Fundur nr. 64

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2022, miðvikudaginn 16. mars 2022, kl. 10:01 var haldinn 64. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Líf Magneudóttir og Skúli Þór Helgason.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Sabine Leskopf, Valgerður Árnadóttir, Örn Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Óskar Ísfeld Sigurðsson, Guðjón Ingi Eggertsson, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Sigurjóna Guðnadóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

Þetta gerðist:

Fundarritari: 
Glóey Helgudóttir Finnsdóttir
Þetta gerðist: 
 1. Lagt fram mál nr. 35/2022 úr Samráðsgátt um drög að nýrri reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim ásamt umsögnum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 25. febrúar 2022 og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 24. febrúar 2022

  Fylgigögn

 2. Lögð fram umsagnarbeiðni nefndarsviðs Alþingis dags. 11. febrúar 2022 um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 (menntun og eftirlit), 333. mál ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 24. febrúar 2022. 

  Svava Svanborg Steinarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram skýrslan Forverkefni um framtíðarlausn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs í stað urðunar, dags. 15. desember 2021 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. mars 2022 um skýrsluna. 

  -    Kl. 10:11 tekur Jórunn Pála Jónasdóttir sæti á fundinum

  Svava Svanborg Steinarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis- og skipulagssviðs dags. 27. janúar 2022 um tillögu að deiliskipulagi Arnarnesvegar, 3. áfanga dags. 13. desember 2021 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. mars 2022. 

  Svava Svanborg Steinarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli nr. 93/1995 og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru nr. 22/1994 (lífræn framleiðsla) ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 7. febrúar 2022. 

  Fylgigögn

 6. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 15. febrúar 2022, 17. febrúar 2022, 22. febrúar 2022, 1. mars 2022, 3. mars 2022, 3. mars 2022 og 8. mars 2022. 

  Mál Heilbrigðisnefndar ljúka.

  (E) Umhverfismál

  Fylgigögn

 7. Tillaga fulltrúa ungmennaráðs Grafarvogs, um plastlausa Reykjavík 2026 - R21060151, USK2021060102         Mál nr. US210204

  Lagt er fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 16. júní 2021 þar sem fram kemur að samþykkt var á fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna þann 11. júní 2021 að vísa til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs tillögu fulltrúa ungmennaráðs Grafarvogs um plastlausa Reykjavík 2026 sem lögð var fram á fundinum. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 2. febrúar 2022. 

  Umhverfis- og heilbrigðisráð og Embla María Möller Atladóttir, fulltrúi ungmennaráðsins í Grafarvogi leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

  Lagt er til að Reykjavíkurborg geri metnaðarfulla aðgerðaáætlun um verulegan samdrátt í notkun plasts á vegum borgarinnar.  Hafin verði nákvæm kortlagning og greining á því hvers konar plast er keypt á vegum borgarinnar í hvaða tilgangi það er notað og geri áætlanir um hvernig borgin ætli að draga úr innkaupum á ónauðsynlegu og óumhverfisvænu plasti. Kortlagningin liggi fyrir ekki síðar en í desember á þessu ári og í kjölfarið verði unnin tímasett og mælanleg aðgerðaáætlun.

  Samþykkt. 
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

  Embla María Möller Atladóttir, fulltrúi ungmennaráðsins í Grafarvogi, Hulda Valdís Valdimarsdóttir, verkefnastjóri og Hildur Sif Hreinsdóttir sérfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 8. Lyklafellslína og Hamraneslína, kynning         Mál nr. SN220081

  Kynning á áformum Landsnets um breytingar á Lyklafellslínu og Hamraneslínu.

  -    Kl. 11:15 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum.
  -    Kl. 11:15 tekur Ólafur Kr. Guðmundsson sæti á fundinum.

  Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Forsvarsmönnum Landsnets er þakkað fyrir kynningu á áformum félagsins um breytingar á Lyklafellslínu og Hamraneslínu. Ekki liggur í augum uppi að það sé nauðsynlegt að leggja loftlínur þegar landlínur eru umhverfisvænni kostur. Eins er afar varhugavert að í áætlunum sé gert ráð fyrir að línur fari yfir vatnsverndarsvæði og leggur meirihluti umhverfis- og heilbrigðisráðs áherslu á að því verði afstýrt.

  Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Óskað er eftir að þessi kynning verði send nefnd innviðaráðherra sem er að taka út flugvallarkosti í Hvassahrauni. Nú þegar hefur verið lagt í tug milljóna kostnað sem allir vita að verið er að henda út um gluggann. Það kemur aldrei flugvöllur í Hvassahraun. Þessi kynning sannar það. 

  Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið, Smári Jóhannsson og Rut Kristinsdóttir frá Landsneti og Rúnar Dýrmundur Bjarnason frá Mannviti taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

 9. Endurnýjun laxateljara í Elliðaánum, kynning         Mál nr. US130002

  Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur dags. 10. mars 2022, þar sem óskað er heimildar til endurnýjunar teljarastíflu í Elliðaám, ásamt útboðshönnun frá Verkís dags. 28. janúar 2022 og ljósmyndum vegna kynningar á tillögu að endurnýjun laxateljara í Elliðaánum neðan Rafstöðvar. 

  Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fylgigögn

 10. Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2022 - 2033, USK22010076         Mál nr. US220018

  Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjórnar dags. 18. janúar 2022 þar sem óskað er eftir umsögn umhverfis- og heilbrigðisráðs vegna tillögu að nýrri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á starfssvæði SORPU bs, Sorpurðunar Vesturlands hf. Sorpstöðvar Suðurlands bs. og Kölku, sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir tímabilið 2022 - 2033. Einnig er lagt fram bréf Mannvits dags. 14. janúar 2022 og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 10. mars 2022.

  Umhverfis- og heilbrigðisráð tekur undir umsögnina.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Byggja á eina sorpbrennslustöð fyrir landið allt og málið dautt. Það verkefni á fyrst og fremst að vera á vegum ríkisins í samvinnu við öll sveitarfélögin í landinu. Það er ófært að hvert sveitarfélag fyrir sig sé að búa til heimatilbúnar lausnir við förgun brennanlegs úrgangs. Þingmenn Miðflokksins hafa ítrekað lagt fram þessar hugmyndir í formi þingsályktunartillögu – sjá hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/0086.html Það er mikil þröngsýni að hún hafi ekki löngu verið samþykkt. Að auki þarf staðarval að vera vel ígrundað því við brennslu verður til orka sem nota má til húshitunar. Það er því einboðið að koma hátæknibrennslustöð sem þjónar öllu landinu á köldu svæði. 

  Friðrik Klingbeil Gunnarsson ráðgjafaverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 11:38 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 11. Hleðslustöðvar fyrir rafbíla í Reykjavík, kynning         Mál nr. US220067

  Kynning á staðsetningum nýrra hleðslustöðva fyrir rafbíla í Reykjavík 2022. 

 12. Áform um friðlýsingu Blikastaðakróar og Leiruvogs, afgreiðsla         Mál nr. US210137

  Lögð fram fundargerð samstarfshóps um tillögu að friðlýsingu Blikastaðakróar og Leiruvogs dags. 1. mars 2022 þar sem lagt er til að fulltrúar Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar beri tillöguna undir sitt hvort sveitarfélagið til staðfestingar áður en  Umhverfisstofnun auglýsir tillöguna, sbr. 39. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Einnig eru lögð fram drög að auglýsingu um friðlýsingu Blikastaðakróar og Leiruvogs. Lagt er til að umhverfis- og heilbrigðisráð staðfesti friðlýsingarskilmála þá sem lagðir eru til í framangreindum drögum að auglýsingu.

  Samþykkt.

  Fylgigögn

 13. Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús, til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, tillaga         Mál nr. US200386

  Lögð fram til afgreiðslu tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrkjum til Húsfélagsins að Álfheimum 44 – 48 og Húsfélagsins að Hestavaði 5 - 7, úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, ásamt fylgigögnum.

  Samþykkt.

  (D) Ýmis mál

 14. Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins, um opnun almenningsgarðs í úthverfi Reykjavíkur - MSS22010215         Mál nr. US220034

  Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 3. febrúar 2022 og vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu, svo sem kaffihúsi og þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun. Núverandi meirihluta er tíðrætt um „græna borg“ sem er af hinu góða. Ekki veitir af. Fulltrúi flokks fólksins vill efla og styrkja Reykjavík sem græna borg og þá ekki bara með grænum þökum á þéttingarsvæðum. Lagt er til að í almenningsgarðinum verði tré og runnar merkt og þar skrifaðar upplýsingar um gildi plantnanna; hvaða áhrif þær hafa á umhverfið. Í kaffistofu (græn kaffistofa) yrðu upplýsingaspjöld og leiðbeiningar sem unnar yrðu af fagfólki m.a. um gildi náttúrunnar í umhverfismálum og hvernig minnka mætti sóun. Taka mætti hér undir svæði í Elliðaárdal, jafnvel við Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti og þar sem væri líklega hægt að fá leiðsögn um slík svæði, allt út frá umhverfissjónarmiðum, skógi og fallegu umhverfi. Hafa mætti samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur, eða jafnvel íþróttafélög auk samráðs við íbúana á hverjum stað. Þetta framtak myndi opna skemmtilegt útivistarsvæði í nærumhverfi ytri byggðar og minnka þannig þörf á því að sækja afþreyingu annað með tilheyrandi kolefnisspori.

  Tillögunni fylgir greinargerð.
  Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 8. mars 2022.
  Tillögunni er vísað frá. 

  Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:17