Ef þú telur að þér eða öðrum sé mismunað á grundvelli mannréttindastefnunnar í þjónustu Reykjavíkurborgar, í starfi hjá borginni eða vegna ákvörðunartöku í stjórnsýslu borgarinnar er hægt að senda erindi til mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar eða hafa samband símleiðis. Netfangið er mannrettindi@reykjavik.is og símanúmerið er 411 4153.

Ef kvarta á yfir þjónustu á heilbrigðisstofnun skal hafa samband við yfirstjórn viðkomandi stofnunar. Landlæknisembættið tekur við kvörtunum sjúklinga sem tengjast faglegri starfsemi innan heilbrigðisþjónustu. Með faglegri starfsemi er einkum átt við skoðun, rannsóknir, meðferð og/eða eftirlit af hálfu heilbrigðisstarfsmanna, brot á þagnarskyldu, vottorðagjöf, meðferð trúnaðarupplýsinga, upplýsingagjöf til sjúklings og aðgengi að sjúkraskrá. Samkvæmt lögum skal sjúklingur fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum Nánari upplýsingar og leiðbeiningar fást á vef Landlæknisembættis.

Í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands geta einstaklingar talað við þjónustufulltrúa og fengið upplýsingar um réttindastöðu sína.

Ef einstaklingur er ósáttur við úrskurð Sjúkratrygginga Íslands vegna grundvölls, skilyrða og upphæð bóta er hægt að kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Á vefsvæði Sjúkratrygginga Íslands má finna eyðublöð og leiðbeiningar um kæruferli. Starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands er skylt að aðstoða við útfyllingu kærueyðublaða.

Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.