Þjónusta og úrræði

Það er mikilvægt að fólk fái stuðning til betra lífs þegar aðstæður þess eru krefjandi og flóknar. Reykjavíkurborg veitir margvíslegan stuðning til fólks sem er heimilislaust og glímir við vímuefnavanda eða geðrænan vanda. Stuðningur við heimilislaust fólk byggist á hugmyndafræðinni um Húsnæði fyrst og skaðaminnkun. 

Þrjú neyðarskýli eru starfrækt á vegum velferðarsviðs. Samhjálp rekur kaffistofu sem opin er yfir daginn. Þá þarf hluti hópsins, til lengri eða skemmri tíma, á stuðningi í búsetu að halda. Reykjavíkurborg hefur útvegað húsnæði og veitt viðeigandi stuðning samkvæmt hugmyndafræðinni um húsnæði fyrst.

Hægt er að fá ráðgjöf og aðstoð á öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Vettvangs- og ráðgjafateymi (VOR-teymi) er færanlegt vettvangsteymi sérfræðinga sem aðstoðar fólk sem á í erfiðleikum vegna vímuefna og/eða geðsjúkdóma. Tilgangurinn er að aðstoða heimilislaust fólk og miðla upplýsingum til þess um þá þjónustu sem í boði er. 

Hugmyndafræði Húsnæði fyrst

Þjónustan sem Reykjavíkurborg veitir einstaklingum með fjölþættan vanda sem hafa misst færni til að halda heimili byggir á hugmyndafræði Húsnæði fyrst (Housing First). Húsnæði fyrst snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar. 

Hafðu samband

Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fer með málaflokk heimilislauss fólks fyrir hönd velferðarsviðs. Sími 411 1600, netfang vmh@reykjavik.is.

Vaktsími VoR-teymis er 665 7600.