Mannréttindastefna Reykjavíkur byggir á mannréttindum og jafnræðisreglunni. Jafnræðisreglan eða bann við mismunun er ein grunnhugmynd mannréttinda. Hana er að finna í helstu mannréttindasamningum og í 65. gr. stjórnarskrárinnar en reglan kveður á um að bannað sé að mismuna fólki á grunvelli tiltekinna eiginleika þess eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Stefnan miðar að því að allir borgarbúar njóti jafns réttar án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Mannréttindastefna borgarinnar var samþykkt í borgarstjórn 16. maí 2006. Endurskoðuð útgáfa var samþykkt í borgarstjórn 7. maí 2013.

Stefnan leggur áherslu á heildstæða sýn í þágu borgarbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem stefnan nær til.

Mannréttindaráði er falið að fylgja stefnunni eftir og vinna starfsáætlun á grundvelli hennar. Ráðinu ber einnig að kynna stefnuna, stuðla að þekkingaröflun og miðlun upplýsinga.

Stjórnendum og starfsfólki ber að tryggja virðingu fyrir mannréttindum innan stjórnkerfis borgarinnar, á vinnustöðum hennar og í þjónustu.

Rauði þráðurinn í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er áherslan á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þessi áhersla skal vera sýnileg og samþætt allri starfssemi og stefnumótun borgarinnar.