Fundur nr. 5673

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 25. ágúst, var haldinn 5673. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:01. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Kjartan Magnússon og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir og Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist: 
  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2022 á tillögu að samþykkt fyrir göngugötur í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22060048

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ef horft er á 5. gr. er ekki gengið nógu langt. Íbúar eiga ekki að þurfa að sækja um leyfi fyrir tilfallandi akstri á göngugötu t.d. vegna flutninga eða stærri framkvæmda. Slík umsókn tefur málið og kallar á auka starfskrafta sem kosta. Þegar talað er um göngugötur má ekki gleyma þeim sem eru með skerta hreyfifærni. Fólk með skerta hreyfifærni finnur fyrir því núna að geta ekki lagt bílnum sínum í stæði nálægt verslunum og þjónustu. Ef við horfum t.d. á Laugaveginn, þá er ekki hægt að leggja bíl þar. Sérmerktu stæðin eru í hliðargötum. Leigubílar ættu að geta keyrt göngugötu til að sækja fatlaða einstaklinga. Í þessari bókun er vísað í umfjöllun í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta/. Rætt er um viðburði í 6. grein samþykktarinnar en þar kemur fram að sækja þurfi um leyfi. Sjálfsagt er að leyfa fólki að sýna t.d. listir sínar án þess að sækja um sérstakt leyfi, valdi það engum ónæði. Hér er þá ekki verið að tala um viðburði sem fylgir t.d. tónlist sem stillt er hátt. Um hávaðamál gilda ákveðnar reglur og mikilvægt að senda út skýr skilaboð varðandi það.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. ágúst 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2022 á kynningu á lýsingu vegna nýs deiliskipulags að Kleppsgörðum, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22080122

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2022 á breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, vegna lóðarinnar nr. 20B við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22080123

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2022 á breytingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði á Esjumelum vegna lóðarinnar nr. 9 við Silfursléttu, ásamt fylgiskjölum.
    Synjun umhverfis- og skipulagsráðs er staðfest.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22080124

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að hefja viðræður við teymið Smart Food Campus um lóðarvilyrði á grundvelli tillögu þeirra í samkeppninni Reinventing Cities. Teymið sóttist eftir lóð við steypusílóin við Sævarhöfða og urðu í öðru sæti. Tillagan þótti samt mjög áhugaverð og var farið í að skoða hvort hún gæti fundið sér annan stað í borginni. Niðurstaða þeirrar skoðunar er sú að þetta verkefni gæti verið mikill vegsauki fyrir Gufunes og yrði spennandi viðbót við hverfið.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22080121

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna fjölbýlishúsalóðar við Haukahlíð 4, ásamt fylgiskjölum. MSS22080117
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að bjóða út lóð þar sem hæstbjóðandi fær hana. Réttara væri að borgin byggði sjálf á henni eða úthlutaði til samvinnufélaga eða aðila sem byggja í óhagnaðardrifnu skyni.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. ágúst 2022, varðandi breytingar á fulltrúum Reykjavíkurborgar á stjórnarfund Vestnorræna höfuðborgarsjóðsins. MSS22030131

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. ágúst 2022, þar sem erindisbréf byggingarnefndar vegna uppbyggingar og framkvæmda við fjölnota íþróttahúss við Frostaskjól er lagt fram til kynningar. MSS22080130

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að samþykkja stofnun byggingarnefndar vegna fjölnota íþróttahúss við Frostaskjól sem mun bæta aðstöðu KR-inga til muna. Mannvirkið raðaðist hátt í forgangsröðun íþróttamannvirkja og er borgin að vinna markvisst samkvæmt þeirri áætlun. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um afnot af hluta af aðstöðu á Laugardalsvelli, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22080022

