Verkefni Innri endurskoðunar og ráðgjafar Reykjavíkurborgar er ráðgjöf við borgarbúa, innri endurskoðun og persónuvernd. Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar tekur jafnframt við ábendingum um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi frá starfsmönnum og borgarbúum.

Ráðgjöf við borgarbúa: Verkefni umboðsmanns borgarbúa er að veita borgarbúum ráðgjöf, greiða götu þeirra, sætta sjónarmið og leiðbeina þeim í samskiptum sínum við borgina, m.a. um leiðir þeirra til að leita réttar síns telji þeir að á sér hafi verið brotið.

Innri endurskoðun: Viðfangsefni innri endurskoðunar er fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Reykjavíkurborg í umboði borgarráðs. Í því felst að leggja mat á og bæta virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta hjá stofnunum og félögum í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar.

Persónuvernd: Hlutverk persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar er að veita stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðgjöf um persónuvernd, upplýsa þá, fylgjast með og sjá um önnur þau verkefni sem greinir í reglugerð ESB 2016/679 frá 27. apríl 2016, og lögum nr. 90/2018. Þá þarf persónuverndarfulltrúi að koma, með viðeigandi hætti og tímanlega, að öllum málum borgarinnar sem varða ákvarðanatöku um vinnslu persónuupplýsinga.

Uppljóstrunargátt:

Hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf er jafnframt tekið á móti upplýsingum frá starfsmönnum, viðsemjendum Reykjavíkurborgar og öðrum um réttarbrot, vanrækslu eða mistök eða óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af málum í stjórnsýslu og/eða þjónustu Reykjavíkurborgar.

Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar er Hallur Símonarson.

Fara á vef innri endurskoðunar og ráðgjafar.