Ýmsar leiðir eru farnar til að meta námsárangur nemenda. Stöðumat er notað til að leggja mat á getu þeirra við upphaf kennslu, hægt er að greina námsörðugleika með greinandi mati, leiðsagnarmat er nýtt til að fylgjast með námsferlinu og veita stöðuga endurgjöfð á meðan á náminu stendur. Lokamat lagt fyrir nemendur til að meta námsárangur þeirra.

Lokamat

Verulegar breytingar voru gerðar á námsmati í aðalnámskrá grunnskóla, 2011 og er grunnskólum ætlað að innleiða þær fyrir lok skólaársins 2015 – 16. Hér eftir útskrifast nemendur úr grunnskólum með einkunnirnar A, B+, B, C+, C og D. Einkunnir nemenda með einstaklingsnámsskrár eru stjörnumerktar sbr. B*.

Lokamatið þarf að sýna hversu góðum árangri nemandinn hefur náð miðað við hæfniviðmið árgangsins en hæfniviðmið eru sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla. Hér er dæmi um eitt hæfniviðmið í ritun í 10. bekk:

Við lok 10. bekkjar getur nemandinn skrifað skýrt og greinilega og beitt ritvinnslu af öryggi, notað orðabækur og önnur hjálpargögn, gengið frá texta, vísað til heimilda og skráð þær (aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 103).

Á grundvelli hæfniviðmiðanna velja kennarar og nemendur kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá viðkomandi skóla. Þannig skal nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. Leggja skal áherslu á áreiðanleika og réttmæti námsmatsins.

Matsviðmið sem sett eru fram í aðalnámskrá eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Matskvarðann ber að nota við brautskráningu nemenda úr grunnskóla. Stefnt er að því að meiri hluti nemenda fái einkunnina B. Þeir sem standa sig enn betur fá B+ og nemendur sem skara fram úr geta fengið A.

Eftirfarandi er matsviðmið fyrir B í náttúrugreinum við lok grunnskóla

Nemandi getur greint vel hvernig þættir, eins og tæknistig, þekking, kostnaður og grunnkerfi samfélagsins hafa áhrif á hvaða lausn viðfangsefna er valin hverju sinni. Útskýrt og rætt afstöðu sína og niðurstöður af aðgerðum er varða náttúru og samfélag. Unnið skipulega eftir verkferli nýsköpunar, þ.e. leitað að þörfum í umhverfi fólks, fundið lausn og hannað afurð, einn eða með öðrum. Metið og greint á skýran hátt upplýsingar um vísinda- og tækniþróun, útskýrt áhrif þeirra á daglegt líf fólks og tekið gagnrýna afstöðu til siðferðilegra þátta tengdum sjálfum sér, einstaklingum, samfélagi, náttúru, umhverfi og tækni. Á skýran hátt beitt algengum hugtökum og heitum í náttúrugreinum í ólíku samhengi. Framkvæmt vel og útskýrt athuganir úti og inni. Gefið góðar skýringar og rökrætt valið efni úr athugunum og heimildum. Dregið á skýran hátt ályktanir af gögnum og gefið ólíkar skýringar með því að nota ólík sjónarhorn. Greint og útskýrt texta um náttúrufræði, umorðað hann, tjáð sig og túlkað á skýran hátt myndefni sem tengist honum. Greint og rætt dæmi í umhverfi sínu. Gert góða grein fyrir áhrifum þeirra á lífsgæði og náttúru. Rætt af góðum skilningi eigin lífssýn og ábyrgð innan samfélagsins. Greint og rætt dæmi í umhverfinu og útskýrt dæmi úr eigin lífi (aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 177).

Lokamat hefur þann megin tilgang að gefa upplýsingar um árangur nemandans í lok námstíma. Matið er oftast byggt á skriflegum prófum eða fjölbreyttum lokaverkefnum nemenda.

Leiðsagnarmat

Í aðalnámskrá segir að lögð sé áhersla á leiðsagnarmat, þar sem nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu og þeim sé vel ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar matinu og að hverju beri að stefna (bls. 176).

Leiðsagnarmat miðar að því að meta framfarir nemenda í þeim tilgangi að nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytinga á námi og kennslu. Í leiðsagnarmati er fylgst með nemendum á námstímanum og þeim leiðbeint. Lögð er áhersla á fjölbreyttar matsaðferðir, s.s. kannanir, frammistöðumat, sjálfsmat, samræður o.fl. til að safna upplýsingum um stöðu nemenda, hvað þeir vita og geta og hvers þeir þarfnast til að ná betri árangri. Áhersla er lögð á að nemendur séu þátttakendur í námsmatsferlinu og að endurgjöf sé regluleg í námsferlinu, hafi skýran tilgang; sé greinandi, jákvæð og gagnleg, þ.e. að nemandinn geti notað endurgjöfina til að bera sig við og meta hvort hann hafi náð árangri. Leiðsagnarmat á að vera í þágu náms og niðurstöður þess má nota sem stuðning við ákvörðun um lokamat (lokaeinkunn) nemenda (Erna Ingibjörg Pálsdóttir).

Sjá nánar um námsmat og sérstaka matskvarða í aðalnámskrá grunnskóla 2011 bls. 39 – 42.

Próf og kannanir

Allir þekkja mat á grundvelli prófa eða kannana sem geta verið af ýmsum toga t.d. skrifleg og munnleg, krossapróf o.fl

Símat

Yfirleitt er átt við að kennarar meti jafnt og þétt vinnu nemenda t.d. með því að fara yfir verkefni þeirra eða verkmöppur.Stuðst er við fyrirfram ákveðna gátlista eða matskvarða.

Sjálfsmat

Nemandinn metur eigin frammistöðu út frá gefnum viðmiðum.

Jafningjamat

Nemendur meta frammistöðu félaga sinna í afmörkuðum verkefnum.

Námsmat foreldra

Skólinn útvegar foreldrum verkefni sem hjálpa þeim til að meta árangur barna sinna á markvissan hátt.

Einkunnir og umsagnir

Mismunandi er hvernig námsárangur nemanda er settur fram. Það má gera með tölum á bilinu 0 – 10, með bókstöfum eða í samfelldu máli. Aðalatriðið er að allir hlutaðeigandi leggi sama skilning í skilgreininguna.

Trúnaður ríkir um námsmat einstakra nemenda og eru upplýsingar eingöngu ætlaðar nemandanum, foreldrum hans og skólanum. Aðrir hafa ekki aðgang að námsmati nema með samþykki foreldra. Þó er heimilt að veita þessar upplýsingar vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.