Reykjavíkurborg óskar eftir samstarfsaðilum til að byggja hagkvæmt húsnæði í Reykjavík.

* Skilafrestur hefur verið framlengdur enn frekar, til og með 8. ágúst 2018 *

Nýjar lausnir og hugmyndir í húsnæðismálum eru mikilvægar til að hvetja til nýsköpunar og framþróunar í uppbyggingu íbúða. Í vetur auglýsti Reykjavíkurborg eftir hugmyndum til þess að auka framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir meðal annars ungt fólk og fyrstu kaupendur. Sextíu og átta aðilar sendu inn erindi sem gefa spennandi fyrirheit um framtíðina.

Nú er komið að öðrum fasa verkefnisins og auglýsir Reykjavíkurborg hér með eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði á völdum reitum í borginni. Einungis lögaðilum er heimilt að senda inn umsókn. Heimilt er að leggja inn umsókn í fleiri en einn þróunarreit.  Umsóknir verða metnar á grundvelli matslíkans og fá aðilar sem voru með tillögu á fyrsta stigi hugmyndaleitar  njóta þess í matslíkani. Lóðum verður úthlutað á föstu verði,kr. 45.000,- á hvern fermetra ofanjarðar auk gatnagerðargjalda, nema annars sé sérstaklega getið. 

Reitirnir sem um ræðir eru í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog við Stýrimannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði. Deiliskipulag þessara svæða er mislangt á veg komið. Í kynningarhefti eru nánari upplýsingar um staðsetningu, helstu stærðir og stöðu skipulags á hverjum reit.  

Í Úlfarsárdal er til staðar samþykkt deiliskipulag og er mögulegt að úthluta lóðum fljótlega. Á öðrum reitum mun samstarfsaðili koma inn í þróunar- og skipulagsvinnu og getur þannig haft áhrif á endanlegt deiliskipulag. 

Settar verða kvaðir á sölu byggingarréttar til að tryggja að þau kjör sem nú eru boðin gagnist síðari kaupendum og leigjendum. Reglur og kvaðir verða útfærðar í úthlutunarbréfi og þinglýst eftir atvikum.

Reykjavíkurborg leggur áherslu á að framkvæmdir hefjist eins fljótt og kostur er. Umsækjendur geta átt von á að í endanlegum úthlutunarskilmálum verði ákvæði um dagsektir eða að lóðin verði tekin af viðkomandi verði ekki hafist handa við framkvæmdir á lóðinni innan skynsamlegra tímamarka frá úthlutun hennar og að framkvæmdir taki ekki lengri tíma en þörf krefur.

Umsóknum skal skilað í síðasta lagi fyrir miðnætti 8. ágúst 2018. Ath. framlengdur frestur. Senda skal umsóknir á netfangið sea@reykjavik.is

Nánar um umsókn     

Í umsókn sinni skulu áhugasamir tilgreina nánar eftirfarandi:

1. Teymið

Lýsa skal teyminu sem sækir um reitinn. Sérstaklega þarf að tilgreina þekkingu og reynslu umsækjenda á sviði húsbygginga. Stig eru gefin þeim aðilum sem eru nú með tillögu en sóttu jafnframt um á 1. stigi hugmyndaleitarinnar sem var með lokafrest til 8. febrúar 2018. Gefin eru aukastig ef í teyminu eru tveir aðilar, eða fleiri, sem sendu inn hugmynd í fyrsta þrepi.

2. Reitur
Greina þarf í umsókn hvaða reit eða reiti er sótt um. Ef boðið er í fleiri en einn reit skal forgangsraða þeim.

3. Lýsing á verkefni
Rökstyðja þarf hvernig verkefnið sem sótt er um telst vera hagkvæmt húsnæði. (byggingarkostnaður, búsetuform eða annað).

4. Rekstrarform
Hér skal tilgreina hvort leiguíbúðir eða söluíbúðir verði byggðar upp á reitnum.

5. Úthlutunaraðferð
Lýsa skal hvernig íbúðum verður úthlutað í gagnsæu ferli. Verður dregið á milli umsækjenda eða öðrum svipuðum aðferðum beitt?

6. Eftirmarkaður
Lýsa skal hvernig komið verði í veg fyrir að eftirmarkaður skapist þar sem afsláttur borgarinnar gengur til aðila sem fengu fyrstir úthlutað. Hugmyndir um útfærslur á reglum sem koma í veg fyrir eftirmarkað verða metnar af Reykjavíkurborg og eru ekki bindandi gagnvart umsækjanda, verði umsækjandi valinn.

7. Hönnun
Með umsókn skal fylgja skýringarmynd/ir ásamt stuttri greinagerð (ca. 600 orð) sem skýra nánar hugmyndafræði, skipulag og hönnun verkefnisins, og tengingum við nánasta umhverfi.

8. Fjárfestingargeta
Aðilar þurfa að sýna fram á fjárfestingargetu og eigið fé. Skila þarf inn greinagerð um getu aðila til þess að fjármagna það verkefni sem þeir hyggjast byggja.

9. Sjálfbærni
Umsækjendur skulu tilgreina umhverfisleg áhrif verkefnisins svo sem sjálfbærni, kolefnisfótspor o.s.frv.  

10. Líftími
Hver er áætluð ending byggingarinnar? Þegar byggt er hagkvæmt húsnæði er stundum gefinn afsláttur í efnisvali sem kemur niður á endingu byggingarinnar.

11. Verð til endanlegs notanda
Hvaða verð hyggst aðilinn bjóða endanlegum notendum? Kaupverð eða leiguverð.

Matsferli  

Matsnefnd skipuð þremur fulltrúum Reykjavíkurborgar og einum utanaðkomandi aðila mun leggja mat á gögnin og gefa umsækjendum stig samkvæmt matslíkani. Matsnefndin áskilur sér rétt til þess að kalla eftir frekari gögnum eða fá nánari kynningar á verkefnum.

Sá umsækjandi sem hlýtur flest stig samkvæmt matsblaði verður beðinn um að skila lánsloforði eða yfirlýsingu banka um fjármögnun framkvæmda, þ.m.t. gjöld vegna lóðar. Slíkt lánsloforð eða yfirlýsing má ekki vera bundið öðrum fyrirvörum eða skilyrðum en því að viðkomandi fái úthlutað lóð. Gögnum skal skila innan 30 daga frá tilkynningu matsnefndar um að umsækjandi hafi hlotið flest stig samkvæmt matsblaði. Ef gögnum er ekki skilað eða þau reynast ófullnægjandi verður umsókn umsækjanda hafnað. Fyrirspurnir eða óskir um frekari upplýsingar skal senda á netfangið sea@reykjavik.is og verður öllum fyrirspurnum svarað skriflega og svör send á alla sem óskuðu eftir gögnum.  

Gögn:

Tengt efni: