Íbúðir leigðar til ferðamanna

Aukinn ferðamannastraumur til landsins, síðasta áratuginn eða svo, hefur leitt til þess að sífellt fleiri íbúðir hafa verið leigðar til ferðamanna og því horfið að hluta, eða öllu, af innlendum húsnæðis- og leigumarkaði og gert leigjendum á almennum leigumarkaði erfiðara fyrir að finna sér húsnæði á viðráðanlegu verði.

Samdráttur í heimagistingu

Aðeins hluti gistirýma í heimagistingu er í heilsársútleigu. Samkvæmt könnun Capacent í október 2018, þegar framboð heimagistingar í Reykjavík var sem mest, má gera ráð fyrir að um 1.000 til 1.700 íbúðir hafi á þeim tíma verið nýttar undir heimagistingu í Reykjavík.

Við mat á framboði á gistirými í heimagistingu í Reykjavík og áhrifum þess á húsnæðismarkað þarf að hafa í huga að gögn Airdna og Hagstofunnar eru fengin með ólíkum hætti.

Airdna.co metur hvort íbúð sé á markaði hverju sinni og birtir sína tölfræði samkvæmt því.* Þær voru 4.128 á 3. ársfjórðungi 2017 og álíka margar ári síðar eða 4.241. Þeim fækkaði svo fram á 3. ársfjórðung 2019 og voru þá 3.734. Eftir það hefur þeim fækkað verulega samhliða COVID 19 faraldrinum og voru 1.778 i lok september 2020. (* Miðað er við að íbúð/rými hafi haft a.m.k. einn lausan eða bókaðan dag síðastliðinn mánuð á Airbnb eða Vrbo.)

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru gistinætur á heimagististöðum í Reykjavík 40.916 árið 2016 og fjölgaði í 45.365 árið 2017. Þeim fækkaði töluvert fyrir árið 2018 þegar þær voru 30.666 og fækkaði aftur árið 2019 og voru 28.253.

Áhrif COVID-19

Ljóst er að áhrif COVID-19 faraldursins árið 2020 hafa leitt til verulegrar fækkunar gistinátta í heimagistingu á milli ára. Það hefur því dregið verulega úr neikvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar á húsnæðismarkaðinn í Reykjavík.

Í ljósi mikilvægis greinarinnar fyrir efnahag borgarinnar mun Reykjavík standa fyrir öflugu markaðsátaki næstu misserin til að bregðast við samdrætti í ferðaþjónustu.

Takmarkanir á gistirými

Borgarráð samþykkti í febrúar 2015 að hlutfall hótel- og gistirýmis í Kvosinni mætti ekki vera meira en 23% af fermetrafjölda húsanna á svæðinu, m.a. í þeim tilgangi að sporna við hækkun húsnæðisverðs miðsvæðis í Reykjavík.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum vegna heimagistingar en embættið hyggst sinna eftirliti sínu með í fyrsta lagi með rafrænu frumkvæðiseftirliti sem fer fram með könnun á bókunarvefjum og öðrum miðlum. Í öðru lagi með vinnslu upplýsinga sem berast frá almennum borgurum og eftirlitsaðilum. Framkvæmd eftirlitsins er enn í mótun og ýmis stefnumótun á eftir að eiga sér stað í tengslum við valdmörk sýslumanns og lögreglu og samstarf eftirlitsaðila og samnýtingu valdbeitingarheimilda.

Dr. Anne-Cécile Mermet, borgarlandfræðingur og lektor við Sorbonne háskóla í París gerði rannsókn á áhrifum Airbnb á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu sem sjá má hér.

Gistiþjónusta - Starfshópar Reykjavíkurborgar

Til að sporna við þróun gistiþjónustu og hækkun húsnæðis miðsvæðis í Reykjavík samþykkti borgarráð í febrúar 2015 að hlutfall hótel- og gistirýma í Kvosinni mætti ekki vera meira en 23% af fermetrafjölda húsanna á svæðinu og  eftirlit var hert með skráðum og skráningarskyldum aðilum vegna heimagistingar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Settir voru á laggirnar tveir starfshópar árið 2016 til að gera tillögur um stefnu og aðgerðir Reykjavíkurborgar á sviði gistiþjónustu.

Annars vegar starfshópur Reykjavíkurborgar um heimagistingu og íbúðagistingu í Reykjavík til að afla heildstæðra upplýsinga um fjölda íbúða í útleigu og til að skilgreina líklegar sviðsmyndir um þróun heimagistingar og íbúðagistingar og hvaða stefnuvalkosti Reykjavíkurborg hefði í málaflokknum.

Starfshópurinn skilaði skýrslu og tillögum í júní 2017. Í skýrslunni má m.a. sjá uppfærða kortlagningu á stöðu heimagistingar og íbúðagistingar í Reykjavík.

Samninganefnd Reykjavíkurborgar var skipuð í október 2017 og hafði það hlutverk að annast samningaviðræður við Airbnb. Sameiginleg yfirlýsing Reykjavíkurborgar og Airbnb var gefin út í desember 2018 og fjallaði um samkomulag um ferli við rafræna skráningu heimagistingar.

Síðari starfshópurinn sem skipaður var árið 2016 skoðaði framtíðaruppbyggingu á gististarfsemi í Reykjavík og skilaði skýrslu og tillögum í júní 2017 þar sem m.a. voru sett fram markmið um að:

  • Gististarfsemi verði ekki of ráðandi starfsemi í neinu borgarhverfi.
  • Gististarfsemi dreifist sem jafnast um borgina.
  • Fjölbreytni verði í tegund gististaða.