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikil ánægja hefur verið meðal grunnskólabarna og starfsfólks með aðstöðuna hjá KSÍ. Þetta er góð lausn fyrir 6. bekk í Laugarnesskóla enda stutt að fara á milli og gönguleiðir til fyrirmyndar. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér birtist enn eitt dæmið um viðhaldsleysi á skólahúsnæði borgarinnar. Nú þarf að taka á leigu hluta húsnæðis á Laugardalsvelli fyrir Laugarnesskóla á meðan útbúin er kennsluaðstaða á lóð skólans. Fram kom við skólasetningu Laugarnesskóla að húsnæðið væri víða myglað, listgreinastofur ónothæfar, leiklist og tónmennt væri einungis hægt að kenna með mikilli útsjónarsemi og eldri nemendur þyrftu að sækja sína kennslu í KSÍ. Enn væru ekki komnar fram framtíðarlausnir fyrir skólastarf í hverfinu þó mikil íbúðaruppbygging hafi átt sér stað á svæðinu. Mikilvægt er að taka föstum tökum viðhald á skólahúsnæði og uppbyggingu innviða í hverfum, ekki síst þar sem gríðarleg húsnæðisuppbygging er fyrirhuguð. Það er ótækt að skólastarf sé í uppnámi víða um borg vegna fyrirhyggjuleysis borgaryfirvalda. Hér þarf að gera betur. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning að Fossvogsbletti 2A, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22080041

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. ágúst 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samning um kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar vegna færslu skólpdælustöðvar í Vogabyggð, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22080042

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 16. ágúst 2022, varðandi undirskriftalista foreldra hjá íþróttafélaginu Leikni varðandi aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn í Efra-Breiðholti. Einnig lagður fram undirskriftalisti foreldra hjá íþróttafélaginu Leikni, ódags.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22050027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Foreldrar í Leikni hafa lengi óskað þess að börnin geti æft inni á veturna í Austurberginu. Núverandi aðstaða sem er í Fellaskóla er ekki nægilega oft laus. Æfingar þar eru oft seint og er aðstaðan ekki eins góð og í Austurbergi. Afar brýnt er að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn í Efra-Breiðholti. Flokkur fólksins hefur áður látið sig málefni Leiknis varða. Leiknir er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi er frístundakortið langminnst nýtt. Hér er tækifæri til að gera vel við Leikni í þágu barna í Efra-Breiðholti. Leiknir á litla von á að stækka ef ekki er aðstaða fyrir hendi. Félagið á undir högg að sækja vegna slakra innviða og báglegrar aðstöðu. Undirskriftalisti foreldra var afhentur borgarstjóra rétt fyrir kosningar. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna borgarstjóra á þennan lista og hvetja meirihlutann til að taka þetta skref til að bæta ástundun og upplifun barna í Efra-Breiðholti. Það er afar brýnt að Leiknir fái tækifæri til að útvíkka starfsemi sína og bæta við íþróttagrein en þar er aðeins hægt að æfa knattspyrnu og blak.

    Fylgigögn

  13. Lagt til að Kristinn Jón Ólafsson taki sæti í stjórn Reykjanesfólksvangs og að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti til vara.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22080125

  14. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 17. ágúst 2022, þar sem sex mánaða skýrsla Betri samgangna ohf. er lögð fram til kynningar.

    Davíð Þorláksson og Þorsteinn R. Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22080126

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Unnið er ötullega að framkvæmd samgöngusáttmála þótt tafir séu fyrirsjáanlegar á einstaka verkefnum hans. Innan samgöngusáttmála eru mikilvægustu verkefnin Miklubrautarstokkur, Sæbrautarstokkur, borgarlína og umfangsmikið net hjólreiðastíga. Þetta eru græn og góð verkefni sem mikilvægt er að komist í framkvæmd sem allra fyrst. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins kveður á um margvíslegar mikilvægar samgöngubætur sem margar hverjar áttu þegar að vera komnar til framkvæmda. Mikill seinagangur hefur verið á framkvæmd sáttmálans og mikilvæg verkefni tafist í meðförum borgarinnar. Mikilvægt er að leysa úr samgönguvanda borgarinnar fljótt og örugglega.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er farið yfir stöðu framkvæmda. Ef horft er til kaflans Arnarnesvegur - Breiðholtsbraut, framlenging Arnarnesvegar að Breiðholtsbraut, akstursbrú yfir Breiðholtsbraut, kemur fram að verkhönnun er nánast lokið og að deiliskipulagsvinna Reykjavíkur og Kópavogs þarf að klárast áður en sótt verður um framkvæmdaleyfi. Útboð framkvæmdar er fyrirhugað á þriðja ársfjórðungi 2022. Kostnaðaráætlun verkhönnunar (fyrir áhættugreiningu og lokarýni) er 4.500 m.kr. Þar af er kostnaður við göngu- og hjólastíga og brýr um 1.000 m.kr. Flokkur fólksins hefur margrætt þetta mál í borgarstjórn og þá helst að fara á af stað með framkvæmd sem byggð er á úreltu umhverfismati. Þetta á að gera þrátt fyrir að Framsókn hafi lofað á fundi með Náttúruvinum Reykjavíkur að gert yrði nýtt umhverfismat fyrir 3. kafla Arnarnesvegar, enda hvorki umhverfislega né siðferðilega rétt að byggja svo stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati. Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Setja ætti aftur á móti í forgang að gera Breiðholtsbraut tvíbreiða að Rauðavatni. Komið er inn á Bústaðaveginn. Segir að gert sé ráð fyrir mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Hefur þessi framkvæmd verið ákveðin? 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 22. ágúst 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fundi borgarstjóra með Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júlí 2022. MSS22060192

