Heilnæmt andrúmsloft er mikilvæg auðlind og undirstaða góðrar heilsu og velferðar. Áhrif mengaðs andrúmslofts á heilsu koma sífellt betur í ljós og eru ákveðnir hópar taldir viðkvæmari fyrir loftmengun. Þessir hópar eru meðal annars börn, einstaklingar með astma, lungna- og/eða hjarta- og æðasjúkdóma. Lítið er vitað um áhrif loftmengunar á heilsu almennings á höfuðborgarsvæðinu en nýleg rannsókn sýnir marktæk tengsl á milli notkunar á astmalyfjum og hás styrks á brennisteinsvetni og svifryki (PM10).

Frá árinu 1990 hefur Reykjavíkurborg vaktað loftgæði. Fimm loftgæðamælistöðvar eru staðsettar í borginni: tvær fastar stöðvar á vegum Umhverfisstofnunar sem eru staðsettar á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum (FHG), tvær færanlegar loftgæðamælistöðvar á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og svo stöð á vegum Orku Náttúrunnar sem er staðsett í Norðlingaholti. Færanlegar mælistöðvar heilbrigðiseftirlitsins eru fluttar á milli áhugaverða staða til mælinga á loftgæðum.

Í föstu mælistöðinni við Grensásveg fara fram mælingar á köfnunarefni (NO2), svifryki (PM10 og PM2,5), brennisteinsvetni (H2S), brennisteinsdíoxíði (SO2) og kolmónoxíði (CO) og í föstu stöðinni í FHG fara fram mælingar á köfnunarefni (NO2), svifryki (PM10 og PM2,5). Í annarri færanlegu stöðvanna fara fram mælingar á köfnunarefni (NO2) og svifryki (PM10 og PM2,5) og í hinni stöðinni eru mæld köfnunarefni (NO2),  svifryk (PM10 og PM2,5), brennisteinsvetni (H2S) og brennisteinsdíoxíð (SO2). Mælistöðin í Norðlingaholti mælir brennisteinsvetni (H2S) og brennisteinsdíoxíð (SO2).

Hérlendis er tekið mið af þremur reglugerðum um mengun andrúmsloftsins, sem í má finna þau viðmiðunar- og heilsuverndarmörk sem talið er æskilegt að mengun fari ekki upp fyrir.  Reglugerðir þessar byggja á þeim tilskipunum sem Evrópusambandið hefur sett og eiga þau að tryggja góð loftgæði fyrir almenning.

Loftgæði í Reykjavík eru almennt góð en köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og svifryk (PM10) eru þau efni sem líklegust eru til að fara yfir heilsuverndarmörk. Í Reykjavík er starfandi viðbragðssteymi, samkvæmt viðbragðsáætlun fyrir loftgæði sem meðal annars sendir út tilkynningar ef loftgæði eru líkleg til að fara yfir heilsuverndarmörk og ákveður til hvaða mótvægisaðgerða er gripið til.

Árið 2006 hófust mælingar á brennisteinsvetni (H2S) við Grensásveg og í júní 2010 var gefin út íslensk reglugerð með heilsuverndarmörkum fyrir brennisteinsvetni í andrúmslofti (nr. 514/2010). Önnur loftmengandi efni sem mæld eru í borginni, eins og kolmónoxíð (CO), brennisteinsdíoxíð (SO2) og benzene (C6H6) mælast yfirleitt langt undir viðmiðunarmörkum í Reykjavík.

Talsverð svifryksmengun (PM10) getur fylgt öskufoki frá öskufallssvæðum, eins og frá Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Nánari upplýsingar um viðbrögð við mengun vegna öskufoks.

Sólarhrings heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm/m3.