Ísland hefur lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem lýðræði, jafnrétti og mannréttindi eru grundvallarþættir. Skýrt er kveðið á um rétt barna og unglinga til að tjá skoðanir sínar og taka þátt í ákvörðunum um sína hagsmuni. Skóla- og frístundastarf ætti því að hafa að meginverkefni að efla aðkomu barna og unglinga að ákvörðunum og umræðu um verklag og framþróun.  

Í grunnskólalögum er kveðið á um að skólinn skuli í samvinnu við heimilin búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af lýðræðislegu samstarfi. Í lögum um leikskóla segir jafnramt að starfshættir skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti og lýðræðislegu samstarfi. Þá er kveðið á um það í lögum um jafna stöðu kynja að kynjasamþættingar skuli gætt við allt skóla-, uppeldis- og frístundastarf og að nemendur á öllum skólastigum skuli fá fræðslu um jafnréttismál. Í starfsskrá frístundamiðstöðva SFS er lögð áhersla á virka þátttöku, reynslunám, lýðræði og mannréttindi. Sérstaklega er hugað að því að virkja einstaklinga sem þurfa hvatningu og stuðning vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu til þátttöku í frístundastarfi.

Meginforsenda lýðræðis er að börn og unglingar læri um lýðræði með því að starfa í lýðræði. Það sama á við um mannréttindi og jafnrétti. Starfshættir í skóla- og frístundastarfi þurfa að endurspegla þessa þætti líkt og kveðið er á um í stefnu um skóla án aðgreiningar og í stefnu um fjölmenningarlegt skóla-og frístundastarf. Áhersla á lýðræði, jafnrétti og mannréttindi eru að auki í samræmi við Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem leggur ríkar skyldur á starfsstaði að sinna þessum þáttum með markvissum hætti í öllu sínu starfi, meðal annars með því að huga sérstaklega að jafnrétti kynja. Það er því augljóst að líta verður á lýðræði, jafnrétti og mannréttindi sem undirstöður í öllu námi, enda eru þessar áherslur meðal sex grunnþátta menntunar. Þeir eru jafnframt lykiláhersluþættir í starfsáætlunum leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva.

Markmið um lýðræði jafnrétti og mannréttindi

Að börn og ungmenni séu með sterka sjálfsmynd og meðvituð um almenn mannréttindi, jafnrétti kynja og staðalmyndir.
Að borin sé virðing fyrir réttindum og hæfileikum allra barna og ungmenna.
Að börn og ungmenni séu virkir þátttakendur í ákvörðunum um eigið nám og starf.
Að lýðræðislegt gildismat mótist í öllu námi og starfi og að börn og ungmenni læri til lýðræðis í gegnum lýðræðisleg vinnubrögð.

Verkefni skrifstofu SFS

  • Styðja við starfsstaði og efla fagfólk í skóla- og frístundastarfi í því að vinna með börnum og unglingum með lýðræði, jöfnuð, jafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi.
  • Koma á fót og viðhalda öflugum vef, jafnrettistorg.is, sem fjalla mun um jafnrétti í víðum skilningi í skóla- og frístundastarfi.
  • Vinna stefnumótun þvert á leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf i tengslum við grunnþættina jafnrétti, mannréttindi og lýðræði.
  • Styðja starfsstaði í að innleiða barnasáttmálann í starfsemina.
  • Nýta ytra mat til að fylgjast með því hvernig unnið er með jafnrétti, mannréttindi og lýðræði.

Mæling á árangri

  • Viðhorf starfsfólks til lýðræðislegrar samvinnu og lýðræðislegs námsumhverfis.
  • Raunveruleg áhrif barna og ungmenna á skipulag og innihald náms og frístundastarfs.
  • Viðhorf barna og unglinga til grunnhugtaka um lýðræði og mannréttindi og kortlagning á samfélagslegum gildum.
  • Greining á framsetningu markmiða um lýðræði, jafnrétti og mannréttindi í starfsáætlunum/skólanámskrám.
  • Viðhorf foreldra til lýðræðislegrar samvinnu í skóla- og frístundastarfi og inntak foreldrasamstarfs.