaáætlunum því fylgjandi. Bætt verður við stöðu teymisstýru og breytingar gerðar á launaröðun forstöðukonu vegna þeirra þjónustu sem starfsmenn munu veita þeim konum sem dvelja í smáhúsum í nágrenni Konukots. Áætlaður kostnaður yrði 122,5 m.kr. á árinu 2022 eða um 2,5 m.kr. á mánuði til 1. október 2023. Upphafleg samningsupphæð var 93,6 m.kr. á ári. Óskað er eftir að breytingin taki gildi frá og með 1. desember 2021. Aukinn kostnaður á árinu 2021 yrði 2,5 m.kr. Óbreytt húsaleiga nemur 59.273 kr. á mánuði og tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021110087.
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með viðbótarfjármagni í samning vegna reksturs Konukots upp á 29 m.kr á ári frá núgildandi samningi má auka við stöðugildi teymisstýru og fjölga stöðugildum þannig að ekki þurfi að reiða sig á framlag sjálfboðaliða. Auk þess er stöðugildum fjölgað til að Konukot geti veitt íbúum tveggja smáhúsa í nágrenninu stuðning. Auk þess að setja viðbótarfé í rekstur Konukots hefur verið tryggt fjármagn upp á 50 m.kr. í fjárfestingaráætlun ársins 2022 til að fara í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Konukots, sem er komið á tíma. 

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, vettvangs- og ráðgjafarteymi, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 8. desember 2021, um skipun stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki að skipa stýrihóp til að endurskoða aðgerðaráætlun með stefnu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Kostnaður rúmast innan ramma velferðarsviðs. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021120001.

  Jafnframt er lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir, Rannveig Ernudóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir séu tilnefndar í hópinn.

  Samþykkt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Stefna um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt í október 2019 og gildir til ársins 2025. Ýmsar framfarir hafa orðið í þjónustunni frá árinu 2019. Fram kemur í minnisblaði með stöðumati á núgildandi aðgerðaráætlun að full ástæða sé til að fram fari endurskoðun og endurmat á aðgerðum stefnunnar, sér í lagi á grundvelli nýrrar úttektar um stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Því er nú skipaður stýrihópur til þess að endurskoða aðgerðaáætlunina. 

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, vettvangs- og ráðgjafarteymi, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 16. nóvember 2021: 

  Borgarstjórn samþykkir að koma aftur á fót nýju neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur sem starfrækt yrði samkvæmt skaðaminnkandi nálgun og verði í formi herbergjagistingar. Líkt því sem var komið á í Skipholti sem neyðarhúsnæði vegna COVID-19 faraldursins en hefur nú verið lokað.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021110073.

  Samþykkt að vísa til meðferðar stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir þakka fyrir tillöguna og vilja taka vel í allar tillögur sem snúa að aukinni velferð heimilislausra kvenna. Eftir að hafa fengið ítarlega og góða kynningu á stöðu heimilislauss fólks í Reykjavík eru ljóst að þarfir kvenna eru aðrar en þarfir karla. Samkvæmt úttektinni dvelur hærra hlutfall heimilislausra kvenna en karla í neyðarskýlum. Því virðist þörf á frekari langtímabúsetuúrræðum fyrir heimilislausar konur. Úrræðum fyrir konur hefur verið fjölgað á síðustu árum sbr. nýtt úrræði fyrir tvígreindar konur auk þess sem samliggjandi íbúðum með þjónustu hefur nú verið breytt í úrræði fyrir konur og þeim tryggð sólarhringsþjónusta. Mikilvægt er að rýna aðgerðaráætlunina, úttektina og stefnuna heildstætt og ákveða í kjölfarið næstu skref. Þess vegna er vel við hæfi að setja í gang stýrihóp sem komi með tillögur að úrbótum og úrræðum fyrir heimilislausa, með sérstakri áherslu á heimilislausar konur. 

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir vonbrigðum yfir því að tillagan um nýtt neyðarathvarf fyrir konur hafi ekki verið samþykkt í velferðarráði, en huggar sig þó við það að hægt sé að eygja þess von að tillagan hljóti framgöngu í stýrihópnum. Draumurinn tórir. 

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, vettvangs- og ráðgjafarteymi, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 8. desember 2021, um skipun stýrihóps um endurskoðun stefnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni 2018-2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki að skipa stýrihóp til að endurskoða stefnu velferðarsviðs á sviði velferðartækni og aðgerðaáætlun. Gerð verði tillaga að nýrri stefnu um velferðartækni til fimm ára ásamt kostnaðarmetinni áætlun til tveggja ára. Kostnaður rúmast innan ramma velferðarsviðs. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021120003.