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 16. ágúst 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýtingu metans og moltu hjá SORPU, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí 2022. MSS22070134

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 16. ágúst 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kaup á sorphirðubifreiðum, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022. MSS22060094

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í borgarráði 10. júní 2022 var lögð fram fundargerð innkauparáðs þar sem lagt var fram bréf dags. 9. maí 2022, EES útboð nr. 15463 „Kaup á sorphirðu bifreiðum fyrir Reykjavíkurborg“. Lagt er til að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda sem jafnframt er eini bjóðandinn, Klettur – sala og þjónusta ehf., að fjárhæð kr. 327.864.135,-. Flokkur fólksins spurði hvort skoðað hafi verið að kaupa bifreiðar sem ganga fyrir metani og ef ekki hverjar skýringarnar væru. Segir i svari framkvæmdastjóra SORPU að hann hafi ekki forsendur til að að svara hvort skoðað hafi verið hjá Reykjavíkurborg að kaupa bifreiðar sem ganga fyrir metani. Flokkur fólksins spurði einnig hvort það sé rétt að allt metan sé selt og er svarið við því er já. Þýðir það að metan er ekki lengur brennt á báli? Metan sem er brennt er verðlaust. Vísað er í svarinu í sjónvarpsfréttir 6. ágúst sl. þar sem fram kom að SORPA hafi hafið boranir eftir metangasi á urðunarhaug til að auka framboð á metani og mæta aukinni eftirspurn. Ef hægt er að ná í meira metan með borunum núna, bendir það til að það sé að myndast í urðunarhaugunum og ekki er hægt að leyfa því að flæða út í andrúmsloftið.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um um samvinnu við við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að kortleggja stöðu á leigumarkaði, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 23. ágúst 2022.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22080031

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gerir nú þegar kannanir á stöðu leigjenda á markaði. Um leið sinnir velferðarsvið borgarinnar þeim hópi sem er hjá Félagsbústöðum. Í ljósi ofangreinds er tillögunni vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Staða leigjenda er sífellt að versna og taka á sig nýjar myndir. Nú er svo komið að fólk er að fara í stórum stíl á götuna vegna þess að einhverjir leigusalar vilja endurleigja og láta gera tilboð í leiguna. Verið er að minnka leigurými til að leigja fleirum, stytta uppsagnarfresti og hækka leigu. Flokkur fólksins hefur miklar áhyggjur af aðstæðum leigjenda og sérstaklega eru nýbúar í viðkvæmri stöðu. Þessi hópur hefur ekki mikið á milli handanna og á jafnvel ekkert eftir þegar búið er að greiða leigu. Þetta er stór hópur fólks, barnafjölskyldur ekki hvað síst. Í þessu máli sem öðrum þar sem verið er að brjóta mannréttindi fólks verða öll ráð og svið að taka höndum saman. 

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 17. ágúst 2022. MSS22010020

    Fylgigögn

  20. ögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. ágúst 2022.
    B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. og 12. lið fundargerðarinnar:

