Samkvæmt  íbúaspá gildandi aðalskipulags er gert ráð fyrir að íbúar Reykjavíkur verði um 149 þúsund árið 2030 og hafi þá fjölgað um u.þ.b. 18.000 frá árinu 2020. Íbúaspáin gerir ráð fyrir að fólki á húsnæðisaldri fjölgi hlutfallslega og að meðalfjöldi íbúa á íbúð haldi áfram að lækka, sem þýðir að byggja þarf fleiri íbúðir en áður á hverja 1.000 íbúa. Samkvæmt spánni og vegna uppsafnaðrar þarfar á árunum 2011 til 2016, er áætlað að byggja þurfi að meðaltali um 1.000 íbúðir á ári til ársins 2030 til að mæta húsnæðisþörfum nýrra íbúa.

Í drögum að breytingum á aðalskipulaginu sem kynnt voru í október 2020, má finna uppfærslu á  íbúaspá, mati á húsnæðisþörfum og á valkostum um byggðaþróun til lengri framtíðar. Sjá lýsingu breytinga í drögum að nýjum viðauka við aðalskipulagið. Í nýrri íbúaspá  er gert ráð fyrir kröftugri vexti í Reykjavík en verið hefur undanfarna áratugi og lagt til að byggðar verði að minnsta kosti 1000 íbúðir á ári, að meðaltali til ársins 2040.

Umfang og gerð uppbyggingar til skemmri tíma mun á hverjum tíma taka mið af markmiðum húsnæðisáætlunar, almennum horfum á húsnæðismarkaði og efnahagslífi, landsspá Hagstofunnar, megin markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðis og aðalskipulags og  þróunaráætlunum svæðisskipulagsins til fjögurra ára.

Það ræðst vitanlega af stöðu á húsnæðismarkaði, atvinnustigi, efnahagshorfum hverju sinni hvort ofangreind markmið gangi eftir á einstökum árum eða árabilum. Vegna efnahagshorfa til allra næstu ára má reikna með því að erfitt geti reynst að ná markmiðum um 1000 íbúðir á ári. Markviss áætlun um jafnari fjölgun íbúða, studd af opinberum aðilum, er hinsvegar einnig til þess gerð að draga úr sveiflum á byggingarmarkaði, skapa stöðugri húsnæðismarkað og almennt til að jafna hagsveiflur í samfélaginu.

Fjöldi byggðra íbúða í Reykjavík eftir áratugum*

Fjöldi byggðra íbúða í Reykjavík eftir áratugum*

Framreikningar taka mið af landsspá Hagstofu Íslands (haust 2019, ný spá væntanleg í nóvember 2020) og grundvallast á sömu megin forsendum og settar eru fram í gildandi aðalskipulagi.

 Íbúafjölgun í Reykjavík til 2040

Hóflegur vöxtur grundvallast á miðspá Hagstofu Íslands og að höfuðborgarsvæðið vaxi hóflega. Reykjavík vex í takti við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Kröftugur vöxtur II gerir ráð fyrir kröftugri vexti á höfuðborgarsvæðinu og að hlutur Reykjavíkur í vextinum aukist. Byggt á miðspá Hagstofu Íslands.

Kröftugur vöxtur III, sömu forsendur og í II nema byggt er á háspá Hagstofu Íslands.

Reikna má með því að íbúafjölgun næstu áratuga verði áfram knúin af aðflutningi fólks erlendis frá. Það mun gera það að verkum að hægja mun lítillega á öldrun samfélagsins, þ.e. yngra fólk skipar fyrst og fremst þá félagshópa sem flytja til landsins. Aðrar grunnforsendur íbúaspár hafa ekki breyst mikið og áfram eru að verki þær djúplægu lýðfræðilegu breytur sem einkenna íbúaþróun á Vesturlöndum, ekki síst borgarsamfélögin, um öldrun mannfjöldans, fækkun barna, minnkandi fjölskyldustærðir og fjölgun einstaklingsheimila.

Þörf fyrir nýjar íbúðir til ársins 2040 verður á bilinu 21-24 þúsund miðað við kröftugan vöxt.

Fjölgun íbúða til ársins 2040. Þrjár sviðsmyndir.