  Jafnframt er lagt til að Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Sanna Magdalena Mörtudóttir, séu tilnefndar í hópinn og að Elín Oddný Sigurðardóttir verði formaður hópsins. Fulltrúar velferðarsviðs verða tilnefndir síðar.

  Samþykkt. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Velferðartækni er mikilvægur þáttur í að auka þjónustu við fólk svo það geti búið sem lengst á eigin heimili, sem mun þá seinka því eða jafnvel koma í veg fyrir að það þurfi að flytjast inn á hjúkrunarheimili eða önnur þjónustuúrræði. Velferðartækni er í stöðugri þróun, og því full ástæða til þess að endurskoða stefnuna reglulega, til að halda í við uppfærða tækni og nýsköpun á þessu sviði. Því meiri velferðartækni sem er innleidd því meiri gæðastundir skapast í mannlegum samskiptum og samvinnu. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar allt það sem gert er til þess að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með eins markvissum hætti og hægt er. Það væru mikil vonbrigði ef fyrirhugaðar uppfærslur á þjónustu til þessa hóps, myndu daga uppi í enn einum tilraunafasanum án þess að raunhæfar lausnir komi fram sem fyrst. Fulltrúi Flokks fólksins hefur undanfarið ár, ítrekað bent á  hversu ómarkviss og tilraunakennd stafræn umbreyting Reykjavíkurborgar hefur verið undir forystu þjónustu og nýsköpunarsviðs. Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að nú verði gengið rösklega til verka og leitað verði til fagaðila á einkamarkaði til þess að koma með tilbúnar lausnir í þau verkefni sem lýst er. Það getur bara ekki verið að þau verkefni sem talað er um séu það einstök eða sérstök í Reykjavík að finna þurfi upp alveg sér lausnir sem hvergi finnast annars staðar t.d. í öðrum sveitarfélögum.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Um er að ræða endurskoðun á stefnu um Velferðartækni sem samþykkt var árið 2018 og gildir til ársins 2022. Velferðartæknismiðja tók til starfa til að framfylgja stefnunni og hefur sinnt fjölmörgum verkefnum á sviði velferðartækni síðustu ár og hefur verið í virku samstarfi við einstaklinga, frumkvöðla, fyrirtæki, stofnanir og svo nýsköpunar- og vísindasamfélagið. Fjölmörg verkefni hafa verið í gangi, t.d. á sviði skjáheimsókna í heimaþjónustu, lyfjaskömmtun, þrepaþjálfun, tæknilæsi o.fl. Velferðartæknismiðjan er ekki hluti af stafrænu umbreytingunni og kemur þeirri vegferð ekki við. 

  Fylgigögn

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 8. desember 2021,  um gjaldskrá velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir stuðningsþjónustu, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýrri gjaldskrá vegna stuðningsþjónustu. Enginn kostnaðarauki fylgir tillögunni.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021110058.

  Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá. 

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga samráðshóps um forvarnir, dags. 8. desember 2021, um styrkveitingar úr Forvarnasjóði Reykjavíkurborgar 2021:

  -    Kolbrún Baldursdóttir víkur af fundinum við afgreiðslu málsins.

