Einn af grunnþáttum menntunar í nýjum aðalnámskrám er læsi í víðum skilningi. Bent er á að örar samfélagsbreytingar og tækniþróun hafi breytt því umhverfi sem skapar börnum og ungmennum merkingu við lestur og ritun.

Stefnumótun um læsi og lestrarnám er einn af lykilþáttum þess að árangur náist. Leggja þarf samfellda áherslu á málrækt og málörvun allra barna alla skólagönguna og læsi í víðum og hefðbundnum skilningi í  skóla- og  frístundastarfi.

Læsisstefna fyrir leikskóla borgarinnar var samþykkt í byrjun árs 2013, en áður hafði lestrarstefna fyrir grunnskólana tekið gildi. Skólunum er ætlað að gera læsis- og lestraráætlanir og mælst er til þess að leik- og grunnskólar í sömu hverfum geri áætlun um samstarf til að efla málþroska og læsi.

Íslenskar og erlendar rannsóknir staðfesta að samhengi er á milli málþroska og lestrarnáms elstu leikskólabarnanna og lestrarfærni þeirra síðar á skólagöngunni. Einnig hafa komið fram í rannsóknum vísbendingar um að mikilvægt sé að veita sem fyrst þeim börnum stuðning, sem lent geta í erfiðleikum með þróun máls og læsis. Mikilvægi þess að skólarnir vinni með foreldrum að því að efla málþroska og læsi barna er einnig staðfest með rannsóknum, ekki síst með þeim foreldrum sem standa höllum fæti í samfélaginu. Nýjar rannsóknarniðurstöður sýna jafnframt að sá tími, sem börn með annað móðurmál en íslensku, eru í íslensku málumhverfi skiptir miklu máli fyrir möguleika þeirra til að ná árangri í íslenskum skólum. Fyrir þau börn skiptir máli að skólar leitist við að styðja foreldra við að viðhalda og þróa móðurmál barna um leið og þau ná betri tökum á íslensku sem öðru máli, en þannig er stuðlað að virku tvítyngi.

Fagráð um leiðir til að efla læsi  tók til starfa haustið 2014. Það hefur lagt fram tillögur um leiðir til að efla lestrarfærni og lesskilning grunnskólabarna, og málþroska, hljóðkerfisvitund og læsi leikskólabarna. Verkefni fagráðsins eru að benda á árangursríkar aðferðir til að efla málþroska og læsi sem studdar eru fræðilegum rökum. Einnig á það að endurskoða fyrirkomulag málþroska- og lesskimana í skólum borgarinnar og leggja fram tillögur til úrbóta. Þá á fagráðið að leggja áherslu á aðgerðir til að styðja við bakið á þeim nemendum sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. 

Markmið um málþroska, læsi og lesskilning

 • Að stefna að því með markvissum aðgerðum að öll börn í grunnskólum geti lesið sér til gagns.
 • Að skapa samfellu í málþroska og móðurmálsnámi meðal annars með því að fjölga samstarfsverkefnum í leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi.
 • Að börn og unglingar verði gagnrýnir notendur fjölmiðla, s.s. samfélagsmiðla, og meðvituð um mótunaráhrif þeirra og vald.
 • Að í öllu skóla- og frístundastarfi sé áhersla á læsi í víðum skilningi, t.d. umhverfislæsi og fjármálalæsi

Verkefni skrifstofu SFS

 • Framfylgja tillögum fagráðs um leiðir til að efla læsi.
 • Efla faglega ráðgjöf til allra starfsstaða um málþroska, læsi og lesskilning meðal annars með því að standa fyrir skipulagðri fræðslu, námskeiðum og lengri símenntun fyrir fagfólk.
 • Styðja skóla og frístundamiðstöðvar við að setja sér skýr markmið í aðgerðum til að efla málþroska, læsi og lesskilning barna og ungmenna.
 • Kynna fjölbreyttar leiðir við læsiskennslu og miðla upplýsingum um áhugaverð læsisverkefni og leiðir í kennslu. 
 • Kalla eftir samstarfsáætlunum leik- og grunnskóla um málþroska og læsi.
 • Nýta þau tækifæri sem gefast í frístundastarfi, bæði við mörk skólastiga og síðar, til að styðja við og vinna með þróun máls og læsis. 
 • Miðla til foreldra upplýsingum um málþroska, lestur og lesskilning og mikilvægi þess að þeir séu virkir í samstarfi við skólana.
 • Forgangsraða fjármagni í þágu lestrar- og læsis og styðja skóla við innleiðingu nýrrar tækni með því meðal annars að stuðla að því að námsbækur og annað kennsluefni verði aðgengilegt í spjaldtölvum. 
 • Virkja sérfræðiráðgjöf þjónustumiðstöðva borgarinnar, s.s. þegar farið er yfir niðurstöður skimana og prófana og tryggja þannig stuðning fyrir börn sem þurfa á snemmtækri íhlutun að halda. 
 • Byggja enn frekar upp skólabókasöfnin og efla starf þeirra, s.s. með nýrri tækni.
 • Kalla eftir öllum læsis- og lestraráætlunum og meta þær út frá stefnumörkun, aðalnámskrám beggja skólastiga og tillögum fagráðs um læsi. 
 • Halda áfram með innleiðingu á læsisstefnu leikskóla.
 • Nýta rannsóknaniðurstöður um skil skólastiga og um mikilvægi leikskólastigsins í þróun máls og læsis.

Mæling á árangri

 • Viðhorf til og gagnsemi af fræðslu og stuðningi til starfsfólks um  málþroska og læsi.
 • Viðhorf barna og unglinga til lesturs og not þeirra af nýrri tækni við nám/frístundir.
 • Hlutverk og viðhorf foreldra í tengslum við eflingu málþroska og læsis.
 • Mat á innihaldi og virkni læsis- og lestraráætlana og samstarfsáætlana skólastiga um læsi út frá settum viðmiðum.
 • Niðurstaða í lesskimunum og samræmdum könnunarprófum.