Leikskólar í Reykjavík
Skóla- og frístundasvið rekur 63 leikskóla þar sem dvelja um 5.200 börn. Sautján sjálfstætt starfandi leikskólar eru í borginni. Alls eru leikskólabörnin um 6.300. Í leikskólastarfinu er haft að leiðarljósi að börnin njóti bernsku sinnar og læri og þroskist í leik og samveru.
Sérhver leikskóli markar sér sérstöðu með áherslu á ákveðna stefnu eða þætti í fagstarfinu, svo sem samskipti, lestur og ritmál, stærðfræði, náttúru og umhverfisvernd. Reykjavíkurborg greiðir niður vistun barna í leikskólum sem og vistun barna hjá dagforeldrum. Ungbarnadeildir eru við 26 leikskóla í borginni.
Hverjir eiga rétt á þjónustunni?
Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að lögheimili barnsins og föst búseta sé í Reykjavík og að foreldrar barnsins séu ekki í vanskilum við skóla- og frístundasvið vegna leikskólagjalda. Reglur um leikskólaþjónustu.
Hvernig er sótt um leikskóla?
Sótt er um leikskólavist á vala.is. Hægt er að fá aðstoð við að fylla út á vala.is um leikskóladvöl á öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar og í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík. Sími: 4 11 11 11.
Sækja má um leikskóla frá fæðingardegi barns eða strax og kennitala þess hefur verið skráð. Börn eru skráð á biðlista við eins árs aldur og raðast þau á listann eftir fæðingardegi og ári. Foreldrar skulu sækja um að lágmarki tvo leikskóla fyrir barn sitt þega rum nýja umsókn er að ræða. Þegar sótt er um flutning á milli leikskóla innan Reykjavíkur, er foreldrum heimilt að sækja um einn eða fleiri leikskóla. Börn innritast í leikskóla eftir kennitölu, þau elstu fyrst og á það við jafnt um almennar deildir og ungbarnadeildir. Það sama gildir í meginatriðum um sjálfstætt starfandi leikskóla.
Hvað kostar þjónustan?
Forgangur að leikskóla
Sækja má um forgang að leikskóla fyrir barn ef sérstakar aðstæður mæla með því. Umsóknum um forgang skal skilað á þar til gerðu eyðublaði og sent á netfangið innritun.leikskolar@reykjavik.is
Börn í forgangi raðast á biðlistann eftir kennitölu þau elstu fyrst. Leikskóladvöl barns með forgang hefst í fyrsta lagi við tólf mánaða aldur.
Sækja má um forgang að leikskólum Reykjavíkurborgar vegna:
I. Barna sem eru orðin 5 ára.
II. Fatlaðra barna og barna með skilgreind þroskafrávik. Vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja umsókn.
III. Barna sem búa við erfiðleika í félagsumhverfi.
a) Barnaverndarmál. Vottorð frá félagsmálayfirvöldum skal fylgja umsókn.
b) Alvarleg veikindi, alvarleg fötlun eða alvarlegir félagslegir erfiðleikar hjá fjölskyldumeðlimum barnsins.
Vottorð frá lækni eða öðrum opinberum aðilum skal fylgja umsókn.
c) Börn foreldra undir lögaldri (18 ára).
d) Börn einstæðra foreldra með þrjú eða fleiri börn framfæri enda sé elsta barnið ekki eldra en 9 ára.
e) Þríburar.
Liðir I. , II. og III hér að ofan gilda einnig um sjálfstætt starfandi leikskóla.
IV. Barna starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar. Starfsmaður leikskóla getur sótt um forgang að leikskólum Reykjavíkurborgar fyrir barn sitt á þar til gerðu eyðublaði. Starfsmaður þarf að uppfylla skilyrði 2. gr. reglna um leikskólaþjónustu um skilyrði leikskóladvalar. Leikskólastjóri í leikskóla starfsmanns þarf að staðfesta umsókn.
Opnunartími leikskóla
Almennur opnunartími leikskóla frá 1.1.2022 er frá kl. 7:30 – 16:30. Lengri opnun er í fimm leikskólum eða frá kl. 07:30 – 17:00. Þessir leikskólar eru Hagaborg í Vesturbæ, Langholt í Laugardal/Háaleiti, Bakkaborg í Breiðholti, Heiðarborg í Árbæ og Klettaborg í Grafarvogi.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Hægt er að koma fyrirspurnum og ábendingum á framfæri með tölvupósti á netfangið sfs@reykjavik.is.
Sjá bæklinginn Velkomin til samstarfs um leikskólabarnið.