Hér á eftir verður farið yfir almenna ferlið við starfsmat: hvað hver og einn aðili verður að gera til þess að starfsmat fari fram og hvað þarf að vera fyrir hendi á hverju stigi vinnunnar. Þegar mat á starfi  hefur verið samþykkt af starfsmatsnefnd eru sundurliðuð starfsmatstig og starfsyfirlit fyrir viðkomandi starf birt á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar.

Forsendur starfsmats

Til þess að starf sé tekið til mats þarf eftirfarandi að vera fyrir hendi:

  • Starfsheiti þarf að vera skráð í mannauðskerfi og flokkað samkvæmt ÍSTARF starfaflokkunarkerfinu;
  • Starfsmaður þarf í öllum tilfellum að hafa verið minnst 6 mánuði í starfi;
  • Verksvið þarf að vera viðvarandi og stöðugt. Tímavinnustarfsfólk, sumarstarfsfólk og starfsfólk með tímabundna ráðningu fer ekki í starfsmat.

Að uppfylltum þessum skilyrðum er starfsmaður boðaður á kynningarfund. Á fundinum koma fram upplýsingar um fyrirkomulag starfsmats og framkvæmd.

Kynningarfundur

Þegar starfsmaður hefur sótt kynningarfund fær hann tilkynningu frá yfirmanni eða starfsmannastjóra sviðs um tímasetningu starfsmatsviðtals. Í starfsmatsviðtalið mætir starfsmaður með eftirfarandi gögn:

  • Samþykkta starfslýsingu frá yfirmanni /sviði.
  • Útfylltan spurningalista fyrir starfsmat.
  • Önnur gögn sem veita upplýsingar um starfið, t.a.m. staðsetning í skipuriti, nánari verklýsingar eða gögn sem stofnun vill koma á framfæri.

Rétt er að taka fram að starfsmanni sem er að fara í starfsmatsviðtal skal gefið svigrúm til þess að undirbúa sig í vinnutíma, þ.e. við að fylla út spurningalista og safna öðrum gögnum sem veitt geta upplýsingar um starfið.

Úrvinnsla niðurstaðna

Að loknu starfsmatsviðtali hefst úrvinnsla starfsmatsráðgjafa.  Að henni lokinni eru gögn lögð fyrir starfsmatsnefnd sem tekur þau til meðferðar og umræðu.  Að lokinni vinnu starfsmatsnefndar tekur hún ákvörðun um niðurstöðu matsins.  Þegar einróma samkomulag nefndarinnar hefur náðst er tilkynning um það send stofnun ef um frummat á starfi er að ræða. Ef um endurmat á starfi er að ræða er tilkynning einnig send viðkomandi starfsmanni. 

Þegar mat á starfi  hefur verið samþykkt af starfsmatsnefnd eru sundurliðuð starfsmatstig og starfsyfirlit fyrir viðkomandi starf birt á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar.