Lestrarnám
Flest börn þekkja stafina þegar þau hefja nám í grunnskóla, sum geta lesið og skrifað stutt orð og önnur eru orðin læs. Skólinn á að geta mætt þörfum þeirra allra.
Í flestum skólum er lestrarnámið einstaklingsmiðað, þ.e. kennarar vinna að markmiðum námskrár með því að kenna og þjálfa undirstöðuþætti lestrarnámsins en börnin fara á eigin hraða í gegnum námið og fá lestrarbækur við hæfi.
Skólar fylgja ýmsum aðferðum í lestarkennslunni. Dæmi um aðferð er Byrjendalæsi sem sumir skólar styðjast við. Yfirleitt er það talið skila bestum árangri að styðjast við fjölbreyttar lestraraðferðir og að ritun, tal, hlustun og lestur fléttist saman á áhugaverðan hátt.
Mikilvægt er að foreldrar styðji börn sín í lestarnáminu með því að hvetja þau til lesturs og grípi tækifæri sem gefast til að lesa, t.d. af sjónvarpsskjám eða auglýsingar, auk þess að þjálfa þau í að lesa bækur.Það vekur áhuga barna á lestri og eykur málþroska þeirra þegar foreldrar þeirra lesa reglulega fyrir þau og ræða um lesefnið.
Leshraðinn er ekki það eina sem skiptir máli heldur þarf lesskilningurinn einnig að vera góður.
Afar einstaklingsbundið er hvenær börn verða læs en reynslan sýnir að flest eru orðin nægilega vel læs við 9 ára aldur til að geta lesið sjálfum sér til gagns og ánægju. Lestarnáminu lýkur þó ekki hér, þvert á móti þarf nemandinn fram á unglingsár að fá þjálfun í læsi í víðum skilningi, þ.á.m. lesskilningi, upplýsingalæsi, kvikmyndalæsi og talnalæsi.
Lesblinda
Lesblinda eða lestrarerfiðleikar/lesröskun er íslensk þýðing á orðinu dyslexia sem er notað í flestum erlendum málum. Oftast er orðið notað til að lýsa því þegar einstaklingar eiga í erfiðleikum með að læra að lesa á hefðbundinn hátt.