Aska getur borist til Reykjavíkur þegar mjög mikið öskufjúk er til staðar á öskufallsvæðum. Öskufjúk er líklegast þegar það er þurrt úti, tilteknar vindáttir ríkjandi og einhver vindur til staðar. Viðbragðsteymi í Reykjavík fyrir loftgæði sendir út tilkynningar ef ástæða er talin til.

Viðbrögð við öskufjúki / öskufalli  (af síðu Umhverfisstofnunar, http://www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi/oskumistur/)

Þegar skyggni er orðið fáir kílómetrar vegna ösku og klukkustundarmeðaltal svifryks fer yfir 400 µg/m3 er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ekki er nauðsynlegt fyrir fullfrískt fólk að nota grímu þegar farið er á milli staða, s.s. út í búð eða þess háttar
  • Forðast langvarandi útiveru
  • Íþróttaiðkun og útivist sem felur í sér áreynslu, s.s. trimm og erfiðar gönguferðir, getur valdið óþægindum í öndunarfærum
  • Stjórnendur íþróttaviðburða ættu að íhuga frestun móta við þessar aðstæður, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.
  • Þeir sem nauðsynlega þurfa að dvelja langdvölum úti við ættu að íhuga að nota grímur (sjá leiðbeiningar um grímur að neðan)
  • Ekki er mælt með langvarandi útiveru barna né að ungbörn sofi úti í vagni
  • Ákveðinn hópur fólks er viðkvæmari fyrir svifryki en aðrir, t.d. fólk með hjarta- og lungnasjúkdóma. Viðkvæmustu einstaklingar þess hóps geta fundið fyrir auknum einkennum frá sínum sjúkdómum við mun lægri styrki, jafnvel niður fyrir 100 µg/m3.

Heildarmagn þeirrar ösku sem einstaklingur andar að sér yfir daginn er háð styrk öskunnar í andrúmlofti og athöfnum viðkomandi. Þannig eykur útvera og aukin líkamleg áreynsla í miklu öskufoki innöndun öskunnar enn frekar. Þegar styrkur klukkutímameðaltals svifryks er farin að mælast í hundruðum míkrógramma á rúmmetra (µg/m3) er ekki hægt að mæla með langvarandi útiveru. Erfitt er að fastsetja ákveðna tölu en þó má segja að við 400 µg/m3 ætti fólk að forðast langvarandi óþarfa útiveru. Ekki eru alls staðar svifryksmælar en þegar skyggni er orðið fáir kílómetrar vegna öskufoks er mikið svifryk á ferðinni.

Aðgerðir eins og lýst er hér að ofan gagnast vel til að takmarka innöndun öskunnar í miklu öskufoki til að lágmarka áhrif á öndunarfærin.