Á þessari síðu má finna upplýsingar um þjónustu og starfsemi er tengist garðyrkju og grænum svæðum í borginni og er í umsjón umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar.

Græn svæði

Græn svæði í Reykjavík eru útbreidd um borgina og margvísleg að stærð og gerð.  Sum búa yfir fjölskrúðugri upprunalegri náttúru en önnur hafa verið endurmótuð eða hönnuð frá grunni t.d. með garðyrkju, skógrækt og byggingu mannvirkja. Sum svæði bjóða upp á sérstaka þjónustu t.d. íþróttaaðstöðu, fræðslu um náttúru eða sögu, fiskveiðar og margt fleira. Á vefnum um græn svæði eru þessi svæði flokkuð og skilgreind og sérstakar síður eru um helstu svæðin þar sem finna má upplýsingar um þá þjónustu sem þar er að finna sem og fróðleik um náttúrufar, sögu og fleira. 

Garðyrkja

Skrifstofa reksturs og umhirðu borgarlandsins sinnir garðyrkju. Þrjár verkbækistöðvar sinna helstu garðyrkjustörfum svo sem að anna viðhaldi allra skrúðgarða borgarinnar sem og trjágróðurs og blómabeða á opnum svæðum og stofnanalóðum. Sérstök verkstöð sinnir ræktun, grisjun og gerð útivistarstíga í útmörkum (t.d. Austurheiði), stærri borgargörðum (þ.e. Elliðaárdalur) og skógræktarsvæðum (t.d. Öskjuhlíð). Ræktunarstöðin í Fossvogi hefur umsjón með ræktun blóma, matjurta og trjágróðurs fyrir útivistarsvæði borgarinnar og Skólagarða Reykjavíkur.

Grasagarður Reykjavíkur

Grasagarður Reykjavíkur er í Laugardal. Hlutverk Grasagarðs Reykjavíkur er að varðveita plöntusöfn lifandi og þurrkaðra tegunda (herbarium), stunda fræðslustarfsemi og rannsóknir á sviði grasafræði, garðmenningar og garðyrkju. Grasagarðurinn stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa. Tekið er á móti skóla-, vinnustaða- og félagahópum allan ársins hring eftir samkomulagi. Bókanir og nánari upplýsingar fást hjá Björk Þorleifsdóttur í síma 411 8650 virka daga kl. 9 - 15 eða með því að hafa samband í gegnum netfangið botgard@reykjavik.is. Heimasíðan er www.grasagardur.is

Matjurtagarðar

Borgarbúar eiga kost á að leigja matjurtagarða til eigin nota á sumrin. Tvöhundruð matjurtagarðar eru leigðir út í Skammadal auk sexhundruð fjölskyldugarða innan borgarmarka (í Breiðholti, Árbæ, Vesturbæ, Fossvogi, Laugardal og Grafarvogi). Sækja skal um garð á netfangið matjurtagardar@reykjavik.is.

Vinnuskóli Reykjavíkur

Meginhlutverk Vinnuskóla Reykjavíkur er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggilegt, öruggt og hvetjandi starfsumhverfi á sumrin ásamt því að bjóða þeim upp á fræðslu um umhverfismál. Öllum nemendum sem koma úr 9. og 10. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur býðst að koma til starfa í Vinnuskólanum á sumrin. Foreldrar þeirra þurfa að skrá nemendur til starfa í gegnum Rafræna Reykjavík.

Trjáfellingar

Sækja þarf um leyfi til að fella tré sem eru hærri en 8 m eða eldri en 60 ára. Hægt er að sækja um fellingu með tölvupósti til umhverfissvid@reykjavik.is eða senda umsókn til umhverfis- og samgöngusviðs, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík.