Fundur nr. 432

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 10. ágúst var haldinn 432. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Kerhólum, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Kristjana Gunnarsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, um skipun stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks til ársins 2026, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um að skipaður verði stýrihópur til að gera drög að nýrri heildstæðri stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldra fólks til ársins 2026. Markmiðið er að styðja við nýsköpun, virkni og heilbrigði þannig að eldra fólk geti búið heima,  jafnframt því sem umönnun þess sé tryggð þegar hennar er þörf. Stefnan verði unnin í samráði við hagsmunasamtök eldri borgara og notendur þjónustu á vegum velferðarsviðs.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070013.

  Samþykkt.

  Lagt er til að Magnea Gná Jóhannsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir, sem jafnframt verður formaður, verði fulltrúar meirihluta velferðarráðs og að Helga Þórðardóttir verði fulltrúi minnihluta velferðarráðs.

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, um skipun stýrihóps um mótun stefnu í félagsstarfi Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um að skipaður verði stýrihópur til að gera drög að nýrri heildstæðri stefnu um félagsstarf í Reykjavíkur, til þess að skapa aðstæður sem bæta félagslega heilsu allra aldurshópa, þ.m.t. eldra fólks. Markmiðið er að styðja við nýsköpun, virkni og heilbrigði, blöndun verði milli kynslóða og félagsstarfið verði sniðið að þörfum mismunandi samfélagshópa, þ.m.t. eldra fólks. Hópurinn móti tillögu að staðsetningu og skipulagi samfélagshúsa ásamt framtíðarnýtingu húsnæðis sem nú þegar er nýtt undir félagsstarf, en hentar ekki undir slíka starfsemi.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070014.

  Samþykkt

  Lagt er til að Ásta Björg Björgvinsdóttir og Magnús Davíð Norðdahl, sem jafnframt verður formaður, verði fulltrúar meirihluta velferðarráðs og Sanna Magdalena Mörtudóttir verði fulltrúi minnihluta velferðarráðs.

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, um mótun virknistefnu til ársins 2026, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um að skipaður verði stýrihópur til að gera drög að nýrri heildstæðri virknistefnu Reykjavíkurborgar í málefnum einstaklinga sem mæta hindrunum í atvinnuleit og virkni og þurfa á þjónustu velferðarsviðs að halda. Markmiðið er að styðja við nýsköpun, virkni (störf, nám, þjálfun) og heilbrigði til að stuðla að aukinni þátttöku og virkni í samfélaginu. Stefnan verði unnin í samráði við hagsmunasamtök og notendur.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070012.

  Samþykkt.

  Lagt er til að Ellen Jacqueline Calmon og Þorvaldur Daníelsson, sem jafnframt verður formaður, verði fulltrúar meirihluta velferðarráðs og að Sandra Hlíf Ocares verði fulltrúi minnihluta velferðarráðs.

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, um undirbúning að opnun tímabundins neyðarhúsnæðis í miðborginni fyrir heimilislausa karlmenn, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki að komið verði á fót neyðarhúsnæði fyrir 6-8  heimilislausa karla sem dvalið hafa í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar. Um er að ræða húsnæði Félagsbústaða í miðborg Reykjavíkur. Starfshópi verði falið að hefja undirbúning að úrræðinu og leggja fram kostnaðarmetna tillögu fyrir fund velferðarráðs þann 14. september n.k.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070032.

  Samþykkt.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að stofna starfshóp um opnun á neyðarhúsnæði fyrir karla og vill jafnframt ítreka þá skoðun að húsnæðið verði opið allan sólarhringinn. Flestir hafa engan samastað annan en götuna og því mikilvægt að aðgengi verði gott að húsnæðinu.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf sviðsstjóra, dags. 25. júlí 2022, með tilnefningu í viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu. VEL22070028.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ráðningar sálfræðinga til að vinna niður biðlista í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022. VEL22060060.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins spurði um ráðningar sálfræðinga til að vinna niður biðlista hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Einnig var spurt um hve marga sálfræðinga ætti að ráða á árinu 2022 til viðbótar við þá sem fyrir eru? Loks var spurt hvort verið sé að leita eftir að fastráða sálfræðinga? Í svari kemur fram að eftirspurn eftir þjónustu sálfræðinga i samfélaginu er mikil og hefur m.a. verið erfitt að ráða sálfræðinga í fastar stöður á miðstöðvum velferðarsviðs. Flokkur fólksins sér að nokkuð er búið að reyna til að fá sálfræðinga til starfa. Launamálin skipta hér sköpum og það verður ekki fyrr en þau verða bætt að takast mun að leysa þennan vanda. Taka má Reykjanesbæ til fyrirmyndar en þar hafa  grunnlaun sálfræðinga verið hækkuð. Nauðsynlegt er að fjölga stöðugildum og leita allra annarra leiða til að ná niður biðlistum.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um samráð við Sálfræðingafélag Íslands vegna skorts á sálfræðingum hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022. VEL22060061.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins fagnar því að velferðarsvið hafi haft samband við Sálfræðingafélagið eftir að fulltrúi Flokks fólksins benti á mikilvægi þess.  Nú styttist í að kjarasamningar losni og fagnar Flokkur fólksins því að meta eigi störf sálfræðinga sem ekki hafa verið metin síðan árið 2017 og að starfslýsingar þeirra verði endurskoðaðar.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 10. ágúst 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022. VEL22060058.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að öll óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, tillögur sem og fyrirspurnir komi til afgreiðslu hið fyrsta, nú þegar nýtt kjörtímabil er hafið.  Í svari segir að á kjörtímabilinu 2018 – 2022 hafi verið lagðar fram ríflega 130 fyrirspurnir og tillögur frá fulltrúum Flokks fólksins er snéru að velferðarsviði og velferðarráði. Fram kemur að einungis einni fyrirspurn, sem lögð var fram í borgarráði 4. júlí 2019, hefur ekki verið svarað. Sú fyrirspurn snýr að afdrifum búsetuhúss en ekki hefur fengist niðurstaða í það mál. Jafnframt eru fjórar tillögur frá 2020 sem vísað var til frekari og áframhaldandi meðferðar innan stjórnkerfisins. Fulltrúi Flokks fólksins vill í framhaldinu fá upplýsingar um skiptingu mála í tillögur og fyrirspurnir og einnig hvaða tillögur það voru frá 2020 sem vísað var til áframhaldandi meðferðar. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram formlega fyrirspurn um það.

  Fylgigögn

 10. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn:

  Fyrirspurn í framhaldi á svari við óskum um upplýsingar um óafgreidd mál Flokks fólksins. Í svari segir að málin hafi verið 130. Spurt er hvað það voru margar tillögur og hvað margar fyrirspurnir. Óskað er eftir að vita hvaða tillögur það eru frá 2020 sem vísað var til áframhaldandi meðferðar eins og fram kemur í svari og hvenær er að vænta afgreiðslu á þeim? 

  Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 14:22