    Liður 11, Álfsnes. Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt framgöngu borgarinnar, ekki síst vegna samráðsleysis gagnvart íbúum á Kjalarnesi vegna staðsetningar skotvallar á Álfsnesi. Í erindi íbúasamtaka Kjalarness kemur fram ósk um að skoðað verði með hljóðmælingum og öðrum mælingum hvort hægt sé að færa völlinn til á Álfsnesinu. Flokkur fólksins væntir þess að vel verði tekið í erindið. Liður 12, Smyrilshlíð. Íbúar við reit E við Haukahlíð/Smyrilshlíð hafa gert athugasemdir. Miklar breytingar eru á hæð húsa, skuggavarpi og nýtingu. Skuggavarp er mikið í þessu hverfi og vindmögnun er þegar farin að hafa neikvæð áhrif á umhverfið (þ.m.t. flug). Þess utan skortir alla þjónustu og verslun. Verið er að breyta reit G sem átti að verða verslunar- og þjónusturými í íbúðarkjarna. Þar sem lóðir í hverfinu eru dimmar hefur reitur I verið eina græna svæðið í hverfinu þar sem sólar nýtur við. Fólk sem býr við Fálkahlíð nýtur ekki sólar mestan hluta sólarhringsins. Þannig verður það jafnframt við Haukahlíð ef af þessum breytingum verður. 

    Fylgigögn

  21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. MSS22070153

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistar taka heilshugar undir erindi íbúa á langtímastæðum á tjaldsvæðinu í Laugardal, dagsett 9. júlí. Þar er þess farið á leit við Farfugla og Reykjavíkurborg að reynt verði að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi viðveru íbúanna á tjaldsvæðinu í sumar og að rætt verði um framhaldið og framtíðina fyrir langtímastæði. 

    Fylgigögn

  22. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22080007

    Fylgigögn

  23. Lagt fram bréf menningar- og viðskiptaráðherra, dags. 24. ágúst 2022, varðandi minnisvarða í Laugardal.
    Afgreiðsla málsins er færð í trúnaðarbók. MSS22080161

  24. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að gripið verði til virkra aðgerða gegn vargfugli í Reykjavík. Meðal annars verði gripið til hertra aðgerða gegn mávi við Tjörnina og til að stemma stigu við mávavarpi í eyjum á Kollafirði. MSS22080169

    Frestað.

  25. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um framkvæmdir á gangstétt við Garðastræti 33 (við rússneska sendiráðið). Möl hefur verið borin á hluta gangstéttarinnar og svæðið girt af. Hverjir annast verkið, á hvers vegum eru framkvæmdirnar og hvaða tilgang hafa þær? MSS22080181

  26. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um hvernig heildarútsvarstekjur Reykjavíkurborgar síðustu fimm árin, skiptast niður eftir póstnúmerum. MSS22080173

  27. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Óskað er eftir því að öll B-hluta fyrirtækin sem eru í meirihlutaeigu borgarinnar og rukka íbúa fyrir þjónustu í formi reikninga, komi á fund borgarráðs til þess að kynna verklag í kringum innheimtu reikninga innan sinna fyrirtækja. Einnig er óskað eftir skriflegu minnisblaði frá B-hluta fyrirtækjunum þar sem fram kemur hvernig staðið sé að innheimtunni. Óskað er eftir upplýsingum um hver sjái um innheimtu, milliinnheimtu og löginnheimtu fyrir umrædd fyrirtæki, hvort og hvenær innheimtuviðvaranir séu sendar sé reikningur ógreiddur, hvenær kröfur fari í milliinnheimtu og jafnframt hvað þurfi að eiga sér stað sem leiði til þess að krafa fari í löginnheimtu. MSS22080174

    Frestað.

  28. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að útvega langtímastæði í borgarlandinu fyrir íbúa sem búa í hjólhýsum og húsbílum. Unnið verði með íbúum sem nú búa í langtímastæðum á tjaldsvæðinu í Laugardal til að finna svæði sem hentar þörfum íbúanna. Sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs verði falið að halda utan um vinnuna við að finna langtímastæði í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið og velferðarsvið. MSS22080175

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Fylgigögn

  29. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að afgreiða tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Reykjavíkurborg beiti sér gegn spilakössum. Tillögunni var vísað til borgarráðs á borgarstjórnarfundi þann 15. mars 2022. MSS22080176

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Fylgigögn

  30. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Reykjavíkurborg samþykkir að stofna stýrihóp sem leiti til hinna sveitarfélaganna með það að markmiði að hefja viðræður við ríkið um að veita 10% af áfengisgjaldi til sveitarfélaganna. Leiðarljós vinnunnar verði að hluti af þeim fjárhagslega gróða sem hlýst af sölu áfengis verði varið í félagslega uppbyggingu til að mæta þörfum þeirra sem hljóta skaða af áfengis- og vímuefnaneyslu. Stýrihópurinn verði skipaður einum kjörnum fulltrúa úr meirihluta borgarstjórnar og einum úr minnihluta ásamt starfsfólki til ráðgjafar. Þann 1. október 2019 samþykkti borgarstjórn að vinna nánar með tillögu um að hluti áfengisgjalds renni til sveitarfélaganna. Samþykktin fól í sér að unnið yrði með tillöguna á vettvangi borgarráðs. Lagt er til að tillöguflytjandi skipi stýrihópinn fyrir hönd minnihluta borgarstjórnar. MSS22080178

