Opinber birting starfsleyfa

Samkvæmt ákvæðum í gr. 6 í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit ber heilbrigðiseftirliti að auglýsa móttöku umsókna um starfsleyfi, tillögu að starfsleyfi og útgáfu starfsleyfis (starfsleyfi í gildi) fyrir þá starfsemi sem undir reglugerðina fellur og heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir, sbr. X. viðauka í reglugerðinni. Tilgangurinn með þessu er að tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að starfs­leyfis­umsóknum og geti komið athugasemdum á framfæri.

Auglýsingar vegna starfsleyfa á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur verða birtar á vefsíðu embættisins. Auglýsingatími er fjórar vikur og verður hann nánar tilgreindur í auglýsingu fyrir hvert leyfi. Í auglýsingunni verður birt tillaga að starfsleyfisskilyrðum og gögn sem fylgdu umsókn eins og við á hverju sinni. Á meðan á auglýsingatíma stendur gefst tækifæri að komið með athugasemdir. Athugasemdir óskast sendar skriflega til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Borgartúni 12, 105 Reykjavík eða á netfangið heilbrigdiseftirlit@reykjavik.is

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur ákvörðun um útgáfu starfsleyfis innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu rennur út. Umsækjandi og þeir sem gerðu athugasemdir geta krafist rökstuðnings fyrir ákvörðuninni en einnig er heimilt að kæra ákvörðun um útgáfu starfsleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.