Í leikskólum er fylgst með þroska og framförum hvers barns. Misjafnt er hvaða leiðir leikskólarnir nota til að skrá og meta þroskaframvindu en foreldrar ættu að fá upplýsingar um hvaða aðferðir og matstæki er stuðst við.
Hér er yfirlit yfir nokkur matstæki sem leikskólar nota:
Íslenski smábarnalistinn (Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson).
Smábarnalistinn er frumsaminn og staðlaður þroskalisti til að meta málþroska, hreyfiþroska og sjálfsbjörg ungbarna á aldrinum 15 til 38 mánaða.
Íslenski þroskalistinn (Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson). Þessi þroskalisti er ætlaður fyrir þriggja til sex ára börn. Mæður barnanna svara listanum og meta getu þeirra á mál-og hreyfisviði. Prófþættir eru: Málþáttur (hlustun, tal og nám), hreyfiþáttur (grófhreyfingar, skynhreyfingar og sjálfsbjörg). Til samans mynda undirprófin sex, eina þroskatölu, sem gefur til kynna almennan þroska barnsins að mati móður.
HLJÓM2
er greiningartæki í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund elstu barnanna í leikskólanum.Höfundar eru talmeinafræðingarnir Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir og Amalía Björnsdóttir aðferðafræðingur.
Orðaskil (Höfundur: Elín Þöll Þórðardóttir)
Þetta málþroskapróf byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Prófinu er ætlað að mæla orðaforða barnanna svo og hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð málsins.
Hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum sjá um þroskamat og heilsufarsskoðun á börnum 2 og ½ árs og 4 ára. Þar fer fram skoðun, sjónpróf, mat foreldra á þroska barna þroskamat auk bólusetninga. Oft eru hjúkrunarfræðingarnir í sambandi við leikskóla barnanna að athugun lokinni.
Öll 3 ára börn eiga rétt á ókeypis skoðun hjá tannlæknum sem vinna í umboði Sjúkratrygginga Íslands.
Nánari upplýsingar um tannvernd og annað er viðkemur heilsu barna eru á heimasíðu landlæknis og lýðheilsustöðvar.