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Fylgigögn

  31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Illa hefur gengið að finna lausnir með skipuleggjendum Menningarnætur þannig að hátíð af þessu tagi taki á móti öllum þar sem stórt svæði er lokað af. Það er ákveðinn forgangsakstur fyrir stæðiskorthafa og akstursþjónustu fatlaðra að jaðri svæðisins en það dugar ekki til. Flokkur fólksins leggur til að lagst verði yfir þetta vandamál og reynt að hugsa út fyrir boxið til að koma til móts við fatlað fólk, hreyfihamlaða og sjónskerta innan hátíðarsvæðisins. Það liggur í augum uppi að ekki er hægt að mæla með því að fatlað fólk nýti sér þjónustu strætó því allir vagnar eru stappfullir og ekki allir bílstjórar taka tillit til líkamlegs ástands farþeganna með sínu aksturslagi. Í vögnunum eru auk þess mikil þrengsli, fjölskyldur með börn sín og barnavagna. Hugsa þarf dæmið upp á nýtt fyrir fólk sem á erfitt með gang og notast við hjálpartæki eins og hjólastóla og hækjur en langar engu að síður að taka þátt í hátíðarhöldunum. MSS22080177

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig haldið er utan um fyrrverandi slökkviliðsmenn sem glíma við sjúkdóma sem eru afleiðing af starfi þeirra. Er það rétt að reynslumiklum slökkviliðsmönnum hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins séu boðnir starfslokasamningar en ekki hlutastarf eins og væri hægt að gera? Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort slökkviliðið og Reykjavíkurborg styðji fyrrverandi slökkviliðsmenn fjárhagslega sem veikst hafa af starfstengdum sjúkdómi, t.d. með styrkjum vegna lyfjakostnaðar. Reykjavíkurborg og sveitarfélögin í kring reka slökkvilið, vinnustað sem telja má að sé einn sá áhættumesti bæði hvað varðar líf og heilsu slökkviliðsmannanna. Sterk tengsl eru samkvæmt rannsóknum á milli sjúkdóma eins og öndunarfærasjúkdóma og krabbameins við störf í slökkviliðinu. Sum eiturefni taka tíma að mynda meinvörp. Einkenni koma kannski seint í ljós. Slökkvilið víða hafa þess vegna verið að breyta vinnuferlum hjá sér m.a. til að sporna við að slökkviliðsmenn dvelji með mengandi efnum. Íslenskir slökkviliðsmenn eru þar ekki undanskildir. Flokkur fólksins hefur upplýsingar um að hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er reyndum starfsmönnum boðnir starfslokasamningar um leið og færi gefst, t.d. vegna 95 ára reglunnar. MSS22080170

    Vísað til umsagnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær stafræn umbreyting kemur til gagns á skóla- og frístundasviði. Í þessu samhengi er vert að spyrja af hverju stafræn umbreyting er komin svo skammt á veg að varla nokkuð er að heitið getur sem liðkar fyrir þjónustu á skóla- og frístundasviði þrátt fyrir að ríflega 13 milljörðum hafi verið varið í stafræna umbreytingu undir sviðinu þjónustu- og nýsköpunarsviði. Hver ákvað þessa forgangsröðun á þessu mikla fjármagni? Hvar liggur ábyrgðin, hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON), nú kallað stafrænt svið, eða hjá skóla- og frístundasviði? Þar ríkja fornaldarvinnubrögð þegar kemur að umsóknarferli eða innritun á leikskóla. Þegar foreldri þarf að segja upp dvalarsamningi barns í leikskóla þá þarf viðkomandi að taka á móti útprentuðu A4 blaði frá leikskólanum sem þarf að fylla út skriflega með öllum viðeigandi upplýsingum og skila því aftur til baka í leikskólann. MSS22080171

Fundi slitið klukkan 11:03