  Ína Steinþórsdóttir. Hugrún – geðfræðslufélag. 350.000 kr. 
  Samþykkt.
  Ofbeldisvarnaskólinn ehf. Yfir strikið – vefsíða um forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi. 200.000 kr. 
  Samþykkt.
  Ofbeldisvarnaskólinn ehf. Ofsi – spil. 130.000 kr.
  Samþykkt.
  Jafnréttisskóli Reykjavíkur. Leiðbeiningar um viðbrögð við óæskilegri kynferðislegri hegðun. 650.000 kr.
  Samþykkt.
  Saman hópurinn – félag um forvarnir. Allir saman á menningarnótt. 500.000 kr.
  Samþykkt.
  Tónlistarfélag Árbæjar. Hjómsveitarþjálfun 14-18 ára. 250.000 kr.
  Samþykkt.
  Miriam Petra Ómarsdóttir Awad. Litla handbókin um rasisma og menningarfordóma. 500.000 kr. 
  Samþykkt.
  Ástráður, kynfræðslufélag læknanema. Ástráður kynfræðslufélag læknanema. 350.000 kr.
  Samþykkt.
  Einhverfusamtökin. Fræðsla um þarfir í þjónustu við einhverfa og fjölskyldur þeirra. 200.000 kr.
  Samþykkt.
  Þyrí Ásta Hafsteinsdóttir. Háttatími. 350.000 kr.
  Samþykkt.
  Hjólakraftur slf. Kaldir krakkar. 500.000 kr.
  Samþykkt.
  Heimili og skóli. SAFT fræðsla fyrir 6. bekki í Reykjavík. 500.000 kr.
  Samþykkt.
  Heimili og skóli. Hlustum -landsátak um betra samfélag fyrir börn. 250.000 kr.
  Samþykkt.
  Breki Bjarnason. Styrkur og vellíðan. 400.000 kr.
  Samþykkt.
  Sema Erla Serdaroglu. Ungt fólk og ofbeldisfull öfgahyggja. 250.000 kr. 
  Samþykkt. 
  Sigríður Gísladóttir. Okkar heimur. 500.000 kr.
  Samþykkt.
  Fríða Rún Þórðardóttir. Sterkari út í lífið. 120.000 kr.
  Samþykkt.
  Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. Átraskanir: Fræðsla og forvarnir - að vera sáttur í eigin skinni. 500.000 kr.
  Samþykkt.
  FUNI – félag um forvarnir. USSNUSS – átak gegn nikótínpúðum. 250.000 kr.
  Samþykkt.
  Trans vinir. Fræðslu- og forvarnaverkefni um kynvitund og kyntjáningu barna. 500.000 kr.
  Samþykkt.
  Iðunn Svala Árnadóttir. Mæðrasamfélagið. 380.000 kr. 
  Samþykkt. 
  Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 11. Lagt fram yfirlit yfir afgreiðslur íbúaráða Reykjavíkur á umsóknum um styrki úr Forvarnasjóði til hverfislægra verkefna. VEL2021110092.

 12. Lögð fram svohljóðandi tillaga styrkjanefndar velferðarráðs um ráðstöfun afgangsfjárhæðar úr styrkjapotti velferðarráðs 2021:

  Lagt er til að afgangsfjárhæð styrkjapotts velferðarráðs undir styrkjum borgarsjóðs árið 2021 að fjárhæð, 7,5 m.kr., verði veitt til Bjarkarhlíðar til að veita ráðgjafarsamtöl til þeirra einstaklinga sem hafa upplifað eða orðið fyrir ofbeldi. Einkum verði horft til þeirra sem hafa dvalið á vistheimilum, hvort heldur þau hafa verið rekin af ríkinu, Reykjavíkurborg eða einkaaðilum.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021120004.
  Samþykkt. 

  Fylgigögn

 13. Lagt fram svar formanns Velferðarvaktarinnar vegna tillögu um úttekt á fátækt í kjölfar COVID-19, sem vísað var til Velferðarvaktarinnar, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. október 2021. VEL2021090063.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir þakka fyrir skýr svör frá formanni Velferðarvaktarinnar og telja farsælt að slík rannsókn verði framkvæmd þegar nauðsynleg gögn liggja fyrir, vonandi strax á næsta ári. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að Reykjavíkurborg gerði sérstaka úttekt á fátækt í Reykjavík sambærilega þeirri sem gerð var 2008. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að margar slíkar úttektir hafi verið gerðar og að ekki væri þörf á annarri. Í framhaldi var sent erindi til Velferðarvaktarinnar um að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvar sé þörf á úrbótum.  Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að Reykjavíkurborg geri úttekt sem þessa í Reykjavík. Langstærsti hluti þjóðarinnar býr í höfuðborginni. Velferðarvaktin stendur sannarlega sína vakt og hefur unnið margar góðar athuganir. En þeirra vinna á ekki að fría borgina frá því að halda uppi vöktun á því hver staðan er á borgarbúum, þeim sem standa höllum fæti á þessum fordæmalausu tímum sem við höfum verið að upplifa. Niðurstöður sem birtar eru í nýrri skýrslu Barnaheilla renna stoðum undir mikilvægi þess að velferðaryfirvöld séu með puttann á púlsinum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur talað ítrekað fyrir sértækum aðgerðum s.s. fríum skólamáltíðum til að létta undir með þeim sem lifa undir eða við fátæktarmörk. Þess vegna er mikilvægt að hafa ávallt nýjustu upplýsingar um fjölda þeirra sem fallið hafa í fátækt eða eru við það að falla í fátækt. 

 14. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Í gegnum þjónustuíbúðir aldraðra er hægt að nálgast matarþjónustu. Hvað er gert við mögulega matarafganga sem verða þar? Er íbúum boðið upp á að neyta matarins, ef svo er, þarf að greiða aukalega fyrir það? Eða er starfsfólki boðið upp á að taka matinn með heim, eða er þeim gert að henda honum?  Eða er eitthvað annað gert við matarafganga?

Fundi slitið klukkan 16:23