Hvernig ræðum við um ofbeldi og afleiðingar þess við börn og unglinga? Hvar er hægt að leita aðstoðar? Hér má skoða margvíslegt efni fyrir starfsfólk til að nota í umræðum við börn og unglinga í skóla- og frístundastarfinu.

Listinn er settur saman út frá aldri barna en að sjálfsögðu getur margt hentað t.d. í fræðslu fyrir elstu börn í leikskóla og yngstu börn í grunnskóla, eða bæði fyrir nemendur á miðstigi og í unglingadeild. Rennið yfir listann og veljið það sem þið teljið henta best fyrir ykkar hóp hverju sinni. 

Öllum er heimilt að nota efnið og er það birt til þess að verða sem flestum að gagni. 

Markmið verkefnisins Opinskátt um ofbeldi er að auka þekkingu barna á ofbeldi og gera þau fær um að ræða það opinskátt og taka afstöðu gegn því.

Þrír starfsstaðir; leikskólinn Gullborg, Grandaskóli og frístundaheimilið Undraland, tóku þátt í tilraunaverkefni til að miðla þekkingu um og ræða ofbeldi og afleiðingar þess á opinskáan hátt og mótuðu þeir stuðningsefni fyrir starfsfólk á öðrum starfsstöðum. Þórdís Claessen, grafískur hönnuður, teiknaði myndirnar.

Hreinskiptin umræða sem sniðin er að þroska barna á leik- og grunnskólaaldri er skref í þá átt að draga tjöldin frá og rjúfa þögnina. 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Emilía Rafnsdóttir, verkefnisstýra um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Opinskátt um ofbeldi.